Leita í fréttum mbl.is

Temdu þér þakklæti

Upplifun okkar á umhverfi og aðstæðum getur á stundum verið slík að við eigum ekki auðvelt með að vera þakklát. Þetta á einnig við þegar atvik verða sem við köllum slys eða þegar veikindi ber að höndum. Í slíkum kringumstæðum er þakklæti okkur sjaldnast efst í huga. Þegar frá líður verður okkur hins vegar stundum ljóst að það sem við upplifðum sem erfiðleika, var í raun og veru dulbúin blessun. Það er ef til vill það sem átt er við þegar sagt er að tíminn lækni öll sár. En í raun og sanni er það sjónarhorn okkar og upplifun sem breytist.

 

Láttu reyna á þakklætið

Mér er tamt að tala um þakklæti og þeir sem koma til mín í markþjálfun kannast við nokkuð sem ég kalla þakklætisdagbókina. Það er einfaldlega bók með auðum síðum sem ég hvet fólk til að nota og skrifa niður það sem það er þakklátt fyrir.

Með því að temja okkur þakklæti, öðlumst við nýtt sjónarhorn í erfiðum aðstæðum. Við verðum fljótari að líta á aðstæður sem við höfum ekki stjórn á, með augum þakklætis, þegar við förum að spyrja okkur hvað við getum þakkað fyrir. Þannig reynist það okkur auðveldara að sætta okkur við það sem við fáum ekki breytt auk þess sem við öðlumst kjark til að breyta því sem við getum breytt.

 

Lífið er allskonar

Það er mín einlæga trú að við séum hér á jörðinni til að læra, vaxa af lærdómi okkar og deila með öðrum. Þó svo að sumir trúi því ekki að við getum lært af reynslu annarra, bendi ég á að reynsla okkar er reynsla heimsins ef svo má segja. Einhvers staðar er einhver sem hefur gengið í gegnum það sama og þú. Öll förum við í gegnum dimman dal einhvern tíma á ævinni og flest okkar sjáum svo sólina koma upp að nýju.

Á slíkum tímum höfum við val um að vera þakklát fyrir það góða í lífi okkar á meðan við göngum í myrkrinu. Með því móti verður þrautargangan styttri og ljóstýran aldrei langt undan.

 

Hvað er myrkur?

Hefurðu einhvern tíma velt því fyrir þér hvað myrkur er í raun og veru? Albert Einstein sagði að myrkur væri ekki til. Hins vegar benti hann á að fjarvera ljóss orksakar myrkur. Það finnst mér mögnuð staðreynd.

Einstein sagði líka að innsæið væri það eina sem hefði raunverulegt gildi. Oft reynist innsæið okkur vel þegar við ákveðum að vera þakklát í aðstæðum þar sem þakklæti er okkur ekki efst í huga. Þakklæti hefur nefnilega þann eiginleika að geta leyst úr læðingi lausnir sem okkur hefði ekki órað fyrir.

 

Hagnýt nálgun

Hugsaðu um aðstæður sem þú hefur verið í og sitja í þér af einhverjum ástæðum. Þú getur líka notað núverandi aðstæður þínar sem dæmi ef þú upplifir að þú farir um dimman dal og ljóstýran sé víðs fjarri.

Náðu í blað og penna og byrjaðu á að draga línu til að skipta blaðinu í tvo dálka. Skrifaðu nú allt sem einkennir aðstæðurnar í vinstri dálkinn. Gættu þín á að tilgangurinn er ekki sá að kasta rýrð á annað fólk eða fyrra sig ábyrgð á aðstæðunum sem þú ert í eða varst í. Tilgangurinn er að komast að því hvernig þú getur beitt þakklætinu til að tendra ljós í dalnum svo útsýnið blasi við þér. Í hægri dálkinn skaltu skrifa niður þau atriði sem þú getur þakkað fyrir og tengjast aðstæðunum. Ef hugsunin um þakklæti er þér framandi í þessu samhengi og þú áttar þig ekki á því í fljótu bragði hvað þú gætir þakkað fyrir, skaltu staldra við og gera þitt besta til að snúa hlutunum á hvolf. Þú getur að minnsta kosti þakkað fyrir þann lærdóm sem þú getur dregið af aðstæðunum.

Með þessu móti muntu geta fetað veginn að dalsmynninu og tekið ákvarðanir sem byggja á vali. Þar er ekki í boði að upplifa sig sem þolanda kringumstæðna. Nei, þar er aðeins í boði að axla ábyrgð á sjálfum sér og að þakka fyrir tækifærið sem lífið hefur fært þér til að læra og vaxa. Næsta skref er að deila því sem þú hefur lært með öðrum.

 

 

 


Konur, friður og fjárhagslegt öryggi

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti er haldinn hátíðlegur 8. mars. Upprunalegu hugmyndina að þessum degi má rekja til Clöru Zetkin sem var þýsk kvenréttindakona og sósíalisti. Clara bar hugmyndina fyrst upp á fundi Alþjóðasamtaka sósíalískra kvenna í Kaupmannahöfn árið 1910. Ákveðið var að dagurinn skildi haldinn í mars ár hvert en til að byrja með var hann haldinn á sunnudegi, sem var eini frídagur verkakvenna þess tíma. Fyrstu árin voru baráttumálin kosningaréttur kvenna og samstaða verkakvenna fyrir auknum réttindum og hærri launum.

Árið 1921 var ákveðið að baráttudaginn skyldi bera upp á 8. mars. Þetta gekk þó misvel fyrstu árin og áratugina og ber þá sérstaklega að nefna seinni heimsstyrjöldina þegar nasistar bönnuðu öll samtök kvenna og gerðu 8. mars að mæðradegi.

Við lok seinni heimsstyrjaldarinnar árið 1945 var stofnað til Alþjóðasambands lýðræðissinnaðra kvenna. Á stofnfundi samtakanna var ákveðið að 8. mars yrði baráttudagur kvenna fyrir friði. Með tilkomu kvennahreyfingarinnar á sjöunda áratug tuttugustu aldar, gekk 8. mars í endurnýjun lífdaga.

Sameinuðu þjóðirnar efndu til kvennaáratugar árið 1975 og árið 1977 var ákveðið að 8. mars skyldi vera alþjóðlegur kvennadagur Sþ. Allar götur síðan hafa hreyfingar víða um heim nýtt daginn til að vekja máls á því sem betur má fara og tengist jafnrétti kynjanna.

 

Baráttan fyrir fjárhagslegu jafnrétti

Baráttan fyrir betri kjörum hefur einkennt 8. mars frá upphafi. Kvennalistakonur í Reykjavík efndu á sínum tíma til aðgerða fyrir utan matvöruverslun í Austurstræti þar sem þær vöktu máls á því að réttast væri að konur fengju að borga tvo þriðju af uppsettu verði matvara í samræmi við launamun kynjanna í íslensku samfélagi þess tíma.

Nú er mjórra á munum þó kynbundinn launamunur sé enn við lýði en samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands var svokallaður óleiðréttur launamunur 18,3% árið 2014.

Konur eru í meirihluta þeirra sem útskrifast úr háskólum landsins og samkvæmt nýjustu tölum frá Hagstofu Íslands eru tveir þriðju þeirra nemenda sem útskrifast með meistara- eða doktorsgráðu, konur. Ef marka má orð Francis Bacon, „mennt er máttur“, ætti því að rofa til hvað launamuninn varðar áður en langt um líður.

 

Hin nýja kvennahreyfing

Forbes tímaritið hefur kallað kvenfrumkvöðla hina nýju kvennahreyfingu.

Nýjar mælingar á framlegð fyrirtækja í eigu kvenna í Bandaríkjunum hafa sýnt að ef þau væru land, væri verg landsframleiðsla landsins meiri en samanlögð landsframleiðsla Kanada, Indlands og Víetnam.

Samkvæmt tölum af vefsíðu Samtaka kvenna í fyrirtækjarekstri í Bandaríkjunum, voru meira en 9,1 milljón fyrirtækja í eigu kvenna þar í landi árið 2014. Þau fyrirtæki höfðu nærri 7,9 milljón manns í vinnu. Þar kemur einnig fram að konur eiga eitt af hverjum fimm fyrirtækjum með hagnað upp á milljón bandaríkjadali eða meira á ári.

Þeir sem þekkja til Pareto reglunnar, geta yfirfært hana yfir á fyrirtæki í eigu kvenna, þar sem 20% þeirra hafa starfsmenn á sínum snærum en 80% flokkast sem einnar konu framlag. Þetta á við beggja vegna Atlantshafsins samkvæmt upplýsingum sem fengnar eru bæði úr bandarískum og evrópskum rannsóknum.

Á þeim rúmlega fimm árum sem ég hef unnið við markþjálfun, hef ég talað við fjölda kvenna sem eiga og reka fyrirtæki. Þær eiga margt sameiginlegt. Þær eru klárar, útsjónarsamar, duglegar og hugrakkar. Margar þeirra hefur langað að færa út kvíarnar og stækka fyrirtækið sitt. Það getur reynst flókið. Ein helsta ástæðan er sú aðgangur að fjármagni er takmarkaður. Bandarískar rannsóknir hafa sýnt að 65% fyrirtækja í eigu og rekstri kvenna, reiða sig fyrst og fremst á eigið fjármagn í stækkunarferli.

 

Friður og jafnrétti

En aftur að þema dagsins. Friði og jafnrétti. Friður er forsenda jafnréttis. Að sama skapi má segja að ófriður sé fyrirboði ójafnréttis. Þetta á við jafn í hinu stóra samhengi, eins og í stríði og í minna samhengi, eins og í parasamböndum. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að það eru sterk tengsl á milli þess að vera fjárhagslega valdefld og þess að upplifa að þú hafir val. Til að mynda til þess að ganga út af heimili þar sem ríkir ófriður og ofbeldi. Rannsóknir hafa sýnt að ofbeldismenn byrja gjarnan á að kippa fótunum undan konum fjárhagslega, brjóta þær svo niður andlega og beita þær líkamlegu ofbeldi þegar þær eru farnar að upplifa að þær hafi ekki val. Því má með sanni segja að friður er forsenda jafnréttis á sama hátt og fjárhagsleg valdefling er forsenda þess að hafa val.


Í sjálfheldu

Við erum aldrei jafn vanmáttug í lífinu eins og þegar við upplifum að við séum ekki við stjórnvölinn. Annað hvort vegna þess að aðstæður eru þannig að við fáum ekki rönd við reist, til að mynda þegar slys eða veikindi ber að höndum. Eða þegar við af einhverjum ástæðum tökum ekki ábyrgð á kringumstæðum okkar og lífi almennt. Það kalla ég að vera í sjálfheldu.

Það er einstaklega vond tilfinning og ef ég ætti að staðsetja hana á tilfinningapólnum, væri hún andsælis tilfinningunni sem við upplifum þegar við erum valdefld og virkilega í essinu okkar.

 

Vanamunstur

Líf okkar einkennist mestmegnis af ákveðnu munstri sem við höfum að hluta til lært og að hluta til tamið okkur. Rannsóknir hafa sýnt að 60% af því sem við gerum er vani.

Margt fólk kýs að lifa lífi sínu án mikilla áskorana og heldur sig því gjarnan við það sem það hefur lært og vanið sig á. Munstrið viðhelst jafnvel ár eftir ár án mikilla breytinga. Það að vera vanafastur er ákveðið haldreipi í lífinu ef svo má segja því það fyllir okkur öryggi að vita hvað kemur næst. Þessi tilhneyging á sér einnig stað í náttúrunni. Tökum dæmi um á sem flæðir yfir bakka sína en finnur farveg sinn að nýju áður en langt um líður. En fyrir okkur mannfólkið má segja að fyrirsjáanleiki leiði af sér öryggistilfinningu sem við viljum svo gjarnan finna.

 

Í sjálfheldu

Öll þekkjum við að hafa komið okkur í sjálfheldu. Það er einkum tvennt sem gerir það að verkum að við komum okkur í þessar aðstæður. Sjálfsvorkun og ábyrgðarleysi. Það er langt frá því að vera auðvelt að taka ábyrgð á aðstæðum sínum og stíga þau skref þem þarf að stíga til að breyta.

En hvers vegna komum við okkur í sjálfheldu. Það gerist helst þegar við festumst svo hressilega í vanamunstrunum okkar að við áttum okkur ekki á að nýjar aðstæður krefjast nýstárlegrar hegðunar. Við höldum uppteknum hætti þangað til við siglum í strand. Þá gerist vanalega annað tveggja áður en við náum botninum. Annað hvort svömlum við í sjálfsvorkunarlauginni og neitum að taka ábyrgð á sjálfum okkur eða við kennum öðrum um. Annað hvort aðstæðum eða öðru fólki. Það er nefnilega mun erfiðara að horfast í augu við okkur sjálf í speglinum og viðurkenna mistök, heldur en að horfa út um gluggann í leit að sökudólgi. Þetta á við bæði í atvinnulífinu og í einkalífinu.

En þegar við komumst yfir óþægindin sem hljótast af því að viðurkenna fyrir okkur sjálfum að við erum í sjálfheldu, er eftirleikurinn auðveldari. Þegar við tökum ábyrgð á sjálfum okkur, verða nefnilega mikil þáttaskil.

 

Útjaður þægindarammans

Ég var stödd í verslun sem selur innanstokksmuni nýverið og sá þar skilti sem á stóð: „Lífið hefst við útjaður þægindarammans“. Já, hugsaði ég með mér, það er áhugavert. Við upplifum nefnilega lífið allt öðruvísi þegar við lifum því utan hins þægilega vanamunsturs. Ef við tökum dæmi um það þegar við hefjum störf á nýjum vettvangi eða jafnvel á nýjum vinnustað. Allt er nýtt og nýstárlegt og við þurfum virkilega að fylgjast með til að meðtaka.

Þeir sem hafa upplifað að búa í nýju landi, þar sem þeir skilja ekki tungumálið, þekkja þetta mjög vel. Til að byrja með er eins og þú sért að hlusta á framandi tónlist en svo smám saman ferðu að greina stöku orð á stangli og í kjölfarið áttarðu þig á setningaskipan. Einn morguninn vaknarðu svo með minninguna um að hafa dreymt draum á nýja tungumálinu og sú vitneskja fyllir þig eldmóði. Nú hefur nýja málið tekið sér bólfestu í undirmeðvitundinni. Áður en þú veist af flæða orðin frá þér í stríðum straumi og nýja tungumálið er orðið hluti af þér. Þú hefur öðlast hlutdeild í nýjum menningarheimi.

 

Nýr skilningur

Með því að taka ábyrgð á okkur sjálfum, öðlumst við tæki og tól til að taka ábyrgð í samskiptum við aðra. Eitt af því mikilvægasta sem ég hef öðlast með tungumálanámi er innsýn inn í mismunandi þankagang þjóða, sem endurspeglast í tungumálinu. Sem dæmi má nefna þegar ég áttaði mig á að í ítölsku er algengara að fólk taki ábyrgð á misskilningi með því að segjast ekki hafa útskýrt nógu vel, í stað þess að segja viðmælanda að hann hafi ekki skilið það sem sagt var. Á þessu er auðvitað grundvallarmunur.

 

Leiðin út úr sjálfheldu

En hvað er til ráða þegar við upplifum okkur í sjálfheldu? Í fyrsta lagi er gott að átta sig á því að þú ert þarna vegna þess að þú leyfðir vananum að verða öllu öðru yfirsterkari. Þú afsalaðir þér völdum á eigin lífi um stundarsakir og skrifaðir það á reikning aðstæðna eða annars fólks. Taktu þér nú smá stund til að fyrirgefa þér það.

Næsta skref er að gangast í ábyrgð fyrir sjálfum sér að nýju. Þá getur verið gott að standa á fætur og færa sig úr stað. Annað hvort innanhúss eða með því að fara í gönguferð og skilja við þennan stað sem við höfum ferið föst á.

Þvínæst er gott að setja sér markmið sem miðar að því að koma í veg fyrir að þú festist í vanamunstrinum að nýju. Skilgreindu útjaður þægindarammans fyrir þér. Hvað finnst þér óþægilegt og hvers vegna? Hvað hræðistu? Hræðistu það að mistakast eða hræðistu ef til vill velgengni? Það er algengara en fólk almennt trúir.

Taktu ákvörðun um að breyta einhverju daglega sem færir þig nær markmiðum þínum. Skrifaðu niður eitthvað sem þú getur þakkað fyrir á hverjum degi og mundu að brosa. Það gerir lífið skemmtilegra.


Hver eru þín peningamarkmið?

Flest setjum við okkur markmið með einhverjum hætti, þó ekki sé nema í formi áramótaheita. Oft er þó minna um efndir. Rannsakendur hafa leitað að ástæðunum sem liggja að baki vanefndunum og komist að ákveðnu orsakasamhengi sem gott er að hafa í huga. Rannsóknir hafa sýnt að aðeins 5% fólks skrifar niður markmið sín en það er talinn vera lykilþáttur í markmiðasetningu. Góðu fréttirnar eru þær að með því að skrifa niður markmiðin eru líkurnar á því að mistakast hverfandi. Með þessarri einföldu og áhrifaríku gjörð, að skrifa niður, eru líkurnar nefnilega 95% að þú náir settu marki.

 

Von og eftirvænting

Ég man þegar ég las um þessar niðurstöður í fyrsta skipti að ég fylltist von og eftirvæntingu. Vá, hugsaði ég með mér. Ég þarf bara að skrifa niður markmiðin og þá eru 95% líkur á að ég nái þeim. Magnað – ég ætla að byrja strax!

Síðan þá hef ég skrifað niður fjölmörg markmið og upplifað oftar en ekki að ég næ þeim með undraverðum hætti. Það er nefnilega leyndardómur fólginn í því að taka ákvörðun og fylgja henni eftir.

Markmiðasetning er einfaldlega það. Að taka ákvörðun og skrifa hana niður. Búa svo til áætlun um að hrinda í framkvæmd því sem gera þarf, svo það sem þú hefur ákveðið verði að veruleika. Það er svo einfalt og dásamlega áhrifaríkt. Það hef ég sannreynt margsinnis.

 

Markmiðasetning í hversdeginum

Margir þeirra sem byrja í markþjálfun hjá mér verða mjög hátíðlegir þegar talið berst að markmiðasetningu. Það er eins og það hvíli einhver heilagleiki yfir henni. Ef til vill tengist það því að áramótaheit og markmiðasetning eru gjarnan sett undir sama hatt. Áramótin eru jú hátíðleg tímamót.

Reyndin er sú að regluleg markmiðasetning sem tilheyrir hversdeginum, skilar meiri árangri þegar til langs tíma er litið heldur en áramótaheit sem strengd eru og gleymast svo í dagsins önn.

 

Peningamarkmið

Margir setja sér markmið um ákveðna innkomu í formi aukinna viðskipta eða hærri launa. Sumir setja sér markmið tengd fjárfestingum, aðrir tengd sparnaði og svo mætti lengi telja. Það er allt gott og gilt og í raun nauðsynlegur hluti af vandaðri markmiðasetningu.

Ef þú fyllist kappi við tilhugsunina um að safna peningaupphæð sem þú getur svo notað í ákveðnum tilgangi, þá getur það verið góður hvati til að ná markmiðum á öðrum sviðum. Markmiðasetning er þess eðlis að mörg markmiðanna haldast í hendur. Ef þú setur þér háleit markmið um lífstíl, þarf það að endurspeglast í þeirri innkomu sem þú ætlar þér. Að sama skapi er ekki ráðlegt að einblína á peningana eingöngu því þú þarft að hafa skýrt markmið um það hvað þú ætlar að nota peningana í.

Það er til dæmis mun líklegra að þeir sem gefa hluta af innkomu sinni til góðra málefna, efnist og geti þannig haldið áfram að láta gott af sér leiða. Nýleg rannsókn staðfestir ennfremur að jákvæðar hugmyndir um peninga haldast í hendur við jákvæða peningahegðun.

Nú er þér ekkert til fyrirstöðu – byrjaðu að skrifa niður markmiðin þín!


Hvað einkennir líf þitt?

Ferðalagi okkar í gegnum lífið má líkja við göngu um dali og fjöll. Það skiptast á skin og skúrir og suma daga er gangan léttari en aðra daga. Þegar mótvindur geysar og við upplifum að okkur langi að gefast upp, er gott að muna að öll veður lægir um síðir.

Að vetri loknum, kemur vor. Sá sannleikur er markaður í munstur náttúrunnar og má yfirfæra á þau munstur sem við greinum í lífinu sjálfu. Það er svo magnað að það eru erfiðleikarnir sem kenna okkur að meta góðu stundirnar.

 

Magnaðar stundir – einfalt val

Nú þegar helgin er að baki og mánudagurinn hefur tekið á móti mér með sín fyrirheit í upphafi nýrrar viku, er hjarta mitt fullt af gleði og þakklæti. Helsta ástæða þess er sú að ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa varið helginni í að hitta magnað fólk og deila gleði, reynslu, styrk, draumum og þrám.

Á föstudaginn bauðst mér að hitta framsýna frumkvöðla og frammáfólk í íslensku viðskiptalífi á viðburði sem haldinn var til að fagna því að Klak Innovit hefur skipt um nafn og heitir nú Icelandic Startups. Þar sveif andi sköpunargleði og möguleika yfir vötnum. Ég sótti hvatningu í að ræða við viðskiptamógúla sem hafa látið til sín taka svo um munar.

Á laugardagsmorguninn talaði ég við stóran hóp kvenna sem vilja stíga inn í valdið sitt á nýju ári. Sá fundur markar upphaf að nýju tímabili í lífi mínu og þessa magnaða hóps kvenna en við höfum ákveðið að taka höndum saman og styðja hver aðra. Markmiðið er að vera fjárhagslegir leiðtogar í eigin lífi. Í þeim hópi var ég minnt á að samtakamáttur kvenna skiptir sköpum.

 

Minningin lifir

Eftir hádegið á laugardaginn tók ég þátt í minningarstund til að minnast ömmu minnar heitinnar sem hefði orðið níræð á þessu ári, hefði hún lifað. Ég naut ekki þeirra forréttinda að fá að kynnast henni þar sem hún lést áður en ég fæddist. Á minningarstundinni var dregin upp lifandi mynd af þessarri mögnuðu formóður minni. Hún var auðmjúkur leiðtogi, trú sinni sannfæringu, hugrökk, sterk og skapandi. Fór ótroðnar slóðir og ræktaði þær gjafir sem hún hlaut í vöggugjöf. Líf hennar var stutt en innihaldsríkt og hennar er minnst með söknuði rúmri hálfri öld eftir að hún kvaddi þennan heim. Hún er ein af mínum fyrirmyndum.

 

Hvað viltu að einkenni líf þitt?

Sunnudagurinn minn einkenndist af röð skemmtilegra og innihaldsríkra samtala. Síðdegis þáði ég heimboð þar sem annar öflugur hópur kvenna kom saman. Þar ríkti gleði og eftirvænting þegar konur deildu lífsýn sinni og vonum í upphafi árs. Nokkrar sögðust hafa strengt þess heit um áramótin að gleðjast í auknum mæli. Að hlæja og njóta.

Í hópi þessarra kvenna sannfærðist ég í fullvissu minni um að það er val hvers og eins sem stýrir upplifun á hverju augnabliki. Þegar við göngumst við þessu, öðlumst við tæki til að njóta augnabliksins. Það er þá sem við tökum stjórnina og ákveðum að lifa lífi okkar til fullnustu. Þá duga nefnilega engar afsakanir. Vaninn víkur fyrir nýrri sýn og við rísum úr rekkju dag hvern með endurnýjaðan kraft til góðra verka.

 

Látum verkin tala á nýju ári og lifum lífinu sem við þráum að lifa. Lífið er nefnilega núna.


Nokkur ráð til að auka gleði

Margir líta svo á að skemmtun og gleði tilheyri aðeins afmörkuðum hluta lífsins. Athafnir sem flokkast undir skemmtanir eru gjarnan að hitta vini og jafnvel fjölskyldu þar sem opinberi tilgangurinn er sá að gleðjast. Aðrir skemmta sér best við líkamsrækt hverskonar og enn aðrir við að fylgjast með íþróttaiðkun annarra.

Þar fyrir utan ríkir oft takmörkuð gleði í lífi fólks og það upplifir ekki að það sé sérstök ástæða til gleðjast í hinu daglega lífi. En þar sem hversdagslífið er mjög stór þáttur í lífi okkar flestra, þá er góð hugmynd að auka gleðistuðulinn í lífinu almennt. En hvernig gerum við það?

 

Hvað finnst þér skemmtilegt?

Mörgum þykir ekki gaman í vinnunni og upplifa vinnustundirnar sem hálfgera afplánun sem veitir þeim aðgang að frítíma til að gera það sem þeim finnst skemmtilegt. Hvort sem ástæðan er sú að verkefnin sem viðkomandi ber ábyrgð á í vinnunni, eru ekki nægjanlega krefjandi til að geta talist skemmtileg eða fólkið á vinnustaðnum er nöldurgjarnt og með neikvæð viðhorf, eða ástæðurnar eru einhverjar allt aðrar, þá snýst þetta allt um viðhorf okkar sjálfra og að taka ákvörðun um að breyta. Viltu hafa lífið skemmtilegt eða viltu láta þér leiðast?

Ef þér hefur einhvern tíma fundist skemmtilegt í vinnunni, skaltu gera lista yfir það sem gerði það að verkum að þú upplifðir gleði. Spurðu þig einnig hver ástæðan að baki gleðiskortinum er raunverulega. Hefur hún með umhverfið að gera eða hefur hún ef til vill með þig að gera? Gætir þú ef til vill orðið uppspretta gleði á vinnustaðnum?

 

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt

Í dagvöruverslun Bónus úti á Granda í gamla Vesturbæ Reykjavíkur, vinnur kona sem flestir hafa heyrt af. Hún heitir Francisca og hefur tekið ákvörðun um að glæða lífið gleði. Hún brosir til allra, býður fólk velkomið og spyr hvernig dagurinn gangi.

Hegðun Franciscu er til fyrirmyndar og hún byggir á ákvörðun hennar um að vera glöð. Sama hvernig viðrar og sama hvað gengur á. Það er nefnilega ekki þannig að Francisca sé glöð því lífið hafi aldrei fært henni áskoranir til að takast á við. En Francisca hefur valið að takast á við mótlæti með gleði og bros á vör.

Hún er einstök kona en staðreyndin er sú að við höfum það öll í hendi okkar að taka ákvörðun um að vera glöð. Það hefst allt með brosinu, því þegar við brosum, þá tekur endorfínið að streyma um æðar okkar og fljótlega upplifum við gleði, því endurfín er gleðihormónið. Einfalt og gott. Það magnaða er að brosið þarf ekki einu sinni að vera „ekta“. Rannsóknir hafa sýnt að það er nóg að færa munnvikin í sundur og halda þeim þannig. Svo það er ágætt ráð að byrja á að æfa sig þannig ef brosmildin lætur á sér standa.

 

Nokkur góð ráð

Ég var alin upp við að það væri ekki allt skemmtilegt en sumt væri nauðsynlegt að gera engu að síður. Ég veit að fólkinu mínu gekk gott eitt til og vildi svo gjarnan að ég temdi mér að standa mig vel í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur, óháð skemmtanagildi. Ég komst hins vegar snemma að því að ef mér þykir ekki gaman, þá fer mér fljótt að leiðast. Ung að árum tamdi ég mér því að gera hlutina skemmtilega og þróaði leiðir til að flétta skemmtun inn í athafnir sem mér leiddust. Þannig áttaði ég mig til dæmis á því að mér þykja skúringar skemmtilegar ef ég leik mér með kústinn og læst syngja í skaftið við góða tónlist. Ég tek það fram að ég geri þetta enn í dag og flestir þeirra sem þekkja mig hafa heyrt mig tala um skemmtanagildi skúringa.

Hvað þvottinn varðar, þá lærði ég að flétta þakklætinu inn í þær athafnir sem snúa að því að þvo þvott. Góð vinkona mín benti mér nefnilega réttilega á að vera þakklát fyrir að eiga fjörug börn til að þvo fötin af. Já, hversdagslegar athafnir má svo sannarlega glæða lífi með ýmsum hætti. Sannaðu til.

 

Gaman í vinnunni

En hvað geturðu gert til að auka gleðina í vinnunni? Fyrir utan það að brosa og sýna samstarfsfólkinu hlýju og virðingu, geturðu átt frumkvæði að því að gera skemmtilega hluti. Hvað með að einu sinni í viku komi allir saman og hlusti á einn vinnufélaga segja frá því sem viðkomandi finnst skemmtilegt að gera í frístundum?

Ef til vill leynast golfsnillingar, rithöfundar, prjónahönnuðir, göngugarpar og jafnvel sjálfboðaliðar, sem leggja þeim sem minna mega sín lið í frítímanum, á þínum vinnustað og þú hefur ekki hugmynd um það.

Ég hvet þig til að taka ákvörðun um að hafa gaman á árinu 2016 og umfram allt að gleðja fólkið í kringum þig með brosmildi og hlátri. Njóttu þess að vera til og gerðu lífið skemmtilegt!


Væntingavísitalan þín fyrir árið 2016

Hagfræði er að mínu mati heillandi fræðigrein. Færa má rök fyrir því að hagfræði sé meðal þeirra greina sem hefur hvað mest mótandi áhrif á daglegt líf einstaklinga og samfélaga. Minn áhugi liggur helst á sviði atferlishagfræði því mér finnst heillandi að hve miklu leiti peningahegðun hvers og eins okkar, stjórnast af straumum og stefnum í efnahagslífinu.

Sjálf hef ég búið í þremur mismunandi löndum og upplifað bæði efnahagslegan uppgang og samdráttartíma í hverju og einu landi. Ég hef tekið eftir því að efnahagshorfur hafa mikil áhrif á það hvað fólk telur mögulegt. Einnig stjórnast líðan fólks og öryggiskennd á margan hátt af efnahagslegum hvötum.

 

Hvað er væntingavísitala

Væntingavísitala er sú vísitala sem mér finnst áhugaverðust. Þessi tegund vísitölu mælir væntingar fólks og tiltrú á efnahagslífinu. Hún mælir einnig trú fólks á atvinnuhorfum og framtíðartekjum.

Því má segja að væntingavísitalan sé samsett úr því sem aðspurðir á hverjum tíma hafa trú á að þeir geti fengið út úr lífinu, frá efnahagslegu sjónarhorni. Væntingavísitalan hefur mótandi áhrif á viðhorf samfélagsins til þess sem er mögulegt. Bæði þegar kemur að því sem telst efnislegt, eins og umhverfi okkar, heimili, bílnum sem við keyrum, matnum sem við neytum, fatnaðinum sem við klæðumst og öðru því sem við notum peningana okkar til að kaupa.

Ég velti því einnig fyrir mér að hversu miklu leyti hún stýrir því sem er óáþreifanlegt eins og heilsu okkar, andlegri og líkamlegri, samböndum okkar og samskiptum.

 

Peningahegðun þín endurspeglast á öllum sviðum lífs þíns

Ég þori að veðja að viðhorf þitt til peninga hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum. Skömmu eftir að efnahagskerfið lagðist á hliðina árið 2008, voru peningar gjarnan birtingarmynd þess sem við vildum hafna sem samfélag. Þeir þóttu ekki smart og upplifun margra var sú að þeir væru af skornum skammti.

Við lestur viðskiptafrétta að undanförnu kveður við nýjan tón. Nú er það uppgangur og gott gengi íslenskra fyrirtækja sem fjallað er um, auk þess sem rekstur ríkissjóðs er með skárra móti. Kjarasamningar eru um garð gengnir hjá mörgum og þrátt fyrir að ýmsir hefðu viljað ganga lengra í launahækkunum, hafa fréttir af kaupmáttaraukningu verið tíðar upp á síðkastið.

Allt hefur þetta áhrif á viðhorf okkar til þess sem er mögulegt. Þeim vex ásmegin sem hefur dreymt um að stofna fyrirtæki í áraraðir og viðskiptaáætlanir verða víða til. Þeir sem vinna hjá öðrum, leggja á ráðin um stöðuhækkanir samhliða því sem landvinningar íslenskra fyrirtækja ná nýjum hæðum.

Allt þetta hefur áhrif á daglegt líf einstaklinga. Ef við trúum því að peningar séu af skornum skammti, hefur það takmarkandi áhrif á það hvernig við kjósum að lifa lífi okkar. Að sama skapi hefur takmarkalaus tiltrú á það sem við teljum mögulegt áhrif á það sem við gerum og upplifum.

 

Árið 2016 er ár...

Hvaða væntingar hefurðu til ársins 2016? Er árið 2016 ár tækifæra, áskorana, mikillar vinnu, nýjunga, erfiðleika eða sigra? Hvert sem svarið er, þá hefurðu rétt fyrir þér.

Það getur svo sannarlega verið erfitt að kyngja því en það er engu að síður staðreynd, því upplifanir okkar stjórnast af viðhorfum okkar til lífsins.

Prófaðu að mæla þína eigin væntingavísitölu daglega og kortleggðu línurit á skalanum einn til tíu, þar sem tíu er hæsta stig væntingavísitölunnar þinnar. Fylgstu með því hvernig væntingar þínar stjórna upplifunum þínum, því sem þú telur mögulegt og jafnvel því hvernig þú leysir þær áskoranir sem verða á vegi þínum.

Árið 2016 er ár tækifæra, gleði og magnaðra upplifana í mínu lífi. Væntingavísitalan mælist tíu að meðaltali og ég mæti þeim áskorunum sem verða á vegi mínum með forvitni og hugrekki. Hvað með þig?

 

 


Peningahegðun á aðventu

Nú er aðventan gengin í garð í allri sinni dýrð. „Sælla er að gefa en þiggja“ er yfirskrift þessarar hátíðar ljóss og friðar og undirtitillinn ef til vill – sælla er að eta en fasta.

Grunnstefið í peningahegðun okkar kemur berlega í ljós í aðdraganda jólanna og ég segi fyrir mitt leyti að ég þarf virkilega að taka á henni stóru minni. Freistingarnar liggja víða og sem betur fer er margt fólk í lífi mínu sem ég vil gjarnan gleðja. En sá annmarki fylgir að á þessum árstíma tekur mitt eiginlega peninga-DNA yfir. Peningaerkitýpurnar mínar þrjár eru nokkuð ólíkar í grunninn. Sú efsta, Dægurstjarnan, veigrar sér ekki við að eyða peningum í glys og lúxusvarning. Hún fer gjarnan á kreik á aðventunni og verður öllu öðru yfirsterkari. Hinar tvær sem mynda mitt peninga-DNA ásamt Dægurstjörnunni, eru Nærandinn sem elskar að gleðja aðra og Alkemistinn, sem er afar hrifin af hugmyndafræði jólanna og þá sér í lagi friðarboðskapnum.

Ég þarf að vera einstaklega meðvituð um að leyfa gjöfum þeirra allra að njóta sín í aðdraganda jólanna því annars getur farið illa. Birtingarmynd þess þegar Dægurstjarnan tekur yfir, er sú að ég er líklegri en ella til að telja sjálfri mér trú um að ég eigi skilið að kaupa þetta eða hitt í jólagjöf (handa sjálfri mér!) því auðvitað get ég illa treyst fólkinu í kringum mig til þess að velja rétt í minn pakka.

Já, það er virkilegt átak að vera meðvituð um eigin bresti og hegðunarmynstur tengd peningum, sem eiga sér sterkar rætur. Hvað þá að viðurkenna brestina fyrir alþjóð en ég geri það í þeirri von að mín saga kunni að hjálpa þér að bera kennsl á þitt hegðunarmynstur. Það er fyrsta skrefið að viðurkenna vanmátt sinn og í kjölfarið er hægt að leggja grunn að breytingum.

 

Fyrirmyndarpeningahegðun á aðventu

Sum ykkar eru ofurskipulögð og keyptuð jafnvel jólagjarnirnar á nýársútsölunum eftir síðustu jól. Þið eruð mínar fyrirmyndir og á hverri aðventu hugsa ég til ykkar með aðdáun og ögn af öfund. En þegar að útsölunni kemur í janúar hef ég öðrum hnöppum að hneppa og það hvarflar ekki að mér að kaupa jólagjafir.

Rannsóknir hafa sýnt að hegðunarmynstur stýra um 60% af hegðun okkar og þær niðurstöður má með sanni yfirfæra yfir á peningahegðun okkar. Við erum vanadýr og því upplifum við oft að það þurfi meiriháttar átak til að breyta gamalgróinni hegðun.

 

Jólasjóðurinn

Fyrir nokkrum árum síðan tókst mér að búa til nýtt hegðunarmynstur tengt jólunum. Ég byggði það reyndar á gömlum grunni en á menntaskólaárunum réði ég mig í vinnu eftir jólaprófin til að eiga fyrir jólagjöfnunum. Ég áttaði mig á því að fyrst ég hafði getað safnað fyrir jólagjöfunum áður, gæti ég gert það aftur – og aftur. Ég tók því þá valdeflandi ákvörðun að búa til sérstakan jólasjóð og byrja að leggja í hann í september ár hvert. Sjóðinn nota ég til að kaupa jólagjafir og jólamat. Nú á ég auðveldara með að sætta mig við að vera ekki í hópi ofurskipulagða jólafólksins því ég get að minnsta kosti státað af þessarri jákvæðu peningahegðun í aðdraganda jólanna. Og svo lengi sem ég get stillt mig um að nota sjóðinn til að kaupa lúxusjólagjafir handa sjálfri mér, þá er ég í nokkuð góðum málum.  

Andi liðinna jóla

Þegar ég lít til baka og skoða peningahegðun mína á aðventu í sögulegu samhengi, eru ein jól mér sérlega minnistæð. Það voru fyrstu jólin sem ég fór sjálf niður á Laugaveg með mína eigin peninga og keypti jólagjafir fyrir foreldra mína og bróður. Þetta var árið 1984 og ég var níu ára gömul. Ég hafði meðferðis einn fimmhundruð krónu seðil og fyrir hann keypti ég snjóþotu handa litla bróður mínum og eitthvað smálegt handa foreldrunum. Full stolti pakkaði ég gjöfunum inn, merkti og setti undir tréð. Þarna upplifði ég í fyrsta skipti að sælla er að gefa en þiggja.

Eldsnemma á jóladagsmorgun vakti litli bróðir mig og bað mig að koma út að leika með snjóþotuna. Full gleði og eftirvæntingar fórum við út í snjóinn með þoturnar okkar og renndum okkur aftur og aftur niður snæviþakta brekkuna. Þakklæti hans fyrir uppáhaldsjólagjöfina og gleðin sem fylgdi líkamlegu áreynslunni, umlykur þennan dag í minningunni. Ég get nú sótt tilfinningarnar sem fylgdu upplifuninni og notað þær til að minna mig á hvað það er sem skiptir mig raunverulega máli í aðdraganda jólanna.

 

 

 

 

 


Í sambandi við peninga

Hefurðu leitt hugann að því að samband okkar við peninga hefst í móðurkviði og lýkur ekki fyrr en eftir að við erum komin undir græna torfu? Hvað á ég við með því? Jú, við heyrum samtöl um fjármál meðan við erum í móðurkviði. Hvernig skuli fjármagna komu okkar og það tímabil sem að minnsta kosti einn forráðamaður tekur sér frí frá störfum til að annast okkur. Hugmyndin um peninga og virði er því ein af kjarnahugmyndunum sem fylgir okkur alla ævi. Hún mótast á æskuárum og ræðst af því hvernig er talað um peninga á heimili okkar og meðal fólksins sem annast okkur.

 

Aldrei rætt um peninga

„En það var aldrei talað um peninga á mínu æskuheimili“, segja sumir þeirra sem leita til mín þegar ég inni þá eftir rótgrónum peningahugmyndum úr æsku. En staðreyndin er sú að peningahugmyndirnar mótast ekki eingöngu af orðunum sem við heyrum, heldur fyrst og fremst af aðstæðunum sem við búum við. Hugmyndirnar verða svo grunnurinn að peningahegðun okkar í framtíðinni.

Tökum dæmi um barn sem elst upp við að heyra að þegar eitthvað skemmist á heimilinu, sé viðkvæðið: „við kaupum nýtt“. Þarna mótast gjarnan hugmyndin um að það sé óþarfi að fara vel með – það sé hægt að kaupa nýtt. Fullorðinn einstaklingur með þessa peningahugmynd inngreipta, þarf oft að horfast í augu við peningaeyðslu sína og verða sér meðvitaður um gildi og virði.

Barn sem hins vegar elst upp við að matur sé af skornum skammti á heimilinu, verður oft mjög meðvitað um að safna þegar fram líða stundir. Fullorðin manneskja með þessa peningahugmynd undirliggjandi, safnar gjarnan mat eða peningum til „mögru áranna“. Undir liggur ótti við skort sem er slökktur með því að safna.

 

Peningahugmyndir og sjálfsvirði

Ég leyfi mér að nota orðið sjálfsvirði hér í ákveðnu samhengi. Með þessu orði á ég ekki við sjálfsvirðingu heldur frekar hugmyndina um hvers virði við erum.

Tengslin milli peningahugmynda okkar og sjálfsvirðis eru sterk. Peningahugmyndir okkar stjórna því að miklu leyti hversu mikilsverð við upplifum okkur. Tökum dæmi af vel menntaðri konu í vel launuðu starfi sem sárvantar nýja skó fyrir veturinn. Hún á peninga til að kaupa skóna en hún fær sig ekki til þess að kaupa þá. Einn daginn fer að snjóa og hálkan er slík að hún er tilneydd til skókaupanna. Hún réttlætir kaupin fyrir sjálfri sér með því að valið standi á milli grófra sóla eða sex vikna í gifsi, því fótbrot sé óumflýjanleg afleiðing þess að skauta um á blankskónum áframhaldandi.

Þegar peningahugmyndir konunnar eru skoðaðar ofan í kjölinn, kemur í ljós að hún er alin upp hjá einstæðri móður sem leyfði sér fátt til að geta komið börnum sínum sómasamlega til manns og stutt þau til mennta.

Það var ekki ætlun móðurinnar að dóttirin sæti uppi með þessar peningahugmyndir en það var þó afleiðing engu að síður.

Af þessu má ráða að sumar þeirra peningahugmynda sem við sitjum uppi með, eru vitagagnslausar og þjóna tæpast tilgangi. Hver svo sem forsaga peningahugmynda okkar er, skal tekið fram að þrátt fyrir að aðstæður okkar og í sumum tilfellum innprentun hafi stýrt innleiðingu þeirra, þýðir það ekki að við þurfum að sitja uppi með þær að eilífu.

 

Nýjar peningahugmyndir eru valdeflandi

Þú hefur eflaust þegar staldrað við og annað hvort borið kennsl á einhverjar þeirra peningahugmynda sem ég hef minnst á, eða lesturinn hefur gert það að verkum að þínar undirliggjandi peningahugmyndir hafa skotið upp kollinum. Ég hvet þig til að skoða þær eftir bestu getu og spyrja þig hvort þær þjóni tilgangi í lífi þínu áframhaldandi eða hvort tími sé kominn til að sleppa tökunum á þeim og skipta þeim út fyrir nýjar og valdeflandi peningahugmyndir.

Það margborgar sig að vera meðvitaður um þetta ævilanga samband okkar við peninga og hvernig það stýrir gangi lífs okkar á fleiri vegu en við almennt gerum okkur grein fyrir. Þér er velkomið að leita til mín ef þig vantar hjálp.


Gjöf til þín: lykilspurningarnar þrjár

Albert Einstein benti á þá staðreynd að við gætum ekki leyst vandamál með sama hugsunarhætti og við notuðumst við þegar vandræðin urðu til. Það er einmitt það, segjum við en veltum þó fyrir okkur hvaða hugsunarháttur dugi til. Við erum jú vanadýr eins og fram hefur komið og gerum gjarnan meira til að viðhalda óbreyttu ástandi en við gerum til að breyta.

 

Áskoranir

Öll getum við borið kennsl á eitthvað í lífi okkar sem betur má fara. Ef til vill eru það kringumstæður okkur, ytri áskoranir eins og samskipti eða innri áskoranir eins og til dæmis skortur á ákveðni. Það er segin saga að ef við upplifum að kringumstæður okkar stjórni líðan okkar, þá endurspeglast það í ytri áskorunum eins og til dæmis hæfni okkar til að eiga árangursrík samskipti og einnig í innri áskorunum eins og óákeðni. Þessi keðjuverkun gengur bæði réttsælis og rangsælis og því má segja að ef við upplifum áskoranir á einhverju af áðurtöldum sviðum, þá hefur það svo sannarlega áhrif á öllum sviðum.

Tökum dæmi um manneskju sem er óánægð í vinnunni. Verkefnin sem henni eru falin eru henni ósamboðin. Hún er margsinnis búin að segja yfirmanneskju sinni að hún vilji áskoranir og að hún fái þær ekki í núverandi starfi. Þrátt fyrir að hafa talið sér trú um að hlutirnir fari nú að batna og að hún eigi nú barasta að vera ánægð með það sem hún hefur, kvarnast smátt og smátt úr vinnugleðinni og metnaðinum. Lengi vel beið hún þolinmóð eftir stöðuhækkun en nú er þolinmæðin á þrotum. Óánægja hennar gerir nú vart við sig í samskiptum hennar á vinnustaðnum. Þrátt fyrir að hún reyni sitt allra besta til að leyna líðan sinni og sýna af sér faglega hegðun eins og ætlast er til af henni. Innra með henni bærast tilfinningar af ýmsum toga og reiðin ólgar undir niðri.

 

Vakin og sofin

Þegar svo er komið sögu að við erum vakin og sofin yfir áskorunum okkar, er kominn tími til að grípa inn í. Þá finnum við okkur knúin til að taka orð Einsteins bókstaflega og ættleiða nýstárlegan hugsunarhátt sem fleytir okkur yfir hjallann. En hvernig er það gert?

Ég hef tileinkað mér aðferð sem ég kalla spurningaaðferðina. Aðferðin er einföld en einkar árangursrík. Þeir sem nota hana hafa upplifað það að eiga auðveldara með að taka ákvarðanir og fylgja þeim eftir. Með nálgun spurningaaðferðarinnar reynist auðveldara að greina hismið frá kjarnanum og því fer minni tími til spillis þar sem forgangsröðunin verður skýrari. Þeir sem nota aðferðina eiga einnig auðveldara með að ná markmiðum sínum á tilskyldum tíma.

 

Lykilspurningarnar þrjár

Mig langar að gefa þér gjöf í tilefni dagsins. Ég býð þér að heimsækja vefsíðuna mína og sækja þér eintak af Lykilspurningunum þremur sem eru kjarni spurningaaðferðarinnar. Með því að tileinka þér aðferðina og spyrja þig spurninganna, öðlastu tækifæri til að takast á við þær áskoranir sem þú stendur frammi fyrir. Hvort sem þú upplifir að þær helgist af aðstæðum þínum eða flokkist undir ytri eða innri áskoranir, þá getur spurningaaðferðin reynst vel.

„Þetta er mesta bull sem ég hef nokkurn tíma heyrt!“, sagði refurinn í Dýrunum í Hálsaskógi, svo eftirminnilega. Sömu orð gætu hljómað innra með þér á þessarri stundu. Það eru mjög eðlileg viðbrögð þegar lausn við vanda okkar blasir við, hvað þá án endurgjalds! Við höldum gjarnan í óbreytt ástand eins og haldreipi á neyðartímum. Þrátt fyrir að ástandið sé orðið svo óbærilegt að það jaðrar við neyðarástand. Það er merkileg staðreynd en staðreynd engu að síður.

„Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst“, segir máltækið. Svo endilega þiggðu gjöfina frá mér. Heimsæktu vefsíðuna og vistaðu eintak af Lykilspurningunum þremur á skjáborðið þitt í dag. Þar er einnig í boði að vista hljóðútgáfu. Megi lykilspurningarnar þrjár reynast þér eins vel og þær hafa reynst mér. Njóttu vel!

http://www.eddacoaching.com 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband