Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2020

Temdu þér nýja nálgun í kóvinu

Ein þeirra bóka sem höfðu hvað mest áhrif á mig á unglingsárunum var Ástin á tímum kólerunnar, eftir kólumbíska nóbelshöfundinn Gabriel Garcia Marquez. Mér er sérstaklega minnistætt að hafa reynt að setja mig í spor sögupersónanna en hugsað með mér að það væri óraunsætt þar sem faraldur af þessu tagi myndi aldrei geysa að nýju. Eins og alkunna er, hafði ég rangt fyrir mér.

 

Tídægra

Önnur sögufræg bók hafði hliðstæð áhrif á mig en það er bókin Tídægra, eða Decamerone eins og hún heitir á frummálinu ítölsku, eftir Giovanni Boccaccio. Sú kom út um miðbik fjórtándu aldar og er merkileg fyrir margra hluta sakir.

Bókin hefur að geyma tvær víddir ef svo má segja. Annars vegar er rammi hennar sá að hópur ungmenna frá Flórens lokar sig af á sveitasetri í Toskanahéraði til að flýja pláguna miklu sem geysar allt um kring. Eins og flestir þekkja nú af eigin raun á tímum kórónaveirunnar, finna ungmennin, sem eru tíu talsins, sér ýmislegt til dægrastyttingar.

Hvert þeirra segir eina sögu á dag uns sögurnar verða hundrað talsins og tvær vikur eru liðnar (þau taka sér frí um helgar). Frásagnir þeirra fléttast inn í sögusviðið og sögurnar eru margskonar endurómun ólíkra menningarheima.

 

Algleymi í stað raunveruleikatengingar

Ástæðan fyrir því að ég nefni fyrrgreindar bækur er sú að mörg okkar þekkja það að vilja gjarnan hverfa á vit bókmenntanna, hámáhorfs eða samfélagsmiðlanotkunar hverskonar. Þessi tilhneiging hefur fengið byr undir báða vængi nú á tímum kóvsins og það er freistandi að upplifa algleymi frásagnarlistarinnar í stað þess að horfast í augu við óvissu samtímans.

Fyrir utan þær áskoranir sem hljótast af því að takast á við veikindi af völdum veirunnar eða því að reyna að koma í veg fyrir að smit, glímir fólk nú við ýmislegt sem það hefur ekki upplifað áður og bjóst aldrei við að þurfa að upplifa.

En hvað getum við lært á þessu öllu saman? Fyrir utan að verða meistari í sóttvörnum og víðlesinn í veirufræðum eins og mörg okkar eru nú þegar orðin, geta falist ýmis tækifæri í þeim breytingum sem við nú upplifum.

 

Temdu þér nýja nálgun í kóvinu

Undirrituð er í hópi þeirra sem hefur unnið heima eða á farandskrifstofu af einhverju tagi um árabil. Eins og gefur að skilja hefur þetta fyrirkomulag haft bæði kosti og galla í för með sér.

Meðal þess sem ég hef lært er að stjórna tíma mínum, skipuleggja mig og einbeita mér að þeim verkefnum sem liggja fyrir hverju sinni. Auk þess er ég orðin nokkuð slungin í að bera kennsl á tilhneigingu mína til að fara að gera eitthvað allt annað en að vinna þegar verkefnin verða flókin eða mér fer að leiðast.

Margir kannast við frestunaráráttu og innra viðnám af ýmsu tagi. Athuganir hafa leitt í ljós að heilinn leitar ýmissa leiða til að koma í veg fyrir að við náum árangri. En þegar við leyfum okkur að bera kennsl á viðnámið í stað þess að bregðast við því með því að fara að gera eitthvað annað, getum við sannarlega náð árangri.

Góð leið er að ljúka hverjum vinnudegi á því að skrifa niður skýr markmið fyrir daginn á eftir. Prófaðu svo að deila deginum upp í minni einingar og taktu þér frímínútur inn á milli. Ég mæli með að prófa hina svokölluðu pomodoro aðferð, að minnsta kosti hluta úr degi. Aðferðin gengur út á að vinna í 25 mínútur og taka sér svo fimm mínútna hlé á milli. Í hléinu er tilvalið að dansa við uppáhaldstónlistina þína eða fá þér bolla af góðu kaffi eða tei. Með þessarri aðferð geturðu komið ótrúlega miklu í verk á stuttum tíma auk þess sem vinnudagurinn verður skemmtilegri.  


Sjö ráð til að temja sér jákvæðni á tímum kórónaveirunnar

Yfirskrift pistilsins kann að orka tvímælis en eins og Eleanor H. Porter benti á í bókinni um Pollýönnu, getum við alltaf fundið eitthvað til að gleðjast yfir óháð aðstæðum. Tilvísunin í Pollýönnu á rétt á sér enda voru aðstæður Pollýönnu allt annað en ákjósanlegar og skilaboð bókarinnar eiga því vel við. Hér á eftir koma sjö ráð handa þeim sem vilja temja sér jákvæðni á þessum sérkennilegu tímum þar sem daglegt líf flestra er gjörbreytt.

 

  1. Farðu að hlæja

Nýlega heyrði ég viðtal við uppistandarann og leikkonuna Tiffany Haddish sem lýsti því yfir að hlátur væri nudd fyrir líffærin. Einnig hefur verið sýnt fram á að hlátur dregur úr streitu. Rannsóknir sýna jafnframt að þegar við lyftum munnvikunum, byrjar líkaminn að framleiða gleðihormón. Svo ef þér er ekki hlátur í huga geturðu byrjað á að þvinga fram bros og áður en langt um líður ferðu að öllum líkindum að hlæja.

Fyrsta ráðið er: Farðu að hlæja að minnsta kosti einu sinni á dag. Horfðu á fyndið myndskeið. Talaðu við skemmtilegan vin eða fjölskyldumeðlim. Lestu brandarabók eða hugsaðu um eitthvað sem þér þykir spaugilegt. Ef þú deilir heimili með öðrum, geturðu einnig deilt gleðinni með nærstöddum.

 

  1. Gerðu vinnudaginn skemmtilegri

Nú þegar margir vinna heima og félagsleg samskipti eru takmörkuð er ágætt að spyrja sig eftirfarandi spurninga: Hvernig getur vinnudagurinn orðið skemmtilegri? Hvað veitir okkur ánægju í dagsins önn? Hvernig getum við sett mörk þannig að við finnum þennan gullna meðalveg milli vinnu og einkalífs, svefns og vöku, virkni og hvíldar?

 

  1. Slakaðu á

Langvarandi streita getur leitt til kulnunar. Þrátt fyrir að þetta séu alls ekki nýjar fréttir er staðreyndin sú að fjöldi fólks er undir miklu álagi. Margir eru einnig háðir því að hafa „nóg að gera“, enda er það hin æðsta dyggð íslensks samfélags. (Ég byggi þessa skoðun mína á óvísindalegri þátttökukönnun sem felst í fjölda skipta sem ég er spurð og heyri aðra vera spurðir að því hvort ekki sé „alltaf nóg að gera“.)

Ráð númer þrjú er: Reyndu að slaka á inn á milli. Gerðu slökunaræfingar, hlustaðu á slökunartónlist eða leggðu þig í smá stund.

 

  1. Veldu orð þín vel

Orðaval okkar endurspeglar oft líðan okkar. Notum við orðalag eins og: „Ég þarf að...“ „Ég verð að fara að...“ „Ég ætti nú að...“ 

Mér finnst ágætis æfing að fylgjast með eigin orðræðu og veita orðum mínum athygli.

Hvað segi ég við sjálfa mig og jafnvel upphátt um sjálfa mig? Þetta getur verið mjög lærdómsríkt ferli auk þess sem þarna liggja oft tækifæri til breytinga.

Ráð númer fjögur er: Veldu orð þín af kostgæfni og reyndu að tileinka þér jákvætt orðfæri.

 

  1. Auðsýndu þakklæti

Á tímum sem þessum er auðvelt að gleyma því sem gott er. Nú er þó enn mikilvægara en ella að auðsýna þakklæti fyrir það góða í lífi okkar. Hvað getur þú þakkað fyrir?

Ráð númer fimm er: Skrifaðu þakklætislista og mundu eftir að þakka fólkinu í kringum þig. Þetta á við bæði um vinnufélaga, viðskiptavini, fjölskyldumeðlimi og vini.

 

  1. Sjáðu breytingar sem jákvæðar

Breytingar hafa afar slæmt orð á sér. Margir upplifa að breytingar séu erfiðar og að þær beri að forðast. En í rauninni er það svo að það eina sem er víst er að allt breytist.

Á tímum kórónaveirunnar hafa velflestir þurft að gera breytingar á daglegu lífi sínu. Ráð númer sex er því: Skoðaðu líf þitt og taktu eftir hvaða breytingar eru til hins betra. Hvaða breytingar eru tímabundnar og hverju viltu breyta til frambúðar?

 

  1. Vertu jákvæð fyrirmynd

Margir hugsa um fyrirmyndir sem ákveðinn hóp fólks, eins og til dæmis afreksíþróttafólk. Staðreyndin er þó sú að flest nefnum við fólk sem við þekkjum vel þegar við erum beðin að lýsa fyrirmyndum okkar. Þá koma okkur nánir ættingjar eða samstarfsfólk gjarnan til hugar.

Ráð númer sjö: Vertu jákvæð fyrirmynd fyrir fólkið í kringum þig. Áhrif þín eru meiri en þig grunar. Eða eins og Gandhi sagði: „Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum“.


Ertu nóg?

„Dýpsti ótti okkar er ekki fólginn í því að við séum ekki nóg. Dýpsti ótti okkar er sá að við búum yfir takmarkalausum styrk. Það er ljósið innra með okkur en ekki myrkrið sem hræðir okkur mest. Við spyrjum okkur: hver er ég að halda að ég sé ljómandi, glæsileg, hæfileikarík, stórkostleg manneskja?

Reyndar, hver ertu ef ekki allt þetta? Þú ert barn Guðs. Það þjónar ekki heiminum að þú spilir minni rullu en efni standa til. Það er ekkert uppljómað við það að þú takir minna pláss til að koma í veg fyrir að aðrir verði óöruggir í návist þinni. Okkur er öllum ætlað að skína, eins og börn gera.

Við erum fædd til að vera farvegur fyrir dýrð Guðs sem býr innra með okkur. Hún býr ekki bara í sumum okkar, heldur í öllum. Þegar við látum ljós okkar skína, veitum við ómeðvitað öðrum leyfi til að gera slíkt hið sama. Þegar við verðum frjáls frá eigin ótta, mun nærvera okkar sjálfkrafa veita öðrum frelsi.“

 

Hugsanir eða raunveruleiki?

Þetta prósaljóð eftir Marianne Willamson snerti mína dýpstu hjartans strengi þegar ég las það í fyrsta skipti. Ástæða þess er sú að ég, eins og svo margir aðrir, hef á stundum upplifað að ég sé ekki nóg. Hugsanir á borð við: Ég get ekki gert þetta því ég er ekki nógu klár/gömul/ung/menntuð/hæf osfrv. hafa haldið aftur af mér.

Fyrir þónokkru gerði ég þó merkilega uppgötvun og hún er sú að velflestir ef ekki allir, kljást við sambærilegar hugsanir, að minnsta kosti endrum og sinnum. Mörg okkar kljást við takmarkandi hugsanir en margir ná tökum á þeim og láta þær ekki stoppa sig. En hvað er til ráða í baráttunni gegn takmarkandi hugsunum?

 

Valdeflandi sjálfshugmyndir í stað takmarkandi hugmynda

Fyrsta skrefið stígum við þegar við áttum okkur á því að umræddar takmarkandi hugsanir eiga rætur að rekja í undirliggjandi hugmyndum eins og til dæmis „Ég er ekki nóg“.

Ég hef tileinkað mér aðferð til að losna við takmarkandi hugsanir og hugmyndir og skipta þeim út fyrir valdeflandi hugmyndir sem bera með sér valdeflandi hugsanir. Þetta er tiltölulega einföld aðferð sem hægt er að nýta bæði þegar hugmyndirnar snúa að sjálfinu og þegar um er að ræða takmarkandi peningahugmyndir sem skjóta einnig upp kollinum reglulega.  

 

Verum óhrædd

Af orðum Marianne Williamson má ráða að við sjálf erum það eina sem stendur í vegi fyrir okkur. Við þurfum að taka ákvörðun um að standa með okkur. Að trúa því að við megum taka pláss og breiða úr vængjum okkar.

Endilega hafðu samband ef þig vantar hjálp til þess að losna við undirliggjandi sjálfshugmyndir sem standa í vegi fyrir framgangi þínum. Það er léttara en þú heldur að losna við þær og tileinka þér nýjar sem geta veitt þér byr undir báða vængi.

 

 


Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband