Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2016

Temdu þér þakklæti

Upplifun okkar á umhverfi og aðstæðum getur á stundum verið slík að við eigum ekki auðvelt með að vera þakklát. Þetta á einnig við þegar atvik verða sem við köllum slys eða þegar veikindi ber að höndum. Í slíkum kringumstæðum er þakklæti okkur sjaldnast efst í huga. Þegar frá líður verður okkur hins vegar stundum ljóst að það sem við upplifðum sem erfiðleika, var í raun og veru dulbúin blessun. Það er ef til vill það sem átt er við þegar sagt er að tíminn lækni öll sár. En í raun og sanni er það sjónarhorn okkar og upplifun sem breytist.

 

Láttu reyna á þakklætið

Mér er tamt að tala um þakklæti og þeir sem koma til mín í markþjálfun kannast við nokkuð sem ég kalla þakklætisdagbókina. Það er einfaldlega bók með auðum síðum sem ég hvet fólk til að nota og skrifa niður það sem það er þakklátt fyrir.

Með því að temja okkur þakklæti, öðlumst við nýtt sjónarhorn í erfiðum aðstæðum. Við verðum fljótari að líta á aðstæður sem við höfum ekki stjórn á, með augum þakklætis, þegar við förum að spyrja okkur hvað við getum þakkað fyrir. Þannig reynist það okkur auðveldara að sætta okkur við það sem við fáum ekki breytt auk þess sem við öðlumst kjark til að breyta því sem við getum breytt.

 

Lífið er allskonar

Það er mín einlæga trú að við séum hér á jörðinni til að læra, vaxa af lærdómi okkar og deila með öðrum. Þó svo að sumir trúi því ekki að við getum lært af reynslu annarra, bendi ég á að reynsla okkar er reynsla heimsins ef svo má segja. Einhvers staðar er einhver sem hefur gengið í gegnum það sama og þú. Öll förum við í gegnum dimman dal einhvern tíma á ævinni og flest okkar sjáum svo sólina koma upp að nýju.

Á slíkum tímum höfum við val um að vera þakklát fyrir það góða í lífi okkar á meðan við göngum í myrkrinu. Með því móti verður þrautargangan styttri og ljóstýran aldrei langt undan.

 

Hvað er myrkur?

Hefurðu einhvern tíma velt því fyrir þér hvað myrkur er í raun og veru? Albert Einstein sagði að myrkur væri ekki til. Hins vegar benti hann á að fjarvera ljóss orksakar myrkur. Það finnst mér mögnuð staðreynd.

Einstein sagði líka að innsæið væri það eina sem hefði raunverulegt gildi. Oft reynist innsæið okkur vel þegar við ákveðum að vera þakklát í aðstæðum þar sem þakklæti er okkur ekki efst í huga. Þakklæti hefur nefnilega þann eiginleika að geta leyst úr læðingi lausnir sem okkur hefði ekki órað fyrir.

 

Hagnýt nálgun

Hugsaðu um aðstæður sem þú hefur verið í og sitja í þér af einhverjum ástæðum. Þú getur líka notað núverandi aðstæður þínar sem dæmi ef þú upplifir að þú farir um dimman dal og ljóstýran sé víðs fjarri.

Náðu í blað og penna og byrjaðu á að draga línu til að skipta blaðinu í tvo dálka. Skrifaðu nú allt sem einkennir aðstæðurnar í vinstri dálkinn. Gættu þín á að tilgangurinn er ekki sá að kasta rýrð á annað fólk eða fyrra sig ábyrgð á aðstæðunum sem þú ert í eða varst í. Tilgangurinn er að komast að því hvernig þú getur beitt þakklætinu til að tendra ljós í dalnum svo útsýnið blasi við þér. Í hægri dálkinn skaltu skrifa niður þau atriði sem þú getur þakkað fyrir og tengjast aðstæðunum. Ef hugsunin um þakklæti er þér framandi í þessu samhengi og þú áttar þig ekki á því í fljótu bragði hvað þú gætir þakkað fyrir, skaltu staldra við og gera þitt besta til að snúa hlutunum á hvolf. Þú getur að minnsta kosti þakkað fyrir þann lærdóm sem þú getur dregið af aðstæðunum.

Með þessu móti muntu geta fetað veginn að dalsmynninu og tekið ákvarðanir sem byggja á vali. Þar er ekki í boði að upplifa sig sem þolanda kringumstæðna. Nei, þar er aðeins í boði að axla ábyrgð á sjálfum sér og að þakka fyrir tækifærið sem lífið hefur fært þér til að læra og vaxa. Næsta skref er að deila því sem þú hefur lært með öðrum.

 

 

 


Konur, friður og fjárhagslegt öryggi

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti er haldinn hátíðlegur 8. mars. Upprunalegu hugmyndina að þessum degi má rekja til Clöru Zetkin sem var þýsk kvenréttindakona og sósíalisti. Clara bar hugmyndina fyrst upp á fundi Alþjóðasamtaka sósíalískra kvenna í Kaupmannahöfn árið 1910. Ákveðið var að dagurinn skildi haldinn í mars ár hvert en til að byrja með var hann haldinn á sunnudegi, sem var eini frídagur verkakvenna þess tíma. Fyrstu árin voru baráttumálin kosningaréttur kvenna og samstaða verkakvenna fyrir auknum réttindum og hærri launum.

Árið 1921 var ákveðið að baráttudaginn skyldi bera upp á 8. mars. Þetta gekk þó misvel fyrstu árin og áratugina og ber þá sérstaklega að nefna seinni heimsstyrjöldina þegar nasistar bönnuðu öll samtök kvenna og gerðu 8. mars að mæðradegi.

Við lok seinni heimsstyrjaldarinnar árið 1945 var stofnað til Alþjóðasambands lýðræðissinnaðra kvenna. Á stofnfundi samtakanna var ákveðið að 8. mars yrði baráttudagur kvenna fyrir friði. Með tilkomu kvennahreyfingarinnar á sjöunda áratug tuttugustu aldar, gekk 8. mars í endurnýjun lífdaga.

Sameinuðu þjóðirnar efndu til kvennaáratugar árið 1975 og árið 1977 var ákveðið að 8. mars skyldi vera alþjóðlegur kvennadagur Sþ. Allar götur síðan hafa hreyfingar víða um heim nýtt daginn til að vekja máls á því sem betur má fara og tengist jafnrétti kynjanna.

 

Baráttan fyrir fjárhagslegu jafnrétti

Baráttan fyrir betri kjörum hefur einkennt 8. mars frá upphafi. Kvennalistakonur í Reykjavík efndu á sínum tíma til aðgerða fyrir utan matvöruverslun í Austurstræti þar sem þær vöktu máls á því að réttast væri að konur fengju að borga tvo þriðju af uppsettu verði matvara í samræmi við launamun kynjanna í íslensku samfélagi þess tíma.

Nú er mjórra á munum þó kynbundinn launamunur sé enn við lýði en samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands var svokallaður óleiðréttur launamunur 18,3% árið 2014.

Konur eru í meirihluta þeirra sem útskrifast úr háskólum landsins og samkvæmt nýjustu tölum frá Hagstofu Íslands eru tveir þriðju þeirra nemenda sem útskrifast með meistara- eða doktorsgráðu, konur. Ef marka má orð Francis Bacon, „mennt er máttur“, ætti því að rofa til hvað launamuninn varðar áður en langt um líður.

 

Hin nýja kvennahreyfing

Forbes tímaritið hefur kallað kvenfrumkvöðla hina nýju kvennahreyfingu.

Nýjar mælingar á framlegð fyrirtækja í eigu kvenna í Bandaríkjunum hafa sýnt að ef þau væru land, væri verg landsframleiðsla landsins meiri en samanlögð landsframleiðsla Kanada, Indlands og Víetnam.

Samkvæmt tölum af vefsíðu Samtaka kvenna í fyrirtækjarekstri í Bandaríkjunum, voru meira en 9,1 milljón fyrirtækja í eigu kvenna þar í landi árið 2014. Þau fyrirtæki höfðu nærri 7,9 milljón manns í vinnu. Þar kemur einnig fram að konur eiga eitt af hverjum fimm fyrirtækjum með hagnað upp á milljón bandaríkjadali eða meira á ári.

Þeir sem þekkja til Pareto reglunnar, geta yfirfært hana yfir á fyrirtæki í eigu kvenna, þar sem 20% þeirra hafa starfsmenn á sínum snærum en 80% flokkast sem einnar konu framlag. Þetta á við beggja vegna Atlantshafsins samkvæmt upplýsingum sem fengnar eru bæði úr bandarískum og evrópskum rannsóknum.

Á þeim rúmlega fimm árum sem ég hef unnið við markþjálfun, hef ég talað við fjölda kvenna sem eiga og reka fyrirtæki. Þær eiga margt sameiginlegt. Þær eru klárar, útsjónarsamar, duglegar og hugrakkar. Margar þeirra hefur langað að færa út kvíarnar og stækka fyrirtækið sitt. Það getur reynst flókið. Ein helsta ástæðan er sú aðgangur að fjármagni er takmarkaður. Bandarískar rannsóknir hafa sýnt að 65% fyrirtækja í eigu og rekstri kvenna, reiða sig fyrst og fremst á eigið fjármagn í stækkunarferli.

 

Friður og jafnrétti

En aftur að þema dagsins. Friði og jafnrétti. Friður er forsenda jafnréttis. Að sama skapi má segja að ófriður sé fyrirboði ójafnréttis. Þetta á við jafn í hinu stóra samhengi, eins og í stríði og í minna samhengi, eins og í parasamböndum. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er sú að það eru sterk tengsl á milli þess að vera fjárhagslega valdefld og þess að upplifa að þú hafir val. Til að mynda til þess að ganga út af heimili þar sem ríkir ófriður og ofbeldi. Rannsóknir hafa sýnt að ofbeldismenn byrja gjarnan á að kippa fótunum undan konum fjárhagslega, brjóta þær svo niður andlega og beita þær líkamlegu ofbeldi þegar þær eru farnar að upplifa að þær hafi ekki val. Því má með sanni segja að friður er forsenda jafnréttis á sama hátt og fjárhagsleg valdefling er forsenda þess að hafa val.


Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband