Leita í fréttum mbl.is

Í sjálfheldu

Við erum aldrei jafn vanmáttug í lífinu eins og þegar við upplifum að við séum ekki við stjórnvölinn. Annað hvort vegna þess að aðstæður eru þannig að við fáum ekki rönd við reist, til að mynda þegar slys eða veikindi ber að höndum. Eða þegar við af einhverjum ástæðum tökum ekki ábyrgð á kringumstæðum okkar og lífi almennt. Það kalla ég að vera í sjálfheldu.

Það er einstaklega vond tilfinning og ef ég ætti að staðsetja hana á tilfinningapólnum, væri hún andsælis tilfinningunni sem við upplifum þegar við erum valdefld og virkilega í essinu okkar.

 

Vanamunstur

Líf okkar einkennist mestmegnis af ákveðnu munstri sem við höfum að hluta til lært og að hluta til tamið okkur. Rannsóknir hafa sýnt að 60% af því sem við gerum er vani.

Margt fólk kýs að lifa lífi sínu án mikilla áskorana og heldur sig því gjarnan við það sem það hefur lært og vanið sig á. Munstrið viðhelst jafnvel ár eftir ár án mikilla breytinga. Það að vera vanafastur er ákveðið haldreipi í lífinu ef svo má segja því það fyllir okkur öryggi að vita hvað kemur næst. Þessi tilhneyging á sér einnig stað í náttúrunni. Tökum dæmi um á sem flæðir yfir bakka sína en finnur farveg sinn að nýju áður en langt um líður. En fyrir okkur mannfólkið má segja að fyrirsjáanleiki leiði af sér öryggistilfinningu sem við viljum svo gjarnan finna.

 

Í sjálfheldu

Öll þekkjum við að hafa komið okkur í sjálfheldu. Það er einkum tvennt sem gerir það að verkum að við komum okkur í þessar aðstæður. Sjálfsvorkun og ábyrgðarleysi. Það er langt frá því að vera auðvelt að taka ábyrgð á aðstæðum sínum og stíga þau skref þem þarf að stíga til að breyta.

En hvers vegna komum við okkur í sjálfheldu. Það gerist helst þegar við festumst svo hressilega í vanamunstrunum okkar að við áttum okkur ekki á að nýjar aðstæður krefjast nýstárlegrar hegðunar. Við höldum uppteknum hætti þangað til við siglum í strand. Þá gerist vanalega annað tveggja áður en við náum botninum. Annað hvort svömlum við í sjálfsvorkunarlauginni og neitum að taka ábyrgð á sjálfum okkur eða við kennum öðrum um. Annað hvort aðstæðum eða öðru fólki. Það er nefnilega mun erfiðara að horfast í augu við okkur sjálf í speglinum og viðurkenna mistök, heldur en að horfa út um gluggann í leit að sökudólgi. Þetta á við bæði í atvinnulífinu og í einkalífinu.

En þegar við komumst yfir óþægindin sem hljótast af því að viðurkenna fyrir okkur sjálfum að við erum í sjálfheldu, er eftirleikurinn auðveldari. Þegar við tökum ábyrgð á sjálfum okkur, verða nefnilega mikil þáttaskil.

 

Útjaður þægindarammans

Ég var stödd í verslun sem selur innanstokksmuni nýverið og sá þar skilti sem á stóð: „Lífið hefst við útjaður þægindarammans“. Já, hugsaði ég með mér, það er áhugavert. Við upplifum nefnilega lífið allt öðruvísi þegar við lifum því utan hins þægilega vanamunsturs. Ef við tökum dæmi um það þegar við hefjum störf á nýjum vettvangi eða jafnvel á nýjum vinnustað. Allt er nýtt og nýstárlegt og við þurfum virkilega að fylgjast með til að meðtaka.

Þeir sem hafa upplifað að búa í nýju landi, þar sem þeir skilja ekki tungumálið, þekkja þetta mjög vel. Til að byrja með er eins og þú sért að hlusta á framandi tónlist en svo smám saman ferðu að greina stöku orð á stangli og í kjölfarið áttarðu þig á setningaskipan. Einn morguninn vaknarðu svo með minninguna um að hafa dreymt draum á nýja tungumálinu og sú vitneskja fyllir þig eldmóði. Nú hefur nýja málið tekið sér bólfestu í undirmeðvitundinni. Áður en þú veist af flæða orðin frá þér í stríðum straumi og nýja tungumálið er orðið hluti af þér. Þú hefur öðlast hlutdeild í nýjum menningarheimi.

 

Nýr skilningur

Með því að taka ábyrgð á okkur sjálfum, öðlumst við tæki og tól til að taka ábyrgð í samskiptum við aðra. Eitt af því mikilvægasta sem ég hef öðlast með tungumálanámi er innsýn inn í mismunandi þankagang þjóða, sem endurspeglast í tungumálinu. Sem dæmi má nefna þegar ég áttaði mig á að í ítölsku er algengara að fólk taki ábyrgð á misskilningi með því að segjast ekki hafa útskýrt nógu vel, í stað þess að segja viðmælanda að hann hafi ekki skilið það sem sagt var. Á þessu er auðvitað grundvallarmunur.

 

Leiðin út úr sjálfheldu

En hvað er til ráða þegar við upplifum okkur í sjálfheldu? Í fyrsta lagi er gott að átta sig á því að þú ert þarna vegna þess að þú leyfðir vananum að verða öllu öðru yfirsterkari. Þú afsalaðir þér völdum á eigin lífi um stundarsakir og skrifaðir það á reikning aðstæðna eða annars fólks. Taktu þér nú smá stund til að fyrirgefa þér það.

Næsta skref er að gangast í ábyrgð fyrir sjálfum sér að nýju. Þá getur verið gott að standa á fætur og færa sig úr stað. Annað hvort innanhúss eða með því að fara í gönguferð og skilja við þennan stað sem við höfum ferið föst á.

Þvínæst er gott að setja sér markmið sem miðar að því að koma í veg fyrir að þú festist í vanamunstrinum að nýju. Skilgreindu útjaður þægindarammans fyrir þér. Hvað finnst þér óþægilegt og hvers vegna? Hvað hræðistu? Hræðistu það að mistakast eða hræðistu ef til vill velgengni? Það er algengara en fólk almennt trúir.

Taktu ákvörðun um að breyta einhverju daglega sem færir þig nær markmiðum þínum. Skrifaðu niður eitthvað sem þú getur þakkað fyrir á hverjum degi og mundu að brosa. Það gerir lífið skemmtilegra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband