Leita í fréttum mbl.is

Úr viðjum vanans

Nú þegar haustmyrkrið vofir yfir og daginn hefur stytt til mikilla muna, eiga mörg okkar erfitt með að koma okkur frammúr á morgnana. Orkan sem leysist úr læðingi með vorsólinni og sumarnóttunum björtu, er í rénum og eftir sitjum við berskjölduð gagnvart snemmvetrarsleninu. Þrátt fyrir tryggð okkar við lýsisflöskuna og græna grænmetið, læðist gamall félagi inn í líf okkar – vaninn. Sá gamli lætur gjarnan á sér kræla á þessum árstíma, áður en jólaljósin eru sett upp og eftirvænting aðventunnar gefur okkur grið um stundarsakir. Að minnsta kosti þar til janúar skellur á með náttmyrkri og eilitlu sólarljósi um miðbik dagsins. En þó varla svo telja megi.

 

Kringumstæður eða vani?

En skipta kringumstæður, veður, vindar, sólarljós og sólarleysi virkilega svona miklu máli? Eru þetta þættir sem ráða úrslitum um líðan okkar og stýra því hversu vel okkur gengur í lífi og starfi? Eða eru þetta ef til vill þættir sem við notum til friðþægingar gagnvart sjálfum okkur þegar við erum föst í viðjum vanans og neitum að hefja okkur yfir kringumstæður okkar?

 

Á lappir með þig!

Þessi setning endurómar og á sér tilvist í nútíð minni og fortíð. Ég sé móður mína fyrir mér þar sem hún stendur við rúmið mitt og starir á mig í forundran. „Á lappir með þig“, segir hún. „Ætlarðu að verða of sein í skólann?“

Ég stend við rúm sonar míns í morgunsárið og sömu setningar enduróma í nútíðinni.

Svona er það einnig með vanann. Hann endurómar gjarnan í fortíð og nútíð. Fjölmargar rannsóknir staðfesta það sem Mick Jagger söng um svo eftirminnilega að gamall vani á sér langa lífdaga, í laginu „Old habits die hard“.

 

Góðar venjur

Sumt af því sem við höfum vanið okkur á, einkennir okkur og við skilgreinum okkur jafnvel útfrá mörgu af því. Þarna á ég við margt af því sem við gerum daglega, vikulega, mánaðarlega, árlega eða að minnsta kosti með reglubundum hætti. Sumt af því sem við höfum vanið okkur á er gott og gilt og þjónar tilgangi í lífi okkar. Til dæmis góðar peningavenjur sem viðhalda fjárhagslegu heilbrigði, góðar matarvenjur sem viðhalda góðri heilsu og svo framvegis. En staðreyndin er sú að margt af því sem við gerum reglulega, er í mótsögn við það sem við vitum að er rétt og gott fyrir okkur. Þar erum við föst í viðjum vanans.

 

Úr viðjum vanans

Margir af þeim sem sérhæfa sig í að hjálpa fólki að breyta um kúrs í lífinu (undirrituð meðtalin), hafa upplifað það sem rannsóknarniðurstöður styðja. Það er ómögulegt að segja til um það hversu langan tíma það tekur fólk að breyta um venjur.

Fyrstu athuganir tengdar vana komu fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Það var læknir sem setti fram þá tilgátu að það tæki fólk að minnsta kosti þrjár vikur að venjast nýjungum. Tilgátuna studdi hann með reynsluathugunum á fjölda sjúklinga sem hann hafði haft í sinni umsjá. Í kjölfarið voru fjölmargir sem héngu á orðum hans en sneiddu hjá þeirri mikilvægu staðreynd að hann sagði að það tæki að minnsta kosti þrjár vikur að venjast því sem er nýstárlegt og telst ekki til gamalla venja.

Niðurstöður nýjustu rannsókna staðfesta að við skyldum varast að einskorða okkur við að telja dagana eða vikurnar sem það tekur að breyta um kúrs. Það tekur suma styttri tíma en aðra lengri tíma en þó er gert ráð fyrir að miða við tvo til átta mánuði.

Það merkilega er að þrátt fyrir að okkur skriki fótur, minnkar það ekki líkurnar á að við náum árangri þegar fram líða stundir. Svo lengi sem við látum ekki mistökin ná yfirhöndinni og höldum áfram þar sem frá var horfið. Það er þó oftar en ekki hægara sagt en gert og þess vegna er viturlegt að leita sér faglegrar hjálpar. Markþjálfi hefur þann starfa að halda í höndina á þér og hjálpa þér yfir erfiðasta hjallann. Að beina sjónum þínum að árangrinum í stað ósigranna. Að móta framtíðarsýn sem byggir á frelsi en ekki gömlum venjum.

 

 

 


Veldu núna

Fátt veldur mér jafnmiklum heilabrotum og það að hringja í þjónustufyrirtæki sem hafa símsvara með valmöguleikum. Þegar kemur að „veldu núna“ hlutanum, er ég oftast ennþá að velta möguleika tvö fyrir mér og möguleiki þrjú hefur farið forgörðum. Ég neyðist því til að hlusta á alla rununa aftur áður en ég get valið og komist í rétta biðröð til að tala við þjónustufulltrúa. Þessi hversdagslegi vandræðagangur varð þess valdandi að ég fór að velta ákvaðanatöku fyrir mér í stærra samhengi.

Ákvarðanafælni

Hinn frjálsi vilji aðgreinir okkur frá dýrum merkurinnar. En þrátt fyrir að við séum sífellt að velja og hafna, daginn út og daginn inn, getur það reynst okkur erfitt að taka ákvörðun.

Öll stöndum við einhvern tíma á lífsleiðinni frammi fyrir ákvörðununum sem reynast okkur svo erfiðar að við teljum jafnvel sjálfum okkur trú um að við getum bara sleppt því að taka ákvörðun. En sannleikurinn er sá að með því að taka ekki ákvörðun, erum við að taka ákvörðun um að taka ekki ákvörðun. Að standa ekki með okkur sjálfum og láta okkur reka. Vonast til að þetta reddist einhvern veginn.

Ég á þó alls ekki við að best sé að taka allar ákvarðanir í skyndi og skipta aldrei um skoðun. Nei, langt í frá. Margar ákvarðanir eru þess eðlis að þær krefjast þess að við stöldrum við, skoðum hug okkar og veltum fyrir okkur mögulegum afleiðingum sem ákvörðunin kann að hafa í för með sér. En fyrsta skrefið er að ákveða að skoða málið og gera svo það sem gera þarf til þess að hægt sé að taka upplýsta ákvörðun. Hvort sem það er að eiga samtöl við hlutaðeigandi aðila, afla upplýsinga um það sem við þurfum að vita, skrifa niður mótrök og það jákvæða sem ákvörðunin kann að hafa í för með sér og svo framvegis.

Vald okkar felst í ákvaðanatöku

Þegar við erum óákveðin og frestum því að taka ákvörðun eða velkjumst í vafa og stöndum ekki með eigin ákvörðunum, gefum við frá okkur valdið. Að axla ábyrgð á sjálfum sér, felur í sér að geta tekið ákvarðanir, staðið með þeim og framfylgt því sem ákvörðunin hefur í för með sér.

Oft hafa ákvarðanir okkar áhrif á líf annarra en það þýðir þó ekki að það sé okkar að taka ábyrgð á öðrum fullorðnum einstaklingum. Það sama gildir um það þegar við freistum þess að láta aðra taka ábyrgð á okkur með því að veita þeim ákvörðunarrétt í lífi okkar. Í þannig tilfellum þurfum við að gangast við því að við höfum valið að afsala okkur ábyrgð á sjálfum okkur.

Þeim mun fyrr sem við áttum okkur á því að allar okkar ákvarðanir eru á okkar ábyrgð, getum við áttað okkur á hinu stóra samhengi hlutanna.

Það er þó ekki síður mikilvægt að láta aðra fullorðna einstaklinga um að ákveða fyrir sig og leyfa þeim að axla ábyrgð á sjálfum sér. 

Veldu núna!

Ef þú stendur frammi fyrir því að taka ákvörðun, langar mig að gefa þér nokkur ráð sem hafa reynst mér vel:

 

  1. Spurðu þig spurninga er varða ákvörðunina. Vittu til að svörin kunna að koma þér á óvart.
  2. Komdu þér úr sporunum. Farðu í gönguferð, sund eða veldu aðra hreyfingu sem hentar þér. Vittu til að svörin koma til þín.
  3. Horfðu fram á veginn og sjáðu fyrir þér líf þitt eftir fimm ár. Spurðu þig hvaða áhrif ákvöðunin hefur haft á líf þitt og fólksins í kringum þig.
  4. Skrifaðu ákörðunina niður á blað, settu dagsetningu og skrifaðu undir. Þannig geturðu gert samning við þig um að standa með ákvörðuninni og þannig stendur þú í valdinu þínu.

 

Þegar ég upplifi stöðnun og finn að ég þarf að taka ákvörðun, finnst mér mjög gott að fara í gönguferð. Ég legg af stað með skýran tilgang í huga. Ég þarf að fá svar við spurningunni um hver ákvörðunin eigi að vera.

Þankagangurinn verður allur annar og stöðnunin fer veg allrar veraldar þegar líkaminn er á hreyfingu. Oftar en ekki sný ég til baka úr gönguferðinni með ákvörðunina í farteskinu. Efinn er fokinn út í veður og vind og upplifunin er einstaklega valdeflandi.

 

 


Hvað stendur á þínum merkimiða?

Pistillinn sem fjallaði um þekkta slagara óttakórsins fór eins og eldur um sinu um netheima og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Í kjölfarið fór ég að velta ýmsu fyrir mér og meðal annars því sem hér á eftir kemur.

 

Andstæðar tvennur

Það er gömul saga og ný að það eru tvær hliðar á öllum peningum. Þessar tvær hliðar eru andstæðar tvennur sem togast á og skapa hvor annarri tilverurétt. Svo staðreyndin er sú að ef við göngumst við því að við erum stundum hrædd, þá er hin hliðin á óttanum hugrekki. Hin hliðin á klúðri er velgengni og hin hliðin á vanlíðan er hamingja.

En þó lögmálið sé einfalt, þá er upplifunin mjög oft flóknari. Sér í lagi þegar okkur finnst við skuggamegin í tilverunni. Það er að segja þegar við erum hrædd, höfum klúðrað einhverju eða upplifum að hamingjan hafi yfirgefið okkur.

 

Hvað stendur á þínum merkimiða?

Ótti, blankheit, klúður og óhamingja eru merkimiðar sem við setjum á upplifanir okkar og annarra. Við skilgreinum þessa merkimiða og upplifun okkar litast af skilgreiningunum. Við erum reyndar mjög oft undir áhrifum frá skilgreiningum annarra. Bæði fólksins í kringum okkur og samfélagsins.

Að sama skapi eru hugrekki, ríkidæmi, velgengni og hamingja hugtök sem við skilgreinum sjálf. Þau hugtök og þær hugmyndir sem við notum til að skilgreina okkar raunveruleika, hafa áhrif á væntingar okkar, gjörðir og þá upplifun sem við höfum af lífinu.

Tökum dæmi um tvær manneskjur sem eru í sambærilegu starfi, hafa sömu menntun og svipuð laun. Önnur hefur skilgreint að doktorspróf sé góð menntun og finnst því meistaragráðan sín lítils virði. Hin bjóst aldrei við að ganga menntaveginn og lítur á sína meistaragráðu sem afrek. Önnur tók við starfinu vegna þess að ekkert annað bauðst og finnst það fyrir neðan sína virðingu. Hin er hæstánægð í starfi og gerir sér vonir um að það leiði til frekari starfsframa. Annarri finnst launin of lág og nær varla endum saman. Hin skilgreinir öryggi útfrá því að hafa föst laun og lífstíll hennar passar innan þess ramma sem launin leyfa. Þínar eigin hugmyndir endurspegla það hvort þér finnst önnur metnaðarlaus og hin vanþakklát eða eitthvað allt annað.

 

Þetta getur ekki verið satt

Ég man að ég fékk hálfgert áfall þegar ég áttaði mig á því að upplifun mín af lífinu stjórnast af viðhorfi mínu til þess. Mér fannst þetta kaldranalega einfalt en á sama tíma var ég alls ekki tilbúin til að gangast við þessu sem sannleika. Sennilega vegna þess að mér fannst að þá þyrfti ég að verða fullkomin. Ég þyrfti alltaf að velja að vera hamingjusöm, hugrökk og bjartsýn. Þetta rjátlaðist þó af mér og staðreyndin er sú að ég á mína slæmu daga. Mig skortir oft þolinmæði, skorast stundum undan ábyrgð og svo mætti lengi telja. En vitneskjan um að líf mitt stjórnast af viðhorfi mínu, hefur þó breytt lífi mínu til hins betra. Hún hefur gert það að verkum að ég á auðveldara með að greina hismið frá kjarnanum. Boðleiðirnar hafa styttst innra með mér og ég sleppi fyrr tökunum á því sem ég get ekki breytt. Einnig er ég líklegri til að taka ábyrgð á því sem ég get breytt og er mitt að taka ábyrgð á.

Óttakórinn tekur enn lagið en ég sit ekki lengur á fremsta bekk og hlusta.

 

P.s. í undirbúningi er nýtt einstaklingsnámskeið sem miðar að því að takast á við óttann og læra aðferðir til að koma honum fyrir kattarnef.

 

 

 

 


Að hrökkva eða stökkva

„Framtíðin er þeirra sem trúa á fegurð drauma sinna“, sagði Eleanor Roosevelt. Það hljómar mjög vel en vandamál margra felst í því að þegar við látum okkur dreyma þá kemur óttinn upp. Hann tekur völdin með sinni lamandi hendi.

Það er óttinn sem veldur því að við látum ekki drauma okkar rætast heldur sættum okkur við óbreytt ástand. Við látum okkur reka í stað þess að sigla seglum þöndum á vit þess sem hið óvænta getur fært okkur.

 

Ótti gamli ótti

Hræðsla við breytingar er í mörgum tilfellum svo raunveruleg að við finnum hana í líkamanum. Hún hríslast um okkur, laumuleg eins og þjófur að nóttu. Við fáum jafnvel magaverk eða þungt fyrir brjóstið. Upplifum að við getum ekki rönd við reist. Þessi hræðsla kemur gjarnan í veg fyrir að við stökkvum til þegar tækifæri gefst. Hún er einnig dragbítur á dagdrauma sem geta leitt af sér stórkostlegar breytingar.

Vitur kona sagði mér eitt sinn að best væri að láta sig dreyma, taka þvínæst ákvörðun um að láta drauminn verða að veruleika og finna svo að lokum útúr því hvernig best væri að byrja. Flest stökkvum við frá draumnum og yfir í stig númer þrjú – nema í stað þess að finna útúr því hvernig best sé að láta drauminn rætast – látum við óttann stoppa okkur.

„Hlustaðu bara á innsæið“, segja margir þegar ákvarðanataka er annars vegar. „Notaðu hausinn“, segja aðrir. „Fylgdu hjartanu“, segja enn aðrir. En það er ekki svo einfalt þegar hræðslan tekur völdin þannig að við heyrum ekki skilaboðin sem innsæið hefur fram að færa, í hausnum hljómar margradda kór og hjartað tekur aukakipp af ótta. En hvað er þá til ráða?

 

Óttakórinn syngur þekkta slagara

Boðskapur óttakórsins er tiltölulega einfaldur. Ekki breyta neinu, ekki láta drauma þína rætast, ekki taka áhættu. Með öðrum orðum - haltu þig til hlés.

Eitt gott ráð sem ég hef notað til að losna við ótta, er að skilgreina hann. Þá spyr ég mig að því hvort þetta sé ótti við breytingar eða með öðrum orðum, ótti við hið óþekkta. Eða jafnvel ótti við að mistakast, sem er mjög algeng tegund ótta. Sá er vissulega af sama meiði og óttinn við breytingar og stendur gjarnan í vegi fyrir því að við leyfum hugmynd verða að draumi og síðan að veruleika.

Rannsóknir hafa sýnt að fólk lætur óttann við að mistakast gjarnan stoppa sig en óttinn við velgengni er ekki síður algengur. Hugsanir á borð við: Hvað ef mér tekst vel til? Hvað ef hugmyndin slær í gegn, fyrirtækið stækkar og ég þarf að ráða starfsfólk og svo framvegis...

Ég finn gjarnan fyrir óttanum í líkamanum og nota þá oft tækifærið til að tengja við hann og sjá hann fyrir mér. Stundum hef ég spurt hann hver skilaboð hans séu. Óttinn er frumstæður og upphaflegi tilgangur hans var sá að auka líkurnar á því að við lifðum af. Færum okkur ekki að voða. Þessvegna er góð leið til að losna við óttann, að komast að því hvaða skilaboð hann hefur til okkar. Þakka fyrir skilaboðin og segja honum að við ráðum við þetta. Við ætlum bara að byrja og sjá svo til. Jú, við eigum eftir að gera mistök og misstíga okkur á leiðinni – en við ætlum að hefjast handa.

 

Máttur þess að taka ákvörðun

Bestu ákvarðanir lífs míns hef ég tekið þegar ég hef náð að útiloka raddirnar sem hljóma eins og kór á borgarafundi. Þessar góðu ákvarðanir sem bera með sér nýjungar og vöxt, hef ég tekið þegar ég fylgi forskriftinni góðu: draumur, ákvörðun, finna út hvernig. Staðreyndin er nefnilega sú að við búum yfir ótrúlegri færni til að finna lausnir og aðlagast breytingum. Svo nú er bara að ákveða – ætlar þú að hrökkva eða stökkva?


Margur verður af aurum...

Líklega sagðirðu api, annað hvort upphátt eða í hljóði áður en þú smelltir til að lesa pistilinn. Orðatiltækið er eitt af mörgum sem endurspeglar víðteknar peningahugmyndir fólks. Það á uppruna sinn í Hávamálum og er inngreipt í samfélagslega vitund okkar, hvort sem við sem einstaklingar trúum því að margur verði af aurum api, eður ei.

 

Áhrif peningahugmynda

En hvaða áhrif hafa peninghugmyndir sem þessi í raun og veru á okkur sem einstaklinga? Þær hafa heilmikil áhrif því þær stýra peningahegðun okkar.

Sá sem trúir því undir niðri að margur verði af aurum api, leggur varla áherslu á að leggja fyrir og fjárfesta.

Peningar vaxa ekki á trjánum, er önnur algeng hugmynd. Þeir sem sitja uppi með þá hugmynd að þú þurfir að leggja mjög hart að þér fyrir hverja krónu sem þú aflar, verja gjarnan meiri tíma á vinnustaðnum en ástæða er til því þeir stjórnast af þeirri hugmynd að þú þurfir að vinna mikið fyrir laununum. Þeir sem eru sjálfstætt starfandi og sitja uppi með sömu hugmynd, þiggja gjarnan lægri laun fyrir hvert og eitt verkefni og eru störfum hlaðnir.

 

Þetta reddast

Þessi fræga hending sem er gjarnan notuð til að útskýra grunnstefið í íslenskri menningu og hugsunarhætti, einkennir fjármál margra einstaklinga og er jafnvel inngreipt í fyrirtækjarekstur. Reddingahugsunin kemur sér vel að mörgu leiti. Hún getur ýtt undir framleiðni, sköpunargleði og eflt liðsanda. Hún er grunnurinn að því að margir leggja gjarnan hart að sér um tíma, því þeir sjá fyrir betri tíð með blóm í haga. Segja má að þessi vertíðarhugsun stýri peningahegðun þjóðarinnar að mörgu leiti. Nú berast til að mynda fregnir af auknum hagvexti og stóraukinni kreditkortanotkun landans.

 

Vogun vinnur, vogun tapar

Skyndigróðahugsunin á sér einnig djúpar rætur og þarf ekki að fara langt aftur í tímann til að finna dæmi af gullgrafaraæði ýmiss konar sem geysað hefur eins og stormur víða um land. Má þar nefna laxeldi, refarækt, bankalán til kaupa á verðbréfum og nú síðast Airbnb. „Við verðum jú öll að redda okkur“ er gjarnan viðkvæðið.

 

Gott ráð

Það er áhugaverð iðja að virða sjálfan sig fyrir sér úr fjarlægð og velta því fyrir sér hvaða hugmyndir liggja að baki peningahegðun okkar. Að hversu miklu leyti stjórnast þú af umhverfi þínu eða jafnvel bakgrunni þínum? Skuldir, gjaldþrot og peningaleysi valda því gjarnan að fólk situr uppi með skömm. Aðrir sitja uppi með skömm vegna peningahegðunar sinnar. Hvort sem það er vegna peninganotkunar (eyðslu) eða jafnvel velmegunar. Hugsaðu málið og settu peningahugmyndir þínar í samhengi við peningahegðunina.


Leynist fjármálasnillingur innra með þér?

Ef einhver hefði spurt mig þessarar spurningar fyrir fimm árum, hefði ég sennilega hlegið og sagt þvert nei. Í dag trúi ég því hins vegar að það búi fjármálasnillingur innra með okkur öllum. Við þurfum bara mjög mismunandi aðferðir til að laða fram snilligáfuna.

Flestir sem koma til mín í markþjálfun byrja setningar um fjármál á einhverju af eftirfarandi: „Ég hef ekki efni á...“ „Ég get ekki...“ „Ég kann ekki...“. Með aðferðum markþjálfunarinnar og gleraugum peningaerkitýpanna, öðlast fólk þó fljótlega sjálfstraust til að nálgast fjármálin sín með endurnýjuðu hugarfari. Breytingarnar eru ótvíræðar og skila sér á öllum sviðum lífsins. Það að vera fjárhagslegur leiðtogi í eigin lífi er nefnilega einstaklega valdeflandi.

 

Snýst ekki bara um krónur og aura

Það að vera við stjórnvölinn þegar kemur að fjármálunum snýst ekki bara um krónur og aura. Það snýst fyrst og fremst um hugarfar. Möguleikar okkar til að búa til peninga takmarkast nefnilega eingöngu af okkar eigin hugarfari.

Það sama á við um það hvernig við förum með peningana okkar. Það einkennist einnig fyrst og fremst af hugarfari okkar og því hvernig við erum samsett í grunninn. Þarna leika peningaerkitýpurnar okkar stóra rullu.

 

Hvernig týpa ert þú?

Segja má að peningaerkitýpurnar séu peninga DNA-ið okkar. Týpurnar eru átta talsins og hjá hverju og einu okkar trónir ein þeirra á toppnum. En það er samspil þriggja efstu erkitýpanna sem gerir okkur einstök. Ef efstu erkitýpurnar okkar eru ósammála í grundvallarafstöðu sinni til peninga, myndast ákveðin togstreita innra með okkur sem kemur oft fram í peningahegðun sem veldur okkur hugarangri eða jafnvel streitu og kvíða. Tökum dæmi. Ein þeirra, Safnarinn, vill gjarnan leggja fyrir og eiga fyrir hlutunum. Það sem vakir fyrir Frumkvöðlinum hins vegar er að taka áhættu sem getur haft mikinn fjárhagslegan ávinning í för með sér. Þegar þessar tvær peningaerkitýpur tróna á toppnum hjá einni og sömu manneskjunni, getur komið upp innri togstreita þegar raddir þeirra takast á. Önnur vill alls ekki taka áhættu í fjármálum og stígur varlega til jarðar þegar kemur að fjárfestingum. Hin vill hins vegar mjög gjarnan taka áhættu og þrífst reyndar á því. Hún beinir sjónum að ávinningnum sem getur hlotist af áhættunni og hefur reyndar merkilega oft rétt fyrir sér. Vogun vinnur, vogun tapar, segir máltækið og á meðan Frumkvöðullinn heyrir aðeins fyrri hlutann með áherslu á vinnur, heyrir Safnarinn gjarnan seinni hlutann með áherslu á tapar.

Með aðferðum markþjálfunarinnar vinnum við í að byggja kerfi sem leyfa báðum erkitýpunum og hæfileikum þeirra að njóta sín. Samspil þeirra getur orðið algjörlega magnað.


Lesið milli lína

„Ég er að safna undirskriftum. Viltu skrifa undir?“ Svona hófst samtal sem ég átti á götu í erlendri borg nýverið. Maðurinn var alls ekki að safna undirskriftum heldur áheitum og tilgangurinn var sá að fá mig til að láta peninga af hendi fyrir óljósan málstað. Þessi samskipti urðu kveikjan að því að ég fór að velta fyrir mér samskiptaháttum og menningu. Fyrirbærið misskilningur var mér ofarlega í huga og það hvernig misskilningur er oftar en ekki tilkominn. Nefnilega vegna þess að við tjáum okkur ekki skýrt þannig að viðmælandinn skilur okkur á annan hátt heldur en ætlunin var eða hreinlega við leggjum mismunandi skilning í orðin sem notuð eru. 

 

Bein og óbein skilaboð

Það viðgengst víða í íslensku samfélagi að nota óbein skilaboð. Þetta á bæði við inni á heimilum, í samskiptum stórfjölskyldunnar, milli vina, inni á vinnustöðum og jafnvel hjá opinberum stofnunum. Óbein skilaboð eru í raun og veru einkennilegur samskiptamáti ef vel er að gáð og við gætum bætt samfélagið til mikilla muna með því að draga úr notkun þeirra. Þetta er nefnilega óheilbrigður samskiptamáti sem byggir á því að setja ábyrgðina yfir á aðra og vonast til þess að útkoman verið sú sem maður óskar eftir. Tökum dæmi: Tveir starfsmenn fyrirtækis hafa unnið að því að undirbúa fund og það var í verkahring annars þeirra að prenta út skjöl til að dreifa á fundinum. Rétt fyrir fundinn hittast starfsmennirnir og sá sem átti að prenta út segir: „Æi, ég hef haft svo mikið að gera að ég hef gleymt að prenta út skjölin fyrir fundinn.“ Svo kemur þögn. Hann varpar ábyrgðinni yfir á hinn starfsmanninn og ef sá hinn sami tekur hana, gæti svarið verið: „Ég skal prenta þau út!“ (Hinn sleppur við að taka ábyrgð). Hér væri betra að sleppa því að taka ábyrgðina og segja þess í stað: „Þá ættirðu að drífa þig því fundinn fer að hefjast.“

Tökum dæmi um sömu tvo starfsmennina sem hafa verið að undirbúa fundinn, hafa skipt með sér verkum en sá sem átti að prenta út, er ekki búinn að því. Með því að nota bein skilaboð gætu samskiptin verið á þessa leið:  „Ég hef gleymt að prenta út skjölin fyrir fundinn. Geturðu hjálpað mér?“ Þá hefur hinn aðilinn val um að segja já eða nei og sá sem gleymdi tekur ábyrgðina í stað þess að varpa henni yfir á hinn aðilann. 

 

Skilurðu mig? 

Ég er ein þeirra sem á ekki gott með að skilja óbein skilaboð. Ég misskil þau mjög oft, sem er grunnurinn að ýmsu, bæði skondnu og einnig dramatísku í lífi mínu. Þetta hefur orðið til þess að ég hef þurft að þróa samskiptahæfni mína með markvissum hætti og venja mig á að spyrja spurninga þar til ég er alveg viss um að ég hafi skilið það sem ætlunin var að koma á framfæri. Ég ætla ekki að halda því fram að mér takist alltaf vel til, því það væri ofsögum sagt. En í seinni tíð er ég alla jafna nokkuð meðvituð um þessa tilhneigingu mína og er jafnvel farin að líta á hana sem styrkleika. Ég hef sagt bestu vinum mínum og fjölskyldu frá því að ég sé svona og því sé best að nota bein skilaboð og vera skýr. 

Markþjálfunin byggir á því að spyrja spurninga og komast til botns í málum með því að spyrja enn fleiri spurninga. Svo þar hef ég fengið byr undir báða vængi. Með aðferðum markþjálfunarinnar er algjörlega komið í veg fyrir óbein skilaboð. Þar er spurt um: Hvað? Hvernig? og umfram allt - Hvenær? Allt skýrt og enginn misskilningur. Dásamlegt! 

 

Hvað meinarðu? 

Hefurðu velt því fyrir þér hvernig þú ert í samskiptum? Notarðu skýr skilaboð og tjáir þig þannig að þú takir ábyrgð á því sem þér ber? Eða notarðu óbein skilaboð og verð jafnvel miklum tíma í að velta fyrir þér hvað þessi og hinn hafi meint með því sem hann sagði (jafnvel endur fyrir löngu)? Það er tilvalið að skoða sjálfan sig og samskipti sín og vera vakandi fyrir því hvernig maður notar orð og jafnvel svipi og hreyfingar í samskiptum. Prófaðu að spyrja spurninga í stað þess að draga ályktanir. Það krefst ef til vill smávegis æfingar en það er einstaklega góð leið til að skilja samferðafólkið betur og koma í veg fyrir misskilning. 

 


Ég fer í fríið...

„Sumarið er tíminn þegar hjartað verður grænt“, söng Bubbi Morthens svo eftirminnilega um árið. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að Bubbi noti samlýkinguna um grænt hjarta til að tákna nýjabrumið sem fylgir sumrinu. Nýtt upphaf. Ný von. Nýtt tímabil. Og nú þegar einhver lengsti vetur í manna minnum er að baki, andvarpa flestir af feginleik, að minnsta kosti innra með sér. Sumarnóttin ber með sér fyrirheit og uppskeran er á næsta leiti. Sumarfríið! Margir eru þegar farnir í frí en aðrir eiga það inni síðla sumars. 

 

Kaflaskipti

Frí táknar frelsi frá daglegum skyldum, að minnsta kosti á vinnustað. Með því myndast rými til athafna sem ekki eiga sér samastað í hversdeginum. Hvort sem þú hyggur á dvöl í sumarbústað, hringferð um landið, gönguferð um hálendið, utanlandsferð eða einfaldlega að láta þig fljóta í næstu almenningssundlaug, þá er tilgangurinn sá sami - að bregða útaf vananum og skipta um gír. Að njóta ávaxta erfiðisins og þess að hinn langi vetur er að baki. 

Sumarfrí má leggja að jöfnu við áramót í mínum huga. Ástæðan er sú að sumarfrí er ekki síður tími til endurmats en hvíldar og tilbreytingar frá hversdeginum. Sumarfríið markar endalok eins kapitula í árinu og upphaf annars. Það er því tilvalið að spyrja sig nokkurra nytsamlegra spurninga í sumarfríinu. 

 

7 SPURNINGAR Í SUMARFRÍINU

1. Hvernig hefur mér gengið á þessu ári í lífi og starfi? 

2. Hvernig miðar mér að uppfylla þau markmið sem ég setti mér í upphafi árs? 

3. Ef líf mitt í samhengi við kjarnagildin mín? 

4. Hvað get ég gert betur það sem eftir er árs? 

5. Hvað hefur verið skemmtilegt á árinu fram til þessa? 

6. Hvað hef ég lært? 

7. Hvað vil ég endurtaka/útiloka úr lífi mínu? 

 

Gefðu þér nokkrar mínútur og hripaðu niður svörin við þessum spurningum. Ef til vill eru sumar þeirra þess eðlis að þær krefjast endurlits og íhugunar. Gefðu þér tíma og notaðu sumarfríið sem meðbyr inn í nýtt tímabil. Hlustaðu á innsæið og leyfðu þér að upplifa, skoða og njóta. Mundu að lífið er núna!

 


Ertu í sjálfsábyrgð?

Stærsta áskorun okkar sem einstaklinga felst í að bera ábyrgð á okkur sjálfum. Það kann að hljóma einkennilega og virðast einfalt en staðreyndin er sú að fæstum tekst þetta alla daga allt lífið. Ég leyfi mér reyndar að efast um að nokkrum takist það.

Okkur hættir frekar til að horfa út um gluggann í leit að sökudólgi þegar eitthvað fer úrskeiðis í lífi okkar. En þeir sem taka ábyrgð á sjálfum sér horfa í spegil og spyrja sig hvað þeir hefðu getað gert betur. Þeir spyrja sig ennfremur hvaða lærdóm þeir geti dregið af mistökunum. Þetta þýðir þó ekki að þeir muni ekki gera mistök aftur. Nei þvert á móti því þeir sem taka ábyrgð á sjálfum sér gera mistök eins og aðrir en þeir eru tilbúnir að viðurkenna þau fyrir sjálfum sér og öðrum. Þeir biðjast líka fyrirgefningar og fyrirgefa sjálfum sér.

 

Góð spurning

Í bók sinni How Successful People Think, segir John C. Maxwell frá því hvernig hann kenndi börnunum sínum að meta það góða í lífinu og jafnframt að draga lærdóm af reynslunni. Hann gerði þetta meðal annars með því að spyrja þau spurningar þegar þau komu úr fríi eða höfðu varið tíma saman sem fjölskylda. Spurningin er þessi: Hvað fannst þér skemmtilegast og hvað lærðirðu?

Þessi spurning er einstaklega nytsamlega fyrir unga sem aldna. Hennar má spyrja daglega ef því er að skipta. Við getum einnig tamið okkur að spyrja okkur sjálf þessarar spurningar um leið og við leggjum höfuðið á koddann að kvöldi. Hvað fannst mér skemmtilegt í dag og hvað lærði ég?

Með þessum hætti förum við ósjálfrátt að taka betur eftir því sem okkur finnst skemmtilegt í lífi okkar og við förum að taka ábyrgð á því að gera meira af því sem okkur finnst skemmtilegt. Þeir sem upplifa að þeir hafi ekki gert neitt skemmtilegt, þurfa þá að spyrja sig hvers vegna.

Spurningin um það hvaða lærdóm við getum dregið af deginum er einnig mjög gagnleg og hjálpar okkur að taka ábyrgð á sjálfum okkur, orðum okkar og gjörðum. Þessi spurning er einnig gagnleg til að minna okkur á að við berum ekki ábyrgð á orðum og gjörðum annarra.

 

Gott ráð

Ég þekki einstaka konu sem hefur náð miklum árangri í lífinu. Hún deildi því með mér fyrir mörgum árum að hún skipuleggur daglega fundi með skemmtilegu fólki. Annað hvort hittir hún fólk í kaffi, hádegismat eða ver með því tíma við íþróttaiðkun ýmiss konar. Hún segir þetta vera lykilinn að velgengni sinni og að þetta hafi komið henni í gegnum erfiða tíma í lífinu. Hún hefur nefnilega eitthvað til að hlakka til um leið og hún vaknar á morgnana. Hún á heldur ekki í vandræðum með að nefna það sem henni hefur þótt skemmtilegt þann daginn auk þess sem hún segist læra eitthvað nýtt á hverjum degi þegar hún hittir allt þetta skemmtilega fólk. Maður er manns gaman!


Fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá

Þann 19. júní fögnum við aldarafmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Á þessum merku tímamótum er vert að staldra við og spyrja hvað við getum lært af útsjónasemi og elju þeirra kvenna sem ruddu brautina. Baráttan fyrir kosningarétti var löng og orðræðan oft hatrömm. En þær gáfust ekki upp og höfðu betur að lokum.

 

Ábyrgð hverrar kynslóðar

Hver kynslóð þarf að vera meðvituð um verk sín og setja þau í samhengi við söguna. Þar skiptir einstaklingurinn máli og ákvarðanir hvers og eins. Hugsið ykkur ef Bríet Bjarnhéðinsdóttir hefði skorast undan og ekki hlýtt kallinu um að berjast fyrir réttindum kvenna. Eða ef Ingibjörg H. Bjarnason hefði sagt nei við að verða fyrsta konan til að taka sæti á Alþingi. Mér verður oft hugsað til þessarra kvenna og hugrekki þeirra veitir mér innblástur.

 

Með hugrekkið að vopni

Samfélagsleg umræða okkar tíma er slík að margir kæra sig hvorki um að taka þátt í henni né að fylgjast með henni. Neikvæðni, sleggjudómar og persónulegar árásir í athugasemdakerfum, fæla fólk frá því að ganga fram fyrir skjöldu og fara fyrir breytingum á opinberum vettvangi. En konurnar sem börðust fyrir kosningarétti fóru ekki varhluta af þessu á sínum tíma. Þó engin hafi verið athugasemdakerfin eða bloggsíðurnar, var orðræðan rætin og baráttan krafðist hugrekkis.

Verum meðvituð um baráttu þeirra sem hafa rutt brautina og hugsum til þess með hvaða hætti við ætlum að setja mark okkar á söguna. Bæði sem einstaklingar og sem samfélag. Veljum við að skrifa öll okkar bestu ljóð í öskuna eða veljum við að stíga fram og láta rödd okkar heyrast svo um munar?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband