1.6.2015 | 07:10
Orð eru dýr
Daginn sem fyrsta orðið hraut af vörum þínum, breyttist allt. Foreldrar þínir fluttu ættingjum og vinum fregnir af þessu stórkostlega barni sem sagði fyrsta orðið. Þvílíkt undur! Svo bættust orð í safnið og smám saman fórstu að mynda setningar. Einn daginn varstu altalandi.
Orð eru merkilegt fyrirbæri og máttur þeirra stórlega vanmetinn. Setningar eins og orð eru til alls fyrst og í upphafi var orðið, eru hluti af menningu okkar sem vestrænnar þjóðar án þess að við gerum okkur almennt grein fyrir valdinu sem felst í orðum okkar og notkun þeirra dag frá degi.
Orð sem sverð
Sumir nota orð sín sem sverð til að særa aðra vísvitandi. En sannleikurinn er sá að við höfum líka vald til að ákveða hvort við látum orð annarra hafa bein áhrif á líf okkar eða látum þau falla dauð og ómerk niður. Við getum einnig valið að staldra við og nota orð okkar til að stoppa flauminn frá þeim sem nota orð til að særa. Við getum til dæmis sagt: Orð þín særa mig. Ég vil ekki að svona sé talað við mig svo ég bið þig að hætta.
Orð sem breyta öllu
Lögmálið um orsök og afleiðingu stjórnast af því sem við segjum. Við höfum vald til að tala blessun inn í líf okkar. En við höfum einnig vald til að viðhalda óbreyttu ástandi eða gera illt verra með orðum okkar einum saman. Nú andvarpa sumir og segja jafnvel: þvílíkt rugl. En sannleikurinn er sá að orð eru til alls fyrst. Það sem við segjum getum við notað til niðurrifs en einnig til uppbyggingar. Það er okkar val.
Setningin sem glæðir lífið litum
Fyrir rúmu ári síðan varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast ungri konu sem hefur einstakt viðhorf til lífsins. Ég tók strax eftir glaðværðinni sem hún býr eftir og fór ósjálfrátt að fylgjast með henni. Þegar ég heyrði hana segja sömu setninguna fjórða morguninn í röð, áttaði ég mig á því í hverju gleði hennar var fólgin. Hún fólst í viðhorfi hennar til lífsins, sem endurspeglaðist í því að hún endurtók upphátt með innlifun: Í dag er besti dagur lífs míns! á hverjum einasta degi. Prófaðu og fylgstu með því sem breytist í kjölfarið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2015 | 08:07
Mánudagskonan
Nú er óvenjulangur vetur að baki og geislar maísólarinnar teknir að verma okkur - að minnsta kosti um hjartaræturnar. Lóan er komin og sumarið er á næsta leiti. Engu að síður kveinkuðu sér margir við tóna vekjaraklukkunnar í morgun og freistuðust jafnvel til að snúa sér á hina hliðina.
Ooh fimm daga vinnuvika framundan (sem er reyndar óvenjulegt í maí). Ekki annar mánudagur... og ýmislegt í þeim dúr gerði vart við sig í hugarfylgsnum þeirra sem stigu þungum skrefum inn í daginn.
Mánudagur til?
Hugmyndin um mánudag til mæðu hefur náð fótfestu í samfélaginu en óhætt er að segja að mánudagur hafi verið dæmdur ranglega. Dagurinn markar upphaf nýrrar viku og á sama tíma upphaf nýrra tækifæra. Hann er táknmynd þess lögmáls að við sem manneskjur höfum alltaf val um að snúa við blaðinu. Að velja hvernig við verjum deginum í dag. Í því felst mikið vald og heilmörg tækifæri.
Þegar ég var sautján ára gömul tók ég meðvitaða ákvörðun um að gera mánudag að uppáhaldsdeginum mínum. Hversdagsleikinn skyldi ekki fá að umvefja þennan dag vikunnar, nema síður væri. Ég gerði mér far um að vera vel til fara og gera mér dagamun á mánudögum. Tilhlökkun og hátíðleiki urðu smám saman hluti af þessum einstaka degi mánudegi.
Í gegnum árin hefur ýmislegt skemmtilegt bæst á listann yfir mánudagsgjörðirnar. Um nokkurra ára skeið gerði ég mér far um að brosa til ókunnugra á mánudögum og slá fólki á förnum vegi gullhamra. Það er einstaklega gefandi iðja, sem ég mæli með að fólki prófi.
Prófaðu í dag
Nú hvet ég þig til að prófa, þó ekki sé nema í dag, að gera mánudag að uppáhaldsdeginum þínum. Smelltu uppáhaldslaginu þínu á (i)fóninn, taktu lagið, bjóddu elskunni þinni upp í dans á eldhúsgólfinu, rappaðu með barnabarninu þínu í stuttu máli: gerðu það sem vekur með þér gleði.
Var það ekki Gríslingur sem spurði Bangsimon hver uppáhaldsdagurinn hans væri og hann svaraði að bragði: Dagurinn í dag!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2015 | 11:02
Hvað skiptir þig mestu máli?
Það er nauðsynlegt að staldra við með reglulegum hætti og spyrja sig hvað skiptir mestu máli. Kjarnagildin okkar eða grunngildin ættu að vera rauður þráður í lífi okkar. Það er nauðsynlegt til að við upplifum samhljóm og hamingju. Ef við erum ekki trú okkar sannfæringu og sættum okkur við málamiðlanir, þá endurspeglast það á öllum sviðum lífs okkar.
Hamingjan í húfi
Þeir sem eru meðvitaðir um kjarnagildin sín og heiðra þau í verki með því að leyfa þeim að vera rauður þráður í lífi sínu, eru líklegri til að vera hamingjusamir. Þeir sem hins vegar eru illa áttaðir þegar kemur að gildum sínum og láta innri viðvaranir jafnvel lönd og leið, eru gjarnan ósáttir og upplifa ósamræmi í lífi sínu.
Tökum dæmi um manneskju sem hefur kjarnagildið frelsi. Setjum hana nú í mismunandi aðstæður. Í öðru tilfellinu er þessi manneskja í vinnu þar sem hún þarf að mæta á tilskildum tíma og ræður ekki verkefnum sínum sjálf. Hún hefur yfirmann sem vantreystir henni. Þessi vinna veitir henni enga fró enda er umgjörðin þannig að frelsið rúmast illa þar. Í hinu tilfellinu er þessi manneskja í gjöfulu umhverfi sem gefur henni byr undir báða vængi. Hún er sjálfstætt starfandi og verkefnafjöldinn er slíkur að hún hefur frelsi til að velja og hafna. Það er augljóst að þessi manneskja þrífst betur í síðari aðstæðunum þar sem kjarnagildið hennar, frelsi, fær notið sín.
Grunngildi fyrirtækja
Á undanförnum árum hefur færst í aukana að gildi séu skilgreind hjá fyrirtækjum og stofnunum. Heilmikill ávinningur felst í því að starfsmenn séu meðvitaðir um gildin og að þau endurspeglist í störfum þeirra. Tökum dæmi um fyrirtæki þar sem þjónustu er ábótavant og margir viðskiptavinir hafa hætt viðskiptum af þeim sökum. Með því að starfsmenn horfist í augu við raunveruleikann og endurskilgreini grunngildi fyrirtækisins, er hægt að breyta um kúrs. Nú þegar góð þjónusta er eitt af grunngildunum, leggja starfsmenn sig fram um að þjónusta við viðskiptavini sé fyrsta flokks og að þeir upplifi að þörfum þeirra sé mætt í hvívetna. Orðstír fyrirtækisins byggir á þessarri einstöku þjónustu. Uppskeran er trygglyndi viðskiptavina sem segja vinum og ættingjum fúslega frá ánægju sinni. Besta auglýsingin er oft fólgin í slíkri umsögn.
Grunngildi fjölskyldunnar
Það er skemmtileg æfing nú í byrjun sumars að setjast niður með fjölskyldunni og skilgreina gildi hennar í sameiningu. Hver meðlimur fjölskyldunnar getur sett fram sitt grunngildi og markmiðið er að á endanum séu allir sammála um eitt til þrjú gildi sem fjölskyldan hefur að leiðarljósi.
Sem dæmi má nefna fjölskyldu sem er sammála um að gildi hennar eru virðing, gleði og samstaða. Þessi gildi endurspeglast í lífi fjölskyldunnar á þann hátt að þau bera virðingu hvort fyrir öðru í orði og verki. Þau hafa gleðina að leiðarljósi á samverustundum fjölskyldunnar. Leggja sig fram um að gleðja hvort annað og deila því sem hefur glatt þau að undanförnu. Samstaðan endurspeglast í því að þau styðja hvort annað með ráði og dáð. Hjálpast að og létta undir hvort með öðru.
Hvernig endurspeglast þín gildi í þínu daglega lífi? En inni á vinnustaðnum eða í frístundum þínum með fjölskyldu eða vinum? Staldraðu við og spurðu þig hvað skiptir þig mestu máli.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2015 | 10:50
Tuttugu sekúndur af hugrekki
Nýlega lærði ég nytsamlega aðferð til að takast á við ótta. Hún byggir á þeirri hugmynd að við þurfum einungis að vera hugrökk í tuttugu sekúndur í senn til að framkvæma það sem við óttumst. Ég ætla að tileinka mér þessa aðferð til að verða hugrakkari.
Hugrakkir breyta heiminum
Brautryðjendur eru hugrakkir. Fólk sem þorir að synda á móti straumnum, hugsa öðruvísi en ríkjandi hefðir segja til um og gera hlutina á nýstárlegan hátt. Brautryðjendur eiga það einnig sameiginlegt að hlýða köllun. Þeir segjast oft eins og knúnir áfram af þörf til að koma einhverju ákveðnu til leiðar. Þeir bara verða. Merkilegt fyrirbæri í sjálfu sér og áhugavert að velta fyrir sér.
Ég er heilluð af brautryðjendum og fólki sem þorir að standa með sjálfu sér og fylgja hjartanu. Það krefst hugrekkis og jafnvel stundum fífldirfsku. Brautryðjendur eru leiðtogar sem þora að brjóta blað í sögunni.
Mér eru ofarlega í huga konurnar sem börðust fyrir kosningarétti kvenna fyrir réttri öld. Hugmyndin um að konur mættu kjósa þótti mörgum fáránleg og þær sem veittu henni brautargengi voru af sumum taldar galnar. Hundrað árum síðar finnst okkur konum sjálfsagt að fá að kjósa. Svo sjálfsagt að við leiðum sjaldnast hugann að baráttu brautryðjendanna forðum daga.
Hugrekki löggjafans
Stundum er það þannig að löggjafinn fer á undan samfélaginu á þann hátt að sett eru lög sem gera það að verkum að við verðum að skoða hug okkar og taka afstöðu. Vegna þess að ég er sérstök áhugamanneskja um hugrekki, þá er ég mjög hrifin af því þegar slíkt gerist.
Dæmi um löggjöf af þessu tagi eru lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða. Lögin tóku gildi í september 2013 eða fyrir hálfu öðru ári.
Löggjöfin um kynjakvóta var á undan almenningsálitinu. Þegar löggjöf er þannig, markar hún ákveðin tímamót og oft tekur tíma fyrir samfélagið að aðlaga sig að breyttum hugsunarhætti og breyttum háttum. Nýjustu rannsóknir hérlendis hafa sýnt að viðhorf til kynjakvóta eru jákvæðari nú en fyrir lagasetninguna.
Beitum hugrekkinu
Nú hvet ég þig lesandi góður, til að tileinka þér aðferðina sem ég minntist á í upphafi greinarinnar. Mundu að þú þarft bara tuttugu sekúndur af hugrekki. Ekki láta óttann stoppa þig. Breyttu því sem breyta þarf. Vertu leiðtogi. Vertu brautryðjandi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2015 | 11:11
Hvað er forysta?
Þessarri spurningu velti ég oft fyrir mér. Það eru til ýmsar skilgreiningar á því hvað er að vera leiðtogi og hverjir eru leiðtogar. Sitt sýnist hverjum og sérfræðingar eru ekki á einu máli. Vinsælar skilgreiningar á forystu þessi misserin eru meðal annars þjónandi forysta, leiðandi forysta og sönn forysta (e. authentic leadership). Allar þessar tegundir forystu eiga það sameiginlegt að leiðtoginn aðhyllist ekki stigveldis skipulag (e. hierarchy) heldur deilir ábyrgð með teyminu og hvetur aðra til dáða.
Fæddur leiðtogi?
Sumir eru þeirrar skoðunar að leiðtogahæfni sé meðfædd. Þeir sem eru á þessarri skoðun halda því gjarnan fram að þróun leiðtogahæfileika sé gagnslaus enda sé leiðtogahæfni sumum einfaldlega í blóð borin og öðrum ekki. Rannsóknir hafa sýnt að eðlishyggjukenningar sem þessar, tefja fyrir framþróun og standa gjarnan í veginum fyrir því að konur hljóti leiðtogastöður. Þeir hæfileikar sem eru flokkaðir sem afgerandi leiðtogahæfni hjá körlum eins og ákveðni og stefnufesta, eru þá gjarnan flokkaðir sem frekja hjá konum.
Valdeflandi forysta
Þeir sem laða fram það besta í öðrum, taka ábyrgð á sjálfum sér og efla aðra til að taka aukna ábyrgð, beita aðferðum valdeflandi forystu (e. empowered leadership). Þessi tegund leiðtogahæfni byggir á þeirri hugsun að leiðtogahæfni krefjist þess að við höfum stjórn á eigin lífi fyrst og svo verðum við fyrirmyndir og þvínæst leiðtogar.
Það krefst hugrekkis að þora að taka ábyrgð á sjálfum sér. Í bók sinni Good to Great, fjallar Jim Collins um að frábærir leiðtogar séu þeir sem hafa hugrekki til að horfast í augu við sjálfa sig þegar eitthvað bjátar á í stað þess að horfa út um gluggann í leit að sökudólgi.
Fjölbreytt forysta
Konum hefur fjölgað ört í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða eftir að lög um kynjakvóta tóku gildi 1. september 2013. Rannsóknir hafa sýnt að með tilkomu kvennanna hefur fjölbreytni aukist til muna í stjórnum.
Staðreyndin er sú að bæði karlar og konur geta verið frábærir leiðtogar. Það hefur reyndar ekkert með kyn að gera. Það hefur með viðhorf að gera og hugrekkið til að taka ábyrgð á sjálfum sér, orðum sínum og gjörðum. Frábær leiðtogi er sjálfum sér samkvæmur, leitar ráða þegar vera ber, hlustar á innsæið og þorir að viðurkenna mistök þegar við á.
Af þessu má ráða að hugrekkið til að taka ábyrgð á sjálfum sér og þora að leiða frá hjartanu getur leitt af sér aukna ábyrgð. Frábærir leiðtogar eru trúir í því litla og þess vegna er þeim oft trúað fyrir því sem stærra er.
Bloggar | Breytt 7.4.2015 kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.3.2015 | 13:49
Umbreyttu peningamálunum
Við glímum flest við einhvers konar áskoranir tengdar peningum. Við viljum gjarnan hafa meiri peninga milli handanna svo við getum gert það sem skiptir okkur máli. Hvort sem það er að fara í frí með fjölskyldu eða vinum, greiða skuldir, fjárfesta til framtíðar, eignast fallegt heimili eða eitthvað allt annað. Þrátt fyrir þennan vilja okkar til að hafa úr meiru að spila, verður oft lítið úr peningalegum áformum okkar. Ástæða þess er helst sú að við vitum ekki hvernig við eigum að fara að því að afla meira, hvað þá að halda meiru eftir af þeim peningum sem við öflum.
Mörgum þykir mjög óþægilegt að ræða um peninga. Sú tilhneiging hefur víðtæk áhrif og endurspeglast til dæmis í því að vinnuframlag fólks er mikið þó launaumslagið sé þunnt. Einnig getur þessi tilhneiging endurspeglast hjá frumkvöðlum í því að þeir eiga erfitt með að biðja um greiðslu fyrir störf sín.
En hvort sem þú ert starfsmaður hjá öðrum eða átt þinn eigin rekstur, þá er líklegt að þú upplifir ekki að þú sért við stjórnvölinn þegar peningar eru annars vegar. Þrátt fyrir að þú verðir að taka undir að peningar eru nauðsynlegur hluti af hinu daglega lífi.
Peningastreita
Ef þú ert ekki við stjórnvölinn þegar kemur að þínum peningamálum þá ert þú undir stjórn peninga. Hvernig þá? Jú, ef þú upplifir stöðuga streitu vegna þess að peningamálin eru í flækju, þá kemur sú streita í veg fyrir að þú getir aflað meiri tekna. Þessi streita kemur einnig í veg fyrir að þú getir haft yfirsýn yfir peningamálin og haft stjórn á útgjöldum og sparnaði.
Tökum dæmi um mann sem leitaði til mín og ég hjálpaði honum að ná stjórn á peningamálum sínum. Við skulum kalla hann Tómas. Hann var tekjuhár en hafði ekki yfirsýn yfir útgjöld sín. Hann upplifði að tekjur hans fuðruðu upp í hverjum einasta mánuði og undir lok mánaðarins var hann farinn að bíða eftir næstu launagreiðslu. Við fórum í gegnum Peningaumbreytinguna saman og í kjölfarið öðlaðist hann yfirsýn á útgjöld sín og fór að hafa stjórn á þeim. Hann setti sér raunhæf fjárhagsleg markmið, byrjaði að leggja fyrir og saman bjuggum við til áætlun sem gerði honum kleift að greiða niður skuldir. Hann upplifði valdeflingu tengda peningum í fyrsta skipti á ævinni.
Góðar fréttir
Peningar eru harður húsbóndi og því er mjög valdeflandi að vera við stjórnvölinn þegar kemur að peningamálunum. Ég þekki það sjálf að vera á kafi í skuldasúpunni en ég lærði að synda og náði tökum á mínum peningamálum. Ekki svo að skilja að það sé allt fullkomið hjá mér. Ónei, ég glími enn við peningaáskoranir eins og allir aðrir. En ég hef öðlast kjark til að horfast í augu við áskoranirnar og mæta þeim. Ég hef lært að nota kerfisbundnar aðferðir til að greiða niður skuldir, leggja fyrir og setja mér fjárhagsleg markmið sem standast.
Nú býð ég þér að slást í hóp þeirra sem hafa náaunhæf markmið, ka undir það . nig ðir til að greiða niður skuldir, leggja fyrir og bmfram allt annað m skiptir okkur mð árangri í peningamálunum. Ég býð þér að taka við stjórnartaumunum og verða fjárhagslegur leiðtogi í eigin lífi. Skoðaðu nýju vefsíðuna mína og kynntu þér námskeiðsúrvalið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2015 | 12:46
Fyrirtæki í eigu kvenna skipta sköpum
Forbes tímaritið hefur kallað kvenfrumkvöðla hina nýju kvennahreyfingu. Helsta ástæða þess er sú að fyrirtæki í eigu kvenna í Bandaríkjunum hafa átt stóran þátt í því að efnahagsbati þjóðarinnar hefur orðið eins mikill og raun ber vitni.
Samkvæmt staðtölum af vefsíðu Samtaka kvenna í fyrirtækjarekstri í Bandaríkjunum, voru meira en 9,1 milljón fyrirtækja í eigu kvenna þar í landi árið 2014. Þau fyrirtæki höfðu nærri 7,9 milljón manns í vinnu. Þar kemur einnig fram að konur eiga eitt af hverjum fimm fyrirtækjum með hagnað upp á milljón bandaríkjadali eða meira á ári.
Evrópuráðið stóð fyrir víðtækri samantekt á staðtölum um frumkvöðla í Evrópu árið 2012. Samantektin náði til Íslands. Niðurstöður þeirrar samantektar sýna að 11,6 milljónir kven-frumkvöðla voru að störfum í þeim 37 Evrópulöndum sem samantektin náði til, eða 30% af heildarfjölda frumkvöðla í löndunum. Af þessum 11,6 milljónum voru 22% kvennanna með starfsfólk en 78% voru einyrkjar.
Íslenskar konur
Atvinnuþátttaka íslenskra kvenna er hvað mest á byggðu bóli. Samkvæmt skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD frá árinu 2014 var hún 79,6% eða hæst meðal ríkja stofnunarinnar.
Þrátt fyrir að konur í atvinnurekstri hafi verið mjög áberandi á Íslandi, eru haldbærar opinberar staðtölur um fjölda íslenskra fyrirtækja í eigu kvenna ekki aðgengilegar eins og sakir standa. Samkvæmt upplýsingum frá Félagi kvenna í atvinnurekstri, er þó unnið að því að taka tölurnar saman en ætla má að um fimmtungur íslenskra fyrirtækja séu í eigu kvenna.
Í frelsinu felst öryggi
Af framangreindu að ráða er óhætt að segja að fjöldi kvenna ver tíma sínum í að byggja upp fyrirtæki. Alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt að konur kjósa gjarnan það öryggi og frelsi sem felst í því að reka eigið fyrirtæki.
Ein af meginstoðunum í starfsemi UN-Women í heiminum er fjárhagsleg valdefling kvenna. Helsta ástæða þess er sú að það hefur sýnt sig að í samfélögum þar sem konur fara fyrir fé, eru tækifærin fleiri en ella.
Aðeins 7% af auði jarðar er formlega í höndum kvenna. Sú staðreynd er áfall í sjálfu sér. Sér í lagi þar sem konur eru nú 52% mannkyns, samkvæmt nýjustu tölum. Á sama tíma vekur þessi staðreynd hjá mér spurningar á borð við: Hvers konar breytinga er að vænta í heiminum, nú þegar fleiri og fleiri konur gerast frumkvöðlar og upplifa fjárhagslega valdeflingu?
Fjárhagsleg valdefling kvenna
Mitt markmið er að stuðla að fjárhagslegri valdeflingu kvenna og að sífellt fleiri konur verði fjárhaglegir leiðtogar í eigin lífi.
Við glímum öll við áskoranir tengdar peningum. Þessar áskoranir eru ekki meðfæddar heldur áunnar. Sumar þeirra höfum við dragnast með í áraraðir og aðrar eru sennilega til komnar í kjölfar hrunsins. Margar hafa meira með sjálfsmynd okkar að gera en nokkuð annað en endurspeglast í peningahegðun okkar.
Góðar fréttir
Góðu fréttirnar eru þær að við getum losnað við peningaáskoranir okkar. Sumt fólk segist ekki vilja breytingar en það baðar sig þó daglega og skiptir um föt, svo hvers vegna ekki að skipta um peningahugmyndir og losna þannig við áskoranir tengdar peningum?
Þeir sem ég vinn með og fer með í gegnum Peningabyltinguna, losna við úreltar peningahygmyndir og þróa með sér nýtt viðhorf. Þetta fólk upplifir sannkallaða byltingu sem endurspeglast í breyttri peningahegðun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2015 | 12:00
Íkorninn og hnetan
Nýlega var ég á ferðalagi á fjarlægum slóðum. Daginn sem heimferðin var ráðgerð, kom bílstjóri og sótti mig á hótelið, því ég hafði pantað akstur út á flugvöll. Fljótlega eftir að við lögðum af stað, varð mér ljóst að bílstjórinn var einstakur maður. Við ræddum þá staðreynd að við erum sköpuð með tvö eyru og einn munn. Við ályktuðum að helsta ástæða þess sé sú að okkur er ætlað að hlusta meira en við tölum.
Hann sagði mér að strax sem ungur maður hefði hann áttað sig á að lífið er gjöf. Hann hafði frá mörgu að segja og ég er góður hlustandi. Meðal þess sem hann deildi með mér var dæmisaga sem var á þessa leið.
Sagan af íkornanum og hnetunni
Ár hvert safnar íkorninn hnetum svo hann eigi forða fyrir veturinn. Flestum þeirra safnar hann saman í haug en aðrar felur hann. Sumar þeirra sem hann felur, finnur hann aftur en öðrum gleymir hann. Veturinn kemur og fer og íkornann skortir ekkert því hann hefur lagt á ráðin og safnað sér forða.
Víkur þá sögunni að þeim hnetum sem íkorninn hefur gleymt. Sumar þeirra skjóta rótum og með tímanum vaxa tré og trén bera ávöxt.
Uppskera komandi kynslóða
Spurningin er sú, hver á hneturnar sem vaxa á trjánum sem uxu er hneturnar sem íkorninn gleymdi, skutu rótum? Er það íkorninn sem gleymdi hnetununum? Nei, það eru komandi kynslóðir, sagði bílstjórinn góði og kímdi.
Oft eru íkornarnir hyggnari en við mennirnir, bætti hann við íbygginn. Við áttum okkur ekki á mikilvægi þess að safna byrgðum fyrir veturinn. Þá verður ekkert til fyrir komandi kynslóðir.
Lærdómur
Hér á landi skortir hefð fyrir langtíma fjárfestingum, öðrum en lögbundnum lífeyrissjóðsgreiðslum og fasteignakaupum. Fjármálahegðun ræðst oft meira af vana og hugsunarleysi en ráðdeild og framtíðarhugsun. Eitt ráð til að snúa við fjármálunum er að byrja á að heiðra sjálfan sig með því að leggja fyrir. Eins og íkorninn gerir. Prófaðu að fela nokkrar hnetur og sjáðu hvað gerist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2015 | 15:06
Peningabyltingin
Ég er ein þeirra næstum 10.000 Íslendinga sem hafa flutt til Noregs á undanförnum árum. Það var skömmu eftir komuna til Noregs, ríkasta lands Evrópu, að ég áttaði mig á að peningaleg staða fólks ákvarðast fyrst og fremst af hugmyndum þess um peninga. Nú veit ég að sumir lesendur andvarpa, aðrir ranghvolfa augunum og enn aðrir geta ekki látið ógert að andmæla upphátt. En ef þú hefur hugrekki til að lesa áfram, muntu komast að því að viðbrögð þín stjórnast af þínum eigin hugmyndum um peninga.
Nýtt land gamlar hugmyndir
Hugmyndir hafa áhrif á hegðun og hegðun endurspeglar útkomu. Þetta reyndi ég á eigin skinni, því viti menn, hugmyndir mínar um peninga breyttust ekki við það eitt að flytjast til Noregs. Hinsvegar urðu flutningarnir til þess að ég áttaði mig á að þrátt fyrir að ég væri komin til fyrirheitna landsins, sat ég enn uppi með gömlu peningahugmyndirnar mínar. Það sem ég neyddist til að horfast í augu við, var að til þess að útkoman breyttist yrði ég að byrja innan frá. Nefnilega í hugmyndabankanum. Þar geymum við ýmsar hugmyndir sem eiga rætur að rekja til uppeldis okkar, menningar sem við höfum tilheyrt og reynslu okkar. Sígildar hugmyndir eins og: margur verður af aurum api og peningar vaxa ekki á trjám þjóna þeim tilgangi einum að viðhalda því munstri sem er til staðar í lífi okkar í dag.
Peningabyltingin
Mín peningabylting hófst á því að ég öðlaðist hugrekki til að horfast í augu við sjálfa mig og munstrið sem var endurspeglun minna eigin peningahugmynda. Það var sönn kúvending og líf mitt tók stakkaskiptum í kjölfarið.
Umbreytingin varð slík að ég tók ákvörðun um að deila reynslu minni með öðrum. Enda áttaði ég mig fljótlega á því að við glímum öll við áskoranir tengdar peningum sama hvort við eigum lítið af þeim eða mikið af þeim.
Við glímum öll við einhvað tengt peningum. Sama hvort við þénum mikið, eyðum litlu eða liggjum andvaka af peningaáhyggjum. Þessar áskoranir endurspeglast á öðrum sviðum lífs okkar. Fiðrilaáhrifin verða því stórkostleg á öllum sviðum þegar við öðlumst hugrekki til að takast á við þær.
Fljótlega ætla ég að bjóða þér að taka þátt í peningabyltingunni. Ég ætla að bjóða þér að horfast í augu við óttann. Losa þig við peningahugmyndir sem þjóna ekki lengur tilgangi í lífi þínu og kenna þér að nota tæki og tól til að takst á við nýja tímabilið sem er að hefjast í lífi þínu. Viltu taka þátt í peningabyltingunni?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2015 | 11:20
Peningar hafa aldrei verið vandamál í mínu lífi...
Einn af mínum fyrstu vinnuveitendum sagði oft: Peningar hafa aldrei verið vandamál í mínu lífi en peningaleysi hefur hins vegar oft komið sér illa. Orð hans eru lýsandi um viðhorf landans til þess að ræða peningamál. Haltu þessu fyrir þig er viðkvæðið, hvort sem fólk á meira en nóg eða hvorki í sig né á.
Halda peningaáhyggjurnar fyrir þér vöku?
Hefurðu legið andvaka og horft á vekjaraklukkuna silast áfram meðan peningaáhyggjurnar vaxa eins og arfi innra með þér? Fjölmargir eru í þessarri stöðu en þegja um það þunnu hljóði. Enda ekki til siðs að ræða peningamál sín opinberlega. Ég þekki dæmi þess að fólk hafi þekkst í fjölda ára og umgengist töluvert án þess að hafa nokkru sinni rætt sín persónulegu peningamál. Hins vegar má auðvitað ræða fjármál hins opinbera og skuldavanda heimilanna. Bara ekki um einstaklingana sem búa inni á þessum heimilum þar sem skuldavandinn ríkir. Þar setjum við mörkin!
Kominn tími til að skipta út hugmyndum
Efnahagshrunið hafði áhrif á okkur öll á einn eða annan hátt. Við erum jú hluti af þessu samfélagi. Það sem við þurfum að horfast í augu við er að við sitjum uppi með peningahugmyndir sem margar hverjar nýtast okkur illa eða jafnvel alls ekki. Hvernig þá? Jú, við hrunið varð til flokkunarkerfi sem er við lýði enn í dag. Það var óráðsíufólkið sem hafði farið offari í neyslu í góðærinu. Svo voru það hinir skynsömu sem höfðu fundið á sér að eitthvað gruggugt var á seiði og tekið út allan sparnað fyrir hrun svo þau töpuðu engu. Svo voru það þeir sem voru með erlendu lánin. Hinir sem fluttu til útlanda strax eftir hrun og vildu ekki taka þátt í uppbyggingunni og svo framvegis. Hvort sem þú skilgreinir þig sem hluta af einhverjum þessarra hópa eður ei, þá sitjum við öll uppi með einhvers konar peningahugmyndir eftir hrunið.
Ný hugsun ný útkoma
Það hefur sýnt sig að hugsun okkar hefur áhrif á tilfinningar og líðan okkar hefur áhrif á gjörðir okkar. Samlegðaráhrifin koma svo fram í þeirri útkomu sem við sjáum í lífi okkar. Fjárhagsleg heilsa okkar helst í hendur við andlega og líkamlega heilsu okkar.
Þeir sem fara í gegnum markþjálfunarnámskeið hjá mér, upplifa mikinn létti þegar gamlar og íþyngjandi peningahugmyndir fá að víkja fyrir nýjum.
Nú er kominn tími til að endurskoða þínar peningahugmyndir og að losa sig við þær sem þjóna ekki lengur tilgangi í lífi þínu. Í mars ætla ég að bjóða námskeið þar sem tilgangurinn verður að losna undan peningahugmyndum fortíðar og taka upp nýjar og valdeflandi hugmyndir sem stuðla að fjárhagslegu heilbrigði. Það er einlæg trú mín að allir hafi burði til að verða góðir í peningamálum. En allar breytingar hefjast innra með okkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
- Desember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Maí 2020
- Desember 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Maí 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015