12.10.2020 | 12:31
Sjö ráð til að temja sér jákvæðni á tímum kórónaveirunnar
Yfirskrift pistilsins kann að orka tvímælis en eins og Eleanor H. Porter benti á í bókinni um Pollýönnu, getum við alltaf fundið eitthvað til að gleðjast yfir óháð aðstæðum. Tilvísunin í Pollýönnu á rétt á sér enda voru aðstæður Pollýönnu allt annað en ákjósanlegar og skilaboð bókarinnar eiga því vel við. Hér á eftir koma sjö ráð handa þeim sem vilja temja sér jákvæðni á þessum sérkennilegu tímum þar sem daglegt líf flestra er gjörbreytt.
- Farðu að hlæja
Nýlega heyrði ég viðtal við uppistandarann og leikkonuna Tiffany Haddish sem lýsti því yfir að hlátur væri nudd fyrir líffærin. Einnig hefur verið sýnt fram á að hlátur dregur úr streitu. Rannsóknir sýna jafnframt að þegar við lyftum munnvikunum, byrjar líkaminn að framleiða gleðihormón. Svo ef þér er ekki hlátur í huga geturðu byrjað á að þvinga fram bros og áður en langt um líður ferðu að öllum líkindum að hlæja.
Fyrsta ráðið er: Farðu að hlæja að minnsta kosti einu sinni á dag. Horfðu á fyndið myndskeið. Talaðu við skemmtilegan vin eða fjölskyldumeðlim. Lestu brandarabók eða hugsaðu um eitthvað sem þér þykir spaugilegt. Ef þú deilir heimili með öðrum, geturðu einnig deilt gleðinni með nærstöddum.
- Gerðu vinnudaginn skemmtilegri
Nú þegar margir vinna heima og félagsleg samskipti eru takmörkuð er ágætt að spyrja sig eftirfarandi spurninga: Hvernig getur vinnudagurinn orðið skemmtilegri? Hvað veitir okkur ánægju í dagsins önn? Hvernig getum við sett mörk þannig að við finnum þennan gullna meðalveg milli vinnu og einkalífs, svefns og vöku, virkni og hvíldar?
- Slakaðu á
Langvarandi streita getur leitt til kulnunar. Þrátt fyrir að þetta séu alls ekki nýjar fréttir er staðreyndin sú að fjöldi fólks er undir miklu álagi. Margir eru einnig háðir því að hafa nóg að gera, enda er það hin æðsta dyggð íslensks samfélags. (Ég byggi þessa skoðun mína á óvísindalegri þátttökukönnun sem felst í fjölda skipta sem ég er spurð og heyri aðra vera spurðir að því hvort ekki sé alltaf nóg að gera.)
Ráð númer þrjú er: Reyndu að slaka á inn á milli. Gerðu slökunaræfingar, hlustaðu á slökunartónlist eða leggðu þig í smá stund.
- Veldu orð þín vel
Orðaval okkar endurspeglar oft líðan okkar. Notum við orðalag eins og: Ég þarf að... Ég verð að fara að... Ég ætti nú að...
Mér finnst ágætis æfing að fylgjast með eigin orðræðu og veita orðum mínum athygli.
Hvað segi ég við sjálfa mig og jafnvel upphátt um sjálfa mig? Þetta getur verið mjög lærdómsríkt ferli auk þess sem þarna liggja oft tækifæri til breytinga.
Ráð númer fjögur er: Veldu orð þín af kostgæfni og reyndu að tileinka þér jákvætt orðfæri.
- Auðsýndu þakklæti
Á tímum sem þessum er auðvelt að gleyma því sem gott er. Nú er þó enn mikilvægara en ella að auðsýna þakklæti fyrir það góða í lífi okkar. Hvað getur þú þakkað fyrir?
Ráð númer fimm er: Skrifaðu þakklætislista og mundu eftir að þakka fólkinu í kringum þig. Þetta á við bæði um vinnufélaga, viðskiptavini, fjölskyldumeðlimi og vini.
- Sjáðu breytingar sem jákvæðar
Breytingar hafa afar slæmt orð á sér. Margir upplifa að breytingar séu erfiðar og að þær beri að forðast. En í rauninni er það svo að það eina sem er víst er að allt breytist.
Á tímum kórónaveirunnar hafa velflestir þurft að gera breytingar á daglegu lífi sínu. Ráð númer sex er því: Skoðaðu líf þitt og taktu eftir hvaða breytingar eru til hins betra. Hvaða breytingar eru tímabundnar og hverju viltu breyta til frambúðar?
- Vertu jákvæð fyrirmynd
Margir hugsa um fyrirmyndir sem ákveðinn hóp fólks, eins og til dæmis afreksíþróttafólk. Staðreyndin er þó sú að flest nefnum við fólk sem við þekkjum vel þegar við erum beðin að lýsa fyrirmyndum okkar. Þá koma okkur nánir ættingjar eða samstarfsfólk gjarnan til hugar.
Ráð númer sjö: Vertu jákvæð fyrirmynd fyrir fólkið í kringum þig. Áhrif þín eru meiri en þig grunar. Eða eins og Gandhi sagði: Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum.
Eldri færslur
- Desember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Maí 2020
- Desember 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Maí 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
Af mbl.is
Erlent
- 30% landsmanna hafa miklar áhyggjur af tollum Trumps
- Einstaklega heimskuleg ákvörðun
- Spánverjar útiloka netárás á raforkukerfið
- 22 fórust í eldsvoða á veitingahúsi
- Segja orsökina liggja í sólar- og vindorku
- Stórbruni í London
- Rafmagn komið aftur á flestum stöðum á Spáni og Portúgal
- Frjálslyndi flokkurinn sigurvegari kosninganna
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.