Leita í fréttum mbl.is

Hver er þín afsökun?

Kannastu við að hafa sagt setningar á borð við þessar: „Ég mundi vilja gera þetta en ég hef ekki tíma.“ eða „Mig langar en ég hef bara ekki efni á því“.

Flest notum við svona afsakanir án þess að velta því fyrir okkur. Notkun þeirra er svo algeng að fæstir setja við þær spurningamerki. Ef betur er að gáð, liggur þó meira að baki.

 

Vald og ábyrgð

Ættum við ekki að gefa okkur tíma til að gera það sem er okkur mikilvægt og forgangsraða fjármálunum þannig að við getum upplifað það sem við þráum mest í lífinu?

Jú sennilega getum við flest tekið undir að svo eigi að vera. Engu að síður verðum við oft þeim vana að bráð að notast við afsakanir.

Þegar við tökum ábyrgð á lífi okkar og ákvörðunum, þá gætu ofangreindar setningar verið á þessa leið: „Mér finnst þetta sniðugt en ætla að verja tíma mínum í annað.“ og „Mig langar þetta ekki nægilega til að ákveða að forgangsraða fjármálunum þannig að ég geti gert þetta“.

Athugið að ég er ekki aðeins að vísa til afsakana sem við segjum upphátt heldur líka til þeirra sem við notum í innri samræðum við okkur sjálf.

 

Stattu með þér!

Þegar við tökum okkur það vald í eigin lífi að bera ábyrgð á okkur sjálfum, þá eflumst við og upplifun okkar á lífinu verður önnur.

Það er magnað að samfara aukinni sjálfsábyrgð, minnkar einnig þörf okkar til að hafa skoðun á lífi annarra. Við eigum auðveldara með að sleppa tökunum á öðrum, án þess þó að missa hæfileikann til að finna til með öðrum eða vera til staðar fyrir þá sem þurfa á hjálp að halda. Við verðum frjálsari í því að standa með okkur og setja heilbrigð mörk.

Aukin sjálfsábyrgð gerir það líka að verkum að við eigum auðveldara með að fara í gegnum daginn án þess að láta stjórnast af því sem verður á vegi okkar.

Það gerir lífið mun skemmtilegra!

 

Að taka pláss

Að leyfa sér að taka pláss, án þess að finnast maður þurfa að afsaka sig í sífellu, getur verið stærsta verkefni lífsins.

Fyrsta skrefið er að hlusta á afsakanirnar sem við búum til innra með okkur og jafnframt þær sem við látum útúr okkur. Næsta skrefið er að hætta að afsaka sig.

Leyfum okkur það og verum þannig fyrirmyndir hvert fyrir annað. Tökum pláss og leyfum öðrum að njóta sín á eigin forsendum!


Hvernig er samband þitt við peninga?

Samband hvers og eins okkar við peninga stjórnast að miklu leyti af því sem ég kalla peninga DNA. Það eru þræðir innra með okkur, sem eiga rætur í uppeldi okkar og peningasögu. Þessir þræðir stýra upplifunum okkar og væntingum, án þess þó að við séum almennt meðvituð um þá.

Kostir þess að kynnast peninga DNA-inu sínu eru ótvíræðir. Aukin sjálfsþekking er alltaf til góðs og veitir okkur tækifæri til að horfast í augu við sjálf okkur eins og við erum. Með skilninginn að vopni, getum við breytt til hins betra.

 

Stjórna peningar lífi þínu?

Hvort sem okkur líkar betur eða verr, ráðast velflestar ákvarðanir okkar af fjárhagsstöðu á einn eða annan hátt. Margir eru fastir í vinnu sem þeim leiðist, eingöngu vegna þess að fjárhagslegar skuldbindingar gera það að verkum að þeir upplifa að eiga sér ekki undankomu auðið. Aðrir láta peningaleysi koma í veg fyrir að þeir láti drauma sína rætast.

Góðar hugmyndir hljóta sjaldan brautargengi nema fjármagn sé fyrir hendi. Svo já, peningar stjórna lífi okkar með einum eða öðrum hætti alla daga. Þess vegna er miklu betra að eiga gott samband við peninga heldur en slæmt samband.

 

Innri átök um peninga

Dæmi um innri átök tengd peningum getur verið hjá einstaklingi sem hefur náð að safna varasjóði og svo koma upp aðstæður þar sem gengur á sjóðinn eða hann tæmist. Þá getur jafnvel komið fram sektarkennd og innri vanmáttarkennd sem birtist í því að viðkomandi dæmir sig hart fyrir að haldast ekki á peningunum sem lagðir höfðu verið til hliðar.

Annað dæmi um innri átök getur verið af einstaklingi sem finnst aldrei vera nóg. Viðkomandi skorar því á sjálfan sig í sífellu að ná nýjum fjárhagslegum hæðum en á sama tíma óttast hann að missa tökin á peningunum. Hann óttast einnig að missa tökin á þeim völdum sem fylgja umsvifunum og þeirri ímynd sem tengist þeim.

Enn annað dæmi um innri átök tengd peningum getur verið af einstaklingi sem kaupir hluti til að upplifa gleði og vellíðan. Viðkomandi sér engan tilgang með því að spara, þar sem peningar eru til að njóta þeirra. Átökin myndast þegar viðkomandi þarf að breyta peningahegðun sinni – gjarnan vegna þrýstings frá öðrum.

 

Fjárhagsleg valdefling í febrúar

Rannsóknir hafa sýnt að við glímum öll við einhverjar áskoranir tengdar peningum. Það er staðreynd sem er óháð innkomu og fjárhag, þrátt fyrir að áskoranirnar séu mismunandi.

Þann 11. febrúar ætla ég að halda vinnustofu fyrir frumkvöðla og stjórnendur. Þar gefst þátttakendum tækifæri til að skoða samband sitt við peninga. Kynnast styrkleikum sínum og læra að byggja á þeim en einnig að horfast í augu við áskoranir og uppgötva leiðir til að takast á við þær.

 

Vinnustofan – Uppgötvaðu þitt peninga DNA er fyrir þig ef þú:

  • Vilt læra hvernig þú getur leyst fjármála-áskoranir í eigin lífi og þær sem koma upp í vinnunni.
  • Þú hefur fengið nóg af innri togstreitu sem tengist peningum.
  • Þig þyrstir í að umbreyta sambandi þínu við peninga.
  • Þú vilt læra hvernig þú getur beitt innsæinu til að ná árangri á fjármálasviðinu.

 

Virkar þetta?

En hvernig get ég staðhæft að samband þitt við peninga kemur til með að breytast? Það er vegna þess að ég hélt að ég hefði reynt allt sem hægt væri að reyna til að bæta samband mitt við peninga.

En þegar ég uppgötvaði peninga DNA-ið mitt og lærði að byggja á þeim styrkleikum sem ég hef, varð umbreytingin sem ég hafði þráð.

Mig langar að deila með þér því sem ég hef lært og bjóða þér að taka þátt í vinnustofunni í Tveimur heimum, laugardaginn 11. febrúar.

Þar færðu tækifæri til að kynnast þínu peninga DNA-i sem mun varpa nýju ljósi á samband þitt við peninga og opna dyr að nýjum heimi.

Þetta verður lítill hópur, svo þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að bera peningamál þín á torg, þar sem fullur trúnaður mun ríkja.

Það gerir hins vegar að verkum að þú þarft að hafa hraðar hendur ef þú vilt tryggja þér eitt af þeim fáu sætum sem eru í boði.

Svo endilega skráðu þig núna og ég hlakka til að hitta þig laugardaginn 11. febrúar – þegar nýr kafli í lífi þínu mun hefjast.

 

Nánari upplýsingar um vinnustofuna er að finna hér:


Föstudagurinn þrettándi og fjármálin

Shakespeare skrifar í Hamlet að ekkert sé í raun gott eða vont - aðeins hugsun geti gert það annað hvort. Föstudagurinn þrettándi er gott dæmi um slíkt.

Dagurinn í dag getur einkennst af varkárni fyrir þann sem býst við hinu versta. Eða hann getur orðið besti dagur lífs þíns. Nú eða bara venjulegur föstudagur. Það er algjörlega undir þér komið.

Það sama á við hvar sem ber niður í lífi okkar allra. Það eru undir okkur sjálfum komið hvernig samskipti við eigum. Hvernig viðmót okkar er og hvernig líðan okkar er.

Það er einnig undir okkur sjálfum komið hvernig fjármálin okkar eru. Ef þau eru í ólestri, þá er það í okkar eigin höndum að bæta úr því.

 

Ósamstillt tríó

Eins og þeir þekkja sem hafa sungið í kór, er afar æskilegt að allir syngi í sömu tóntegund ef vel á að vera.

Sumir upplifa innri togstreitu varðandi peninga. Næstum eins og tvær eða þrjár raddir syngi hver í sinni tóntegund þegar peninga ber á góma.

Þegar innri togstreitu gætir varðandi peninga er ástæðan sú að peninga DNA-ið okkar er samsett úr þremur mismunandi peningapersónugerðum sem eru ósammála í grundvallarafstöðu sinni til peninga.

Eitt dæmi um slíkt tríó gæti verið ein sem vill leggja fyrir til að eiga varasjóð ef eitthvað kemur uppá. Önnur vill eyða í það sem þeirri fyrstu finnst óþarfi . Sú þriðja vill gjarnan gefa í hjálparstarf eða fjármagna góða hugmynd sem gæti minnkað losun koltvísýrings til mikilla muna.

 

Valið er þitt

En víkjum aftur að muninum á heppni, óheppni og vali. Það er algengt að blanda hugtökunum heppni og óheppni í jöfnuna þegar peningar eru annars vegar.

Samband okkar við peninga helgast hins vegar hvorki af heppni né óheppni. Við getum valið að skoða samband okkar við peninga ef við viljum breyta því.

 

Taktu ákvörðun

Sjálfsþekking er mikils virði. Að þekkja styrkleika sína og veikleika þegar peningar eru annars vegar. Að þekkja peninga DNA-ið sitt.

Það er einnig mikilst virði að öðlast smá húmor fyrir sjálfum sér og geta skorað á sig á heilbrigðan hátt að ná peningamarkmiðum sínum.

Fjármál þurfa ekki að vera leiðinleg. Þau geta meira að segja verið mjög skemmtileg!

Taktu ákvörðun um hvort þú vilt vera fjárhagslegur leiðtogi í eigin lífi eða hvort þú vilt láta stjórnast af heppni og óheppni í fjármálum hverju sinni. Þitt er valið.


Ertu klár fyrir nýtt ár?

Um áramót er tilvalið að líta yfir farinn veg. Rifja upp góðar minningar. Halda upp á það sem fór vel og draga lærdóm af því sem betur mátti fara.

 

Aldrei það kemur til baka

Sum ár eru þannig að við kveðjum þau með feiginleik.Þá hefur svo margt gengið á að við fögnum nýju ári sem birtingarmynd nýrra tíma.

Önnur ár kveðjum við með söknuði þess sem misst hefur ástvin. Þá lítum við til baka og minnumst þeirra daga sem við nutum.

En önnur ár upplifum við jafnvel að lífið hafi gengið sinn vanagang. Tíðindalítið. Eða eins og Valdimar Briem orti: „Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá, það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá.“

 

Gerum upp árið 2016

Hvað svo sem árið bar í skauti sér í þínu lífi, þá er kominn tími til að gera það upp. Það er nefnilega gott að staldra við áður en þú leggur drög að því sem koma skal á nýju ári.

Ég setti saman nokkrar spurningar til að hjálpa þér. Ég legg til að þú finnir blað og takir fram skriffæri. Það gefur góða raun að gera ársuppgjörið í höndunum.

  1. Farðu yfir með hvaða hætti þú hefur fjárfest tíma þínum, orku og peningum á árinu. Stundum reynist raunveruleikinn frábrugðinn því sem við ætluðum okkur.
  •  Hvað tók mest pláss í dagatalinu?
  •  Í hverju fjárfestirðu í ár?
  1. Berðu kennsl á og haltu upp á það sem þú hefur afrekað. Jafnvel þó þér virðist það smávægilegt. Okkur hættir til að líta framhjá framförum okkar.
  • Hverjir voru þínir stærstu sigrar á þessu ári?
  • Hvað geturðu þakkað fyrir?
  • Í hverju tókstu áhættu?
  • Hvaða verkefni hafa mesta þýðingu?
  • Hvaða verkefnum laukstu ekki á þessu ári?
  • Hvað er það sem þú gleðst yfir að hafa áorkað?
  1. Komdu auga á það sem þú getur lært af reynslunni og hvernig þú getur nýtt þér þann lærdóm á komandi ári. Reynslan er besti kennarinn ef við nýtum hana okkur til góðs.
  • Hvaða orð eða setning lýsir best reynslu þinni á þessu ári?
  • Hvað lærðirðu í tengslum við fyrirtækið þitt eða frama þinn á þessu ári?

 

Markmið fyrir 2017

Nú þegar þú hefur gert upp það sem er liðið, er kominn tími til að leggja drög að því sem þú ætlar þér á nýju ári.

Eins og flestir vita er munur á markmiðum og áramótaheitum. Munurinn er sá að markmiðum þarf að fylgja tímasett framkvæmdaáætlun. Áramótaheitum er hins vegar oft fleygt fram án þess að þeim fylgi sú alvara sem þurfa þykir til að þeim verði framfylgt. Rannsóknir hafa sýnt að örfáir standa við áramótaheit en hins vegar eru 95% líkur á að þú náir markmiðum þínum ef þú setur þau fram á þann hátt sem ég ætla að deila hér á eftir.

 

Markmiðasetning sem virkar

Napoleon Hill, sagði að markmið væru draumar með tímafresti. En það er einmitt tímafresturinn sem greinir á milli drauma og markmiða.

Vissir þú að aðeins um 5% fólks skrifar niður markmiðin sín og gerir áætlun um að fylgja eftir draumum sínum? Hver sem ástæða þess kann að vera, er þér ekkert til fyrirstöðu. Það er nefnilega gott að vera í þeim minnihlutahópi sem skrifar niður markmiðin sín og hrindir þeim í framkvæmd.

 

Svona seturðu þér markmið skref fyrir skref: 

  1. Skilgreindu markmiðið? Hafðu nákvæmnina að leiðarljósi.
  2. Hvað er það fyrsta sem þú þarft að gera?
  3. Brjóttu markmiðið niður skref fyrir skref. Það reynist auðveldara að fylgja því eftir þannig.
  4. Gerðu markmiðið þitt mælanlegt (hversu mikið, hversu margir osfrv.)
  5. Hvernig muntu geta náð markmiðinu þínu?
  6. Þarftu utanaðkomandi stuðning til að ná markmiðinu þínu?
  7. Hvenær verður markmiðið orðið að veruleika? (dagsetning og ártal) 

 

Eitt ráð að lokum. Þegar markmiðasetning er annars vegar er gott að hafa í huga að ferðalagið er jafn mikilvægt og áfangastaðurinn. Mundu eftir að fagna áfangasigrunum og njóta hvers einasta dags.

Gangi þér vel og gleðilegt nýtt ár!

 

 

 


Tæmist buddan á aðventunni?

Er líða fer að jólum bresta ýmsar varnir. Peningahegðun okkar kemur þá berlega í ljós og sumir upplifa jafnvel að fara örlítið framúr sér.

Hvort sem jólaútgáfan af okkur er ofurskipulögð og útsjónasöm - utangátta á síðustu stundu eða einhverstaðar þar á milli, þá er þetta sú árstíð sem peningar koma hvað mest við sögu. Gjafakaup, jólaföt, hátíðarmatur, jólahlaðborð, jólatónleikar, áramótagleði, nýársgleði, flugeldar og þar fram eftir götunum. Kröfur samfélagsins eru miklar og því er rík ástæða til að staldra við á þessum tíma árs.

Að setja sjálfum sér mörk

Það er áhugavert að skoða mörk í samhengi við peninga og þá sér í lagi á þessum árstíma, þegar buddan tæmist hraðar en ella.

Það getur verið flókið að setja mörk. Sumum reynist það næstum óyfirstíganleg aflraun á meðan aðrir setja jafnvel of stíf mörk. Sumir eru mjög meðvitaðir um mörkin sín – eða skort á mörkum. En aðrir velta þeim lítið sem ekkert fyrir sér. Þó eru það mörkin okkar sem skilgreina okkur sem persónur á margan hátt.

Hvaða jólatýpa ert þú?

Hver og ein peningapersónugerð eða erkitýpa hefur sínar peningaáskoranir. Að sama skapi má segja að gjafir hverrar og einnar týpu hafi ákveðið fram að færa um jólin.

Ég ætla að fara í gegnum persónugerðirnar átta og deila með ykkur því sem þær hafa fram að færa um jólin – auk þess sem ég ætla að koma með nokkur ráð fyrir hverja og eina þeirra sem gott er að hafa í huga á aðventunni.

Rómantíkerinn – laðar fram fegurð jólanna

Rómantíkerinn elskar jólin því hún elskar að njóta lífsins. Áskorunin felst í því að Rómantíkerinn á það til að eyða miklum peningum um jólin og þar er hvergi til sparað!

Ég trúi því að Rómantíkerinn dragi fram fegurðina í heiminum og það veit sá sem allt veit að heimurinn þarf á því að halda um þessar mundir. Við þurfum reyndar á því að halda allt árið um kring, svo Rómantíkerar, vinsamlega ekki fara framúr ykkur fjárhagslega.

Finndu út upphæð sem þú veist að þú hefur tök á að eyða og notaðu svo einstaka hæfileika þína til að undirbúa fögur jól fyrir þig og þá sem þú elskar. Skoraðu á þig að finna stórkostlegar gjafir en haltu þig við fjárhagsáætlunina. Best væri ef þú ættir smá afgang. Smávegis sjóð til að hefja nýja árið með.

Nærandinn – kærleiksboðberi jólanna

Allar peningapersónugerðirnar eru einhvers konar kærleiksboðberar jólanna en jólin eru mjög sérstakur tími fyrir Nærandann. Um hátíðarnar hefur Nærandinn fullkomna ástæðu til að leyfa sér að dekra við fólkið sem hann elskar. Áskorunin er sú að Nærandinn á það til að fara yfir strikið. Eyða of miklu í gjafir og mat og hlaupa svo um til að hjálpa öðrum, jafnvel óumbeðinn. Nærandinn getur átt það til að verja síðustu dögum ársins í að vera þreyttur, í skuld og fullur af eftirsjá.

Að útbúa fjárhagsáætlun fyrir jólin og standa við hana er mjög hjálplegt. Finndu út upphæðina sem þú ræður við að eyða og haltu þig við hana.

Og anna, hvernig ætlar þú Nærandi góður að næra sjálfan þig um jólin? Hvaða gjöf ætlarðu að gefa þér? Heimurinn þarf á gjöfum þínum og umhyggju að halda. Taktu því tíma til að næra sjálfan þig og byggja þig upp fyrir nýja árið.

Safnarinn – færir okkur jólasjóðinn

Það er óþarfi að leggja það til við Safnarann að hann búi til fjárhagsáætlun fyrir jólin. Þú hefur sennilega búið til fjárhagsáætlun í september. Áskorunin fyrir Safnarann er að njóta þess að eyða peningunum sem þú hefur ákveðið að eyða í jólin. Jólin geta valdið Safnaranum kvíða því þrátt fyrir að þú sért með fjárhagsáætlun, getur verið stressandi að stíga skrefið og eyða peningunum.

Í stað þess að upplifa streitu þegar upphæðin sem er ætluð til jóla fer minnkandi, geturðu beint sjónum að því í hvað peningarnir fara, nefnilega í að gleðja aðra. Safnarar bera virkilega virðingu fyrir krafti peninga og ég trúi því að þeir spili lykilhlutverk í að breyta orku peninga í framtíðinni. Beindu sjónum að gjöfunum sem þú verð peningum í að kaupa til að gleðja þá sem þú elskar.

Frumkvöðullinn – færir okkur jólastuðið

Frumkvöðlar elska að taka áhættu og á jólum get ég ímyndað mér að það þýði að kaupa gjafir á síðustu stundu og þá oft sérkennilegar gjafir. Þetta mynstur hefur í för með sér að þeir eiga það til að eyða allt of miklu í gjafir sem viðtakendur kunna jafnvel ekki að meta, þrátt fyrir að þær séu minnistæðar.

Frumkvöðullinn er innri uppreisnarseggurinn með málstað og jólin með öllum sínum hefðum geta virkað leiðinleg fyrir hinn nýjungagjarna Frumkvöðul. Það sem kemur helst til Frumkvöðulsins er annað hvort að tékka sig út eða að hrista duglega upp í hlutunum. Hvorugur valkosturinn er auðveldur fyrir fólkið sem þú elskar.

Við þurfum öll á stuðinu að halda sem Frumkvöðullinn getur fært jólunum með hvatvísi sinni. Svo hvers vegna ekki að setja þér mörk kæri Frumkvöðull og gefa þér einn dag til að finna skynsamlegar gjafir fyrir þá sem þú elskar. Ég skora á þig!

Tengiliðurinn – sameinar fólk á jólunum

Tengiliðurinn elskar jólin. Næg tækifæri til að tengja saman fólk og góð afsökun til að þurfa ekki að hugsa um peninga. Það eru jól, ekki satt? Jú, það eru jól en við vitum öll að það kemur janúar þegar hátíðinni lýkur og það getur verið mjög óþægilegur tími ef þú hefur farið framúr þér í eyðslunni.

Fjárhagsáætlun hjálpar Tengiliðnum að vera við stjórnvölinn. Þrátt fyrir að það geti reynst erfitt að búa hana til, hvað þá að fylgja henni eftir. Þó Tengiliðir séu sérdeilis tengdir fólki eru þeir minnst tengdir peningum af öllum peningapersónugerðunum. Það felst einstakt tækifæri til valdeflingar í því að bæta sambandið við peninga.

Með öðrum orðum: þeim mun betur sem þér fer að líða með peninga, þeim mun fleira fólk geturðu sameinað. Þetta er í raun himneskt orsakasamhengi. Að búa til og standa við fjárhagsáætlun er því stórkostleg gjöf, ekki bara til þín heldur til allra í lífi þínu.

Dægurstjarnan – færir okkur jólafögnuðinn

Dægurstjörnur njóta sín um jólin. Á jólum gefst tækifæri til raunverulegrar sviðsetningar. Tilkomumiklar skreytingar, stórkostlegar gjafir og glæsilegur fatnaður. Jólin bjóða svo sannarlega upp á að öllu sé tjaldað til.

Jafnvel öguðustu Dægurstjörnur eiga það til að eyða of miklu og þá oft á síðustu stundu. Dægurstjarnan sér oft eftir þessarri hvatvísi og þá sérstaklega í janúar þegar þarf að gera reikningsskil.

Heimurinn þarf á glisi að halda - sér í lagi á jólunum og Dægurstjörnur kunna að glæða heiminn litum. Að fylgja fjárhagsáætlun er góð leið til að komast hjá því að eyða svo miklu að þú eigir enga peninga í janúar.

Þar sem ég er Dægurstjarna, get ég deilt með ykkur að besta leiðin til að koma í veg fyrir hvatvísa eyðslu er að setja sér tímamörk. Velja dag sem er síðasti dagurinn sem þú mátt kaupa fyrir jólin. Þannig seturðu þér mörk og lendir síður í því að kaupa þetta sem á að gera jólin fullkomin. Ég segi mér líka gjarnan að ég þarf ekki að kaupa til að jólin verði fullkomin.

Stjórnandinn – kemur jólunum heim og saman

Stjórnendur, leggið frá ykkur listann. Ég veit að þið eruð með hann. Sennilega er hann svo vel skipulagður að fjárhagsáætlun fylgir með. Þið komið því í verk sem gera þarf svo halda megi jólin. Vandamálið er hins vegar það að þið verðið sennilega svo þreytt og jafnvel pirruð af allri vinnunni og jólaundirbúningnum að það verður áskorun að njóta jólanna.

Stjórnandinn er innri stórveldisskaparinn en þegar hann er stressaður getur hann auðveldlega orðið innri einræðisherrann.

Stjórnandinn á það til að stýra jólunum. En hvernig væri að hugsa um jólin sem kvikmyndaframleiðslu þar sem allar persónur og leikendur fá að njóta sín og taka þátt. Hver og einn færir fram sína krafta og saman leysir hópurinn úr læðingi jólin sem eru áreynslulaus og allir fá að njóta sín. Líka þú Stjórnandi!

Alkemistinn – færir okkur anda jólanna

Alkemistar eiga oft í ástar/haturs sambandi við peninga. Þetta ástar/haturs samband getur yfirfærst á samband Alkemistans við jólin.

Kjarni jólanna getur svo auðveldlega tapast í verslunaræðinu og Alkemistinn tekur þetta nærri sér. Hættan er sú að Alkemistar sjái eftir peningunum sem þeir upplifa að þeir þurfi að eyða í jólin og að þá langi mest að láta sig hverfa um stund.

En við þurfum á töfrum Alkemistans að halda um jólin til að minna okkur á anda jólanna. Kæri Alkemisti - hvernig væri að líta á peningana sem þú eyðir um jólin sem tækifæri til að vefa töfra inn í líf þeirra sem þú elskar?

Ég vona að þessi ráð komi sér vel nú í aðdraganda jólanna. Mundu setja þér mörk svo þú getir notið alls þess góða sem jólahátíðin ber með sér.

Ég óska þér og fjölskyldu þinni gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.


Í draumi sérhvers manns...

Lengi vel átti ég brösótt samband við ljóð Steins Steinars sem hefst á orðunum í yfirskrift pistilsins. Átti erfitt með að skilja hvernig hann gat skrifað að í draumi sérhvers manns væri fall hans falið. Ég velti því fyrir mér hvort merking hans væri sú að draumar ættu ekki rétt á sér.

 

Samhengið skorti

Nýlega laukst upp fyrir mér að sennilega hefði mig skort samhengi til að skilja ljóðið. Draumar mínir hafa nefnilega flestir orðið að veruleika án mikillar fyrirhafnar. Það er mikið lán að standa á fertugu og geta sagt svona. Því fylgir þó alls ekki dramb, heldur djúpt þakklæti af minni hálfu.

En aftur að því hvers vegna mér jókst skilningur á ljóðinu góða. Það var nefnilega þannig að síðastliðinn vetur reyndi ég allt sem ég gat til að hrinda af stað atburðarás sem hafði þann tilgang einan að uppfylla gamlan draum.

En allt kom fyrir ekki. Mér tókst ekki ætlunarverkið.

Það var þá sem ég áttaði mig á að draumurinn hafði myndað sjálfstætt líf sem ógnaði mér. Hann hafði vaxið í dimmri þögn með dularfullum hætti. Ég upplifði að ég minnkaði samhliða því sem draumsins bákn reis. Að lokum féll ég fyrir draumi mínum, í fullkominni uppgjöf sigraðs manns. En það var þá sem ég áttaði mig. Ég vildi nefnilega ekki verða draumur hans.

 

Upprisa draumsins

Einn morguninn reis ég úr rekkju og tók ákvörðun. Ég ákvað að sleppa tökunum á þessum draumi. Þó ekki væri nema um stundarsakir. Þetta reyndist góð ákvörðun því það var sem þungu fargi væri af mér létt.

Það merkilega var að þegar ég megnaði að sleppa tökunum á draumnum, hætti hann að stjórna lífi mínu.

Skömmu síðar tóku atburðir að gerast sem allir miða að því að þessi draumur verði að veruleika um síðir. Atburðirnir voru þó þannig að mig hefði ekki getað órað fyrir þeim. Ég hefði með engu móti geta leikstýrt þessarri atburðarás.

 

Áttu þér draum í leynum?

Á þessum tíma árs huga margir að uppgjöri ársins, samhliða því að leggja drögin að markmiðum komandi árs. Nú er því tilvalið að dusta rykið af gömlum draumum. En til þess að draumar geti fengið byr undir báða vængi, þarf gjarnan fjármagn. Það er helst skortur á fjármagni sem veldur því að margir draumar deyja án þess að hafa nokkurn tíma öðlast nokkurt líf.

 

Draumasjóður

Eitt af því sem þátttakendur í netnámskeiðinu, Fjárhagslegt frelsi á 12 vikum gera er að búa til kerfi utan um fjármálin sín, sem miðar að því að búa sér líf sem heiðrar kjarnagildin manns.

Oft erum við svo föst í hringiðu atburða sem við upplifum að við höfum enga stjórn á, að við gleymum að staldra við. Brauðstritið tekur yfir og draumarnir hrekjast á brott án þess að við virðum þá viðlits.

Um síðir kemur sá dagur í lífi okkar flestra að við lítum yfir farinn veg. Viðtalsrannsóknir meðal þeirra sem komnir eru á efri ár hafa leitt í ljós að fólk sér frekar eftir því sem það aldrei kom í verk en því sem það gerði. Þessvegna er góð hugmynd að hafa gott kerfi um fjármálin. Þannig geturðu gert ráðstafanir svo þú getir valið að glæða drauma þína lífi.

 

 

Í draumi sérhvers manns

 

Í draumi sérhvers manns er fall hans falið.

Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg

af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið

á bak við veruleikans köldu ró.

 

Þinn draumur býr þeim mikla mætti yfir

að mynda sjálfstætt líf, sem ógnar þér.

Hann vex á milli þín og þess, sem lifir,

og þó er engum ljóst, hvað milli ber.

 

Gegn þinni líkamsorku og andans mætti

og öndvert þinni skoðun, reynslu og trú,

í dimmri þögn, með dularfullum hætti

rís draumsins bákn og jafnframt minnkar þú.

 

Og sjá, þú fellur fyrir draumi þínum

í fullkominni uppgjöf sigraðs manns.

Hann lykur um þig löngum armi sínum,

og loksins ert þú sjálfur draumur hans.

 

Steinn Steinarr

 

(Ferð án fyrirheits, 1942.)


Peningar, peninganna vegna?

Og þú ert alltaf að fjalla um peninga“, staðhæfði maður nokkur um leið og hann lét sig falla í djúpan hægindastól við hlið mér. Við vorum stödd í boði hjá sameiginlegum vinum.

Nei, ég fjalla um samband fólks við peninga og peningahegðun þess“, svaraði ég að bragði. „Ég tala alls ekki um peninga, peninganna vegna, heldur sem birtingarmynd af ákveðnu hegðunarmynstri.“ Hvað áttu við með því? spurði maðurinn. „Ég skal taka dæmi“, sagði ég.

 

Mismunandi viðhorf til peninga

Tvær vinkonur hittust til að fá sér að borða saman í hádeginu. Þær höfðu verið samstúdentar og fylgst að í gegnum tíðina. Talið barst að fyrirtækjarekstri en báðar áttu þær og ráku eigið fyrirtæki.

Önnur sagði hinni að það væri brjálað að gera hjá henni, fastir viðskiptavinir en greiðslur bærust seint og illa. Laun til starfsmanna gengju alltaf fyrir og því sæti vöxtur fyrirtækisins á hakanum. Hún væri orðin langþreytt á streðinu enda hefði hún lítið upp úr krafsinu. En bætti þó við að vinnan væri í meginatriðum spennandi og samskiptin við samstarfsfólk og viðskiptavini einkar gefandi. Það héldi henni gangandi enda skipt það hana meira máli en peningar.

Hin sagði hinni að hún væri nýbúin að endurskoða alla ferla innan fyrirtækisins með það að markmiði að hámarka nýtni. Hún vildi færa út kvíarnar og auka tekjur fyrirtækisins um fjórðung á næsta rekstrarári. Allt starfsfólk fyrirtækisins væri með á nótunum hvað markmiðið varðaði og ynni að því dag frá degi. Árangurinn léti ekki á sér standa. Áskoranir hennar snéru að starfsmannamálum.

 

Breytan sem skiptir sköpum

Þetta dæmi endurspeglar samband þessarra tveggja kvenna við peninga. Fyrirtækin sem þær reka eru sambærileg. Menntun þeirra og reynsla svipuð. Eina sem skilur að er samband þeirra við peninga sem endurspeglast með ýmsu móti í rekstri þeirra. Peningahugmyndir þeirra og peningahegðun er breytan sem skiptir sköpum.

Samband þeirrar fyrri við peninga helgast af því að samskipti og tengsl við samstarfsfólk og viðskipavini, skipta hana meginmáli. Bein tenging hennar við peninga er lítil sem engin. Hún sér ekki tilgang með því að gera hlutina fyrir peninga. Undir niðri þráir hún þó stöðugleika í rekstri og að útistandandi greiðslur skili sér með skilvirkum hætti.

Hin konan setur vöxt fyrirtækisins í forgrunn og gerir áætlanir sem byggja á mælanleika. Þannig kemur hún í veg fyrir að tíminn líði án þess að hún nái að fylgjast með framvindu mála. Markmið hennar er skýrt og allir starfsmenn fyrirtækisins vinna að því hörðum höndum.

Hennar áskorun er helst sú að gera ráð fyrir að aðrir séu drifnir áfram af sama eldmóði og metnaði og hún sjálf. Hún á það til að keyra starfsfólkið áfram og gleyma að hrósa því. Það er alls ekki illa meint. Henni finnst einfaldlega hrós vera frekar innantómt, því það er alls ekki það sem drífur hana áfram.

 

Annað er ekki gott og hitt slæmt

Það er ekki svo að skilja að önnur kvennanna eigi alfarið gott samband við peninga og hin slæmt. Allir glíma við einhvers konar áskoranir og þær birtast gjarnan í sambandi okkar við peninga. Áhrifanna gætir á öllum sviðum lífs okkar.

Fyrir þá sem reka fyrirtæki er sambandið milli peningahegðunar og beinnar afkomu, oft sýnilegra en fyrir þá sem vinna fyrir aðra. Að því sögðu má þó segja að starfsval og laun þeirra sem vinna fyrir aðra, endurspegli samband þeirra við peninga.

Þeir sem reka eigið fyrirtæki eru þó gjarnan dómharðari á eigin peningahegðun en hinir sem starfa fyrir aðra. Það helgast ef til vill helst af því að fólk í rekstri er gjarnan ábyrgt fyrir eigin innkomu og jafnvel innkomu annarra. Því verða þolmörkin minni þegar peningaáskoranir eru annars vegar.

 

Hvað er til ráða?

Hvað eiga þeir sem bera kennsl á brotalamir í sambandi sínu við peninga, til bragðs að taka? Í fyrsta lagi er góð hugmynd að leita sér hjálpar. Ég get bent á nýtt netnámskeið sem ber heitið Fjárhagslegt frelsi á 12 vikum. Þar gefst þátttakendum tækifæri til að skoða samband sitt við peninga í nýju ljósi með það að markmiði að öðlast fjárhagslegt frelsi.


Gjöf til þín: Fyrsta skrefið í átt að fjárhagslegu frelsi

Frelsi er hugtak sem hefur mismunandi þýðingu fyrir ólíka einstaklinga. Að sama skapi hefur fjárhagslegt frelsi einstaka merkingu fyrir hvert og eitt okkar. Skilgreiningarnar tengjast gjarnan kjarnagildum okkar en eiga sér rætur í peningasögu okkar.

Flest getum við verið sammála um að við stefnum að fjárhagslegu frelsi. Á einn eða annan hátt er það að minnsta kosti það sem við þráum. Það er þó reynsla mín að fæst okkar eru með áætlun um það hvernig við ætlum að láta það verða að veruleika.

 

Hvert er fyrsta skrefið?

Eftir að hafa unnið með fjölmörgum einstaklingum að fjárhagslegri valdeflingu, sem markþjálfi get ég fullyrt að fyrsta skrefið í átt að fjárhagslegu frelsi er eitt og hið sama sama, hver svo sem fjárhagsstaða okkar er. Því hef ég sett saman gjöf handa þér sem inniheldur leiðbeiningar um það hvernig þú getur stigið þetta fyrsta skref.

Fylgdu þessum hlekk til að nálgast gjöfina þína

 

Peningaáskoranir eru ekki háðar tekjum

Sjáðu fyrir þér hvernig líf þitt væri ef þú þyrftir ekki að kljást við áskoranir tengdar peningum. Athugaðu að hér á ég ekki aðeins við áskoranir á borð við skuldir og ónóga innkomu. Ég á einnig við áskoranir eins og að halda fast í peningana sem þú hefur safnað, af einskærum ótta við að fjárfesta. Annað dæmi er að óttast fjármálaumsýslu, þrátt fyrir háar tekjur. Í því tilfelli glímir þú sennilega við hugsanir sem snúa að því að finnast þú eiga að kunna að fara betur með peningana sem þú aflar en fyllist svo vonleysi eða óöryggi við tilhugsunina um að taka völdin í peningamálunum.

Önnur áskorun getur verið sú tilhneyging að eyða því sem þú aflar, þrátt fyrir að í raun og veru þráir þú að leggja fyrir til að skapa fjárhagslegt öryggi til framtíðar. Enn aðrir glíma við að ná ekki peningamarkmiðum sínum vegna þess að þarfir annarra ganga fyrir og þeir eiga erfitt með að setja mörk þegar kemur að peningum. Áskoranirnar geta því verið af ýmsum toga og þetta eru aðeins nokkur dæmi um það.

 

Fjárhagslegt frelsi á 12 vikum

Hvort sem þú hefur það að markmiði að ná fjárhagslegu frelsi á næstu mánuðum eða árum – eða fjárhagslegt frelsi er fjarlæg hugmynd í huga þér, þá er sannleikurinn sá að öll þurfum við skýra áætlun til að geta náð því markmiði að skapa fjárhagslegt frelsi.

Undanfarið hef ég unnið hörðum höndum að því að setja saman netnámskeið sem ber yfirskriftina Fjárhagslegt frelsi á 12 vikum. Þar er leiðin að fjárhagslegu frelsi vörðuð, skref fyrir skref.

Efnið byggir á áralangri reynslu minni af fjárhagslegri valdeflingu og aðferðirnar hafa gagnast fjölmörgum til að ná fjárhagslegum markmiðum sínum og búa til sjálfsbært fjármálakerfi sem það getur notfært sér til frambúðar.

Það sem er mest um vert er þó að upplifun hvers og eins af námskeiðinu helgast af sambandi viðkomandi við peninga..

Markmiðið er að hver og einn þátttakandi hafi smíðað sér einstaklingsmiðað fjármálakerfi að 12 vikum liðnum. Þar er sérstaklega tekið mið af mismunandi áskorunum sem fólk hefur þegar kemur að peningum auk þess sem byggt er á styrkleikum hvers og eins.

Kerfið á að vera einfalt í notkun og vekja tilhlökkun og góðar tilfinningar gagnvart peningum. Með því móti verður fjármálaumsýsla skemmtileg í stað þess að valda streitu eins og reyndin er hjá mörgum.

Nánari upplýsingar um Fjárhagslegt frelsi á 12 vikum er að finna hér


Frúin í Hamborg

Flestir kannast við leikinn sem kenndur er við frúna í Hamborg. Þrátt fyrir að hann gangi út á að láta ekki leiða sig í þá gildru að segja já, nei, svart eða hvítt, þá snýr grunnspurningin að peningum.

Ef til vill er stutt síðan þú lékst þennan leik en kannski hefurðu ekki leikið hann síðan í æsku. Hvort heldur sem er, langar mig að bjóða þér í stutt ferðalag. Mig langar að biðja þig um að staldra við og svara spurningunni góðu: Hvað gerðirðu við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér? Lyngdu aftur augunum og taktu þér smá tíma. Gefðu ímyndunaraflinu lausan tauminn.

 

Láttu þig dreyma

Hverju svaraðirðu? Keyptirðu þér hús? Hvernig var það? Var það draumahúsið þitt? Hvar í heiminum var það? Hvernig var veðrið? Hvernig var tilfinningin að eiga þetta hús?

Ef þú keyptir ekki hús, hvað keyptirðu þá? Léstu reisa skóla í Indlandi eða byggja brunn í Afríku? Keyptirðu flugmiða til að fara í heimsreisuna sem þig hefur alltaf dreymt um að fara í? Hvað sem það var, þá er mikilvægast að þú lést þig dreyma. Það er nokkuð sem fæstir leyfa sér. Að láta sig dreyma og leyfa sér að finna tilfinninguna sem fylgir draumunum. Sum okkar gera það endrum og sinnum en aðrir leyfa sér það sjaldan eða aldrei.

Walt Disney sagði svo eftirminnilega að ef þú getur látið þig dreyma, þá geturðu látið drauminn verða að veruleika. Það hefst allt þar. Þar liggur sköpunarkrafturinn. Þetta magnaða afl sem við búum öll yfir og er eins og orðin, til alls fyrst.

 

Draumórar eða hvað?

Það er gjarnan einn af ávöxtum þess að búa í litlu samfélagi að þeir sem láta sig dreyma stóra drauma og deila þeim með öðrum, eiga það á hættu að vera kallaðir draumóramenn eða þvíumlíkt.

Þessi lenska heldur sumum niðri þó hún sé sennilega helsta ástæða þess að aðrir hafa látið að sér kveða svo um munar. Þeir gera hlutina þrátt fyrir úrtöluraddirnar til að sanna hvað í þeim býr.

Hvort sem þú ert í hópi þeirra sem láta sig skoðanir annarra engu varða eða í hópi þeirra sem sýnir umheiminum aðeins brotabrot af því sem býr innra með þér, þá er eitt víst. Þetta er þitt líf og þú getur aðeins lifað því á eigin forsendum. Hvort sem þú velur að gera annarra forsendur að þínum eður ei, þá er valið þitt.

 

Lykillinn að fjárhagslegu frelsi

Fjárhagslegt frelsi er eitt af því sem flesta dreymir um og margir hafa að markmiði, leynt eða ljóst. Hvort sem það er markmið sem við ætlum okkur að ná á næstunni eða einhvern tíma á ævinni.

Einhver sagði að markmið væru draumar með dagsetningu. Það eru ýmsar kenningar að baki markmiðasetningu og sitt sýnist hverjum um hvað er rétt og ráðlegt í þeim efnum. Ég hef sjálf reynt ýmsar aðferðir og komist að mörgu áhugaverðu hvað markmiðasetningu varðar. En hver sem aðferðafræðin er sýna rannsóknir að það eru 95% líkur á að þú náir markmiði þínu innan settra tímamarka ef þú skrifar það niður. Þvínæst býrðu til áætlun og svo þarf að fylgja henni eftir. Það síðastnefnda reynist mörgum þó erfiðasti hjallinn.


Til hvers að spara?

 

Heilbrigð skynsemi

er skömmtunarvara.

Þeir sem hafa hana

hljóta að spara.*

 

Þessa vísu er hægt að skilja á ýmsa vegu. En hver sem tilætluð merking vísuhöfundar var, eru velflestir á sama máli um að það sé skynsamlegt að spara. Þó er það svo að fæstir leggja fyrir. „Jú, ég hef lífeyrissparnaðinn“, segja sumir. En aðrir varasjóðir virðast nokkuð fátíðir.

Á þeim árum sem ég hef beint sjónum að sambandi fólks við peninga í vinnu minni sem markþjálfi, hef ég einnig tekið eftir því að viðhorf fólks til sparnaðar er mjög misjafnt.

 

Með fjárhagslegt frelsi að markmiði

Enn hef ég engan hitt sem ekki stefnir að fjárhagslegu frelsi með einum eða öðrum hætti, leynt eða ljóst. Það sem ég hef komist að er að það eru margar mismunandi leiðir að þessu sama markmiði – að öðlast fjárhagslegt frelsi. Enda hefur fjárhagslegt frelsi mismunandi merkingu fyrir hvern og einn.

Fyrir suma er fjárhagslegt frelsi fólgið í því að hafa þak yfir höfuðið og eiga fyrir mat út mánuðinn. Fyrir aðra er það fólgið í því að hafa fasta vinnu. Fyrir enn aðra er fjárhagslegt frelsi fólgið í því að eiga varasjóð – nú eða lífeyrissparnað. Þeir eru líka til sem finna fjárhagslegt frelsi í að þurfa ekki að vinna fyrir aðra – geta ráðið sér sjálfir. Fjárhagslegt frelsi á sér því mismunandi birtingarmyndir fyrir mismunandi einstaklinga.

 

Tekurðu lán eða borgarðu út í hönd?

Á árum áður safnaði fólk almennt fyrir hlutunum enda var aðgengi að lánsfé aðeins fyrir útvalda. Í dag er öldin önnur og frekar undantekning að fólk safni fyrir hlutunum. Sumir skilgreina það sem fjárhagslegt frelsi að geta tekið lán en aðrir hafna valkostinum og finna frelsi í að borga út í hönd. En hver er ástæðan fyrir þessum mun?

Svarið felst í því að mismunandi þræðir liggja að baki persónugerð okkar. Það sama má segja um samband okkar við peninga. Þar að baki liggja mismunandi þræðir, sögur, hugmyndir, viðhorf og upplifanir. Þetta má kalla peninga dna-ið okkar. Þar liggur skýringin að baki því hvers vegna fjárhagslegt frelsi er skilgreint með mjög ólíkum hætti eftir því hver á í hlut.

 

Hverjir spara?

Ein persónugerð er afgerandi þegar kemur að því sem er oft kallað „hefðbundinn sparnaður“ en þeir sem tilheyra þeim hópi eiga undantekningarlaust einhverskonar sjóð, annan en lögbundinn lífeyrissjóð. Önnur persónugerð er líklegust til að leggja fyrir með þann tilgang í huga að breyta heiminum. Nú eða til að kosta það að góð hugmynd fái byr undir báða vængi. Þriðja persónugerðin er líklegust til að spara við sig – jafnvel fimm daga vikunnar – til að geta notið þess að gera eitthvað stórbrotið hina tvo. Fjórða persónugerðin hefur þannig upplegg að hún sér afar lítill tilgang með að spara, enda finnst henni mikið mikilvægara að tengjast fólki og njóta samveru. Fimmta persónugerðin á það til að leggja fyrir ef sjóðurinn gæti nýst til fjárfestingar sem gæti skilað verulegum fjárhagslegum ávinningi. Sjötta persónugerðin leggur helst fyrir í aðdraganda stórhátíða til að geta gert vel við sig og sína. Sú sjöunda upplifir öryggi og vernd frá hættum þegar hún safnar fjármunum en finnst þó aldrei vera nóg af peningum. Sú áttunda sér sjaldnast tilgang með því að spara peninga þar sem henni finnst peningar vera til að njóta þeirra.

Eins og dæmin sýna er uppleggið afar mismunandi og viðhorfið til sparnaðar eftir því. Það felast ótal tækifæri í því að þekkja þræðina sem liggja að baki peninga dna-inu þínu. Þegar tilgangurinn er að öðlast fjárhagslegt frelsi, helgast meðalið af því.

 

 

 

*Þessi vísa var ein af uppáhaldsvísum ömmu minnar. Ég fletti henni upp á netinu og sá að hún hafði birst í tímaritinu Helgafelli undir lok ársins 1945. Vísan er sögð þýdd og endursögð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband