Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2015

Peningahegðun á aðventu

Nú er aðventan gengin í garð í allri sinni dýrð. „Sælla er að gefa en þiggja“ er yfirskrift þessarar hátíðar ljóss og friðar og undirtitillinn ef til vill – sælla er að eta en fasta.

Grunnstefið í peningahegðun okkar kemur berlega í ljós í aðdraganda jólanna og ég segi fyrir mitt leyti að ég þarf virkilega að taka á henni stóru minni. Freistingarnar liggja víða og sem betur fer er margt fólk í lífi mínu sem ég vil gjarnan gleðja. En sá annmarki fylgir að á þessum árstíma tekur mitt eiginlega peninga-DNA yfir. Peningaerkitýpurnar mínar þrjár eru nokkuð ólíkar í grunninn. Sú efsta, Dægurstjarnan, veigrar sér ekki við að eyða peningum í glys og lúxusvarning. Hún fer gjarnan á kreik á aðventunni og verður öllu öðru yfirsterkari. Hinar tvær sem mynda mitt peninga-DNA ásamt Dægurstjörnunni, eru Nærandinn sem elskar að gleðja aðra og Alkemistinn, sem er afar hrifin af hugmyndafræði jólanna og þá sér í lagi friðarboðskapnum.

Ég þarf að vera einstaklega meðvituð um að leyfa gjöfum þeirra allra að njóta sín í aðdraganda jólanna því annars getur farið illa. Birtingarmynd þess þegar Dægurstjarnan tekur yfir, er sú að ég er líklegri en ella til að telja sjálfri mér trú um að ég eigi skilið að kaupa þetta eða hitt í jólagjöf (handa sjálfri mér!) því auðvitað get ég illa treyst fólkinu í kringum mig til þess að velja rétt í minn pakka.

Já, það er virkilegt átak að vera meðvituð um eigin bresti og hegðunarmynstur tengd peningum, sem eiga sér sterkar rætur. Hvað þá að viðurkenna brestina fyrir alþjóð en ég geri það í þeirri von að mín saga kunni að hjálpa þér að bera kennsl á þitt hegðunarmynstur. Það er fyrsta skrefið að viðurkenna vanmátt sinn og í kjölfarið er hægt að leggja grunn að breytingum.

 

Fyrirmyndarpeningahegðun á aðventu

Sum ykkar eru ofurskipulögð og keyptuð jafnvel jólagjarnirnar á nýársútsölunum eftir síðustu jól. Þið eruð mínar fyrirmyndir og á hverri aðventu hugsa ég til ykkar með aðdáun og ögn af öfund. En þegar að útsölunni kemur í janúar hef ég öðrum hnöppum að hneppa og það hvarflar ekki að mér að kaupa jólagjafir.

Rannsóknir hafa sýnt að hegðunarmynstur stýra um 60% af hegðun okkar og þær niðurstöður má með sanni yfirfæra yfir á peningahegðun okkar. Við erum vanadýr og því upplifum við oft að það þurfi meiriháttar átak til að breyta gamalgróinni hegðun.

 

Jólasjóðurinn

Fyrir nokkrum árum síðan tókst mér að búa til nýtt hegðunarmynstur tengt jólunum. Ég byggði það reyndar á gömlum grunni en á menntaskólaárunum réði ég mig í vinnu eftir jólaprófin til að eiga fyrir jólagjöfnunum. Ég áttaði mig á því að fyrst ég hafði getað safnað fyrir jólagjöfunum áður, gæti ég gert það aftur – og aftur. Ég tók því þá valdeflandi ákvörðun að búa til sérstakan jólasjóð og byrja að leggja í hann í september ár hvert. Sjóðinn nota ég til að kaupa jólagjafir og jólamat. Nú á ég auðveldara með að sætta mig við að vera ekki í hópi ofurskipulagða jólafólksins því ég get að minnsta kosti státað af þessarri jákvæðu peningahegðun í aðdraganda jólanna. Og svo lengi sem ég get stillt mig um að nota sjóðinn til að kaupa lúxusjólagjafir handa sjálfri mér, þá er ég í nokkuð góðum málum.  

Andi liðinna jóla

Þegar ég lít til baka og skoða peningahegðun mína á aðventu í sögulegu samhengi, eru ein jól mér sérlega minnistæð. Það voru fyrstu jólin sem ég fór sjálf niður á Laugaveg með mína eigin peninga og keypti jólagjafir fyrir foreldra mína og bróður. Þetta var árið 1984 og ég var níu ára gömul. Ég hafði meðferðis einn fimmhundruð krónu seðil og fyrir hann keypti ég snjóþotu handa litla bróður mínum og eitthvað smálegt handa foreldrunum. Full stolti pakkaði ég gjöfunum inn, merkti og setti undir tréð. Þarna upplifði ég í fyrsta skipti að sælla er að gefa en þiggja.

Eldsnemma á jóladagsmorgun vakti litli bróðir mig og bað mig að koma út að leika með snjóþotuna. Full gleði og eftirvæntingar fórum við út í snjóinn með þoturnar okkar og renndum okkur aftur og aftur niður snæviþakta brekkuna. Þakklæti hans fyrir uppáhaldsjólagjöfina og gleðin sem fylgdi líkamlegu áreynslunni, umlykur þennan dag í minningunni. Ég get nú sótt tilfinningarnar sem fylgdu upplifuninni og notað þær til að minna mig á hvað það er sem skiptir mig raunverulega máli í aðdraganda jólanna.

 

 

 

 

 


Í sambandi við peninga

Hefurðu leitt hugann að því að samband okkar við peninga hefst í móðurkviði og lýkur ekki fyrr en eftir að við erum komin undir græna torfu? Hvað á ég við með því? Jú, við heyrum samtöl um fjármál meðan við erum í móðurkviði. Hvernig skuli fjármagna komu okkar og það tímabil sem að minnsta kosti einn forráðamaður tekur sér frí frá störfum til að annast okkur. Hugmyndin um peninga og virði er því ein af kjarnahugmyndunum sem fylgir okkur alla ævi. Hún mótast á æskuárum og ræðst af því hvernig er talað um peninga á heimili okkar og meðal fólksins sem annast okkur.

 

Aldrei rætt um peninga

„En það var aldrei talað um peninga á mínu æskuheimili“, segja sumir þeirra sem leita til mín þegar ég inni þá eftir rótgrónum peningahugmyndum úr æsku. En staðreyndin er sú að peningahugmyndirnar mótast ekki eingöngu af orðunum sem við heyrum, heldur fyrst og fremst af aðstæðunum sem við búum við. Hugmyndirnar verða svo grunnurinn að peningahegðun okkar í framtíðinni.

Tökum dæmi um barn sem elst upp við að heyra að þegar eitthvað skemmist á heimilinu, sé viðkvæðið: „við kaupum nýtt“. Þarna mótast gjarnan hugmyndin um að það sé óþarfi að fara vel með – það sé hægt að kaupa nýtt. Fullorðinn einstaklingur með þessa peningahugmynd inngreipta, þarf oft að horfast í augu við peningaeyðslu sína og verða sér meðvitaður um gildi og virði.

Barn sem hins vegar elst upp við að matur sé af skornum skammti á heimilinu, verður oft mjög meðvitað um að safna þegar fram líða stundir. Fullorðin manneskja með þessa peningahugmynd undirliggjandi, safnar gjarnan mat eða peningum til „mögru áranna“. Undir liggur ótti við skort sem er slökktur með því að safna.

 

Peningahugmyndir og sjálfsvirði

Ég leyfi mér að nota orðið sjálfsvirði hér í ákveðnu samhengi. Með þessu orði á ég ekki við sjálfsvirðingu heldur frekar hugmyndina um hvers virði við erum.

Tengslin milli peningahugmynda okkar og sjálfsvirðis eru sterk. Peningahugmyndir okkar stjórna því að miklu leyti hversu mikilsverð við upplifum okkur. Tökum dæmi af vel menntaðri konu í vel launuðu starfi sem sárvantar nýja skó fyrir veturinn. Hún á peninga til að kaupa skóna en hún fær sig ekki til þess að kaupa þá. Einn daginn fer að snjóa og hálkan er slík að hún er tilneydd til skókaupanna. Hún réttlætir kaupin fyrir sjálfri sér með því að valið standi á milli grófra sóla eða sex vikna í gifsi, því fótbrot sé óumflýjanleg afleiðing þess að skauta um á blankskónum áframhaldandi.

Þegar peningahugmyndir konunnar eru skoðaðar ofan í kjölinn, kemur í ljós að hún er alin upp hjá einstæðri móður sem leyfði sér fátt til að geta komið börnum sínum sómasamlega til manns og stutt þau til mennta.

Það var ekki ætlun móðurinnar að dóttirin sæti uppi með þessar peningahugmyndir en það var þó afleiðing engu að síður.

Af þessu má ráða að sumar þeirra peningahugmynda sem við sitjum uppi með, eru vitagagnslausar og þjóna tæpast tilgangi. Hver svo sem forsaga peningahugmynda okkar er, skal tekið fram að þrátt fyrir að aðstæður okkar og í sumum tilfellum innprentun hafi stýrt innleiðingu þeirra, þýðir það ekki að við þurfum að sitja uppi með þær að eilífu.

 

Nýjar peningahugmyndir eru valdeflandi

Þú hefur eflaust þegar staldrað við og annað hvort borið kennsl á einhverjar þeirra peningahugmynda sem ég hef minnst á, eða lesturinn hefur gert það að verkum að þínar undirliggjandi peningahugmyndir hafa skotið upp kollinum. Ég hvet þig til að skoða þær eftir bestu getu og spyrja þig hvort þær þjóni tilgangi í lífi þínu áframhaldandi eða hvort tími sé kominn til að sleppa tökunum á þeim og skipta þeim út fyrir nýjar og valdeflandi peningahugmyndir.

Það margborgar sig að vera meðvitaður um þetta ævilanga samband okkar við peninga og hvernig það stýrir gangi lífs okkar á fleiri vegu en við almennt gerum okkur grein fyrir. Þér er velkomið að leita til mín ef þig vantar hjálp.


Gjöf til þín: lykilspurningarnar þrjár

Albert Einstein benti á þá staðreynd að við gætum ekki leyst vandamál með sama hugsunarhætti og við notuðumst við þegar vandræðin urðu til. Það er einmitt það, segjum við en veltum þó fyrir okkur hvaða hugsunarháttur dugi til. Við erum jú vanadýr eins og fram hefur komið og gerum gjarnan meira til að viðhalda óbreyttu ástandi en við gerum til að breyta.

 

Áskoranir

Öll getum við borið kennsl á eitthvað í lífi okkar sem betur má fara. Ef til vill eru það kringumstæður okkur, ytri áskoranir eins og samskipti eða innri áskoranir eins og til dæmis skortur á ákveðni. Það er segin saga að ef við upplifum að kringumstæður okkar stjórni líðan okkar, þá endurspeglast það í ytri áskorunum eins og til dæmis hæfni okkar til að eiga árangursrík samskipti og einnig í innri áskorunum eins og óákeðni. Þessi keðjuverkun gengur bæði réttsælis og rangsælis og því má segja að ef við upplifum áskoranir á einhverju af áðurtöldum sviðum, þá hefur það svo sannarlega áhrif á öllum sviðum.

Tökum dæmi um manneskju sem er óánægð í vinnunni. Verkefnin sem henni eru falin eru henni ósamboðin. Hún er margsinnis búin að segja yfirmanneskju sinni að hún vilji áskoranir og að hún fái þær ekki í núverandi starfi. Þrátt fyrir að hafa talið sér trú um að hlutirnir fari nú að batna og að hún eigi nú barasta að vera ánægð með það sem hún hefur, kvarnast smátt og smátt úr vinnugleðinni og metnaðinum. Lengi vel beið hún þolinmóð eftir stöðuhækkun en nú er þolinmæðin á þrotum. Óánægja hennar gerir nú vart við sig í samskiptum hennar á vinnustaðnum. Þrátt fyrir að hún reyni sitt allra besta til að leyna líðan sinni og sýna af sér faglega hegðun eins og ætlast er til af henni. Innra með henni bærast tilfinningar af ýmsum toga og reiðin ólgar undir niðri.

 

Vakin og sofin

Þegar svo er komið sögu að við erum vakin og sofin yfir áskorunum okkar, er kominn tími til að grípa inn í. Þá finnum við okkur knúin til að taka orð Einsteins bókstaflega og ættleiða nýstárlegan hugsunarhátt sem fleytir okkur yfir hjallann. En hvernig er það gert?

Ég hef tileinkað mér aðferð sem ég kalla spurningaaðferðina. Aðferðin er einföld en einkar árangursrík. Þeir sem nota hana hafa upplifað það að eiga auðveldara með að taka ákvarðanir og fylgja þeim eftir. Með nálgun spurningaaðferðarinnar reynist auðveldara að greina hismið frá kjarnanum og því fer minni tími til spillis þar sem forgangsröðunin verður skýrari. Þeir sem nota aðferðina eiga einnig auðveldara með að ná markmiðum sínum á tilskyldum tíma.

 

Lykilspurningarnar þrjár

Mig langar að gefa þér gjöf í tilefni dagsins. Ég býð þér að heimsækja vefsíðuna mína og sækja þér eintak af Lykilspurningunum þremur sem eru kjarni spurningaaðferðarinnar. Með því að tileinka þér aðferðina og spyrja þig spurninganna, öðlastu tækifæri til að takast á við þær áskoranir sem þú stendur frammi fyrir. Hvort sem þú upplifir að þær helgist af aðstæðum þínum eða flokkist undir ytri eða innri áskoranir, þá getur spurningaaðferðin reynst vel.

„Þetta er mesta bull sem ég hef nokkurn tíma heyrt!“, sagði refurinn í Dýrunum í Hálsaskógi, svo eftirminnilega. Sömu orð gætu hljómað innra með þér á þessarri stundu. Það eru mjög eðlileg viðbrögð þegar lausn við vanda okkar blasir við, hvað þá án endurgjalds! Við höldum gjarnan í óbreytt ástand eins og haldreipi á neyðartímum. Þrátt fyrir að ástandið sé orðið svo óbærilegt að það jaðrar við neyðarástand. Það er merkileg staðreynd en staðreynd engu að síður.

„Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst“, segir máltækið. Svo endilega þiggðu gjöfina frá mér. Heimsæktu vefsíðuna og vistaðu eintak af Lykilspurningunum þremur á skjáborðið þitt í dag. Þar er einnig í boði að vista hljóðútgáfu. Megi lykilspurningarnar þrjár reynast þér eins vel og þær hafa reynst mér. Njóttu vel!

http://www.eddacoaching.com 

 


Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband