Leita í fréttum mbl.is

Fékkstu gott fjármálauppeldi?

Aðspurður um hvað ég hefði kennt honum um peninga, svaraði tíu ára sonur minn að bragði: „Ekkert“.

Í stundarkorn var ég algjörlega slegin útaf laginu því ég tel mig hafa lagt rækt við fjármálauppeldi hans. Skömmu síðar spurði ég hann hvað hann hefði lært af því að koma með mér út í matvörubúð og hjálpa mér að versla. Hann svaraði þá að hann hefði lært að það væri sniðugt að velja vel og nota ekki of mikla peninga til að kaupa í matinn, því þá ætti maður meiri peninga til að gera eitthvað skemmtilegt.

Ég spurði hann þvínæst hvað hann hefði lært af því að kaupa sér tölvu fyrir allan sparnaðinn sinn. Hann svaraði að hann hefði lært að það væri ekki gaman að eiga engan pening eftir. „Það borgar sig að spara“, bætti hann svo við.

 

Ekki hvernig heldur hvað

Þetta samtal okkar mæðgina staðfesti fyrir mér að börn læra ýmislegt um peninga af umhverfi sínu. Þau læra af peningahegðun foreldra sinna og þeirra sem þau umgangast. Þau læra einnig af þeim peningahugmyndum sem eru á borð bornar á heimilinu og í samfélaginu. Þetta gerist alveg óháð því hvort foreldrarnir setjast niður með þeim gagngert til að kenna þeim æskilega fjármálahegðun – eða ekki. Þau læra nefnilega um peninga á sama hátt og þau meðtaka aðra færni og kunnáttu í lífnu. Þau draga ályktanir og hegðun þeirra tekur að stjórnast af hugmyndum þeirra.

Ég man til dæmis að skömmu eftir hrun íslensku bankanna, varð sonur minn æfur þegar ég ætlaði að fara í bankann með peningana sem höfðu safnast í sparibaukinn hans. Ég varð að fullvissa barnið um að það væri öruggt að bankinn myndi ekki glata smáaurunum hans og að hann gæti endurheimt peningana þegar á þyrfti að halda. Hann ætti peningana sína sjálfur, þó bankinn tæki þá í vörslu sína um stundarsakir gegn því að greiða honum vexti.

Peningahugmyndir úr æsku

Á þeim árum sem ég hef fengist við markþjálfun hef ég fengið það staðfest að fólk situr almennt uppi með einhverjar peningahugmyndir úr æsku. Ég þekki það jafnframt af eigin raun. Sumar þeirra kunna að vera nytsamlegar og eru jafnvel kjarninn í þeirri góðu peningahegðun sem við höfum tamið okkur. Aðrar eru þess eðlis að full ástæða er til að skoða þær gaumgæfilega með það í huga að skilja við þær fyrir fullt og allt. Hluti af þeirri vinnu sem ég vinn með fólki er að bera kennsl á hvaða peningahugmyndir það situr uppi með og hvaða peningahegðun endurspeglar þessar hugmyndir. Í kjölfarið kenni ég fólki svo aðferð til að losa sig við þær hugmyndir sem standa í vegi fyrir að það geti upplifað fjárhagslegt frelsi. Þessa aðferð hafa margir nýtt sér með góðum árangri og upplifað mikinn létti í kjölfarið.

 

Halda eða sleppa?

Ég gæti tekið fjöldamörg dæmi um peningahegðun ýmiss konar sem á rætur að rekja í peningahugmyndum úr æsku og fylgir okkur fram á fullorðinsár. En hver svo sem sagan kann að vera og hverjar sem hugmyndirnar eru, þá eru skilaboðin einföld: Við erum ekki sagan okkar og við þurfum ekki að láta stjórnast af peningahugmyndum sem ekki þjóna lengur tilgangi í lífi okkar.

Fjárhagslegt frelsi fæst meðal annars með því að segja skilið við fortíðina og taka upp nýja siði. Eða eins og Carl Jung sagði: „Þú ert ekki það sem kom fyrir þig – þú ert það sem þú velur að verða“.


Bleikir peningar

„Konur vilja það sama og karlar – bara meira.“* Þessi tilvitnun vakti áhuga minn enda er ég með ólæknandi áhuga á öllu sem viðkemur efnahagsmálum og þá sér í lagi frá sjónarhóli kvenna.

Tilvitnunin er höfð eftir Marti Barletta, markaðssérfræðingi og höfundi bókarinnar Prime Time Women. Barletta vill meina að auglýsendur vanmeti kaupmátt kvenna stórlega. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt fram á að konur taka 70 til 80% af ákvörðunum um hvað kaupa eigi til heimilisins. Þó eru hlutfallslega fáir auglýsendur sem beina skilaboðum sínum til kvenna.

Barletta segir að kvennablöð ættu með réttu að vera full af auglýsingum frá bíla- og raftækjaframleiðendum en staðreyndin er sú að þar eru frekar auglýstar snyrtivörur og heilsutengdar vörur.

Markaðssérfræðingar mæla þó síður með því að búa til kvenvæna sérútgáfu af vörunni og beina auglýsingum á þeirri vöru til kvenna. Dæmi um slík mistök voru pennaframleiðandanum BIC dýrkeypt. Margir hafa hlegið að úttekt spjallþáttadrottningarinar Ellenar Degeneris á bleika BIC pennanum sem var „sérhannaður“ fyrir konur. Eini munurinn á bleika pennanum og öðrum pennum frá fyrirtækinu var sá að hann var bleikur og kostaði meira.

Fjöldi rannsókna bendir til að yfir 70% af kaupmætti heimsins lúti ákvörðunarrétti kvenna. Nýleg rannsókn í Danmörku sýndi fram á að konur taka ákvarðanir um hvað kaupa skuli í 74% tilfella. Þær tölur taka til ákvarðanatöku þegar kemur að ferðalögum, raftækjum, bankaviðskiptum, húsgögnum og einkabílum.

 

Tímarnir breytast og laun kvennanna með...

Nýlegar rannsóknir frá Bandaríkjunum hafa sýnt að ungar konur í stórborgum þéna mest. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Reach Advisors sem birtust í Time Magazine, þénuðu ungar konur að jafnaði 8% meira en ungir menn á sama aldri í 147 af þeim 150 borgum í Bandaríkjunum sem rannsóknin tók til. Það vekur athygli að í New York er launamunurinn heil 17%. Rannsóknir frá Norðurlöndunum sýna fram á svipaða þróun.

 

Konur í fyrirtækjarekstri

Í umræðum um konur og nýsköpun er því gjarnan fleygt fram að konur þurfi að sækja fram, stofna fyrirtæki í auknum mæli og umfram allt sækja um styrki og þátttöku í viðskiptahröðlum. Það er gott og gilt að hvetja konur til aukinnar þátttöku í nýsköpun. Staðreyndin er hins vegar sú að fjölmargar konur reka fyrirtæki nú þegar og svo hefur verið um árabil.

Evrópuráðið stóð fyrir víðtækri samantekt á staðtölum um frumkvöðla í Evrópu árið 2012. Samantektin náði til Íslands. Niðurstöður þeirrar samantektar sýna að 11,6 milljónir kven-frumkvöðla voru að störfum í þeim 37 Evrópulöndum sem samantektin náði til, eða 30% af heildarfjölda frumkvöðla í löndunum. Af þessum 11,6 milljónum voru aðeins 22% kvennanna með starfsfólk en 78% voru einyrkjar.

Alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að rúmlega 60% fyrirtækja í eigu kvenna reiða sig eingöngu á svokallaða lífræna fjármögnun eða þá aðferð að taka fé úr eigin rekstri til að kosta vöxt fyrirtækisins. Sú spurning hefur því vaknað hvort konur sitji við sama borð og karlar þegar kemur að fjármögnun og stækkun fyrirtækja. Þess er að vænta að þeirri spurningu verði svarað með ýmsum hætti á næstu árum.

* Tilvitnanir í Marti Barletta er að finna í bókinni SHEconomy- din, min og vår business!, útg. 2015 hjá Fagbokforlaget í Bergen. Höf. Benja Sig Fagerland og Ingvill Bryn Rambøl. 


Fjármál hjóna

Sumarfrí er tilhlökkunarefni hjá flestum. Þá gefst tækifæri til að taka sér frí frá amstri dagsins og jafnvel leggja land undir fót. Þegar á hólminn er komið er þó margt sem getur farið öðruvísi en ætlað var. Rannsóknir hafa sýnt að það eru meiri líkur á að fólki verði sundurorða í sumarfríum og öðrum fríum, heldur en endranær. Svo virðist sem hversdagsleikinn með sinni rútínu og verkafjöld veiti okkur skjól frá því sem blasir svo berskjaldað við þegar við erum í fríi.

 

Peningamálin efst á blaði

Meðal helstu deilumála para og hjónafólks eru peningar. Þá er það oft peningahegðun annars aðilans sem fer í taugarnar á hinum.

Þau ár sem ég hef fengist við markþjálfun hef ég fengið það staðfest æ ofan í æ að fá pör setjast niður gagngert til að ræða peningamál á jákvæðu nótunum. Peningamál virðast flestir ræða á forsendum þess að upp séu komin vandamál sem úr þarf að leysa. Að fenginni reynslu leyfi ég mér því að segja að fjármál eru oftast rædd á nótum krísustjórnunar. Þarna er ég þó alls ekki að vísa aðeins til þess hóps sem minna hefur milli handanna. Þetta munstur virðist ekki hafa neitt með upphæðir að gera heldur virðist þetta frekar vera einhver lenska sem oftar en ekki flokkast sem annað hvort lærð hegðun og/eða eitthvað sem fólk hefur tamið sér án þess að gera sér grein fyrir því.

 

Neikvæð orka

Pör sem eru föst í þessum vítahring að ræða aðeins fjármál þegar þarf að leysa eitthvað, detta einnig oft í þann pytt að beina sjónum að hinum aðilanum og gagnrýna peningahegðun hans. Sá svarar þá gjarnan í sömu mynt og úr verður misklíð.

Gunna hefur ef til vill sleppt sér lausri í dömudeild fataverslunar í útlandinu og heimildin á krítarkortinu komin í botn. Nú eða Nonni hefur splæst öli á félagana á barnum og Gunna fundið kvittunina í vasanum á stuttbuxunum morguninn eftir. Hann sem var á móti því að hún keypti sér merkjatöskuna því þau ætluðu nú ekki að eyða svona miklu í fríinu. Þó dæmið sé ef til vill klisjukennt og ýti undir staðalmyndir kynjanna, helgar tilgangurinn meðalið. Margir kannast við að hafa deilt á maka sinn og gagnrýnt fyrir peningahegðun.

Tilfinningarnar sem vakna á meðan á viðlíka samtölum stendur eru oft öryggisleysi og höfnun, jafnvel sjálfshöfnun. Það er mjög sterk tenging milli öryggistilfinningar okkar og grunnhugmynda okkar um peninga. Peningahugmyndirnar sem hanga á spítunni í þessu samhengi eru í ætt við þessa: „Peningar eru leiðinlegir/vondir og mér líður illa að tala um þá“.

Eins og gefur að skilja eru peningahugmyndir á borð við þessa langt frá því að vera nytsamlegar fólki sem vill gjarnan njóta þess góða sem lífið hefur að bjóða. Einmitt eins og fólk gerir í sumarfríinu.

 

Áhugaverðar niðurstöður

Á þeim árum sem fólk hefur tekið peninga-DNA próf hjá mér, hef ég komist að mjög áhugaverðri niðurstöðu sem skýrir hvers vegna fjármál eru meðal helstu deilumála para og hjónafólks. Í kjölfarið hef ég þróað nokkrar lausnir sem hafa nýst mörgum þeirra sem hafa verið hjá mér í markþjálfun og viljað snúa við blaðinu þegar kemur að sambandi þeirra við peninga og peningahugmyndum.

Ég velti því fyrir mér hvort grunur minn reynist réttur að mörg pör myndu hafa áhuga á að skoða sambandið út frá peningapersónugerðunum, hegðun og hugmyndum. Því býð ég áhugasömum að senda tölvupóst með yfirskriftinni Fjármál hjóna á netfangið team@eddacoaching.com. Ég set þá saman námskeið í skyndi til að mæta þörfinni svo aðventan og jólahátíðin geti gengið í garð án þess að rifist sé um fjármál. Hlakka til að heyra frá ykkur!


Stórlaxar og skítseiði

Þegar fréttir bárust af forsvarsmönnum Íslensku þjóðarinnar á vordögum í tengslum við afhjúpun á Panamaskjölunum, kom tíu ára sonur minn með dásamlega lausn. „Mamma mín, þetta er allt í lagi. Við tölum bara ensku í viku og svo verður þetta gleymt.“ Hann reyndist sannspár því skömmu síðar snéri hópur snillinga í takkaskóm vörn í sókn í orðsins fyllstu merkingu.

Árla morguns sveif ég glaðbeitt inn í anddyrið á leikskóla dóttur minnar. Ég var búin að reikna út klukkan hvað væri líklegast að ég myndi mæta sem flestum foreldrum sem væru á leið í leikskólann með sín börn. Útreikningarnir stóðust og hamingjuóskirnar streymdu á móti mér. Ég fylltist stolti um leið og ég tók undir með Norðmönnunum að Íslendingar væru snillingar í fótbolta.

Ég hitti einn sem ég hafði aldrei talað við áður. Hann spurði mig hvort ég vissi hvar hann gæti komist að því hvaðan íslensk langamma hans væri. Hann langaði að vita hvort hann væri skyldur einhverjum í landsliðinu.

Já, það hefur verið virkilega smart að vera Íslendingur síðastliðnar vikur. Allt annað en í vor þegar ég mætti á leikskólann með heyrnartólin í eyrunum, hettuna á höfðinu og forðaðist augnsamband við hina foreldrana sem horfðu vorkunnaraugum á vesalings manneskjuna frá landinu þar sem stjórnmálamenn áttu peninga í skattaskjólum. Svoleiðis gerist ekki í Noregi.

En það hefur verið skemmtilegt síðastliðnar vikur að eiga blátt vegabréf og tala með íslenskum hreim.

 

Dýrðarljómi og dómharka

Þjóðerniskennd er forvitnilegt fyrirbæri. Sem íslenskur útlendingur um mislangan tíma síðastliðna tvo áratugi, hef ég velt þjóðerniskennd fyrir mér með ýmsum hætti. Bæði frá sjónarhóli Íslendingsins, heima og erlendis og einnig í gegnum fjölda fólks sem ég hef kynnst á þeim árum sem ég hef dvalið í mismunandi löndum.

Ég hef búið í nálægð við fólk sem skilgreinir sig útfrá þjóðerni sínu og notar það jafnvel sem afsökun fyrir hegðun ýmiss konar. Menningu þjóða má ef til vill skýra með þessum hætti að mörgu leyti en ég læt mér fróðari sérfræðinga um það. Í þessum pistli birtast aðeins vangaveltur sem eru til þess ætlaðar að varpa ljósi á einstaklinginn í samfélaginu. Þig og mig og þær röksemdir sem við notumst gjarnan við til að þurfa ekki að taka ábyrgð á hegðun okkar. Við erum bara svona.

Við – Íslendingar erum duglegir og gefumst aldrei upp. Við höfum þurft að berjast með vindinn í fangið, í stórsjó og gosösku. Það brýtur ekkert á okkur.

Er það ekki eitthvað á þessa leið sem við skilgreinum okkur?

En er hin hliðin á dýrðarljómanum ef til vill dómharka? Gerir smæðin það að verkum að við dæmum harðar en stærri þjóðir gera?

Ég velti þessu fyrir mér er ég fylgdist með aðför fjölmiðla að persónu manns nokkurs sem hafði milligöngu um miðakaup á síðasta leik landsliðsins á EM. Áður en honum hafði gefist tækifæri til að skýra sína hlið málsins, höfðu netmiðlar tekið upp þráðinn frá samfélagsmiðlunum. Óstaðfestar fréttir héðan og þaðan byggðar á einhliða frásögnum. Þetta er vissulega ekki óalgengt í íslenskum fjölmiðlum. Áður fyrr gat fólk treyst því að einhliða frásagnir ættu einungis heima í hinni svokölluðu gulu pressu en nú virðist öldin önnur.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna við kjósum að sveipa suma dýrðarljóma og hefja þá upp til skýanna á meðan við köstum rýrð á aðra og dæmum þá harðar en ástæða er til. Er þetta ávöxtur smæðarinnar? Gerum við meiri kröfur til annarra en við gerum til okkar sjálfra? Eða endurspeglar þessi menningarlega tilhneyging hræðslu okkar við að tengjast í gegnum hið sammannlega?

 

Ekki eins og við

Ein af grunnþörfum mannsins er að tilheyra. Rannsóknir hafa sýnt að börn sem njóta ekki einingar við aðra í æsku, glíma gjarnan við afleiðingar þess svo árum skiptir. Í því ljósi er áhugavert að við skulum vera tilbúin til að dæma og jafnvel útiloka aðra. Ef til vill er það afleiðing þess að hræðast það að horfast í augu við dauðleika holdsins – eða okkar eigin breiskleika.

Grunnótti mannsins er jú að vera einn. Orson Welles skýrði það þannig að maðurinn fæðist einn, lifir einn og deyr einn. Leið okkar til að skapa tálmyndina um einingu væri einungis í gegnum vinskap og kærleika.

Í því ljósi ætti það að liggja beint við að nálgast umhverfi sitt útfrá kærleikanum en tilhneiging okkar flestra er þó að sjá krumpurnar í fari náungans frekar en að horfast í augu við okkur sjálf.

En hvaða þýðingu hefur það fyrir samfélagið? Fyrir samfélag þjóða og fyrir einstaklinginn í því samhengi? Ég er á þeirri skoðun að það sé kominn tími til að við horfumst í augu við sjálf okkur, hvert fyrir sig og tökum ábyrgð. Gerum tilraun til að nálgast umhverfi okkar með augum kærleikans. Það er vænlegri leið til skilnings og einingar. Samfélaginu til heilla og hamingju.

 


Peningamegrun í sumar?

Mín fyrstu kynni af fyrirbærinu megrun voru fyrir tilstilli móður minnar á fyrri hluta níunda áratugarins. Hún hafði fest kaup á bókinni Scarsdale kúrinn og fylgdi því sem þar stóð skrifað í hvívetna.

Bókarkápan er mér einstaklega minnistæð en hana prýddi grafísk mynd af þéttholda eldri konu sem sat á bekk og sökkti tönnunum í stærðeflis hamborgara. Skammt frá bekknum gat að líta spengilega unga konu, íklædda íþróttafatnaði, sem gerði sig tilbúna til að henda uppnöguðu epli í ruslatunnu. Tvíhyggjan sem gjarnan fylgir fráhaldi svífur yfir vötnum og myndrænu skilaboðin höfða til matarsamviskunnar.

Tilgangurinn með þessu litla endurliti og þá helst myndræna uppdrættinum er að yfirfæra megrunarfyrirbærið yfir á fjármálin. Svo einfalt er það. Ég vona að forsvarskonur megrunarlausa dagsins fyrirgefi mér samlýkinguna því í mínum huga helgar tilgangurinn meðalið.

 

Átaksverkefni eða lífstílsbreyting?

Flestir vita að megrun er átaksverkefni, sem getur leitt til varanlegra breytinga en gerir það þó sjaldnast. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að það gefur betri raun að breyta um lífstíl. Að temja sér að velja hollan mat og hreyfa sig.

Hins vegar getur fráhald, fasta eða hreinsun orðið upphafið að breyttri líðan og þannig leitt af sér lífstílsbreytingu. Afraksturinn er aukin orka og betri heilsa til langs tíma.

Þetta má einnig til sanns vegar færa þegar kemur að peningamálunum. Þó óhætt sé að segja að færri hafi reynslu af því að fara í peningamegrun, getur hún að sama skapi orðið upphafið að lífstílsbreytingum á fjármálasviðinu.

 

Hvað er peningamegrun?

Fyrirbærið peningamegrun er þegar þú tekur meðvitaða ákvörðun um að nýta þér aðferðir gjörhygli (e. mindfulness) í fjármálunum. Með öðrum orðum að öðlast betri vitund um hvernig þú notar peningana þína og í framhaldinu gera þær breytingar sem þú þarft að gera til að geta orðið fjárhagslegur leiðtogi í eigin lífi.

Fyrsta skrefið í þessa átt er að nota litla vasabók og skrifa niður dagsetningu, hvað þú kaupir og hvað það kostar. Sumum kann að finnast þetta mjög gamaldags ráð og hafa jafnvel spurt sig hvort undirrituð hafi aldrei heyrt um heimabanka og bankayfirlit. En sannleikurinn er sá að með því að skrifa niður í hvað peningarnir fara, öðlastu nýja sýn á fjármálin. Ég skora á þig að prófa í mánuð og sjá hvað gerist.

Annað gott ráð fyrir áhugasama er að hafa að minnsta kosti einn dag í viku þar sem þú notar enga peninga. Eða með öðrum orðum, þann dag eyðir þú engu. Þarna koma skipulag og hugmyndaauðgi að góðum notum. Ég er nefnilega ekki að leggja til að neinn svelti. Hins vegar gætirðu tekið með þér nesti þennan dag í stað þess að kaupa þér tilbúinn mat á vinnutíma. Þú gætir einnig lagað þér kaffi og sett það í götumál í stað þess að koma við á kaffihúsinu.

Fyrir þá sem kunna vel við áskoranir, þá geta dagarnir einnig verið fleiri en einn í viku. Prófaðu þig áfram og mældu árangur þinn. Það virkar hvetjandi!


Ástríða í stríðum straumi

Nýlega horfði ég á upptöku af erindi rithöfundarins Elisabeth Gilbert þar sem rauði þráðurinn er sá að sumir hafa sterka köllun og afgerandi hæfileika á afmörkuðu sviði en hæfileikar annarra liggja á fleiri sviðum.

Hún segist alltaf hafa vitað að henni væri ætlað að skrifa. Áður en skrif hennar hlutu náð fyrir augum heimsins, vann hún við þjónustustörf til að geta séð sér farborða. En þráin til að ná til fólks fyrir tilstilli ritmálsins var öllu öðru yfirsterkari. Hún hélt sér við efnið og sá dagur kom að bók hennar Borða, biðja, elska, sló sölumet víða um heim.

Í kjölfar velgengninnar var hún beðin að halda fyrirlestra og ferðaðist víða í þeim tilgangi. Efni fyrirlestranna var alltaf það sama: ástríða hennar og eljan til að halda áfram og láta ekkert stopppa sig. Jafnvel þó það hefði tekið tíma og kostað fórnir.

 

Ástríða eða fjölhæfni

Í erindinu sem ég hlustaði á, kvað þó við nýjan tón. Hún sagði að kvöld eitt eftir einn af fyrirlestrunum, hafi hún fengið bréf frá konu sem benti henni á að það væru ekki allir með afgerandi hæfileika á einu sviði. Það hefðu ekki allir ástríðu og köllun. Sumir væru hreinlega ágætir í mörgu og fyndist ýmislegt áhugavert. Svo fengju þeir jafnvel áhuga á öðru og gerðu það.

Bréfritari benti henni á að það væri ekkert að þessu fólki og kvaðst orðin leið á að fólk með afgerandi hæfileika á afmörkuðu sviði, benti hinum á það í sífellu að þeir yrðu að finna köllun sína. Finna ástríðuna til að gera eitthvað eitt og berjast fram í rauðan dauðann fyrir því að það eitt fengi framgöngu í lífi þess.

Elisabeth Gilbert lýsir því í erindinu að þarna hafi orðið þáttaskil í lífi hennar. Hún hafi staldrað við og komið auga á að flest fólk í kringum hana sjálfa, tilheyrði þessum hópi sem konan benti henni á. Hún hafði bara aldrei borið kennsl á það. Sagðist hafa verið svo upptekin af eigin heimsmynd og skilaboðunum sem henni fannst hún þurfa að koma á framfæri um ástríðuna og mikilvægi hennar.

Þó var ekki svo að skilja að fólk sem ekki hefur afgerandi hæfileika á afmörkuðu sviði, næði ekki árangri í því sem það tekur sér fyrir hendur hverju sinni. Síður en svo. Hún tók bæði manninn sinn og bestu vinkonu sem dæmi um fólk sem hafði tekið sér ólíka hluti fyrir hendur og náð árangri.

Kaldhæðnin og skilgreiningagleðin

Meginástæðan fyrir því að efni þessa fyrirlestrar snerti við mér er sú að ég samsamaði mig með konunni sem skrifaði bréfið. Ég skildi svo vel þessa vanmáttakennd sem hún lýsti þegar hún sagðist vera orðin þreytt á að annað fólk væri sífellt að reyna að skilgreina hana og setja hana á bás.

Ég glímdi sjálf við það lengi vel að reyna að finna leiðir til að útskýra hvað ég geri í stuttu máli. Á tímabili var ég komin með eina setningu sem mér fannst leysa vandann þegar fólk spurði mig hvað ég geri. „Ég spyr spurninga“, sagði ég. Svo þagði ég í smá stund og fylgdist með viðbrögðunum, sem fólust gjarnan í spurnarsvip. Þá bætti ég oftast við: „Og ég leita reyndar svara við spurningunum oft og tíðum...“ Meira tómlæti mætti mér þá og í kjölfarið stóð flaumurinn út úr mér. Ég talaði gjarnan alltof hratt og hætti ekki fyrr en ég sá að spyrjandi var orðinn uppgefinn og löngu búinn að missa þráðinn. Útskýringagleðin náði yfirhöndinni. 

Þeir sem þekkja mig og vita hvað ég hef fengist við síðastliðin tuttugu ár, vita að ég hef meðal annars fengist við framleiðslu á fjölmiðlaefni þar sem ég spurði spurninga. Ég hef skrifað viðtalsbók þar sem ég spurði einnig spurninga. Í dag vinn ég við markþjálfun. Hún felst að miklu leyti í að spyrja spurninga. Útskýringin „Ég spyr spurninga“ á því við rök að styðjast þó hún segi ókunnugum afar lítið. Ég varð því að gangast við því að í útskýringunni fólst ákveðin kaldhæðni sem endurspeglaði viðhorf mitt til þess að umheimurinn fór fram á að ég skilgreindi mig útfrá því sem ég geri.

 

Endurspeglun á kjarnagildum

Þegar við hittum fólk sem við þekkjum, spyrjum við gjarnan: „Er ekki alltaf nóg að gera?“. Þessi spurning endurspeglar kjarnagildi íslensku þjóðarinnar. Að vinna og hafa nóg fyrir stafni. Þetta gildi á sér djúpar rætur enda byggðum við lengi vel afkomu okkar fámennu þjóðar á sjósókn og landbúnaði í sambýli við óstýriláta náttúru.

Í löndum þar sem lífsbaráttan hefur ekki verið eins hörð og fólk ekki þurft að berjast áfram í stórsjó og mótbyr, er viðkvæðið gjarnan annað. Þar spyr fólk frekar um upplifanir en að spyrja hvaða starfsvið viðkomandi hefur valið sér.

Hvernig væri að prófa nýja nálgun þegar við hittum fólk í fyrsta skipti. Í stað þess að spyrja: „Hvað gerir þú?“, að spyrja þá: „Hvað gerðirðu síðast þegar þú áttir frí?“ eða „Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur upplifað?“. Prófaðu þig áfram og ég get lofað því að samtalið verður áhugaverðara en þig órar fyrir.

 

 


Það sem geiturnar þrjár vissu

Tungumálið endurspeglar menninguna og er uppspretta ýmissa undirliggjandi hugmynda sem við höfum tekið á móti án þess að hafa leitt hugann að því sérstaklega. Við erum jú hluti af samfélaginu því við erum samfélagið.

Sumar þessarra hugmynda eru góðar og gildar og jafnvel undirstaða þeirra grunngilda sem við erum sammála um sem samfélag. Aðrar eru þess eðlis að þegar við kryfjum þær til mergjar, komust við fljótt að því að þær þjóna þeim tilgangi einum að halda aftur af okkur. Afturhaldið nær bæði til okkar sem einstaklinga en einnig til samfélagsins í heild. Skoðum þetta aðeins nánar.

 

Samfélagsleg hugmyndafræði

Þeir sem þekkja til á hinum Norðurlöndunum kannast eflaust við rótgróna hugmyndafræði sem kennd er við Jantelögin. Hugmyndafræðin var fyrst sett fram á prenti árið 1933 í bók dansk-norska höfundarins, Aksel Sandemose.

Þó svo að Aksel Sandemose sé álitinn faðir Jantelaganna, eru margir sem telja að hugmyndafræðin hafi þegar verið rótgróin þó Sandemose hafi sannarlega sett hana í samhengi og gefið henni nafn.

Lögin eru tíu talsins og áhugasamir geta kynnt sér þau nánar. Í hnotskurn má þó segja að Jantelögin séu hugmyndin um að hagur samfélagsins sé fremri hag einstaklingsins. Þetta endurspeglast gjarnan í ríkri hefð fyrir að gefa með sér, sem er innrætt frá blautu barnsbeini enda hefur sagan kennt okkur að græðgin verður manninum að falli. Því skal enginn taka meira en hann þarf, sem endurspeglast meðal annars í jafnlaunakerfinu í Noregi. Skilaboðin eru þau að enginn skuli hreykja sér af afrekum sínum. Enginn er merkilegri en annar.

Þessi hugmyndafræði hefur vissulega þjónað ákveðnum tilgangi í norrænu samhengi en á undanförnum árum hefur þó staðið ákveðinn styr um hana og vilja sumir meina að hún sé úrelt. Fyrir skömmu var haldin ráðstefna í Kaupmannahöfn þar sem frummælendur töluðu út frá því að hugmyndafræðin héldi aftur af nýsköpun og framþróun á Norðurlöndunum. Skipuleggjendur ráðstefnunnar tilheyra nokkurskonar andspyrnuhreyfingu gegn Jantelögunum.

 

Sama upp á teningnum?

Þrátt fyrir að Ísland sé vissulega norrænt velferðarkerfi í þeim skilningi að skattlagning er tiltölulega há og skattfé er notað til að standa vörð um samtryggingakerfi auk mennta- og heilbrigðiskerfis, má færa sterk rök fyrir að íslenskt samfélag sé að nokkru leyti frábrugðið hinum Norðurlöndunum. Þó er óhætt að segja að þessi rótgróna hugmyndafræði eigi sér hliðstæðu í íslensku samhengi.

Á Íslandi býr fámenn þjóð. Þrátt fyrir að mörgum þyki Reykjavík nú orðin stórborg með sína rúmlega tvöhundruð þúsund íbúa á höfuðborgarsvæðinu og ferðamannafjöld, er hún samt fámenn í samanburði við margar borgir á hinum Norðurlöndunum. Það er ennþá svo að þegar fólk sem hefur búið á Íslandi hittist, getur það oftast fundið einhvern sem það þekkir sameiginlega.

Rökstuðningur Aksel Sandemose var sá að Jantelögin öðluðust gildi í litlu samfélagi. Það er gömul saga og ný að smæðin heldur gjarnan aftur af framkvæmdagleði þeirra sem óttast illt umtal. Í því samhengi má nefna hugmyndina sem endurspeglast í spurningunni: „Hvað ert þú að vilja upp á dekk?“

 

Grasið er ekki grænna hinumegin – eða hvað?

„Framtíðin er þeirra sem trúa á fegurð drauma sinna“, sagði Eleanor Roosevelt svo eftirminnilega. Þessi orð hennar vekja hjá mér samkennd því ég veit að svo mörg okkar erum fangar úreltra hugmynda sem vængstífa hvern einasta draum. Þessar hugmyndir hafa áhrif á heimsýn okkar, hæfni til að eiga heilbrigð samskipti og virkni okkar sem einstaklinga í samfélaginu. Þær þjóna þeim tilgangi einum að standa í vegi fyrir að draumar okkar geti öðlast vængi, hlotið meðbyr og lyft okkur í hæstu hæðir.

Æ ofan í æ hef ég upplifað að fólk dragnast með úreltar hugmyndir sem hafa þessi lamandi áhrif á líf þess. Þær varpa skugga á svið möguleikanna og upplifunin verður sú að allt sé í lás. Það ber ekki kennsl á tækifærin og sér ekki fram á breytingar. Þetta gerist gjarnan þegar fólk festist í því munstri að tala í sífellu um það sem það ekki vill hafa í lífi sínu og kallar því ósjálfrátt fram meira af því sama.

Mergurinn málsins er sá að hugmyndin um að grasið sé ekki grænna hinumegin og aðrar hliðstæðar hugmyndir, gera það að verkum að við upplifum að við höfum ekki val. Því notum við ekki það sem skilur okkur frá dýrum merkurinnar, sem er hinn frjálsi vilji. Það gerast nefnilega undur og stórmerki þegar við veljum. Þá losum við úr læðingi atburðarás sem á sér enga hliðstæðu.

Þetta var semsagt leyndardómurinn sem geiturnar þrjár í ævintýrinu góða, höfðu áttað sig á. Þær vissu að það var ekki nóg að horfa yfir á hinn árbakkann til að geta bitið græna grasið sem þar óx. Nei, þær þurftu að velja að ganga yfir brúna. Þær vissu að tröllið bjó undir brúnni en þær fóru samt, ein af annarri.

Tröllið er táknmynd óttans í sögunni um geiturnar þrjár. Ég er þeirrar skoðunar að litla geitin sé táknmynd ungu manneskjunnar sem lætur óttann ekki stoppa sig heldur fer af stað og gabbar svo tröllið til að bíða eftir þeim sem á eftir kemur. Geitamamman er táknmynd þroskaðri manneskju sem velur að láta ekki óttann stoppa sig því hún veit að beitarlandið bíður. Geitapabbi er táknmynd þeirrar manneskju sem hefur öðlast kjark til að horfast í augu við óttann.

Eins og við vitum öll, þá féll tröllið í ána þegar geitapabbi stangaði það. Það er einmitt það sem gerist þegar við horfumst í augu við óttann. Hann hverfur á braut. Sagan um geiturnar þrjár endar þannig að upp frá því gátu geiturnar gengið um frjálsar og óttalausar.

Hvað með þig? Er ef til vill kominn tími til að þú stangir tröllið í lífi þínu?

 

 

 


Handbók leiðtogans - ný rafbók

Í huga sumra eru leiðtogar aðeins þeir sem hafa allt sitt á hreinu og gera aldrei mistök. Staðreyndin er hins vegar sú að leiðtogar mæta áskorunum daglega. Það er í rauninni sama hvort fólk hefur gegnt leiðtogastöðu um langa eða skamma hríð, áskoranirnar láta ekki á sér standa. Þetta á við bæði hjá stórum fyrirtækjum og stofnunum og einnig hjá þessum litlu.

Mín reynsla er sú að áskoranirnar eru svipaðar þó birtingarmyndin sé ólík eftir stærð og eðli fyrirtækisins eða stofnunarinnar. Það er að segja það er frekar stigsmunur heldur en eðlismunur á áskorununum. Þarna spila auðvitað ýmsir þættir stóra rullu, svo sem eins og menning fyrirtækisins eða stofnunarinnar og hinar mörgu óskrifuðu reglur sem starfsmenn hafa gjarnan spilað eftir svo árum og jafnvel áratugum skiptir.

 

Lausn í dagsins önn

Margir þeirra sem leita til mín hafa hug á að þróa leiðtogahæfileika sína og getu til að takast á við áskoranir en velta því fyrir sér hvernig best sé að bera sig að. Það er því nokkuð síðan ég fór að hugsa um að það væri gagnlegt að hafa aðgang að einhvers konar þróunaráætlun sem væri sérsniðin fyrir fólk í forystu. Nokkurs konar leiðtogahandbók.

Ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa haft ótal tækifæri til að bera kennsl á það í hverju helstu áskoranir leiðtoga eru fólgnar. Því hef ég nú tekið saman leiðtogahandbók þar sem helstu áskoranir leiðtogans eru til umfjöllunar ásamt leiðum til að mæta þeim.

 

Hvers vegna leiðtogahandbók?

Leiðtogar mæta áskorunum rétt eins og aðrir. En það merkilega er að áskoranir leiðtoga birtast oft sem áskoranir teymisins alls. Tökum dæmi um leiðtoga sem á erfitt með að setja skýr mörk. Ef einstaklingar innan teymisins eiga til að varpa frá sér ábyrgð í stað þess að taka hana, birtist það mjög skýrt þegar mörkin eru ekki skýr. Aðrir einstaklingar innan teymisins taka þá gjarnan ábyrgðina á verkum þeirra sem varpa henni frá sér. Afleiðingarnar má gjarnan greina í óánægju, samskiptaleysi og jafnvel vantrausti innan teymisins. Nýlegar rannsóknir renna stoðum undir þetta dæmi. Sýnt hefur verið fram á að teymi standa gjarnan frammi fyrir þessum áskorunum og fleiri:

 

  • Skortur á ábyrgð
  • Skortur á samvinnu
  • Lítil þátttaka einstaklinga innan teymisins
  • Erfitt að taka ákvarðanir
  • Vanhæfni til að leysa deilumál
  • Árangurslaus forysta
  • Vantraust
  • Togstreita sem er tilkomin vegna þess að markmið einstaklinga og markmið teymisins fara ekki saman

 

Of mikið að gera?

Það er gömul saga og ný að álagið í íslensku atvinnulífi er mikið og vinnustundirnar margar. Áskoranirnar eru fyrir hendi þó tíminn til að leysa þær virðist naumur vegna mikilla anna. En vegna þess að ég geri mér grein fyrir að leiðtogar hafa nóg á sinni könnu, hef ég sett handbókina upp á aðgengilegan hátt. Hún er ætluð til uppflettingar í dagsins önn. Í stuttu máli er hún hnitmiðuð, einföld og aðgengileg. Hún er á rafrænu formi og henni má hlaða niður til geymslu á skjáborðinu. Einnig er hægt að prenta út eintak og hafa aðgengilegt á skrifborðinu.

 

Hvers vegna núna?

Við vitum að áskoranirnar eru til staðar og flestar eru þess eðlis að þær draga úr framleiðni, starfsánægju og hafa jafnvel neikvæð áhrif á rekstrartölur fyrirtækisins. Spurningin ætti því raunverulega að vera hvers vegna ekki? Eftir hverju bíðurðu?

 

Eintak af handbók leiðtogans má nálgast hér.


Hvernig mælirðu þitt sjálfstraust?

Sjálfstraust er heillandi fyrirbæri. Þrátt fyrir að margir myndu skilgreina sjálfstraust sem hugtak og því óáþreifanlegt, má færa rök fyrir að sjálfstraust spili sterka rullu í mannlegum samskiptum og í upplifun okkar af lífinu. Þar á ég bæði við það sjálfstraust sem við búum yfir og einnig sjálfstraust annarra. Að sama skapi má segja að skortur á sjálfstrausti hafi áhrif á samskipti okkar og upplifun.

 

Hvernig mælirðu þitt sjálfstraust?

Mörg erum við nokkuð meðvituð um hvort sjálfstraust okkar er mikið eða lítið hverju sinni. Auðvitað hlýtur það alltaf að vera mælanlegt á þeim skala sem við þekkjum hjá okkur sjálfum, því erfitt er að bera eigið sjálfstraust saman við sjálfstraust annarra. Ástæðan þess er helst sú að ekki er allt sem sýnist. Mörg þekkjum við að hafa virkað örugg á aðra þó reyndin hafi verið sú að við skulfum á beinunum. Að sama skapi getum við upplifað aðra manneskju sem sjálfsörugga þó hún sé í raun óörugg örugg.

Sjálfstraust okkar hangir saman við sjálfsmynd okkar að mjög miklu leyti og því er gott að hafa í huga að sjálfstraustið getur borið hnekki þegar við erum í aðstæðum þar sem við erum illa áttuð. Margir hafa upplifað þetta á nýjum vinnustað eða í kjölfar annars konar breytinga. Í svoleiðis tilfellum erum við oft meðvituð um að þetta er tímabundið ástand og að sjálfstraustið eykst samhliða því sem við venjumst aðstæðum.

Oft kemur skortur á sjálfstrausti einnig fram þegar við stöndum frammi fyrir mikilvægum ákvörðunum. Skortur á sjálfstrausti getur einnig verið tilkominn vegna langvarandi samskipta sem teljast óheilbrigð. Ef skortur á sjálfstrausti er langvarandi áskorun í þínu lífi, er ráðlegt að leita aðstoðar.

 

Hvernig mælirðu sjálfstraust annarra?

Gott sjálfstraust endurspeglar sterka sjálfsmynd og sjálfsvirðingu. En þessi þrenning endurspeglar einnig virðingu fyrir öðru fólki.

Fólk sem virkar hrokafullt eða leyfir sér að koma fram við aðra af óvirðingu, gerir það oft vegna þess að sjálfsmynd þess er skert að einhverju leyti. Sjálfstraust þessa fólks er því í rauninni mjög lítið og birtingarmyndin eru þessi óheilbrigðu samskipti. Mér finnst sjálfri gott að hafa þetta í huga þegar ég finn mig í aðstæðum þar sem fólk kemur fram af óvirðingu. Hegðun viðkomandi endurspeglar í raun og veru skort á sjálfsvirðingu. Því þeir sem bera raunverulega virðingu fyrir sjálfum sér og hafa sterka sjálfsmynd, þeir hafa sjálfstraust til að koma vel fram við aðra. En þeir sem eru fastir í neti ljótleikans í samskiptum, eru oft þeir sem finnst þeir ekki eiga betra skilið. Það getur því verið lykill að því að umbreyta slíkum samskiptum að setja skýr mörk og segja frá því að svona samskipti séu manni ekki að skapi. Þarna er þó mikilvægt að muna eftir að taka alls ekki þátt með því að æsa sig eða fara í vörn. Mundu umfram allt að samskiptamáti viðkomandi hefur ekkert með þig að gera heldur endurspeglar hann skerta sjálfsmynd, sjálfstraust og sjálfsvirðingu hins aðilans.

 

Leiðir til að auka sjálfstraust

Eitt af því sem ég velti fyrir mér við undirbúning þessa pistils, var hvort það væri munur á kynjunum þegar sjálfstraust er annars vegar. Mér fannst meðal annars mikilvægt að kanna það með tilliti til þess að benda á leiðir til að auka sjálfstraust.

Það kemur sennilega fáum á óvart að heilmikið hefur verið skrifað um sjálfstraust kvenna og hefur það gjarnan verið borið saman við sjálfstraust karla. Lengi vel var sjálfstraust kvenna almennt talið minna en sjálfstraust karla. Nýlegar rannsóknir hafa hins vegar sýnt fram á að það eru aðrar breytur en kyn sem eru sterkari þegar sjálfstraust er annars vegar. Sjálfstraust ræðst semsagt frekar af einstaklingsbundnum þáttum og umhverfi. Því má segja að sjálfsmyndarvandi og skortur á sjálfstrausti séu menningartengdur vandi eða nokkurs konar kerfisvilla.

Þess vegna eru góðar fyrirmyndir og menningarlegar breytingar sem hafa jákvæð áhrif á umhverfi einstaklinga, einstaklega uppbyggjandi fyrir sjálfstraustið.

En sértu hins vegar að leita að einföldu ráði til að auka sjálfstraust þitt, ætla ég að deila einu sem hefur reynst mér vel. Fyrir nokkrum árum rakst ég á fyrirlestur þar sem sálgreinir fjallaði um sjálfstraust. Hún nefndi dæmi af sjálfri sér og sagðist óörugg þegar hún væri á leið í boð þar sem hún þekkti fáa eða jafnvel engan. Hún sagðist þá fara með því hugarfari að hún ætlaði að vera til þjónustu fyrir aðra. Hún sagðist beina sjónum að þeim sem virtust utangátta og hefja samræður á að spyrja um hagi viðmælandans. Hún einbeitti sér gjarnan að því að tala inn í aðstæður fólks og veita stuðning og uppörvun. Með þessu móti gleymdi hún sjálfri sér og eigin óöryggi á meðan hún lyfti náunganum upp og sýndi samhug í verki. Ég hef prófað þetta og get staðfest að það virkar.


Ábyrgð leiðtogans

Hugtakið ábyrgð virðist menningarbundið að einhverju leyti. Samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs frá árinu 1988 er sá ábyrgur sem svarar til ábyrgðar. Það að svara til ábyrgðar virðist þó síður en svo liggja beinast við hjá mörgum þeim sem gegna ábyrgðarstöðum og skilgreina sig sem leiðtoga.

 

Láttu það byrja hjá þér

Það er gömul saga og ný að verkin tala. Þetta er þekkt fyrirbæri í barnauppeldi og flestir foreldrar hafa rekið sig á að það skilar betri árangri að vera góð fyrirmynd heldur en að segja börnum og unglingum hvernig gera eigi hlutina. Ef orð og gjörðir fara ekki saman, er líklegra að börnin upplifi að ósamræmið sé hrópandi. Það kann því betri lukku að stýra að vera samkvæmur sjálfum sér. Verkin lofa nefnilega meistarann.

Það sama á við þegar við erum stjórnendur á vinnustað eða gegnum öðrum leiðtogastöðum. Sú ákvörðun að axla ábyrgð á sjálfum sér, er mikilvægasta ákvörðun þeirra sem vilja vera við stjórnvölinn í eigin lífi og ef við ætlum okkur að vera marktækir leiðtogar, þurfum við að fjarlægja flísina úr eigin auga áður en lengra er haldið.

 

Glugginn og spegillinn

Hinn snjalli leiðtogaskríbent, Jim Collins, höfundur bókarinnar Good to Great, segir að frábær leiðtogi sé sá sem hefur kjark til að horfa í spegil þegar eitthvað bjátar á. Hann bendir á að það skili engu að horfa út um gluggann í leit að sökudólgi.

Þarna er ekki verið að vísa til þess að taka ábyrgð á öðrum eða axla ábyrgð á mistökum annarra. Nei, þarna er verið að vísa til þess að skoða sinn eigin hlut að málum og taka ábyrgð á því þegar mistök hafa átt sér stað.

 

Mistök og ábyrgð

Fæst gerum við ráð fyrir að aðrir séu fullkomnir og geri aldrei mistök. Flest gerum við einnig ráð fyrir að gera mistök af og til þó fólk sé misjafnlega í stakk búið að fyrirgefa sjálfu sér mistökin. Stór hluti fólks ber af þessum sökum mikla virðingu fyrir hugrekki þeirra sem axla ábyrgð á mistökum sínum og biðjast velvirðingar á þeim. Þetta á við bæði um þá sem biðjast fyrirgefningar þegar þeir hafa gert eitthvað á hlut annarra, hvort sem það er í vinnu eða persónulegu samhengi og einnig um þá sem axla ábyrgð opinberlega.

Hugrekkið til að biðjast forláts öðlast þó aðeins þeir sem geta horfst í augu við sjálfa sig í umræddum spegli. „Hver er minn hlutur?“ er krefjandi spurning og það getur verið óþægilegt að svara henni. Hún krefst þess að við stöldrum við og skoðum hvort við höfum varpað ábyrgð á aðra. Hún krefst þess einnig að við skoðum hvort við höfum hafnað ábyrgð sem okkur var falin. Hún krefst hreinskilni, heiðarleika og fullvissu um að við búum í heimi þar sem allir gera mistök. Hins vegar er það engin afsökun fyrir að taka ekki ábyrgð á mistökum okkar. Þvert á móti er það tækifæri til vaxtar og lærdóms, hvort sem það er á einstaklingsgrundvelli eða á grundvelli samfélagsins alls.

 

Umburðarlyndi er forsenda farsældar

Smæð samfélaga eða stærð er oft notuð sem mælieining á heilbrigði þeirra. Margt er útskýrt í því samhengi og margar afsakanir fyrir mannlegri hegðun eru gefnar út á grundvelli smæðar. „Æi, já þetta er nú bara svona í litlu samfélagi.“ Vandinn er hins vegar sá að þessar afsakanir hrökkva skammt ef ætlunin er að breyta hlutunum til batnaðar. Það erum við sem búum til samfélagið og það er ekkert án okkar. Alveg eins og í öðrum félögum þá höfum við réttindi og skyldur. Hvorugt er til án hins.

Á öllum Norðurlöndunum er nú virk umræða um gildi, samfélagsgerð og skyldur. Að miklu leyti er þessi umræða til komin vegna þess mikla fjölda fólks sem hefur leitað ásjár á Norðurlöndunum síðastliðin ár. Einnig vegna þeirra efnahagsþrenginga sem steðjað hafa að Evrópu og áhrifanna sem gætir a.m.k. í Skandinavíu. En þegar talið berst að skyldum og ábyrgð, verður umræðan gjarnan stjórnmálaleg. Hún snertir á flokkspólitískum málum en þó ekki nema að hluta til því hún snýst fyrst og fremst um að það kveður við nýjan tón í stjórnmálum almennt í nyrsta hluta Evrópu. Þau gildi sem samfélögin byggðu á í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar eru ekki lýði enn í dag nema að hluta til. Norðurlandasamningurinn sem gerður var árið 1952 byggði á því að frændþjóðir styddu hver við aðra og auðvelduðu uppbyggingu með aðgengi Norrænna borgara að vinnumarkaði svæðisins í heild. Hann byggði á viljanum til að skapa einingu þar sem hafði ríkt ringulreið og sundrung á stríðstímanum. Hann byggði á vináttu og kærleika. Ef við viljum samfélag sem byggir á þeim kjarnagildum sem norrænt samfélag á að byggja á, þá þurfum við sem einstaklingar að staldra við og axla ábyrgð. Hvert okkar þarf að hafa kjark til að horfa í spegil í stað þess að horfa út um gluggann í leit að sökudólgi. Góðu fréttirnar eru þær að það er góð tilfinning að axla ábyrgð á sjálfum sér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband