Leita í fréttum mbl.is

Það sem geiturnar þrjár vissu

Tungumálið endurspeglar menninguna og er uppspretta ýmissa undirliggjandi hugmynda sem við höfum tekið á móti án þess að hafa leitt hugann að því sérstaklega. Við erum jú hluti af samfélaginu því við erum samfélagið.

Sumar þessarra hugmynda eru góðar og gildar og jafnvel undirstaða þeirra grunngilda sem við erum sammála um sem samfélag. Aðrar eru þess eðlis að þegar við kryfjum þær til mergjar, komust við fljótt að því að þær þjóna þeim tilgangi einum að halda aftur af okkur. Afturhaldið nær bæði til okkar sem einstaklinga en einnig til samfélagsins í heild. Skoðum þetta aðeins nánar.

 

Samfélagsleg hugmyndafræði

Þeir sem þekkja til á hinum Norðurlöndunum kannast eflaust við rótgróna hugmyndafræði sem kennd er við Jantelögin. Hugmyndafræðin var fyrst sett fram á prenti árið 1933 í bók dansk-norska höfundarins, Aksel Sandemose.

Þó svo að Aksel Sandemose sé álitinn faðir Jantelaganna, eru margir sem telja að hugmyndafræðin hafi þegar verið rótgróin þó Sandemose hafi sannarlega sett hana í samhengi og gefið henni nafn.

Lögin eru tíu talsins og áhugasamir geta kynnt sér þau nánar. Í hnotskurn má þó segja að Jantelögin séu hugmyndin um að hagur samfélagsins sé fremri hag einstaklingsins. Þetta endurspeglast gjarnan í ríkri hefð fyrir að gefa með sér, sem er innrætt frá blautu barnsbeini enda hefur sagan kennt okkur að græðgin verður manninum að falli. Því skal enginn taka meira en hann þarf, sem endurspeglast meðal annars í jafnlaunakerfinu í Noregi. Skilaboðin eru þau að enginn skuli hreykja sér af afrekum sínum. Enginn er merkilegri en annar.

Þessi hugmyndafræði hefur vissulega þjónað ákveðnum tilgangi í norrænu samhengi en á undanförnum árum hefur þó staðið ákveðinn styr um hana og vilja sumir meina að hún sé úrelt. Fyrir skömmu var haldin ráðstefna í Kaupmannahöfn þar sem frummælendur töluðu út frá því að hugmyndafræðin héldi aftur af nýsköpun og framþróun á Norðurlöndunum. Skipuleggjendur ráðstefnunnar tilheyra nokkurskonar andspyrnuhreyfingu gegn Jantelögunum.

 

Sama upp á teningnum?

Þrátt fyrir að Ísland sé vissulega norrænt velferðarkerfi í þeim skilningi að skattlagning er tiltölulega há og skattfé er notað til að standa vörð um samtryggingakerfi auk mennta- og heilbrigðiskerfis, má færa sterk rök fyrir að íslenskt samfélag sé að nokkru leyti frábrugðið hinum Norðurlöndunum. Þó er óhætt að segja að þessi rótgróna hugmyndafræði eigi sér hliðstæðu í íslensku samhengi.

Á Íslandi býr fámenn þjóð. Þrátt fyrir að mörgum þyki Reykjavík nú orðin stórborg með sína rúmlega tvöhundruð þúsund íbúa á höfuðborgarsvæðinu og ferðamannafjöld, er hún samt fámenn í samanburði við margar borgir á hinum Norðurlöndunum. Það er ennþá svo að þegar fólk sem hefur búið á Íslandi hittist, getur það oftast fundið einhvern sem það þekkir sameiginlega.

Rökstuðningur Aksel Sandemose var sá að Jantelögin öðluðust gildi í litlu samfélagi. Það er gömul saga og ný að smæðin heldur gjarnan aftur af framkvæmdagleði þeirra sem óttast illt umtal. Í því samhengi má nefna hugmyndina sem endurspeglast í spurningunni: „Hvað ert þú að vilja upp á dekk?“

 

Grasið er ekki grænna hinumegin – eða hvað?

„Framtíðin er þeirra sem trúa á fegurð drauma sinna“, sagði Eleanor Roosevelt svo eftirminnilega. Þessi orð hennar vekja hjá mér samkennd því ég veit að svo mörg okkar erum fangar úreltra hugmynda sem vængstífa hvern einasta draum. Þessar hugmyndir hafa áhrif á heimsýn okkar, hæfni til að eiga heilbrigð samskipti og virkni okkar sem einstaklinga í samfélaginu. Þær þjóna þeim tilgangi einum að standa í vegi fyrir að draumar okkar geti öðlast vængi, hlotið meðbyr og lyft okkur í hæstu hæðir.

Æ ofan í æ hef ég upplifað að fólk dragnast með úreltar hugmyndir sem hafa þessi lamandi áhrif á líf þess. Þær varpa skugga á svið möguleikanna og upplifunin verður sú að allt sé í lás. Það ber ekki kennsl á tækifærin og sér ekki fram á breytingar. Þetta gerist gjarnan þegar fólk festist í því munstri að tala í sífellu um það sem það ekki vill hafa í lífi sínu og kallar því ósjálfrátt fram meira af því sama.

Mergurinn málsins er sá að hugmyndin um að grasið sé ekki grænna hinumegin og aðrar hliðstæðar hugmyndir, gera það að verkum að við upplifum að við höfum ekki val. Því notum við ekki það sem skilur okkur frá dýrum merkurinnar, sem er hinn frjálsi vilji. Það gerast nefnilega undur og stórmerki þegar við veljum. Þá losum við úr læðingi atburðarás sem á sér enga hliðstæðu.

Þetta var semsagt leyndardómurinn sem geiturnar þrjár í ævintýrinu góða, höfðu áttað sig á. Þær vissu að það var ekki nóg að horfa yfir á hinn árbakkann til að geta bitið græna grasið sem þar óx. Nei, þær þurftu að velja að ganga yfir brúna. Þær vissu að tröllið bjó undir brúnni en þær fóru samt, ein af annarri.

Tröllið er táknmynd óttans í sögunni um geiturnar þrjár. Ég er þeirrar skoðunar að litla geitin sé táknmynd ungu manneskjunnar sem lætur óttann ekki stoppa sig heldur fer af stað og gabbar svo tröllið til að bíða eftir þeim sem á eftir kemur. Geitamamman er táknmynd þroskaðri manneskju sem velur að láta ekki óttann stoppa sig því hún veit að beitarlandið bíður. Geitapabbi er táknmynd þeirrar manneskju sem hefur öðlast kjark til að horfast í augu við óttann.

Eins og við vitum öll, þá féll tröllið í ána þegar geitapabbi stangaði það. Það er einmitt það sem gerist þegar við horfumst í augu við óttann. Hann hverfur á braut. Sagan um geiturnar þrjár endar þannig að upp frá því gátu geiturnar gengið um frjálsar og óttalausar.

Hvað með þig? Er ef til vill kominn tími til að þú stangir tröllið í lífi þínu?

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband