Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2016

Peningamegrun í sumar?

Mín fyrstu kynni af fyrirbærinu megrun voru fyrir tilstilli móður minnar á fyrri hluta níunda áratugarins. Hún hafði fest kaup á bókinni Scarsdale kúrinn og fylgdi því sem þar stóð skrifað í hvívetna.

Bókarkápan er mér einstaklega minnistæð en hana prýddi grafísk mynd af þéttholda eldri konu sem sat á bekk og sökkti tönnunum í stærðeflis hamborgara. Skammt frá bekknum gat að líta spengilega unga konu, íklædda íþróttafatnaði, sem gerði sig tilbúna til að henda uppnöguðu epli í ruslatunnu. Tvíhyggjan sem gjarnan fylgir fráhaldi svífur yfir vötnum og myndrænu skilaboðin höfða til matarsamviskunnar.

Tilgangurinn með þessu litla endurliti og þá helst myndræna uppdrættinum er að yfirfæra megrunarfyrirbærið yfir á fjármálin. Svo einfalt er það. Ég vona að forsvarskonur megrunarlausa dagsins fyrirgefi mér samlýkinguna því í mínum huga helgar tilgangurinn meðalið.

 

Átaksverkefni eða lífstílsbreyting?

Flestir vita að megrun er átaksverkefni, sem getur leitt til varanlegra breytinga en gerir það þó sjaldnast. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að það gefur betri raun að breyta um lífstíl. Að temja sér að velja hollan mat og hreyfa sig.

Hins vegar getur fráhald, fasta eða hreinsun orðið upphafið að breyttri líðan og þannig leitt af sér lífstílsbreytingu. Afraksturinn er aukin orka og betri heilsa til langs tíma.

Þetta má einnig til sanns vegar færa þegar kemur að peningamálunum. Þó óhætt sé að segja að færri hafi reynslu af því að fara í peningamegrun, getur hún að sama skapi orðið upphafið að lífstílsbreytingum á fjármálasviðinu.

 

Hvað er peningamegrun?

Fyrirbærið peningamegrun er þegar þú tekur meðvitaða ákvörðun um að nýta þér aðferðir gjörhygli (e. mindfulness) í fjármálunum. Með öðrum orðum að öðlast betri vitund um hvernig þú notar peningana þína og í framhaldinu gera þær breytingar sem þú þarft að gera til að geta orðið fjárhagslegur leiðtogi í eigin lífi.

Fyrsta skrefið í þessa átt er að nota litla vasabók og skrifa niður dagsetningu, hvað þú kaupir og hvað það kostar. Sumum kann að finnast þetta mjög gamaldags ráð og hafa jafnvel spurt sig hvort undirrituð hafi aldrei heyrt um heimabanka og bankayfirlit. En sannleikurinn er sá að með því að skrifa niður í hvað peningarnir fara, öðlastu nýja sýn á fjármálin. Ég skora á þig að prófa í mánuð og sjá hvað gerist.

Annað gott ráð fyrir áhugasama er að hafa að minnsta kosti einn dag í viku þar sem þú notar enga peninga. Eða með öðrum orðum, þann dag eyðir þú engu. Þarna koma skipulag og hugmyndaauðgi að góðum notum. Ég er nefnilega ekki að leggja til að neinn svelti. Hins vegar gætirðu tekið með þér nesti þennan dag í stað þess að kaupa þér tilbúinn mat á vinnutíma. Þú gætir einnig lagað þér kaffi og sett það í götumál í stað þess að koma við á kaffihúsinu.

Fyrir þá sem kunna vel við áskoranir, þá geta dagarnir einnig verið fleiri en einn í viku. Prófaðu þig áfram og mældu árangur þinn. Það virkar hvetjandi!


Ástríða í stríðum straumi

Nýlega horfði ég á upptöku af erindi rithöfundarins Elisabeth Gilbert þar sem rauði þráðurinn er sá að sumir hafa sterka köllun og afgerandi hæfileika á afmörkuðu sviði en hæfileikar annarra liggja á fleiri sviðum.

Hún segist alltaf hafa vitað að henni væri ætlað að skrifa. Áður en skrif hennar hlutu náð fyrir augum heimsins, vann hún við þjónustustörf til að geta séð sér farborða. En þráin til að ná til fólks fyrir tilstilli ritmálsins var öllu öðru yfirsterkari. Hún hélt sér við efnið og sá dagur kom að bók hennar Borða, biðja, elska, sló sölumet víða um heim.

Í kjölfar velgengninnar var hún beðin að halda fyrirlestra og ferðaðist víða í þeim tilgangi. Efni fyrirlestranna var alltaf það sama: ástríða hennar og eljan til að halda áfram og láta ekkert stopppa sig. Jafnvel þó það hefði tekið tíma og kostað fórnir.

 

Ástríða eða fjölhæfni

Í erindinu sem ég hlustaði á, kvað þó við nýjan tón. Hún sagði að kvöld eitt eftir einn af fyrirlestrunum, hafi hún fengið bréf frá konu sem benti henni á að það væru ekki allir með afgerandi hæfileika á einu sviði. Það hefðu ekki allir ástríðu og köllun. Sumir væru hreinlega ágætir í mörgu og fyndist ýmislegt áhugavert. Svo fengju þeir jafnvel áhuga á öðru og gerðu það.

Bréfritari benti henni á að það væri ekkert að þessu fólki og kvaðst orðin leið á að fólk með afgerandi hæfileika á afmörkuðu sviði, benti hinum á það í sífellu að þeir yrðu að finna köllun sína. Finna ástríðuna til að gera eitthvað eitt og berjast fram í rauðan dauðann fyrir því að það eitt fengi framgöngu í lífi þess.

Elisabeth Gilbert lýsir því í erindinu að þarna hafi orðið þáttaskil í lífi hennar. Hún hafi staldrað við og komið auga á að flest fólk í kringum hana sjálfa, tilheyrði þessum hópi sem konan benti henni á. Hún hafði bara aldrei borið kennsl á það. Sagðist hafa verið svo upptekin af eigin heimsmynd og skilaboðunum sem henni fannst hún þurfa að koma á framfæri um ástríðuna og mikilvægi hennar.

Þó var ekki svo að skilja að fólk sem ekki hefur afgerandi hæfileika á afmörkuðu sviði, næði ekki árangri í því sem það tekur sér fyrir hendur hverju sinni. Síður en svo. Hún tók bæði manninn sinn og bestu vinkonu sem dæmi um fólk sem hafði tekið sér ólíka hluti fyrir hendur og náð árangri.

Kaldhæðnin og skilgreiningagleðin

Meginástæðan fyrir því að efni þessa fyrirlestrar snerti við mér er sú að ég samsamaði mig með konunni sem skrifaði bréfið. Ég skildi svo vel þessa vanmáttakennd sem hún lýsti þegar hún sagðist vera orðin þreytt á að annað fólk væri sífellt að reyna að skilgreina hana og setja hana á bás.

Ég glímdi sjálf við það lengi vel að reyna að finna leiðir til að útskýra hvað ég geri í stuttu máli. Á tímabili var ég komin með eina setningu sem mér fannst leysa vandann þegar fólk spurði mig hvað ég geri. „Ég spyr spurninga“, sagði ég. Svo þagði ég í smá stund og fylgdist með viðbrögðunum, sem fólust gjarnan í spurnarsvip. Þá bætti ég oftast við: „Og ég leita reyndar svara við spurningunum oft og tíðum...“ Meira tómlæti mætti mér þá og í kjölfarið stóð flaumurinn út úr mér. Ég talaði gjarnan alltof hratt og hætti ekki fyrr en ég sá að spyrjandi var orðinn uppgefinn og löngu búinn að missa þráðinn. Útskýringagleðin náði yfirhöndinni. 

Þeir sem þekkja mig og vita hvað ég hef fengist við síðastliðin tuttugu ár, vita að ég hef meðal annars fengist við framleiðslu á fjölmiðlaefni þar sem ég spurði spurninga. Ég hef skrifað viðtalsbók þar sem ég spurði einnig spurninga. Í dag vinn ég við markþjálfun. Hún felst að miklu leyti í að spyrja spurninga. Útskýringin „Ég spyr spurninga“ á því við rök að styðjast þó hún segi ókunnugum afar lítið. Ég varð því að gangast við því að í útskýringunni fólst ákveðin kaldhæðni sem endurspeglaði viðhorf mitt til þess að umheimurinn fór fram á að ég skilgreindi mig útfrá því sem ég geri.

 

Endurspeglun á kjarnagildum

Þegar við hittum fólk sem við þekkjum, spyrjum við gjarnan: „Er ekki alltaf nóg að gera?“. Þessi spurning endurspeglar kjarnagildi íslensku þjóðarinnar. Að vinna og hafa nóg fyrir stafni. Þetta gildi á sér djúpar rætur enda byggðum við lengi vel afkomu okkar fámennu þjóðar á sjósókn og landbúnaði í sambýli við óstýriláta náttúru.

Í löndum þar sem lífsbaráttan hefur ekki verið eins hörð og fólk ekki þurft að berjast áfram í stórsjó og mótbyr, er viðkvæðið gjarnan annað. Þar spyr fólk frekar um upplifanir en að spyrja hvaða starfsvið viðkomandi hefur valið sér.

Hvernig væri að prófa nýja nálgun þegar við hittum fólk í fyrsta skipti. Í stað þess að spyrja: „Hvað gerir þú?“, að spyrja þá: „Hvað gerðirðu síðast þegar þú áttir frí?“ eða „Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur upplifað?“. Prófaðu þig áfram og ég get lofað því að samtalið verður áhugaverðara en þig órar fyrir.

 

 


Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband