Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2017

Fimm ráð til að ná betri tökum á fjármálunum

Mörgum finnst tilhugsunin um fjármál og fjármálaumsýslu, hreinlega leiðinleg. Ég var í hópi þess fólks um áraraðir og þessvegna fann ég skemmtilegar og skapandi leiðir til að ná tökum á fjármálunum þegar ég ákvað að verða fjárhagslegur leiðtogi í eigin lífi.

 

Ég viðurkenni þó fúslega að skattaskýrslur og bókhald eru enn á listanum yfir það sem mér finnst hreinlega leiðinlegt. Góðu fréttirnar eru þær að það má auðveldlega útvista slíkum verkum til þeirra sem ferst betur úr hendi að leysa þau.

 

En þó verð ég að segja að með hverju árinu sem líður verða fjármálin meira aðlaðandi. Það hefur bæði með mitt eigið viðhorf og nálgun að gera.

 

Ef þú ert meðal þeirra sem vilt ná betri tökum á fjármálunum, koma hér nokkur hagnýt ráð:

 

  1. Taktu þér tíma vikulega til að skoða fjármálin. Ekki bara til að greiða reikninga, heldur einnig til að gera áætlanir.
  2. Lækkaðu kostnað. Farðu yfir kostnaðinn þinn reglulega. Skoðaðu allan fastan kostnað að minnsta kosti tvisvar sinnum á ári. Notarðu allt sem þú ert með í áskrift? Geturðu fengið betra verð hjá öðru fyrirtæki, o.s.frv. Þetta telur allt.
  3. Peningalaus dagur. Hafðu það fyrir reglu að hafa að minnsta kosti einn peningalausan dag í viku. Taktu með þér nesti og skipuleggðu þig vel. Þetta er skemmtileg æfing og býr til meðvitund um hversu mikilvægir peningar eru í daglegu lífi okkar.
  4. Búðu þér til varasjóð. Það kemur alltaf eitthvað upp á, svo í stað þess að flokka það sem: „óvænt útgjöld“ geturðu mætt bílaviðgerðum og viðlíka með bros á vör.
  5. Seldu það sem þú notar ekki. Áttu fatnað eða hluti sem þú hefur engin not fyrir? Það er bæði efnahagslega hagkvæmt og umhverfisvænt að gefa því sem enginn notar heima hjá þér, nýtt líf hjá nýjum eiganda.

 

Finndu fleiri leiðir til að ná betri tökum á þínum fjármálum og mundu að leyfa þér að nálgast fjármálin með skapandi hætti. Peningar geta nefnilega verið skemmtilegir! 


Hver er þín afsökun?

Kannastu við að hafa sagt setningar á borð við þessar: „Ég mundi vilja gera þetta en ég hef ekki tíma.“ eða „Mig langar en ég hef bara ekki efni á því“.

Flest notum við svona afsakanir án þess að velta því fyrir okkur. Notkun þeirra er svo algeng að fæstir setja við þær spurningamerki. Ef betur er að gáð, liggur þó meira að baki.

 

Vald og ábyrgð

Ættum við ekki að gefa okkur tíma til að gera það sem er okkur mikilvægt og forgangsraða fjármálunum þannig að við getum upplifað það sem við þráum mest í lífinu?

Jú sennilega getum við flest tekið undir að svo eigi að vera. Engu að síður verðum við oft þeim vana að bráð að notast við afsakanir.

Þegar við tökum ábyrgð á lífi okkar og ákvörðunum, þá gætu ofangreindar setningar verið á þessa leið: „Mér finnst þetta sniðugt en ætla að verja tíma mínum í annað.“ og „Mig langar þetta ekki nægilega til að ákveða að forgangsraða fjármálunum þannig að ég geti gert þetta“.

Athugið að ég er ekki aðeins að vísa til afsakana sem við segjum upphátt heldur líka til þeirra sem við notum í innri samræðum við okkur sjálf.

 

Stattu með þér!

Þegar við tökum okkur það vald í eigin lífi að bera ábyrgð á okkur sjálfum, þá eflumst við og upplifun okkar á lífinu verður önnur.

Það er magnað að samfara aukinni sjálfsábyrgð, minnkar einnig þörf okkar til að hafa skoðun á lífi annarra. Við eigum auðveldara með að sleppa tökunum á öðrum, án þess þó að missa hæfileikann til að finna til með öðrum eða vera til staðar fyrir þá sem þurfa á hjálp að halda. Við verðum frjálsari í því að standa með okkur og setja heilbrigð mörk.

Aukin sjálfsábyrgð gerir það líka að verkum að við eigum auðveldara með að fara í gegnum daginn án þess að láta stjórnast af því sem verður á vegi okkar.

Það gerir lífið mun skemmtilegra!

 

Að taka pláss

Að leyfa sér að taka pláss, án þess að finnast maður þurfa að afsaka sig í sífellu, getur verið stærsta verkefni lífsins.

Fyrsta skrefið er að hlusta á afsakanirnar sem við búum til innra með okkur og jafnframt þær sem við látum útúr okkur. Næsta skrefið er að hætta að afsaka sig.

Leyfum okkur það og verum þannig fyrirmyndir hvert fyrir annað. Tökum pláss og leyfum öðrum að njóta sín á eigin forsendum!


Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband