Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2015

Margur verður af aurum...

Líklega sagðirðu api, annað hvort upphátt eða í hljóði áður en þú smelltir til að lesa pistilinn. Orðatiltækið er eitt af mörgum sem endurspeglar víðteknar peningahugmyndir fólks. Það á uppruna sinn í Hávamálum og er inngreipt í samfélagslega vitund okkar, hvort sem við sem einstaklingar trúum því að margur verði af aurum api, eður ei.

 

Áhrif peningahugmynda

En hvaða áhrif hafa peninghugmyndir sem þessi í raun og veru á okkur sem einstaklinga? Þær hafa heilmikil áhrif því þær stýra peningahegðun okkar.

Sá sem trúir því undir niðri að margur verði af aurum api, leggur varla áherslu á að leggja fyrir og fjárfesta.

Peningar vaxa ekki á trjánum, er önnur algeng hugmynd. Þeir sem sitja uppi með þá hugmynd að þú þurfir að leggja mjög hart að þér fyrir hverja krónu sem þú aflar, verja gjarnan meiri tíma á vinnustaðnum en ástæða er til því þeir stjórnast af þeirri hugmynd að þú þurfir að vinna mikið fyrir laununum. Þeir sem eru sjálfstætt starfandi og sitja uppi með sömu hugmynd, þiggja gjarnan lægri laun fyrir hvert og eitt verkefni og eru störfum hlaðnir.

 

Þetta reddast

Þessi fræga hending sem er gjarnan notuð til að útskýra grunnstefið í íslenskri menningu og hugsunarhætti, einkennir fjármál margra einstaklinga og er jafnvel inngreipt í fyrirtækjarekstur. Reddingahugsunin kemur sér vel að mörgu leiti. Hún getur ýtt undir framleiðni, sköpunargleði og eflt liðsanda. Hún er grunnurinn að því að margir leggja gjarnan hart að sér um tíma, því þeir sjá fyrir betri tíð með blóm í haga. Segja má að þessi vertíðarhugsun stýri peningahegðun þjóðarinnar að mörgu leiti. Nú berast til að mynda fregnir af auknum hagvexti og stóraukinni kreditkortanotkun landans.

 

Vogun vinnur, vogun tapar

Skyndigróðahugsunin á sér einnig djúpar rætur og þarf ekki að fara langt aftur í tímann til að finna dæmi af gullgrafaraæði ýmiss konar sem geysað hefur eins og stormur víða um land. Má þar nefna laxeldi, refarækt, bankalán til kaupa á verðbréfum og nú síðast Airbnb. „Við verðum jú öll að redda okkur“ er gjarnan viðkvæðið.

 

Gott ráð

Það er áhugaverð iðja að virða sjálfan sig fyrir sér úr fjarlægð og velta því fyrir sér hvaða hugmyndir liggja að baki peningahegðun okkar. Að hversu miklu leyti stjórnast þú af umhverfi þínu eða jafnvel bakgrunni þínum? Skuldir, gjaldþrot og peningaleysi valda því gjarnan að fólk situr uppi með skömm. Aðrir sitja uppi með skömm vegna peningahegðunar sinnar. Hvort sem það er vegna peninganotkunar (eyðslu) eða jafnvel velmegunar. Hugsaðu málið og settu peningahugmyndir þínar í samhengi við peningahegðunina.


Leynist fjármálasnillingur innra með þér?

Ef einhver hefði spurt mig þessarar spurningar fyrir fimm árum, hefði ég sennilega hlegið og sagt þvert nei. Í dag trúi ég því hins vegar að það búi fjármálasnillingur innra með okkur öllum. Við þurfum bara mjög mismunandi aðferðir til að laða fram snilligáfuna.

Flestir sem koma til mín í markþjálfun byrja setningar um fjármál á einhverju af eftirfarandi: „Ég hef ekki efni á...“ „Ég get ekki...“ „Ég kann ekki...“. Með aðferðum markþjálfunarinnar og gleraugum peningaerkitýpanna, öðlast fólk þó fljótlega sjálfstraust til að nálgast fjármálin sín með endurnýjuðu hugarfari. Breytingarnar eru ótvíræðar og skila sér á öllum sviðum lífsins. Það að vera fjárhagslegur leiðtogi í eigin lífi er nefnilega einstaklega valdeflandi.

 

Snýst ekki bara um krónur og aura

Það að vera við stjórnvölinn þegar kemur að fjármálunum snýst ekki bara um krónur og aura. Það snýst fyrst og fremst um hugarfar. Möguleikar okkar til að búa til peninga takmarkast nefnilega eingöngu af okkar eigin hugarfari.

Það sama á við um það hvernig við förum með peningana okkar. Það einkennist einnig fyrst og fremst af hugarfari okkar og því hvernig við erum samsett í grunninn. Þarna leika peningaerkitýpurnar okkar stóra rullu.

 

Hvernig týpa ert þú?

Segja má að peningaerkitýpurnar séu peninga DNA-ið okkar. Týpurnar eru átta talsins og hjá hverju og einu okkar trónir ein þeirra á toppnum. En það er samspil þriggja efstu erkitýpanna sem gerir okkur einstök. Ef efstu erkitýpurnar okkar eru ósammála í grundvallarafstöðu sinni til peninga, myndast ákveðin togstreita innra með okkur sem kemur oft fram í peningahegðun sem veldur okkur hugarangri eða jafnvel streitu og kvíða. Tökum dæmi. Ein þeirra, Safnarinn, vill gjarnan leggja fyrir og eiga fyrir hlutunum. Það sem vakir fyrir Frumkvöðlinum hins vegar er að taka áhættu sem getur haft mikinn fjárhagslegan ávinning í för með sér. Þegar þessar tvær peningaerkitýpur tróna á toppnum hjá einni og sömu manneskjunni, getur komið upp innri togstreita þegar raddir þeirra takast á. Önnur vill alls ekki taka áhættu í fjármálum og stígur varlega til jarðar þegar kemur að fjárfestingum. Hin vill hins vegar mjög gjarnan taka áhættu og þrífst reyndar á því. Hún beinir sjónum að ávinningnum sem getur hlotist af áhættunni og hefur reyndar merkilega oft rétt fyrir sér. Vogun vinnur, vogun tapar, segir máltækið og á meðan Frumkvöðullinn heyrir aðeins fyrri hlutann með áherslu á vinnur, heyrir Safnarinn gjarnan seinni hlutann með áherslu á tapar.

Með aðferðum markþjálfunarinnar vinnum við í að byggja kerfi sem leyfa báðum erkitýpunum og hæfileikum þeirra að njóta sín. Samspil þeirra getur orðið algjörlega magnað.


Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband