Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2015

Ertu í sjálfsábyrgð?

Stærsta áskorun okkar sem einstaklinga felst í að bera ábyrgð á okkur sjálfum. Það kann að hljóma einkennilega og virðast einfalt en staðreyndin er sú að fæstum tekst þetta alla daga allt lífið. Ég leyfi mér reyndar að efast um að nokkrum takist það.

Okkur hættir frekar til að horfa út um gluggann í leit að sökudólgi þegar eitthvað fer úrskeiðis í lífi okkar. En þeir sem taka ábyrgð á sjálfum sér horfa í spegil og spyrja sig hvað þeir hefðu getað gert betur. Þeir spyrja sig ennfremur hvaða lærdóm þeir geti dregið af mistökunum. Þetta þýðir þó ekki að þeir muni ekki gera mistök aftur. Nei þvert á móti því þeir sem taka ábyrgð á sjálfum sér gera mistök eins og aðrir en þeir eru tilbúnir að viðurkenna þau fyrir sjálfum sér og öðrum. Þeir biðjast líka fyrirgefningar og fyrirgefa sjálfum sér.

 

Góð spurning

Í bók sinni How Successful People Think, segir John C. Maxwell frá því hvernig hann kenndi börnunum sínum að meta það góða í lífinu og jafnframt að draga lærdóm af reynslunni. Hann gerði þetta meðal annars með því að spyrja þau spurningar þegar þau komu úr fríi eða höfðu varið tíma saman sem fjölskylda. Spurningin er þessi: Hvað fannst þér skemmtilegast og hvað lærðirðu?

Þessi spurning er einstaklega nytsamlega fyrir unga sem aldna. Hennar má spyrja daglega ef því er að skipta. Við getum einnig tamið okkur að spyrja okkur sjálf þessarar spurningar um leið og við leggjum höfuðið á koddann að kvöldi. Hvað fannst mér skemmtilegt í dag og hvað lærði ég?

Með þessum hætti förum við ósjálfrátt að taka betur eftir því sem okkur finnst skemmtilegt í lífi okkar og við förum að taka ábyrgð á því að gera meira af því sem okkur finnst skemmtilegt. Þeir sem upplifa að þeir hafi ekki gert neitt skemmtilegt, þurfa þá að spyrja sig hvers vegna.

Spurningin um það hvaða lærdóm við getum dregið af deginum er einnig mjög gagnleg og hjálpar okkur að taka ábyrgð á sjálfum okkur, orðum okkar og gjörðum. Þessi spurning er einnig gagnleg til að minna okkur á að við berum ekki ábyrgð á orðum og gjörðum annarra.

 

Gott ráð

Ég þekki einstaka konu sem hefur náð miklum árangri í lífinu. Hún deildi því með mér fyrir mörgum árum að hún skipuleggur daglega fundi með skemmtilegu fólki. Annað hvort hittir hún fólk í kaffi, hádegismat eða ver með því tíma við íþróttaiðkun ýmiss konar. Hún segir þetta vera lykilinn að velgengni sinni og að þetta hafi komið henni í gegnum erfiða tíma í lífinu. Hún hefur nefnilega eitthvað til að hlakka til um leið og hún vaknar á morgnana. Hún á heldur ekki í vandræðum með að nefna það sem henni hefur þótt skemmtilegt þann daginn auk þess sem hún segist læra eitthvað nýtt á hverjum degi þegar hún hittir allt þetta skemmtilega fólk. Maður er manns gaman!


Fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá

Þann 19. júní fögnum við aldarafmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Á þessum merku tímamótum er vert að staldra við og spyrja hvað við getum lært af útsjónasemi og elju þeirra kvenna sem ruddu brautina. Baráttan fyrir kosningarétti var löng og orðræðan oft hatrömm. En þær gáfust ekki upp og höfðu betur að lokum.

 

Ábyrgð hverrar kynslóðar

Hver kynslóð þarf að vera meðvituð um verk sín og setja þau í samhengi við söguna. Þar skiptir einstaklingurinn máli og ákvarðanir hvers og eins. Hugsið ykkur ef Bríet Bjarnhéðinsdóttir hefði skorast undan og ekki hlýtt kallinu um að berjast fyrir réttindum kvenna. Eða ef Ingibjörg H. Bjarnason hefði sagt nei við að verða fyrsta konan til að taka sæti á Alþingi. Mér verður oft hugsað til þessarra kvenna og hugrekki þeirra veitir mér innblástur.

 

Með hugrekkið að vopni

Samfélagsleg umræða okkar tíma er slík að margir kæra sig hvorki um að taka þátt í henni né að fylgjast með henni. Neikvæðni, sleggjudómar og persónulegar árásir í athugasemdakerfum, fæla fólk frá því að ganga fram fyrir skjöldu og fara fyrir breytingum á opinberum vettvangi. En konurnar sem börðust fyrir kosningarétti fóru ekki varhluta af þessu á sínum tíma. Þó engin hafi verið athugasemdakerfin eða bloggsíðurnar, var orðræðan rætin og baráttan krafðist hugrekkis.

Verum meðvituð um baráttu þeirra sem hafa rutt brautina og hugsum til þess með hvaða hætti við ætlum að setja mark okkar á söguna. Bæði sem einstaklingar og sem samfélag. Veljum við að skrifa öll okkar bestu ljóð í öskuna eða veljum við að stíga fram og láta rödd okkar heyrast svo um munar?


Orð eru dýr

Daginn sem fyrsta orðið hraut af vörum þínum, breyttist allt. Foreldrar þínir fluttu ættingjum og vinum fregnir af þessu stórkostlega barni sem sagði fyrsta orðið. Þvílíkt undur! Svo bættust orð í safnið og smám saman fórstu að mynda setningar. Einn daginn varstu altalandi.

 

Orð eru merkilegt fyrirbæri og máttur þeirra stórlega vanmetinn. Setningar eins og orð eru til alls fyrst og í upphafi var orðið, eru hluti af menningu okkar sem vestrænnar þjóðar án þess að við gerum okkur almennt grein fyrir valdinu sem felst í orðum okkar og notkun þeirra dag frá degi.

 

Orð sem sverð

Sumir nota orð sín sem sverð til að særa aðra vísvitandi. En sannleikurinn er sá að við höfum líka vald til að ákveða hvort við látum orð annarra hafa bein áhrif á líf okkar eða látum þau falla dauð og ómerk niður. Við getum einnig valið að staldra við og nota orð okkar til að stoppa flauminn frá þeim sem nota orð til að særa. Við getum til dæmis sagt: Orð þín særa mig. Ég vil ekki að svona sé talað við mig svo ég bið þig að hætta.

 

Orð sem breyta öllu

Lögmálið um orsök og afleiðingu stjórnast af því sem við segjum. Við höfum vald til að tala blessun inn í líf okkar. En við höfum einnig vald til að viðhalda óbreyttu ástandi eða gera illt verra – með orðum okkar einum saman. Nú andvarpa sumir og segja jafnvel: þvílíkt rugl. En sannleikurinn er sá að orð eru til alls fyrst. Það sem við segjum getum við notað til niðurrifs en einnig til uppbyggingar. Það er okkar val.

 

Setningin sem glæðir lífið litum

Fyrir rúmu ári síðan varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast ungri konu sem hefur einstakt viðhorf til lífsins. Ég tók strax eftir glaðværðinni sem hún býr eftir og fór ósjálfrátt að fylgjast með henni. Þegar ég heyrði hana segja sömu setninguna fjórða morguninn í röð, áttaði ég mig á því í hverju gleði hennar var fólgin. Hún fólst í viðhorfi hennar til lífsins, sem endurspeglaðist í því að hún endurtók upphátt með innlifun: „Í dag er besti dagur lífs míns!“ á hverjum einasta degi. Prófaðu og fylgstu með því sem breytist í kjölfarið.


Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband