Leita í fréttum mbl.is

Heimsmeistarar í sparnaði?

Margir láta sig dreyma um að leggja fyrir en koma því ekki í verk. Aðrir setja sparnað í forgang og eiga alltaf fyrir öllu. Enn aðrir leggja fyrir en falla svo í þá gryfju að nota svo peningana sem þeir höfðu lagt fyrir í eitthvað annað en ætlunin var. Þeir sömu gefast þá gjarnan upp og sitja uppi með þá trú að þeim sé hreinlega ómögulegt að spara.

 

Ekki sparnaðarþjóð

Þrátt fyrir að við séum heimsmeistarar í mörgu og ofarlega á listum yfir methafa í öðru, erum við ekki sparsamasta þjóð í heimi. Þegar alþjóðlegar tölur um sparnað þjóða eru skoðaðar kemur í ljós að fólk á Íslandi er upp til hópa ekki mjög duglegt að leggja fyrir. Sumir hugsa sem svo að lífeyrissparnaðurinn dugi og auðvitað séreignasparnaðurinn. En liggja þarna flóknari ástæður að baki?

 

Spara bara?

Á undanförnum árum hef ég verið þess heiðurs aðnjótandi að fá að greina peningapersónugerðir hjá dágóðum hópi fólks. Samkvæmt fræðunum sem liggja að baki greiningunni eru peningahegðun og viðhorf fólks til peninga til grundvallar.

Eitt af því sem hefur komið í ljós er að fæstum peningapersónugerðum er það eðlislægt að spara. Peningahegðun meirihlutans helgast fremur af þránni til að eignast hluti og nota peninga sjálfum sér og öðrum til gagns og gamans. Það er því ekkert bara – að spara, ef svo má að orði komast.

Að sumu leyti má segja að þetta séu góðar fréttir, því efnahagskerfið byggir mikið til á því að við notum peningana okkar. Hin hliðin er sú að varasjóður getur veitt mörgum okkar töluverða öryggiskennd. En hvernig getum við hafist handa og hvað er í boði fyrir þá sem vilja spreyta sig á sparnaði?

 

Misjafnar leiðir henta ólíkum einstaklingum

Ég er ekki fjármálaráðgjafi heldur sérhæfð í að greina peningahegðun og viðhorf fólks til peninga. Frá þeim sjónarhóli hefur gefist tækifæri til að sjá og reyna hvaða leiðir henta ólíkum einstaklingum þegar sparnaður er annars vegar.

Það eru ýmsar sparnaðarleiðir í boði hjá bönkum og fjárfestingarfyrirtækjum. Allt frá því að leggja inn á bók upp á gamla móðinn upp í að stunda verðbréfaviðskipti (sem sumir flokka sem áhættufjárfestingar). Nú svo er auðvitað hægt að stinga peningunum undir koddann eða læsa þá inni í peningaskáp en þess ber að geta að hvorug þeirra leiða gefur ávöxtun.

Hvaða leið sem þú ákveður að fara er fyrsta skrefið að setja sér markmið og standa við það.

 

Að taka peninga úr umferð

Það getur reynst kvíðvænlegt að taka peninga úr umferð og ákveða að leggja þá fyrir eða fjárfesta þeim með einhverjum hætti. Sumum þykir það óhugsandi og kjósa frekar að hafa aðgang að peningunum sínum. Þá er hættan þó sú að ávöxtunin sé minniháttar og ef til vill verður freistingin yfirsterkari þegar peningarnir geta orðið að gagni, sem gerist oftar en ekki.

Sjálfri hefur mér gefist best að taka peningana úr umferð með því að læsa þá inni á hávaxtareikningi sem bankinn hefur umsjón með. Ég viðurkenni þó fúslega að þetta geri ég aðeins með ákveðinn tilgang í huga og hann er sá að safna fyrir einhverju sem ég þrái að eignast.

Margir af viðskiptavinum mínum hafa góða reynslu af verðbréfaviðskiptum auk þess sem velflestir nýta sér þjónustu netbankanna sem bjóða viðskiptavinum að stofna reikninga að eigin vali.

Ég geng hvorki erinda banka né verðbréfafyrirtækja, heldur ber hag hins almenna borgara fyrir brjósti. Því vil ég hvetja þig lesandi góður til að líta í eigin barm og svara því af hreinskilni hversu mikilvægt þér þykir að leggja fyrir – á skalanum 1-10, þar sem 10 er hæst. Ef talan er hærri en 8 er næsta skref að þú kynnir þér þær sparnaðarleiðir sem eru í boði. Ef þig rekur í strand gæti verið ráð að þú kynnist peningapersónugerðunum þínum og uppgötvir leiðir til að skoða samband þitt við peninga í nýju ljósi.


Settu þér fjármálamarkmið fyrir haustið

Ef þú hefur ekki tamið þér að setja markmiðin þín í fjárhagslegt samhengi er tilvalið að nota tækifærið nú þegar haustið er gengið í garð.

 

Draumur eða markmið?

Byrjum á að tala aðeins um muninn á draumum og markmiðum. Markmið verða til úr draumum. Við fáum hugmynd og byrjum að láta okkur dreyma um að eitthvað geti orðið að veruleika í lífi okkar. En til þess að svo megi verða, þurfum við að ganga skrefinu lengra. Við þurfum að draga drauminn niður úr skýjunum, horfast í augu við hann og búa til áætlun um hvernig við ætlum að láta hann verða að veruleika. Napoleon Hill orðaði það skemmtilega þegar hann sagði að markmið væru draumar með dagsetningu.

 

Hvað skiptir þig máli?

Markmiðasetning er markviss aðferð til að taka stjórnina í lífi sínu. En hún er ekki síður leið til að læra að sleppa tökunum á því sem skiptir ekki máli eða við getum ekki breytt.

Markmiðasetning er forgangsröðun og hún er skuldbinding. Þú spyrð þig: Hvað skiptir mig svo miklu máli að ég er tilbúin/n að forgangsraða til þess að það geti orðið að veruleika? Svo býrðu til áætlun um hvernig þú ætlar að hrinda því í framkvæmd.

 

Hvað dreymir þig um?

Ferðast?

Eignast húsnæði?

Kosta börnin þín til náms?

Stofna fyrirtæki?

Láta gott af þér leiða?

Verða skuldlaus?

Bæta við þig þekkingu?

Skipta um starfsvettvang?

 

Fjármálatengd markmiðasetning

Þegar þú hefur skilgreint hvað er þess virði að þú forgangsraðir lífi þínu þannig að það geti orðið að veruleika, er gott að átta sig á verðmiðanum.

Tökum dæmi um konu sem er í föstu starfi en hefur sett sér það markmið að stofna fyrirtæki. Áður en hún stígur skrefið og segir starfi sínu lausu, setur hún sér markmið að leggja fyrir svo hún eigi fyrir lifikostnaði í sex mánuði á meðan hún setur fyrirtækið á laggirnar.

Fyrst reiknar hún út hversu mikið hún þarf að leggja fyrir. Þvínæst brýtur hún markmiðið niður þannig að hún geti lagt ákveðna upphæð fyrir á mánuði og þannig náð settu marki á tilteknum tíma.

Hún fer auk þess yfir fjármálin sín og ákveður að lækka lifikostnað til frambúðar með því að endursemja og jafnvel skipta um þjónustuaðila. Konan ákveður í framhaldi af því einnig að einfalda lífstíl sinn, minnka við sig húsnæði og selur auk þess hluta af búslóðinni sinni.

Sömu aðferð má nota til að setja sér önnur fjármálamarkmið eins og að lækka yfirdráttinn, hætta að lifa á krítarkortinu, greiða niður skuldir og byrja að leggja fyrir.

 

Áskorun – jólasjóðurinn

Ég skora á þig að spreyta þig í gerð fjármálamarkmiða og leggja fyrir þannig að þú eigir fyrir jólunum í ár. Ef þú hefur ekki hugmynd um hvað það kostar þig að halda jól, geturðu byrjað á að finna kreditkortareikninginn frá því eftir jólin í fyrra eða flett upp yfirlitinu á tékkareikninginum þínum í bankanum.

Þegar upphæðin hefur verið afhjúpuð, geturðu tekið afstöðu til þess hvort þetta sé upphæð sem þú kærir þig um að eyða í ár eða hvort þú vilt lækka eða jafnvel hækka hana. Skiptu svo upphæðinni í fjóra hluta og gerðu áætlun um hvernig þú ætlar að leggja fyrir til að eiga fyrir jólunum. Mundu að þú gætir þurft að lækka kostnaðinn á öðrum sviðum til að mynda svigrúm svo hægt sé að leggja fyrir. Góða skemmtun!


Eyðir þú of miklu í mat?

Margir upplifa að eyða of miklu í mat. En er raunhæft að lækka matarkostnaðinn fyrir fullt og allt?

Sjálf hef ég lesið ógrynni af greinum og bókum þar sem fjallað er um ýmsar leiðir til að lækka kostnað við matarinnkaupin og skipuleggja eldamennskuna. Margir af þeim sem hafa verið hjá mér á námskeiðum og í einkaþjálfun hafa einnig deilt þeim áskorunum sem þeir standa frammi fyrir þessu tengt.

Ég hef reynt ýmislegt og komist að því að eins og með flest annað, er engin ein leið sem hentar öllum. Ástæðan er sú að við erum ólík og höfum bæði mismunandi venjur og þarfir.

Tvennt á þó við um okkur öll. Við þurfum að borða og við viljum gjarnan halda niðri kostnaði við matarinnkaupin.

Fyrir þá sem hafa keppnisskap getur verið gott að hugsa að þá peninga sem sparast með ráðdeild og skipulagi megi nota til þess að gera eitthvað skemmtilegt. Til dæmis að fara á kaffihús eða leggja fyrir og safna fyrir draumafríinu.

Hér á eftir fara nokkur ráð. Taktu það sem þér geðjast að og láttu á það reyna. Það gæti virkað fyrir þig og þitt heimili. Ef ekki, er um að gera að gefast ekki upp heldur halda áfram að reyna.

 

Almenn markmið

  • Nýta vel það sem keypt er inn
  • Henda helst ekki mat
  • Skipulag og ráðdeild

 

Tímaskortur

Langir vinnudagar, skutl í íþróttir seinni partinn og umferðaröngþveiti geta gert það að verkum að margir freistast til að kaupa tilbúinn mat til að redda kvöldmatnum. Þó svo að það geti verið dásamlegt af og til, getur það líka verið kostnaðarsamt og jafnvel leiðigjarnt til lengri tíma litið.

Hví ekki að laga nokkra geymsluþolna rétti á sunnudögum og hafa tilbúna í ísskápnum til að grípa í? Til dæmis góða súpu, lasagna eða pottrétt sem auðvelt er að hita upp. Einnig er hægt að búa til pastasósu og setja í krukkur. Það er fljótlegt að sjóða pasta og blanda saman við.

Það er gott að hafa í huga að laga rétti sem öllum þykja góðir og líklegt er að muni klárast. Það er nefnilega enginn sparnaður að henda mat. Hvorki fyrir budduna né umhverfið.

 

Skipulagsleysi

Sumir af þeim sem ég hef unnið með í markþjálfuninni hafa borið fyrir sig skipulagsleysi þegar kemur að matarinnkaupunum. Rannsóknir sýna að þeir sem notast við innkaupalista eyða að jafnaði minna í mat. Svo það er gott ráð að gera innkaupalista. Það getur þó verið áskorun að halda sig við hann, því það getur verið margt sem glepur þegar í matvöruverslunina er komið.

Góð undantekning frá reglunni er þó þegar um tilboð er að ræða. Þá er samt gott að spyrja sig hvort tilboðsvaran verði örugglega notuð og/eða hvort hægt sé að frysta hana eða geyma með öðrum hætti. Hér komum við aftur að markmiðinu um nýtingu.

Annað sem gott er að muna er að fara ekki svangur í búðina því þá er líklegra að hvatvísin nái yfirhöndinni. Reyndu frekar að skipuleggja matarinnkaupin, til dæmis á laugardögum eftir morgunmat eða hádegismat.

Sumir skrifa niður hvað á að vera í matinn alla vikuna og fara svo í búðina til að kaupa inn það sem vantar í þá rétti. Aðrir skoða hvað til er í skápunum og frystinum áður en þeir gera lista yfir það sem þeir þurfa að bæta við til að gera sem mest úr því sem til er. Enn aðrir hafa til dæmis alltaf fisk á mánudögum, pizzu á föstudögum osfrv. Margir hafa líka afganga að minnsta kosti eitt kvöld í viku. Annað sem ég hef reynt er að fresta því að fara í búðina þangað til daginn eftir og skora á sjálfa mig að elda eitthvað gott úr því sem til er.

 

Líta aldrei á verðmiðana

Sumir þeirra sem ég hef unnið með hafa aldrei litið á verðmiða í verslunum. Þeir kaupa bara það sem þá vantar án þess að velta því fyrir sér. Ef þú samsamar þig með þessum hópi, er ráð að taka ákvörðun um að breyta þessu. Prófaðu að gera þetta að skemmtilegum leik. Geymdu nóturnar úr búðinni og berðu saman hversu mikið þú getur lækkað kostnaðinn við matarinnkaupin.

Það er líka um að gera að kenna börnum að bera saman verð og gera hagstæð innkaup. Þau geta haft bæði gagn og meira að segja gaman af.

En hvaða aðferð sem þú ákveður að prófa, gerðu það með opnum huga og finndu hvað hentar þér og þínu heimili.


Nokkrar leiðir til að ná árangri í fjármálum

Það dugar skammt að gera það sama aftur og aftur ef það hefur ekki skilað árangri fram að þessu. Þetta á einnig við um peningahegðun. Með öðrum orðum: ef núverandi peningahegðun hefur ekki skilað tilætluðum árangri – er kominn tími á breytingar.

 

Fyrsta skrefið til að ná árangri í peningamálum er að skoða samband þitt við peninga. Ein leið til þess er að að persónugera peninga. Þú getur byrjað á að skrifa niður svör við eftirfarandi spurningum:

 

  1. Ef peningar væru manneskja – hvernig manneskja væri það?
  1. Hvað hefði þessi manneskja fyrir stafni?
  1. Hvernig kæmirðu fram við hana?
  1. Hvernig kæmi hún fram við þig?
  1. Væri þetta manneskja sem þú myndir vilja umgangast?

 

Svörin við þessum spurningum eru líkleg til að opna augu þín fyrir því hvernig sambandi þínu við peninga er háttað. Hafðu samt í huga að samband þitt við peninga getur breyst, alveg eins og samband þitt við sumt fólk breytist á lífsleiðinni.

 

Hvert er viðhorf þitt til fjársterkra?

Annað sem vert er að skoða í þessu samhengi er viðhorf þitt til þeirra sem fara fyrir miklu fé. Þetta viðhorf endurspeglar að nokkru leyti hugmyndir þínar um peninga. Ef viðhorfið er neikvætt, geturðu spurt þig hvers vegna það er. Hvar liggja rætur þessarar neikvæðni?

Mér finnst sjálfri gott að hafa í huga að peningar eru hlutlausir. Fólk getur hins vegar valið að gera ýmislegt fyrir peninga – en gjörðirnar eru á ábyrgð fólksins. Peningar sem slíkir hafa ekki vald til að breyta þó svo að þá megi svo sannarlega nota til breytinga.

 

Hverju viltu breyta?

Næsta skref er að setjast niður og spyrja sig hvað þarf að breytast þegar kemur að fjármálunum.

 

Viltu spara meira?

Viltu byrja að leggja fyrir?

Viltu lækka útlagðan kostnað?

Viltu auka tekjurnar?

Viltu gefa meira til góðgerðarmála?

Viltu koma skikki á bókhaldið?

Viltu búa til fjárhagsáætlun?

Viltu fylgja fjárhagsáætlun?

osfrv.

 

Þegar þú hefur tekið ákvörðun um hvað það er sem þú vilt breyta, geturðu gert áætlun um hvernig þú ætlar að hrinda breytingunum í framkvæmd.

 

„Endurræstu“ samband þitt við peninga

Í aldanna rás hefur mannskepnan leitað skýringa á samhengi hlutanna. Sjálfsþekking var upphafspunktur í þekkingarleit forngrikkja.

Flest nútímafólk er sammála um að það getur reynst ómetanlegt að taka sér tíma til að líta í eigin barm. Átta sig á stöðu mála. Taka ákvarðanir um hvert halda skuli.

Það gefst frábært tækifæri til þess á hinni vinsælu peninga DNA vinnustofu. Næsta vinnustofa verður haldin í Reykjavík, laugardaginn 26. ágúst. Nánari upplýsingar og skráning hér.

 

 

 

 


Hvernig týpa ert þú í sumarfríinu?

Sumarið er komið og margir eru þegar komnir í sumarfrí. Aðrir eiga frí seinna í sumar og leggja nú drög að upplifunum ársins með einum eða öðrum hætti.

En hvernig endurspeglast samband okkar við peninga í ákvarðanatöku og peningahegðun á þessum árstíma? Ég ætla að gera tilraun til að varpa ljósi á líklega peningahegðun peningapersónugerðanna átta þegar sumarfrí eru annars vegar.

 

Skipulag og ráðdeild

Ef þú ert meðal þeirra sem gæta þess ávallt að eyða ekki um efni fram og finnst peningar vera til að safna þeim – ertu líklega Safnari. Ætlir þú að leggja land undir fót hefurðu sennilega keypt flugmiðann með eins löngum fyrirvara og mögulegt er. Þú hefur væntanlega gert fjárhagsáætlun og ert búin/n að komast að því hvaða dag vikunnar er frítt inn á söfnin. Þetta er ekkert til að skammast sín fyrir! Þú þarft bara að muna að leyfa þér að njóta og ef til vill setja inn ákveðna upphæð í fjárhagsáætlunina til að kaupa þér eitthvað fallegt til minningar um ferðina.

 

Sjálfboðavinna í sumarfríinu

Ef þú hefur unnið sjálfboðavinnu í sumarfríinu þínu, ertu líklega Alkemisti. Þó er ekki svo að skilja að allir Alkemistar vinni sjálfboðavinnu í sumarfrínu hvert einasta ár. En sumarfríið þarf þó að hafa merkingu til að Alkemistanum þyki bragð að. Það þarf að gera eitthvað af viti. Ekki bara flatmaga á sundlaugarbakka og horfa á skýin fljóta um loftin blá. Nei, Alkemistinn er líklegri til að fara í pílagrímsgöngu eða hópferð með góðum vinum eða fjölskyldumeðlimum, sem hægt er að eiga djúpar samræður við.

 

Annað hvort eða

Ef þú ert Dægurstjarna viltu annað hvort fara í almennilegt frí eða sleppa því!

Upplifanir skipta Dægurstjörnuna miklu máli auk þess sem hún er nýjungagjörn og vill gjarnan kanna nýjar slóðir.

Dægurstjarnan fær mikið út úr því að finna hagkvæmar leiðir til að upplifa lúxus í fríinu. Hún ver gjarnan tíma til að finna út hvenær er hagkvæmast að ferðast. Ferðalög utan háannatíma eru því að skapi Dægurstjörnunnar. Hún gæti hæglega slegið sumarfríinu á frest og tekið sér frí í haust þegar hún getur heimsótt ákjósanlega áfangastaði fyrir lægri upphæð. Á þeim tíma er einnig líklegra að hún fái betri þjónustu og það skiptir hana miklu máli.

 

Hver borgar?

Tengiliðurinn vill helst ekki fara í frí nema einhver annar borgi brúsann. Þó er ekki svo að skilja að Tengiliðurinn sé nískur. Nei, ástæðan er frekar sú að það skiptir Tengiliðinn meginmáli að verja tíma með góðu fólki. Staðsetningin skiptir hins vegar minna máli. Gott sumarfrí getur þessvegna verið á svölunum heima eða í sundlauginni í hverfinu.

Það getur virkað mjög vel fyrir Tengiliðinn að leggja ákveðna upphæð inn á bók mánaðarlega árið um kring og fá svo einhvern annan í fjölskyldunni eða vinahópnum til að skipuleggja fríið. Þá líður Tengiliðnum vel.

 

Alltaf að græða

Frumkvöðullinn er týpan sem skellir sér í utanlandsferð með skömmum fyrirvara eftir að hafa fengið endurgreiðslu frá skattinum eða bónusgreiðslu í vinnunni. Hann nýtur hverrar mínútu og sér ekki eftir krónu.

Ef Frumkvöðullinn er langþreyttur eða illa fyrirkallaður er hann líklegri en aðrar peningapersónugerðir til að kaupa sér utanlandsferð út á krít og skipta svo greiðslum fram á haustið.

 

Einfalt að njóta

Nærandinn leggur mikið upp úr að næra sitt fólk. Það á einnig við um sumarfríið hennar. Hún er líkleg til að eiga sumarbústað þar sem gestir og gangandi fá gjarnan að njóta einstakrar gestristni hennar.

Hún er einnig líkleg til að skipuleggja sérstaka ferð til að halda upp á áfanga í lífi sínu og annarra í fjölskyldunni eða vinahópnum.

Nærandinn er líklegust af peningapersónugerðunum til að snúa til vinnu að loknu sumarfríi, þreyttari en hún var áður en fríð hófst. Það er gott fyrir Nærandann að hafa í huga að hún þarf að efla sjálfa sig til að geta verið til staðar fyrir aðra. Það á við í sumarfríinu, sem endranær.

 

Hvað kostar fríið?

Stjórnandinn getur verið óraunsær þegar kemur að því að átta sig á hvað sumarfríið kostar. Hann getur langað eitthvert í fríinu en þegar hann sest niður og reiknar út hvað það kostar að fara, getur hann einfaldlega hætt við.

Stjórnandinn er einnig líklegastur af öllum peningapersónugerðunum til að fara ekki í frí. Ástæðan er sú að vinnan tekur mikinn tíma og Stjórnandanum finnst hann ekki hafa lagt nægilega hart að sér til að eiga inni að taka sér frí.

Það er gott að hafa í huga að enginn er ómissandi og það er öllum mikilvægt að hlaða rafhlöðurnar inn á milli – líka Stjórnendum.

 

Að njóta lífsins hvað sem það kostar

Rómantíkerinn er lífsnautnamanneskja sem trúir því að það verði alltaf til meira. Hún sér ekki tilgang með því að spara peninga og kýs frekar að nota þá til að njóta lífsins til fullnustu. Henni finnst hún einfaldlega eiga það skilið að taka sér gott frí.

Frí Rómantíkersins einkennist af því að njóta. Hún vill dekra við fólkið sem henni þykir vænst um og því er hún líkleg til að bjóða einhverjum með sér í fríið. Hún splæsir gjarnan í upplifanir og kaupir minjagripi í formi vandaðs skófatnaðar og fær sér að auki tösku í stíl.

 

Gleðilegt sumar!


Æ ég byrja að spara í næsta mánuði!

Margir kannast við að vera með há laun en ná ekki að spara. Fögur fyrirheit eru víst ekki nóg þegar kemur að sparnaði. Þó það væri voða gaman ef svo væri. En fjárhagsleg markmið lúta sömu lögmálum og önnur markmið. Það þarf að setja þau í forgang.

Nokkur dæmi um fjármálaáskoanir

Ég þori að fullyrða að við þráum öll fjárhagslegt frelsi, þó við skilgreinum þetta frelsi með mismunandi hætti. Peningaáskoranir okkar eru mismunandi og birtingarmynd þeirra ólík. En við glímum öll við einhvers konar áskoranir tengdar peningum.

Þegar ég tala um áskoranir er ég ekki að vísa til þess að vera í verulegum fjárhagsvanda. Nei, ég er að vísa til áskorana á borð við að þú náir ekki fjárhagslegum markmiðum þínum, eins og til dæmis að leggja fyrir. Þrátt fyrir að langa virkilega til þess og vita innst inni að þú ættir að geta það. Þú ert jú með ágætis laun. Peningarnir fara einhvern veginn bara í eitthvað annað og þú upplifir jafnvel að vera peningalaus í lok mánaðarins.

Ég er að vísa til þess að setja þarfir annarra framar þínum eigin. Redda öðrum í stað þess að standa við að gera það sem þú ætlaðir að gera við peningana sem þú ert búin/n að leggja fyrir. Eftir á upplifirðu eftirsjá að hafa ekki staðið með þér því þú veist að þú færð þessa peninga sennilega ekki greidda til baka og viðkomandi kann mögulega ekki að meta hjálp þína.

Ég er að vísa til þess að efast um þú sért að taka réttar ákvarðanir varðandi fjárfestingar. Eins og íbúðin sem þú ætlaðir að kaupa fyrir nokkru síðan en hikaðir – og misstir af tækifærinu. Þú sem hefðir getað grætt svo mikið á því að kaupa þegar þú ætlaðir.

Ég er að vísa til þess að þú færð ekki greidda yfirvinnu þrátt fyrir að þú vinnir myrkranna á milli. Það er búið að segja þér að þú getir ekki fengið hærri laun. Árferðið er nú þannig og jú það hafa svosem orðið lögbundnar hækkanir. En þegar þú telur saman yfirvinnutímana og það sem fyrirtækið græðir á þér, fyllistu gremju. Þú veltir fyrir þér hvort þú ættir að stofna eigið fyrirtæki en þú átt ekki varasjóð til að vera launalaus um tíma. Hvar áttu að byrja?

Með von um fjárhagslegt frelsi

Sumir gera sér vonir um að upplifa fjárhagslegt frelsi á næstu mánuðum eða árum. Aðrir upplifa hugmyndina um fjárhagslegt frelsi fremur sem góða hugmynd en eitthvað sem gæti orðið að veruleika í þeirra lífi. Enn aðrir eru einhvers staðar þarna á milli.

En hvernig sem persónuleg afstaða þín til fjárhagslegs frelsis kann að vera – þá er staðreyndin sú að allir sem hafa náð fjárhagslegu frelsi hafa haft áætlun og farið eftir henni.

Þar stendur hnífurinn í kúnni í langflestum tilfellum. Því hvernig í ósköpunum á maður að gera slíka áætlun? Hvert er fyrsta skrefið? 

Hvað ef fjárhagslegt frelsi er raunhæft markmið?

Eftir að hafa unnið við fjármálatengda markþjálfun í nokkur ár, ákvað ég að máta þá hugmynd að allir geti upplifað fjárhagslegt frelsi. Ég fór að leika mér að því að spyrja mig spurninga og skora á sjálfa mig að finna lausnir.

Ein spurninganna sem ég spurði mig var þessi: „Ef það er staðreynd að allir geti í raun upplifað fjárhagslegt frelsi – hver er leiðin að því markmiði?

Eitt af því sem ég komst að var að leiðirnar eru mjög mismunandi – þó markmiðið sé eitt og hið sama.

Ég komst því að þeirri niðurstöðu að ef ég ætlaði að hjálpa fólki að ná fjárhagslegu frelsi – yrði ég að hanna lausn sem höfðar til fólks sem hefði mismunandi þarfir og mismunandi áskoranir.

Einfalt kerfi sem virkar – líka fyrir þig!

Flest erum við önnum kafin og margir upplifa að þeir glími við tímaskort. Ég hafði þetta í huga þegar ég hannaði skapandi og skemmtilega lausn sem er auðvelt að innleiða í dagsins önn. Markmiðið er að það sé auðvelt að breyta sambandi sínu við peninga dag frá degi og uppskera varanlegan árangur.

Vilt þú þiggja fjárhagslegt frelsi að launum fyrir sumarvinnu?

Ýmsar rannsóknir benda til að það taki 21 dag að losna við óvana eða festa nýjan vana í sessi. Lausnin mín - Fjárhagslegt frelsi á 12 vikum er netnámskeið sem tekur mið af þessum rannsóknum. Þátttakendur eru leiddir áfram, skref fyrir skref á ferð um lendur fjármála sinna.

Sjónum er ýmist beint að því að skoða samband sitt við peninga eða að því að innleiða nýja siði þegar kemur að peninganotkun og peningaumsýslu.

Netnámskeiðið byggir á áralangri vinnu og margreyndum aðferðum sem hafa nýst fjöldamörgum til að umbreyta sambandi sínu við peninga. Það besta er að þessi vinna er bæði skapandi og skemmtileg!

Fjárhagslegt frelsi á 12 vikum hefst 7. júní. Nánari upplýsingar og skráning hér


Með há laun - en nær ekki að spara

Velflestir þeirra sem leita til mín eru vel menntaðir, í góðri vinnu og með ágætis laun. En staðreyndin er sú að allir glíma við einhvers konar áskoranir tengdar peningum.

 

Mér finnst ég eiga að kunna þetta...

Margir þeirra sem leita til mín segjast hálfskammast sín fyrir að þurfa að ræða fjármálin því þeim finnst að þetta ætti að vera á hreinu.

Ég hef því komist að þeirri niðurstöðu að sú mýta sé lífseig í hugum okkar flestra að það fari saman að vera vel menntuð, í góðri vinnu, með ágætis laun og með fjármálin algjörlega á hreinu. Þess vegna virðist mér að því fylgi oft skömm að viðurkenna að maður sé bara langt frá því að vera með peningamálin á hreinu. Þessu vil ég gjarnan taka þátt í að breyta!

 

Fjárhagsleg valdefling

Ég hef notað orðasambandið fjárhagsleg valdefling (e. financial empowerment) til að lýsa því sem gerist þegar fólk fer í gegnum vinnuna með mér. Í fyrstu horfist það í augu við áskoranir sínar og öðlast hugrekki til að takast á við þær. Það kynnist peningahugmyndunum sínum og áttar sig á hverjar nýtast og hverjar má skilja eftir í vegarkantinum svo ný fjárhagsleg framtíð geti tekið á sig mynd.

Fólk fer smám saman að takast á við fjármál sín með kerfisbundnum hætti. Það kann að hljóma mjög leiðinlega í eyru margra en kerfið getur sem betur fer verið mjög skemmtilegt og því verður eftirsóknarvert að fylgja því eftir. Árangurinn lætur heldur ekki á sér standa. Smátt og smátt er eins og fólki vaxi ásmegin.

 

Á hverju byggir samband okkar við peninga?

Samband okkar við peninga helgast hvorki af menntun né launum. Það byggir fyrst og fremst á peningahugmyndum okkar. Sumar þeirra eru ættaðar úr æsku okkar og uppeldi og aðrar höfum við ættleitt með einum eða öðrum hætti í gegnum lífið.

Samband okkar við peninga byggir einnig að stóru leyti á vana – og reyndar oft ósiðum ef svo mætti að orði komast. Það er að segja við höfum vanið okkur á ákveðna peningahegðun sem nýtist okkur ef til vill að sumu leyti en svo sitjum við velflest uppi með einhverja ósiði tengda peningum. Eitthvað sem okkur þykir annað hvort erfitt að viðurkenna að við ráðum ekki við eða eitthvað sem við viljum breyta en vitum ekki hvernig við eigum að gera það.

 

Sjálfsskilningur og sátt

Það sem einkennir árangur þeirra sem hafa sótt námskeiðin mín á undanförnum árum, er sjálfskilningur. Í gegnum hinar svokölluðu peningapersónugerðir, öðlast fólk skiling á því hvernig það er samsett ef svo má segja.

Markvert þykir mér þegar þeir sem hafa beitt sig hörðu um árabil vegna þess að þeim hefur fundist þeir eiga að hafa betri tök á peningamálunum – ná að fyrirgefa sér og halda áfram. Byggja sína fjárhagslegu framtíð á nýjum grunni.

Velflestir þeirra sem fá hugrekki til að virkilega gangast við sjálfum sér – með kostum og göllum - fá svolítinn húmor fyrir sjálfum sér. Það er dýrmætt!

 

Peninga DNA vinnustofa – uppselt á laugardag – aukadagur á sunnudag

Næstu helgi verður haldin peninga DNA vinnustofa í Tveimur heimum. Þetta er eins dags vinnustofa þar sem grunnurinn að þeirri vinnu sem ég hef nefnt hér að ofan er lagður.

Það eru uppselt á laugardaginn en vegna fjölda áskorana kemur til greina að halda aðra vinnustofu á sunnudaginn. Fylgdu hlekknum ef þú vilt taka þátt í peninga DNA vinnustofu á sunnudaginn, 30. apríl. 

 

 


Í hvað fara peningarnir þínir?

Nýlega laukst upp fyrir mér nýtt lag af skilningi sem setti margt í annað samhengi en áður hafði verið. Mér finnst svo magnað að upplifa svona andartök. Næstum eins og þoku létti innra með manni.

 

Í stuttu máli

Forsagan er sú að ég hafði tekið ákvarðanir sem ég var ósátt við. Þær ákvarðanir höfðu fjárhagslegar afleiðingar sem ég var enn ósáttari við en vandinn var sá að ég áttaði mig ekki á hvað var orsök og hvað afleiðing.

Ég var ósátt en ósætti mitt beindist að einhverju leyti gegn öðrum og ég hafði tilhneygingu til að skoða kringumstæður mínar frá sjónarhóli fórnarlambsins. Ég var með öðrum orðum ekki tilbúin til að taka ábyrgð á sjálfri mér.

Það er auðvitað aldrei valdeflandi staða.

 

Það sem ég uppgötvaði

Þar sem ég hef atvinnu af því að greina hegðun fólks og þá sérstaklega peningahegðun, geri ég ef til vill meiri kröfur til sjálfar mín en fólk almennt. En ég er víst mannleg og þarna var ég slegin blindu á sjálfa mig.

Smám saman fór ég að gera mér grein fyrir því í hverju vandinn var fólginn. Það var misræmi á milli þess sem er mér í raun mikilvægast þegar kemur að peningum og þess sem birtist í raunveruleika mínum. Það er að segja – ég þurfti að endurskoða forgangsröðunina til að geta heiðrað kjarnagildið mitt þegar kemur að peningum. En hvernig fór ég að því?

 

Að taka stjórnina

Margir upplifa valdaleysi gagnvart peningum. Ein birtingarmynd þess er að upplifa að peningarnir fari bara í að borga reikninga eða til að standa straum af kostnaði ýmiss konar. Mjög margir eru í raun og veru lítt meðvitaðir um hvernig þessi kostnaður skiptist niður og hverjar sveiflurnar eru yfir árið.

Staðreyndin er sú að við tökum ákvarðanir um hvernig lífi við viljum lifa og þá umgjörð sem við viljum hafa. En upplifun okkar er þó ekki alltaf sú að við séum við stjórnvölinn og að daglegar ákvarðanir okkar stuðli oftar en ekki að því að viðhalda óbreyttu ástandi. Ef þetta á við um þig, gæti verið kominn tími til að stíga skref í átt til breytinga.

 

Ákvarðanir og peningar

Ef þú upplifir að líf þitt sé samsett úr tilviljanakenndum bútum og að peningarnir þínir fari í að borga kostnað sem þú hefur ekki sett í forgang, þá er kominn tími til að staldra við og taka stöðuna.

Ágætisleið til að gera það er að skoða lífshlaup okkar og ákvarðanatöku með peningagleraugunum. En hvernig er það gert?

 

Líttu yfir farinn veg og skoðaðu stóru ákvarðanirnar í lífi þínu. Hver hefur forgangsröðunin verið?

  • Gekkstu menntaveginn?
  • Tókstu námslán?
  • Áttu húsnæði?
  • Ertu með neysluskuldir? Ef svo er, hvað gerðirðu við þá peninga?
  • Ferðastu mikið?
  • Fjárfestirðu í listaverkum?
  • Kaupirðu hönnunarvöru?
  • Fjárfestirðu í verðbréfum?
  • Borðarðu lífrænan mat?
  • Drekkurðu áfengi?
  • Stundarðu líkamsrækt?
  • Ferðu á kaffihús?
  • Gefurðu til góðgerðarmála?
  • Borðarðu gjarnan á veitingastöðum?
  • Styrkirðu börnin þín eða aðra fjárhagslega?
  • Annað?

 

Skoðaðu neyslumunstrið

Taktu þér tíma til að skoða í hvað peningarnir þínir hafa farið síðastliðna sex mánuði. Þegar uppgjörið liggur fyrir, spurðu þig þá hvort útgjöldin séu til samræmis við peningagildin þín. Með öðrum orðum, fara peningarnir í það sem skiptir þig virkilega máli?

Mundu að við eigum það til að vera „fangar“ munstursins sem við höfum búið við. En ef þú ætlar að taka stjórnina í peningamálunum, þarftu að skipta um hugarfar. Ekki hika við að hafa samband ef þig vantar hjálp.


Forsetafrúin og jafnréttismálin

Fyrri hluta dagsins í dag varði ég í návist fyrirfólks. Tilefnið var opinber heimsókn forseta Íslands til Noregs. Ég og fjölskylda mín vorum meðal þeirra sem fengum boð um að vera fyrir utan konungshöllina í Osló og taka á móti forsetahjónunum við upphaf heimsóknarinnar. Það var mikill heiður og mjög hátíðleg stund.

 

Ég þori, get og vil

Í kjölfarið var opinn fundur í Oslóarháskóla þar sem forsetafrúin, Eliza Reid var frummælandi. Efni fundarins var jafnréttismál og yfirskriftin: Kynbundin gjá á öld jafnra tækifæra.

Frú Eliza hóf mál sitt á að tala um kvennafrídaginn árið 1975 og sagði hann hafa markað mikil tímamót í jafnréttisbaráttu íslenskra kvenna. Hún ræddi um þá staðreynd að Ísland trónir á toppnum á lista Alþjóðaefnahagsráðsins um jafnrétti meðal þjóða og sagði stolt frá nýrri löggjöf sem mun gera fyrirtækjum skylt að framfylgja launajafnrétti á Íslandi.

Hún lagði ríka áherslu á samstarf Norðurlandanna í jafnréttismálum og minntist á að við hefðum gjarnan tekið upp löggjöf hvert eftir öðru. Sem dæmi nefndi hún lög um feðraorlof sem Íslendingar riðu á vaðið með og hin Norðurlöndin fylgdu í kjölfarið. Einnig nefndi hún dæmi um lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja en sú löggjöf á rætur að rekja til Noregs og hefur síðan verið tekin upp á hinum Norðurlöndunum.

 

En betur má ef duga skal

Forsetafrúin sagði þó að kynbundið ofbeldi væri enn vandamál á Íslandi og að baráttan héldi áfram í þeirri von að binda endi á það. Hún benti einnig á að hlutur kvenna í fjölmiðlum væri enn rýr og þá sérstaklega hlutur kvenna af erlendum uppruna.

Hvað atvinnumálin varðar, sagði hún að bæði tæknigeirinn og sjávarútvegur væru greinar þar sem krafta kvenna nyti ekki við, nema að takmörkuðu leyti.

Hún vitnaði í herferð UN-Women, hann fyrir hana (e. He for She) og sagði hana gott dæmi um herferð þar sem unnið væri gagngert í því að brjóta staðalmyndir á bak aftur. Þá sýndi hún myndband úr herferðinni sem sýnir viðtal við ungan mann sem vinnur við hjúkrun. Sá sagðist gjarnan vilja taka þátt í að breyta þeirri ímynd sem hjúkrunarstarfið hefur sem kvennastarf. En aðeins 2% hjúkrunarfræðinga á Íslandi eru karlmenn.

 

Lagabreytingar

Líflegar pallborðsumræður spunnust í kjölfar ræðu forsetafrúarinnar. Mímir Kristjánsson, ritstjóri Klassekampen stýrði umræðunum. Þar tók fyrst til máls, Anne-Jorunn Berg sem er prófessor og stýrir rannsóknarsetri í kynjafræði við Oslóarháskóla. Anne-Jorunn benti á að til að snúa við kynjahalla meðal starfsfólks í umönnunarstörfum í heilbrigðisstétt, þyrfti að hækka launin. Hún sagði jafnframt að þær konur sem hæfu störf í stéttum sem væru hefðbundnar karlastéttir, hefðu gjarnan há laun.

Ragnhildur Helgadóttir, forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík, sat í pallborði og talaði meðal annars um það þegar löggjafinn hefur breytt gangi mála í jafnréttisbaráttunni. Hún nefndi í því samhengi dæmi þess þegar feðraorlof var fest í lög og þau áhrif sem sú lagasetning hafði fyrir ungar konur á vinnumarkaði. Þá var það ekki lengur samskonar áskorun að vera kona á barneignaraldri á vinnumarkaði því karlmenn geta einnig tekið fæðingarorlof.

 

Jafnréttismálin sem útflutningsvara?

Sjálf hef ég gengið með kynjagleraugun á nefinu um langa hríð og hef einbeitt mér að fjárhagslegri valdeflingu kvenna undanfarin ár. Í ljósi þess velti ég því fyrir mér hversu dýrmætt það væri að geta sett reynslu okkar Íslendinga af jafnréttismálum í annað samhengi.

Það mætti gera með því að reikna út hversu mikill þjóðhagslegur ávinningur er af kynjajafnrétti. Þær upplýsingar mætti svo nýta sem hvata fyrir aðrar þjóðir til að stuðla að jafnrétti kynjanna.


Fimm ráð til að ná betri tökum á fjármálunum

Mörgum finnst tilhugsunin um fjármál og fjármálaumsýslu, hreinlega leiðinleg. Ég var í hópi þess fólks um áraraðir og þessvegna fann ég skemmtilegar og skapandi leiðir til að ná tökum á fjármálunum þegar ég ákvað að verða fjárhagslegur leiðtogi í eigin lífi.

 

Ég viðurkenni þó fúslega að skattaskýrslur og bókhald eru enn á listanum yfir það sem mér finnst hreinlega leiðinlegt. Góðu fréttirnar eru þær að það má auðveldlega útvista slíkum verkum til þeirra sem ferst betur úr hendi að leysa þau.

 

En þó verð ég að segja að með hverju árinu sem líður verða fjármálin meira aðlaðandi. Það hefur bæði með mitt eigið viðhorf og nálgun að gera.

 

Ef þú ert meðal þeirra sem vilt ná betri tökum á fjármálunum, koma hér nokkur hagnýt ráð:

 

  1. Taktu þér tíma vikulega til að skoða fjármálin. Ekki bara til að greiða reikninga, heldur einnig til að gera áætlanir.
  2. Lækkaðu kostnað. Farðu yfir kostnaðinn þinn reglulega. Skoðaðu allan fastan kostnað að minnsta kosti tvisvar sinnum á ári. Notarðu allt sem þú ert með í áskrift? Geturðu fengið betra verð hjá öðru fyrirtæki, o.s.frv. Þetta telur allt.
  3. Peningalaus dagur. Hafðu það fyrir reglu að hafa að minnsta kosti einn peningalausan dag í viku. Taktu með þér nesti og skipuleggðu þig vel. Þetta er skemmtileg æfing og býr til meðvitund um hversu mikilvægir peningar eru í daglegu lífi okkar.
  4. Búðu þér til varasjóð. Það kemur alltaf eitthvað upp á, svo í stað þess að flokka það sem: „óvænt útgjöld“ geturðu mætt bílaviðgerðum og viðlíka með bros á vör.
  5. Seldu það sem þú notar ekki. Áttu fatnað eða hluti sem þú hefur engin not fyrir? Það er bæði efnahagslega hagkvæmt og umhverfisvænt að gefa því sem enginn notar heima hjá þér, nýtt líf hjá nýjum eiganda.

 

Finndu fleiri leiðir til að ná betri tökum á þínum fjármálum og mundu að leyfa þér að nálgast fjármálin með skapandi hætti. Peningar geta nefnilega verið skemmtilegir! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband