Leita í fréttum mbl.is

Í draumi sérhvers manns...

Lengi vel átti ég brösótt samband við ljóð Steins Steinars sem hefst á orðunum í yfirskrift pistilsins. Átti erfitt með að skilja hvernig hann gat skrifað að í draumi sérhvers manns væri fall hans falið. Ég velti því fyrir mér hvort merking hans væri sú að draumar ættu ekki rétt á sér.

 

Samhengið skorti

Nýlega laukst upp fyrir mér að sennilega hefði mig skort samhengi til að skilja ljóðið. Draumar mínir hafa nefnilega flestir orðið að veruleika án mikillar fyrirhafnar. Það er mikið lán að standa á fertugu og geta sagt svona. Því fylgir þó alls ekki dramb, heldur djúpt þakklæti af minni hálfu.

En aftur að því hvers vegna mér jókst skilningur á ljóðinu góða. Það var nefnilega þannig að síðastliðinn vetur reyndi ég allt sem ég gat til að hrinda af stað atburðarás sem hafði þann tilgang einan að uppfylla gamlan draum.

En allt kom fyrir ekki. Mér tókst ekki ætlunarverkið.

Það var þá sem ég áttaði mig á að draumurinn hafði myndað sjálfstætt líf sem ógnaði mér. Hann hafði vaxið í dimmri þögn með dularfullum hætti. Ég upplifði að ég minnkaði samhliða því sem draumsins bákn reis. Að lokum féll ég fyrir draumi mínum, í fullkominni uppgjöf sigraðs manns. En það var þá sem ég áttaði mig. Ég vildi nefnilega ekki verða draumur hans.

 

Upprisa draumsins

Einn morguninn reis ég úr rekkju og tók ákvörðun. Ég ákvað að sleppa tökunum á þessum draumi. Þó ekki væri nema um stundarsakir. Þetta reyndist góð ákvörðun því það var sem þungu fargi væri af mér létt.

Það merkilega var að þegar ég megnaði að sleppa tökunum á draumnum, hætti hann að stjórna lífi mínu.

Skömmu síðar tóku atburðir að gerast sem allir miða að því að þessi draumur verði að veruleika um síðir. Atburðirnir voru þó þannig að mig hefði ekki getað órað fyrir þeim. Ég hefði með engu móti geta leikstýrt þessarri atburðarás.

 

Áttu þér draum í leynum?

Á þessum tíma árs huga margir að uppgjöri ársins, samhliða því að leggja drögin að markmiðum komandi árs. Nú er því tilvalið að dusta rykið af gömlum draumum. En til þess að draumar geti fengið byr undir báða vængi, þarf gjarnan fjármagn. Það er helst skortur á fjármagni sem veldur því að margir draumar deyja án þess að hafa nokkurn tíma öðlast nokkurt líf.

 

Draumasjóður

Eitt af því sem þátttakendur í netnámskeiðinu, Fjárhagslegt frelsi á 12 vikum gera er að búa til kerfi utan um fjármálin sín, sem miðar að því að búa sér líf sem heiðrar kjarnagildin manns.

Oft erum við svo föst í hringiðu atburða sem við upplifum að við höfum enga stjórn á, að við gleymum að staldra við. Brauðstritið tekur yfir og draumarnir hrekjast á brott án þess að við virðum þá viðlits.

Um síðir kemur sá dagur í lífi okkar flestra að við lítum yfir farinn veg. Viðtalsrannsóknir meðal þeirra sem komnir eru á efri ár hafa leitt í ljós að fólk sér frekar eftir því sem það aldrei kom í verk en því sem það gerði. Þessvegna er góð hugmynd að hafa gott kerfi um fjármálin. Þannig geturðu gert ráðstafanir svo þú getir valið að glæða drauma þína lífi.

 

 

Í draumi sérhvers manns

 

Í draumi sérhvers manns er fall hans falið.

Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg

af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið

á bak við veruleikans köldu ró.

 

Þinn draumur býr þeim mikla mætti yfir

að mynda sjálfstætt líf, sem ógnar þér.

Hann vex á milli þín og þess, sem lifir,

og þó er engum ljóst, hvað milli ber.

 

Gegn þinni líkamsorku og andans mætti

og öndvert þinni skoðun, reynslu og trú,

í dimmri þögn, með dularfullum hætti

rís draumsins bákn og jafnframt minnkar þú.

 

Og sjá, þú fellur fyrir draumi þínum

í fullkominni uppgjöf sigraðs manns.

Hann lykur um þig löngum armi sínum,

og loksins ert þú sjálfur draumur hans.

 

Steinn Steinarr

 

(Ferð án fyrirheits, 1942.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband