Leita í fréttum mbl.is

Fjármál hjóna

Sumarfrí er tilhlökkunarefni hjá flestum. Þá gefst tækifæri til að taka sér frí frá amstri dagsins og jafnvel leggja land undir fót. Þegar á hólminn er komið er þó margt sem getur farið öðruvísi en ætlað var. Rannsóknir hafa sýnt að það eru meiri líkur á að fólki verði sundurorða í sumarfríum og öðrum fríum, heldur en endranær. Svo virðist sem hversdagsleikinn með sinni rútínu og verkafjöld veiti okkur skjól frá því sem blasir svo berskjaldað við þegar við erum í fríi.

 

Peningamálin efst á blaði

Meðal helstu deilumála para og hjónafólks eru peningar. Þá er það oft peningahegðun annars aðilans sem fer í taugarnar á hinum.

Þau ár sem ég hef fengist við markþjálfun hef ég fengið það staðfest æ ofan í æ að fá pör setjast niður gagngert til að ræða peningamál á jákvæðu nótunum. Peningamál virðast flestir ræða á forsendum þess að upp séu komin vandamál sem úr þarf að leysa. Að fenginni reynslu leyfi ég mér því að segja að fjármál eru oftast rædd á nótum krísustjórnunar. Þarna er ég þó alls ekki að vísa aðeins til þess hóps sem minna hefur milli handanna. Þetta munstur virðist ekki hafa neitt með upphæðir að gera heldur virðist þetta frekar vera einhver lenska sem oftar en ekki flokkast sem annað hvort lærð hegðun og/eða eitthvað sem fólk hefur tamið sér án þess að gera sér grein fyrir því.

 

Neikvæð orka

Pör sem eru föst í þessum vítahring að ræða aðeins fjármál þegar þarf að leysa eitthvað, detta einnig oft í þann pytt að beina sjónum að hinum aðilanum og gagnrýna peningahegðun hans. Sá svarar þá gjarnan í sömu mynt og úr verður misklíð.

Gunna hefur ef til vill sleppt sér lausri í dömudeild fataverslunar í útlandinu og heimildin á krítarkortinu komin í botn. Nú eða Nonni hefur splæst öli á félagana á barnum og Gunna fundið kvittunina í vasanum á stuttbuxunum morguninn eftir. Hann sem var á móti því að hún keypti sér merkjatöskuna því þau ætluðu nú ekki að eyða svona miklu í fríinu. Þó dæmið sé ef til vill klisjukennt og ýti undir staðalmyndir kynjanna, helgar tilgangurinn meðalið. Margir kannast við að hafa deilt á maka sinn og gagnrýnt fyrir peningahegðun.

Tilfinningarnar sem vakna á meðan á viðlíka samtölum stendur eru oft öryggisleysi og höfnun, jafnvel sjálfshöfnun. Það er mjög sterk tenging milli öryggistilfinningar okkar og grunnhugmynda okkar um peninga. Peningahugmyndirnar sem hanga á spítunni í þessu samhengi eru í ætt við þessa: „Peningar eru leiðinlegir/vondir og mér líður illa að tala um þá“.

Eins og gefur að skilja eru peningahugmyndir á borð við þessa langt frá því að vera nytsamlegar fólki sem vill gjarnan njóta þess góða sem lífið hefur að bjóða. Einmitt eins og fólk gerir í sumarfríinu.

 

Áhugaverðar niðurstöður

Á þeim árum sem fólk hefur tekið peninga-DNA próf hjá mér, hef ég komist að mjög áhugaverðri niðurstöðu sem skýrir hvers vegna fjármál eru meðal helstu deilumála para og hjónafólks. Í kjölfarið hef ég þróað nokkrar lausnir sem hafa nýst mörgum þeirra sem hafa verið hjá mér í markþjálfun og viljað snúa við blaðinu þegar kemur að sambandi þeirra við peninga og peningahugmyndum.

Ég velti því fyrir mér hvort grunur minn reynist réttur að mörg pör myndu hafa áhuga á að skoða sambandið út frá peningapersónugerðunum, hegðun og hugmyndum. Því býð ég áhugasömum að senda tölvupóst með yfirskriftinni Fjármál hjóna á netfangið team@eddacoaching.com. Ég set þá saman námskeið í skyndi til að mæta þörfinni svo aðventan og jólahátíðin geti gengið í garð án þess að rifist sé um fjármál. Hlakka til að heyra frá ykkur!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband