Leita í fréttum mbl.is

Sýnir þú þakklæti?

Eins og margir vita vinn ég sem leiðtogamarkþjálfi og hjálpa fólki að laga samband þess við peninga. Það er mjög þakklátt starf og hefur djúpstæð áhrif á líf þeirra sem hafa til þess hugrekki að horfast í augu við áskoranir sínar.

Það sem færri vita er að síðastliðin ár hef ég einnig verið þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna árlegt verkefni fyrir bandarískan háskóla. Gæfan hefur að mestu falist í þeim djúpu tengslum sem ég hef myndað við samstarfsfólk mitt og nemendur.

Eitt af því sem mér hefur lærst af þessu verkefni er að ástunda þakklæti. Tölvupóstar frá samstarfsfólki hefjast gjarnan á þakklæti. Stundum er það einfaldlega þakklæti fyrir tölvupóstinn sem verið er að svara. Þetta finnst mér góð venja enda lesast tölvupóstar sem hefjast á þakklæti gjarnan með opnum huga.

Síðastliðið vor áttaði ég mig á því að í kjölfar nokkurra daga samveru með samstarfsfólki mínu og nemendum, þakkaði ég miklu oftar fyrir mig. Litlu hlutirnir öðluðust meira vægi og samhengið breyttist. Þessar góðu fyrirmyndir mínar flétta nefnilega gjarnan þakklætisorðum inn í setningar þegar þau biðja um eitthvað, eins og til dæmis þegar pantað er á veitinga- og kaffihúsum. Þetta er einnig falleg venja sem gott er að tileinka sér.

 

Leyndardómar þakklætis

Ýmsir hafa skrifað um þakklæti og leyndardómana sem felast í því að vera þakklátur. Í Biblíunni stendur skrifað: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gerið í öllum hlutum óskir yðar kunnar með bæn, beiðni og þakkargjörð.“

Það er reynsla sumra þeirra sem hafa ástundað þakklæti að það leysi gjarnan úr læðingi atburðarás sem þá hefði jafnvel ekki órað fyrir. Sem dæmi má nefna það að auðsýna þakklæti þegar erfiðleikar steðja að. Þetta kann að hljóma einkennilega í eyrum sumra, en í þessu felst ákveðinn leyndardómur. Það er nefnilega þannig að þegar við berum kennsl á það góða, hafa hlutirnir tilhneigingu til að leysast á farsælan hátt.

Í bók sinni Það sem ég veit með vissu(e. What I know for sure), segir Oprah Winfrey frá því þegar hún stóð frammi fyrir erfiðum aðstæðum og mentor hennar Maya Angelou sagði henni að þakka fyrir það tækifæri sem lífið hefði fært henni til að takast á við erfiðleika og læra af þeim. Winfrey var forviða og sagði þakklæti vera það síðasta sem henni kæmi til hugar. En Angelou endurtók einfaldlega: „Segðu takk, segðu takk...“, þar til Winfrey gafst upp og sagði: „takk“. Í bókinni segir hún frá því að þetta andartak hafi breytt öllu því viðhorf hennar tók stakkaskiptum og henni auðnaðist að sleppa tökunum.

 

Þakklæti fyrirfram

Að þakka fyrir óorðna hluti, jafnvel samhliða því að biðja um þá, er mögnuð æfing. Margir hafa skrifað um þessa aðferð sem felst í því að segja hluti eins og til dæmis: „Ég er svo þakklát/ur og glöð/glaður nú þegar (hér má fylla inn í það sem þú vilt kalla fram í lífi þínu) hefur gerst.“ Þessi aðferð nýtist sérstaklega vel í markmiðasetningu og því er gott að tileinka sér hana á þessum tíma árs, nú þegar margir taka sér tíma til að setja sér markmið fyrir nýtt ár.

 

Þakklæti sem lífsstíll

Margir þeirra sem hafa tileinkað sér að vera þakklátir, eru sammála um að þakklætið hefur djúpstæð áhrif á viðhorfið til lífsins. Þakklátir eru líklegri til þess að leysa vandamálin á farsælan hátt og sjá gjarnan jákvæðar hliðar á málum.

Þakklátir skrifa gjarnan hjá sér fimm atriði daglega sem þeir geta verið þakklátir fyrir í þartilgerða þakklætisdagbók. Þá ratar ýmislegt á listann, bæði stórt og smátt. Þakklæti fyrir heilsu og daglegt brauð er gott dæmi. Undirrituð er auk þess afar þakklát fyrir hitaveituvatn og Danfoss ofnakerfi í íslenskum húsum. Þetta þótti henni sjálfsagt mál framan af ævinni en eftir margra ára dvöl í útlöndum, er henni þakklæti ofarlega í huga fyrir framantalið.

Ef þér lesandi góður hugnast að tileinka þér þakklæti er gott ráð að prófa sig áfram með þakklætisdagbókina. Hún getur verið skemmtileg lesning í lok árs þegar litið er yfir farinn veg. Ástundun þakklætis er því tilvalin lífsstílsbreyting á nýju ári.


Bloggfærslur 6. desember 2018

Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband