Leita í fréttum mbl.is

Settu þér fjármálamarkmið fyrir haustið

Ef þú hefur ekki tamið þér að setja markmiðin þín í fjárhagslegt samhengi er tilvalið að nota tækifærið nú þegar haustið er gengið í garð.

 

Draumur eða markmið?

Byrjum á að tala aðeins um muninn á draumum og markmiðum. Markmið verða til úr draumum. Við fáum hugmynd og byrjum að láta okkur dreyma um að eitthvað geti orðið að veruleika í lífi okkar. En til þess að svo megi verða, þurfum við að ganga skrefinu lengra. Við þurfum að draga drauminn niður úr skýjunum, horfast í augu við hann og búa til áætlun um hvernig við ætlum að láta hann verða að veruleika. Napoleon Hill orðaði það skemmtilega þegar hann sagði að markmið væru draumar með dagsetningu.

 

Hvað skiptir þig máli?

Markmiðasetning er markviss aðferð til að taka stjórnina í lífi sínu. En hún er ekki síður leið til að læra að sleppa tökunum á því sem skiptir ekki máli eða við getum ekki breytt.

Markmiðasetning er forgangsröðun og hún er skuldbinding. Þú spyrð þig: Hvað skiptir mig svo miklu máli að ég er tilbúin/n að forgangsraða til þess að það geti orðið að veruleika? Svo býrðu til áætlun um hvernig þú ætlar að hrinda því í framkvæmd.

 

Hvað dreymir þig um?

Ferðast?

Eignast húsnæði?

Kosta börnin þín til náms?

Stofna fyrirtæki?

Láta gott af þér leiða?

Verða skuldlaus?

Bæta við þig þekkingu?

Skipta um starfsvettvang?

 

Fjármálatengd markmiðasetning

Þegar þú hefur skilgreint hvað er þess virði að þú forgangsraðir lífi þínu þannig að það geti orðið að veruleika, er gott að átta sig á verðmiðanum.

Tökum dæmi um konu sem er í föstu starfi en hefur sett sér það markmið að stofna fyrirtæki. Áður en hún stígur skrefið og segir starfi sínu lausu, setur hún sér markmið að leggja fyrir svo hún eigi fyrir lifikostnaði í sex mánuði á meðan hún setur fyrirtækið á laggirnar.

Fyrst reiknar hún út hversu mikið hún þarf að leggja fyrir. Þvínæst brýtur hún markmiðið niður þannig að hún geti lagt ákveðna upphæð fyrir á mánuði og þannig náð settu marki á tilteknum tíma.

Hún fer auk þess yfir fjármálin sín og ákveður að lækka lifikostnað til frambúðar með því að endursemja og jafnvel skipta um þjónustuaðila. Konan ákveður í framhaldi af því einnig að einfalda lífstíl sinn, minnka við sig húsnæði og selur auk þess hluta af búslóðinni sinni.

Sömu aðferð má nota til að setja sér önnur fjármálamarkmið eins og að lækka yfirdráttinn, hætta að lifa á krítarkortinu, greiða niður skuldir og byrja að leggja fyrir.

 

Áskorun – jólasjóðurinn

Ég skora á þig að spreyta þig í gerð fjármálamarkmiða og leggja fyrir þannig að þú eigir fyrir jólunum í ár. Ef þú hefur ekki hugmynd um hvað það kostar þig að halda jól, geturðu byrjað á að finna kreditkortareikninginn frá því eftir jólin í fyrra eða flett upp yfirlitinu á tékkareikninginum þínum í bankanum.

Þegar upphæðin hefur verið afhjúpuð, geturðu tekið afstöðu til þess hvort þetta sé upphæð sem þú kærir þig um að eyða í ár eða hvort þú vilt lækka eða jafnvel hækka hana. Skiptu svo upphæðinni í fjóra hluta og gerðu áætlun um hvernig þú ætlar að leggja fyrir til að eiga fyrir jólunum. Mundu að þú gætir þurft að lækka kostnaðinn á öðrum sviðum til að mynda svigrúm svo hægt sé að leggja fyrir. Góða skemmtun!


Eyðir þú of miklu í mat?

Margir upplifa að eyða of miklu í mat. En er raunhæft að lækka matarkostnaðinn fyrir fullt og allt?

Sjálf hef ég lesið ógrynni af greinum og bókum þar sem fjallað er um ýmsar leiðir til að lækka kostnað við matarinnkaupin og skipuleggja eldamennskuna. Margir af þeim sem hafa verið hjá mér á námskeiðum og í einkaþjálfun hafa einnig deilt þeim áskorunum sem þeir standa frammi fyrir þessu tengt.

Ég hef reynt ýmislegt og komist að því að eins og með flest annað, er engin ein leið sem hentar öllum. Ástæðan er sú að við erum ólík og höfum bæði mismunandi venjur og þarfir.

Tvennt á þó við um okkur öll. Við þurfum að borða og við viljum gjarnan halda niðri kostnaði við matarinnkaupin.

Fyrir þá sem hafa keppnisskap getur verið gott að hugsa að þá peninga sem sparast með ráðdeild og skipulagi megi nota til þess að gera eitthvað skemmtilegt. Til dæmis að fara á kaffihús eða leggja fyrir og safna fyrir draumafríinu.

Hér á eftir fara nokkur ráð. Taktu það sem þér geðjast að og láttu á það reyna. Það gæti virkað fyrir þig og þitt heimili. Ef ekki, er um að gera að gefast ekki upp heldur halda áfram að reyna.

 

Almenn markmið

  • Nýta vel það sem keypt er inn
  • Henda helst ekki mat
  • Skipulag og ráðdeild

 

Tímaskortur

Langir vinnudagar, skutl í íþróttir seinni partinn og umferðaröngþveiti geta gert það að verkum að margir freistast til að kaupa tilbúinn mat til að redda kvöldmatnum. Þó svo að það geti verið dásamlegt af og til, getur það líka verið kostnaðarsamt og jafnvel leiðigjarnt til lengri tíma litið.

Hví ekki að laga nokkra geymsluþolna rétti á sunnudögum og hafa tilbúna í ísskápnum til að grípa í? Til dæmis góða súpu, lasagna eða pottrétt sem auðvelt er að hita upp. Einnig er hægt að búa til pastasósu og setja í krukkur. Það er fljótlegt að sjóða pasta og blanda saman við.

Það er gott að hafa í huga að laga rétti sem öllum þykja góðir og líklegt er að muni klárast. Það er nefnilega enginn sparnaður að henda mat. Hvorki fyrir budduna né umhverfið.

 

Skipulagsleysi

Sumir af þeim sem ég hef unnið með í markþjálfuninni hafa borið fyrir sig skipulagsleysi þegar kemur að matarinnkaupunum. Rannsóknir sýna að þeir sem notast við innkaupalista eyða að jafnaði minna í mat. Svo það er gott ráð að gera innkaupalista. Það getur þó verið áskorun að halda sig við hann, því það getur verið margt sem glepur þegar í matvöruverslunina er komið.

Góð undantekning frá reglunni er þó þegar um tilboð er að ræða. Þá er samt gott að spyrja sig hvort tilboðsvaran verði örugglega notuð og/eða hvort hægt sé að frysta hana eða geyma með öðrum hætti. Hér komum við aftur að markmiðinu um nýtingu.

Annað sem gott er að muna er að fara ekki svangur í búðina því þá er líklegra að hvatvísin nái yfirhöndinni. Reyndu frekar að skipuleggja matarinnkaupin, til dæmis á laugardögum eftir morgunmat eða hádegismat.

Sumir skrifa niður hvað á að vera í matinn alla vikuna og fara svo í búðina til að kaupa inn það sem vantar í þá rétti. Aðrir skoða hvað til er í skápunum og frystinum áður en þeir gera lista yfir það sem þeir þurfa að bæta við til að gera sem mest úr því sem til er. Enn aðrir hafa til dæmis alltaf fisk á mánudögum, pizzu á föstudögum osfrv. Margir hafa líka afganga að minnsta kosti eitt kvöld í viku. Annað sem ég hef reynt er að fresta því að fara í búðina þangað til daginn eftir og skora á sjálfa mig að elda eitthvað gott úr því sem til er.

 

Líta aldrei á verðmiðana

Sumir þeirra sem ég hef unnið með hafa aldrei litið á verðmiða í verslunum. Þeir kaupa bara það sem þá vantar án þess að velta því fyrir sér. Ef þú samsamar þig með þessum hópi, er ráð að taka ákvörðun um að breyta þessu. Prófaðu að gera þetta að skemmtilegum leik. Geymdu nóturnar úr búðinni og berðu saman hversu mikið þú getur lækkað kostnaðinn við matarinnkaupin.

Það er líka um að gera að kenna börnum að bera saman verð og gera hagstæð innkaup. Þau geta haft bæði gagn og meira að segja gaman af.

En hvaða aðferð sem þú ákveður að prófa, gerðu það með opnum huga og finndu hvað hentar þér og þínu heimili.


Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Sept. 2017
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband