Leita í fréttum mbl.is

Hvað einkennir líf þitt?

Ferðalagi okkar í gegnum lífið má líkja við göngu um dali og fjöll. Það skiptast á skin og skúrir og suma daga er gangan léttari en aðra daga. Þegar mótvindur geysar og við upplifum að okkur langi að gefast upp, er gott að muna að öll veður lægir um síðir.

Að vetri loknum, kemur vor. Sá sannleikur er markaður í munstur náttúrunnar og má yfirfæra á þau munstur sem við greinum í lífinu sjálfu. Það er svo magnað að það eru erfiðleikarnir sem kenna okkur að meta góðu stundirnar.

 

Magnaðar stundir – einfalt val

Nú þegar helgin er að baki og mánudagurinn hefur tekið á móti mér með sín fyrirheit í upphafi nýrrar viku, er hjarta mitt fullt af gleði og þakklæti. Helsta ástæða þess er sú að ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa varið helginni í að hitta magnað fólk og deila gleði, reynslu, styrk, draumum og þrám.

Á föstudaginn bauðst mér að hitta framsýna frumkvöðla og frammáfólk í íslensku viðskiptalífi á viðburði sem haldinn var til að fagna því að Klak Innovit hefur skipt um nafn og heitir nú Icelandic Startups. Þar sveif andi sköpunargleði og möguleika yfir vötnum. Ég sótti hvatningu í að ræða við viðskiptamógúla sem hafa látið til sín taka svo um munar.

Á laugardagsmorguninn talaði ég við stóran hóp kvenna sem vilja stíga inn í valdið sitt á nýju ári. Sá fundur markar upphaf að nýju tímabili í lífi mínu og þessa magnaða hóps kvenna en við höfum ákveðið að taka höndum saman og styðja hver aðra. Markmiðið er að vera fjárhagslegir leiðtogar í eigin lífi. Í þeim hópi var ég minnt á að samtakamáttur kvenna skiptir sköpum.

 

Minningin lifir

Eftir hádegið á laugardaginn tók ég þátt í minningarstund til að minnast ömmu minnar heitinnar sem hefði orðið níræð á þessu ári, hefði hún lifað. Ég naut ekki þeirra forréttinda að fá að kynnast henni þar sem hún lést áður en ég fæddist. Á minningarstundinni var dregin upp lifandi mynd af þessarri mögnuðu formóður minni. Hún var auðmjúkur leiðtogi, trú sinni sannfæringu, hugrökk, sterk og skapandi. Fór ótroðnar slóðir og ræktaði þær gjafir sem hún hlaut í vöggugjöf. Líf hennar var stutt en innihaldsríkt og hennar er minnst með söknuði rúmri hálfri öld eftir að hún kvaddi þennan heim. Hún er ein af mínum fyrirmyndum.

 

Hvað viltu að einkenni líf þitt?

Sunnudagurinn minn einkenndist af röð skemmtilegra og innihaldsríkra samtala. Síðdegis þáði ég heimboð þar sem annar öflugur hópur kvenna kom saman. Þar ríkti gleði og eftirvænting þegar konur deildu lífsýn sinni og vonum í upphafi árs. Nokkrar sögðust hafa strengt þess heit um áramótin að gleðjast í auknum mæli. Að hlæja og njóta.

Í hópi þessarra kvenna sannfærðist ég í fullvissu minni um að það er val hvers og eins sem stýrir upplifun á hverju augnabliki. Þegar við göngumst við þessu, öðlumst við tæki til að njóta augnabliksins. Það er þá sem við tökum stjórnina og ákveðum að lifa lífi okkar til fullnustu. Þá duga nefnilega engar afsakanir. Vaninn víkur fyrir nýrri sýn og við rísum úr rekkju dag hvern með endurnýjaðan kraft til góðra verka.

 

Látum verkin tala á nýju ári og lifum lífinu sem við þráum að lifa. Lífið er nefnilega núna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband