Leita í fréttum mbl.is

Veldu núna

Fátt veldur mér jafnmiklum heilabrotum og það að hringja í þjónustufyrirtæki sem hafa símsvara með valmöguleikum. Þegar kemur að „veldu núna“ hlutanum, er ég oftast ennþá að velta möguleika tvö fyrir mér og möguleiki þrjú hefur farið forgörðum. Ég neyðist því til að hlusta á alla rununa aftur áður en ég get valið og komist í rétta biðröð til að tala við þjónustufulltrúa. Þessi hversdagslegi vandræðagangur varð þess valdandi að ég fór að velta ákvaðanatöku fyrir mér í stærra samhengi.

Ákvarðanafælni

Hinn frjálsi vilji aðgreinir okkur frá dýrum merkurinnar. En þrátt fyrir að við séum sífellt að velja og hafna, daginn út og daginn inn, getur það reynst okkur erfitt að taka ákvörðun.

Öll stöndum við einhvern tíma á lífsleiðinni frammi fyrir ákvörðununum sem reynast okkur svo erfiðar að við teljum jafnvel sjálfum okkur trú um að við getum bara sleppt því að taka ákvörðun. En sannleikurinn er sá að með því að taka ekki ákvörðun, erum við að taka ákvörðun um að taka ekki ákvörðun. Að standa ekki með okkur sjálfum og láta okkur reka. Vonast til að þetta reddist einhvern veginn.

Ég á þó alls ekki við að best sé að taka allar ákvarðanir í skyndi og skipta aldrei um skoðun. Nei, langt í frá. Margar ákvarðanir eru þess eðlis að þær krefjast þess að við stöldrum við, skoðum hug okkar og veltum fyrir okkur mögulegum afleiðingum sem ákvörðunin kann að hafa í för með sér. En fyrsta skrefið er að ákveða að skoða málið og gera svo það sem gera þarf til þess að hægt sé að taka upplýsta ákvörðun. Hvort sem það er að eiga samtöl við hlutaðeigandi aðila, afla upplýsinga um það sem við þurfum að vita, skrifa niður mótrök og það jákvæða sem ákvörðunin kann að hafa í för með sér og svo framvegis.

Vald okkar felst í ákvaðanatöku

Þegar við erum óákveðin og frestum því að taka ákvörðun eða velkjumst í vafa og stöndum ekki með eigin ákvörðunum, gefum við frá okkur valdið. Að axla ábyrgð á sjálfum sér, felur í sér að geta tekið ákvarðanir, staðið með þeim og framfylgt því sem ákvörðunin hefur í för með sér.

Oft hafa ákvarðanir okkar áhrif á líf annarra en það þýðir þó ekki að það sé okkar að taka ábyrgð á öðrum fullorðnum einstaklingum. Það sama gildir um það þegar við freistum þess að láta aðra taka ábyrgð á okkur með því að veita þeim ákvörðunarrétt í lífi okkar. Í þannig tilfellum þurfum við að gangast við því að við höfum valið að afsala okkur ábyrgð á sjálfum okkur.

Þeim mun fyrr sem við áttum okkur á því að allar okkar ákvarðanir eru á okkar ábyrgð, getum við áttað okkur á hinu stóra samhengi hlutanna.

Það er þó ekki síður mikilvægt að láta aðra fullorðna einstaklinga um að ákveða fyrir sig og leyfa þeim að axla ábyrgð á sjálfum sér. 

Veldu núna!

Ef þú stendur frammi fyrir því að taka ákvörðun, langar mig að gefa þér nokkur ráð sem hafa reynst mér vel:

 

  1. Spurðu þig spurninga er varða ákvörðunina. Vittu til að svörin kunna að koma þér á óvart.
  2. Komdu þér úr sporunum. Farðu í gönguferð, sund eða veldu aðra hreyfingu sem hentar þér. Vittu til að svörin koma til þín.
  3. Horfðu fram á veginn og sjáðu fyrir þér líf þitt eftir fimm ár. Spurðu þig hvaða áhrif ákvöðunin hefur haft á líf þitt og fólksins í kringum þig.
  4. Skrifaðu ákörðunina niður á blað, settu dagsetningu og skrifaðu undir. Þannig geturðu gert samning við þig um að standa með ákvörðuninni og þannig stendur þú í valdinu þínu.

 

Þegar ég upplifi stöðnun og finn að ég þarf að taka ákvörðun, finnst mér mjög gott að fara í gönguferð. Ég legg af stað með skýran tilgang í huga. Ég þarf að fá svar við spurningunni um hver ákvörðunin eigi að vera.

Þankagangurinn verður allur annar og stöðnunin fer veg allrar veraldar þegar líkaminn er á hreyfingu. Oftar en ekki sný ég til baka úr gönguferðinni með ákvörðunina í farteskinu. Efinn er fokinn út í veður og vind og upplifunin er einstaklega valdeflandi.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband