Leita í fréttum mbl.is

Ertu í sjálfsábyrgð?

Stærsta áskorun okkar sem einstaklinga felst í að bera ábyrgð á okkur sjálfum. Það kann að hljóma einkennilega og virðast einfalt en staðreyndin er sú að fæstum tekst þetta alla daga allt lífið. Ég leyfi mér reyndar að efast um að nokkrum takist það.

Okkur hættir frekar til að horfa út um gluggann í leit að sökudólgi þegar eitthvað fer úrskeiðis í lífi okkar. En þeir sem taka ábyrgð á sjálfum sér horfa í spegil og spyrja sig hvað þeir hefðu getað gert betur. Þeir spyrja sig ennfremur hvaða lærdóm þeir geti dregið af mistökunum. Þetta þýðir þó ekki að þeir muni ekki gera mistök aftur. Nei þvert á móti því þeir sem taka ábyrgð á sjálfum sér gera mistök eins og aðrir en þeir eru tilbúnir að viðurkenna þau fyrir sjálfum sér og öðrum. Þeir biðjast líka fyrirgefningar og fyrirgefa sjálfum sér.

 

Góð spurning

Í bók sinni How Successful People Think, segir John C. Maxwell frá því hvernig hann kenndi börnunum sínum að meta það góða í lífinu og jafnframt að draga lærdóm af reynslunni. Hann gerði þetta meðal annars með því að spyrja þau spurningar þegar þau komu úr fríi eða höfðu varið tíma saman sem fjölskylda. Spurningin er þessi: Hvað fannst þér skemmtilegast og hvað lærðirðu?

Þessi spurning er einstaklega nytsamlega fyrir unga sem aldna. Hennar má spyrja daglega ef því er að skipta. Við getum einnig tamið okkur að spyrja okkur sjálf þessarar spurningar um leið og við leggjum höfuðið á koddann að kvöldi. Hvað fannst mér skemmtilegt í dag og hvað lærði ég?

Með þessum hætti förum við ósjálfrátt að taka betur eftir því sem okkur finnst skemmtilegt í lífi okkar og við förum að taka ábyrgð á því að gera meira af því sem okkur finnst skemmtilegt. Þeir sem upplifa að þeir hafi ekki gert neitt skemmtilegt, þurfa þá að spyrja sig hvers vegna.

Spurningin um það hvaða lærdóm við getum dregið af deginum er einnig mjög gagnleg og hjálpar okkur að taka ábyrgð á sjálfum okkur, orðum okkar og gjörðum. Þessi spurning er einnig gagnleg til að minna okkur á að við berum ekki ábyrgð á orðum og gjörðum annarra.

 

Gott ráð

Ég þekki einstaka konu sem hefur náð miklum árangri í lífinu. Hún deildi því með mér fyrir mörgum árum að hún skipuleggur daglega fundi með skemmtilegu fólki. Annað hvort hittir hún fólk í kaffi, hádegismat eða ver með því tíma við íþróttaiðkun ýmiss konar. Hún segir þetta vera lykilinn að velgengni sinni og að þetta hafi komið henni í gegnum erfiða tíma í lífinu. Hún hefur nefnilega eitthvað til að hlakka til um leið og hún vaknar á morgnana. Hún á heldur ekki í vandræðum með að nefna það sem henni hefur þótt skemmtilegt þann daginn auk þess sem hún segist læra eitthvað nýtt á hverjum degi þegar hún hittir allt þetta skemmtilega fólk. Maður er manns gaman!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband