Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Einfaldar leiðir til að auka tekjurnar

Margir eru í þeim sporum að geta ekki aukið tekjurnar á núverandi vinnustað. Þar geta legið ýmsar ástæður að baki. Ein gæti verið sú að fyrirtækið hefur ekki bolmagn til að greiða hærri laun en þú sættir þig við núverandi launakjör í von um að bráðum komi betri tíð.

Önnur ástæða gæti verið að þú gegnir stjórnendastöðu og kemst hvorki hærra í metorðastiganum né á launaskalanum. Launin eru jafnvel samkeppnishæf á markaði – en greiðslubyrði þín er það þung að lítið má út af bera. Þetta á sérstaklega við á þessum árstíma þegar jólahátíðin er á næsta leyti og útgjöldin meiri en ella. Það er nefnilega sama hversu há launin eru, það getur reynt á þolrifin að hafa aðeins úr ákveðnu að moða.

 

En hvað er til ráða til að auka tekjurnar?

Sumir vinna aukavinnu til hliðar við aðalstarf. Þessi vinna er þá gjarnan unnin á kvöldin og/eða um helgar. Þetta fyrirkomulag hefur ýmsa vankosti í för með sér, til dæmis mikið álag og takmarkaðan hvíldartíma. En þetta er þó leið til að auka tekjurnar og margir velja hana, að minnsta kosti tímabundið.

Önnur leið til að auka tekjurnar hefur færst í aukana á undanförnum árum og hún er sú að leigja út íbúðarhúsnæði sitt að hluta til. Þessi leið er sérstaklega vinsæl hjá þeim sem deila forræði og hafa börnin hjá sér aðra hverja viku. Þá viku sem fólk er barnlaust, flytur það þá gjarnan út úr húsnæði sínu og leigir það út til ferðafólks í nokkra daga í senn. Þessi leið er vel til þess fallin að auka tekjurnar en hentar þó ekki öllum.

Deilihagkerfið býður ýmsa aðra valkosti til tekjuöflunar og ein er sú að leigja út bílinn sinn. Þá geta þeir sem eru bíllausir eða jafnvel ferðamenn tekið einkabíla á leigu, allt frá nokkrum klukkustundum og upp í nokkra daga. Þessi leið hefur til dæmis notið vinsælda í Skandinavíu á undanförnum árum. Þar er einnig vinsælt að leigja út tæki og tól sem aðrir gætu haft not fyrir, svo sem eins og saumavélar, vélsagir, borvélar, snjómoksturstæki og annað í þeim dúr.

 

Til sölu

Önnur leið til tekjuöflunar er að taka til í geymslunni, bílskúrnum, skápunum og/eða á háaloftinu. Þar getur leynst ýmislegt sem má koma í verð, eins og til dæmis húsgögn, fatnaður, bækur, málverk, skartgripir, búnaður til íþróttaiðkunar og svo mætti lengi telja. Þetta er einnig umhverfisvæn leið, því með því að selja það sem þú notar ekki, geturðu stuðlað að því að minna sé framleitt.

Þeir sem eru lagnir við prjónaskap, útsaum, smíðar og annað slíkt, geta selt afurðir sínar til að drýgja tekjurnar.

 

Er hægt að lækka kostnað?

En hvort sem þér hugnast einhver af áðurtöldum aðferðum til fjáröflunar eður ei, er alltaf gott að skoða kostnaðarhliðina reglulega. Er ef til vill kominn tími til að skipta um síma- og netþjónustu? Eða væri ráð að hafa samband við tryggingarfélagið og endurskoða þjónustuna? Ertu áskrifandi að þjónustu sem þú notar ekki?

Eyðir þú peningum í eitthvað sem þú gætir sleppt (þó ekki væri nema tímabundið) í þeim tilgangi að lækka kostnað?

Peningar á lausu

Sumir eru með lausafé í vösum, milli sætanna í bílnum, í krukkum og annarstaðar. Það er góð regla að safna saman lausafé að minnsta kosti á þriggja mánaða fresti. Ein leið er að fá sér sparibauk. Önnur leið er að safna lausafénu saman og nota það í ákveðnum tilgangi. Til dæmis til að kaupa jólagjafir!


Draumar á dagskrá

Nýlega átti ég samræður sem snéru að æskudraumi mínum. Í kjölfar samtalsins áttaði ég mig á að þessi draumur hefur haft djúpstæð áhrif á líf mitt þrátt fyrir að ég hafi ekki enn upplifað hann, ef svo má segja.

Eitt sinn munaði litlu að hann yrði að veruleika og ég vann að því öllum árum að svo gæti orðið. En stundum er eins og örlögin grípi hreinlega inn í atburðarásina og hlutir æxlast öðruvísi en áætlað var.

Brostnar vonir og óorðnir draumar geta þó verið til góðs. Flest getum við litið yfir farinn veg og séð að þegar við stóðum á krossgötum og einar dyr lokuðust, opnuðust aðrar. Auðvitað veit enginn hvernig lífið sem ekki var lifað hefði getað orðið, en við vitum þó að við eigum daginn í dag og við höldum í vonina um það sem framtíðin ber í skauti sér.

 

Framtíðarsýnin og núið

Jafnvægið milli framtíðarsýnar og þess að lifa í núinu, reynist mörgum flókið. Sum löðumst við að sífellt stærri markmiðum og gleymum jafnvel (eða leyfum okkur ekki) að fagna áfangasigrunum. Margir þekkja af biturri reynslu að slíkt munstur getur leitt til þess að kertið brennur í báða enda. Afleiðingar kulnunar geta verið dýrkeyptar og einkennin þrálát.

Fólk á miðjum aldri (og á öllum aldri reyndar) upplifir oft sterklega að hafa ekki nýtt hæfileika sína sem skildi. Að hafa ekki knúið á dyr og látið til sín taka svo um munaði. Látið drauma sína rætast. Slík eftirsjá getur alið af sér hugsanir um tilgangsleysi og jafnvel leitt til biturðar.

En hvað er til ráða þegar fólk upplifir að hafa ekki lifað lífinu til fullnustu?

 

Frá óskhyggju til framkvæmdar

Napoleon Hill er mörgum kunnur enda eru bækur hans grunnur að mörgu því efni sem unnið er eftir í markmiðasetningu og sjálfs-þróun ýmiss konar. Hill, sem ritaði verk sín á fyrri hluta síðustu aldar, komst að því að skipta má fólki í sex hópa eftir því hvernig það nálgast drauma sína.

Fyrsti hópurinn eða um 70% fólks fer í gegnum lífið og með óskhyggjuna eina að vopni. Þessi hópur sagði hann að léti þar við sitja – að óska sér.

Annar hópur eða um 10% fólks, tekur næsta skref, sem er að þrá.

Þriðji hópurinn eða um 8%, þróar óskir og þrár þannig að úr verður von.

Fjórði hópurinn býr yfir tiltrú (e. belief) á því að úr verði en þessi hópur ku vera um 6% fólks.

Fimmti hópurinn eða um 4% fólks, fetar öll skrefin hér að framan en bætir svo við brennandi þrá. Þessi hópur hefur þar að auki trú (e. faith).

Aðeins 2% fólks tilheyrir þeim hópi sem stígur lokaskrefin tvö, sem felast í því að gera áætlun og framkvæma svo áætlunina.

Nýrri rannsóknir hafa bent til að um 5% fólks skrifi niður markmið sín, geri áætlun og hrindi svo í framkvæmd.

 

Lítil þúfa lyftir oft þungu hlassi

Áðurnefnt uppgjör við brostna drauminn, sem var kveikjan að þessum pistli, veitti mér óvæntan innblástur. Að morgni dags síðla sumars, dustaði ég rykið af nokkrum góðkunnum draumum sem virtust meira eins og aftursætisbílstjórar sem gerðu vart við sig öðru hvoru. Sumir voru afgreiddir og vinsamlega sendir áfram til annarra dreymenda á meðan aðrir fengu sæti í farþegasætinu að framanverðu.

Að hætti Napoleon Hill voru framangreind skref stigin samviskusamlega, uns ásættanleg framkvæmdaáætlun hafði litið dagsins ljós. Og viti menn, örfáum vikum síðar eru sumir draumanna þegar orðnir að veruleika.

Áttu þér draum í leynum kæri lesandi? Ef svo er, hvers vegna ekki að gera áætlun um að láta drauminn verða að veruleika? Hafðu samband ef þig vantar hjálp.


Vinsamlegur eða fjandsamlegur heimur?

Albert Einstein sagði að mikilvægasta ákvörðun okkar snéri að því hvort við upplifðum að umheimurinn væri okkur vinsamlegur eða fjandsamlegur.

En eru þeir sem líta heiminn vinsamlegum augum einfaldir? Láta þeir blekkjast og verða ef til vill fyrir skakkaföllum sem hljótast af samskiptum við fólk sem nýtir sér jákvætt viðmót þeirra og traust á náunganum?

Er heimurinn fjandsamlegur og ætti fólk almennt að vera á varðbergi gagnvart öðrum?

 

Gullna reglan

Fjöldamargar sögur eru til af fólki sem sýnt hefur heiðarleika í verki. Margir hafa upplifað að hafa gleymt verðmætum á almannafærri og fundið þau aftur, jafnvel á sama stað ósnert. Aðrir hafa týnt seðlaveskinu og hafa svo fengið símtal frá árvökrum samborgara sem skilaði veskinu til eigandans - og vildi jafnvel alls ekki þiggja fundarlaun.

Rannsóknir benda til þess að 90% fólks sé almennt heiðarlegt. Gullna reglan er semsagt sú að flest viljum við gjarnan hegða okkur á heiðarlegan máta og væntum þess að sama skapi að aðrir hegði sér heiðarlega gagnvart okkur.

 

Dæmi úr viðskiptalífinu

Í aðdraganda þess að Ebay var sett á laggirnar, voru lögð drög að þjónustu sem átti að tryggja bæði kaupendur og seljendur gegn tapi. Kaupendur áttu að geta keypt sér tryggingu gegn því að seljendur sendu þeim ónýta vöru og seljendur áttu að geta keypt tryggingu gegn því að kaupendur greiddu ekki fyrir vöruna. Skemmst er frá því að segja að tryggingaþjónustan var lögð af fljótlega eftir stofnun Ebay, enda var engin ástæða til að halda henni úti. Niðurstaðan var sú að fólki er almennt treystandi í viðskiptum.

 

Óheiðarleiki

Fátt fer meira fyrir brjóstið á undirritaðri en að þurfa að fást við óheiðarleika. Sem betur fer gerist það örsjaldan en þau skipti geta þó tekið toll. Þetta þekkja margir af eigin raun.

Vantraust getur gert vart við sig í kjölfar þess að hafa upplifað að einhver hagar sér óheiðarlega í þinn garð. En af framansögðu að ráða, er reglan sú að ef þú hagar þér heiðarlega er almennt ekki ástæða til að vantreysta öðrum. Fólk getur svikið þig en góðu fréttirnar eru þær að þau gerist örsjaldan og heyrir til undantekninga.

Það skal tekið fram að ég er ekki þeirrar skoðunar að sumt fólk sé alltaf óheiðarlegt og annað fólk sé alltaf heiðarlegt og algjörlega hvítþvegið. Ég tel reyndar líklegt að 90% fólks hagi sér heiðarlega í 90% tilfella og að öll gerum við stundum eitthvað sem gæti talist óheiðarlegt. Stundum hugsum við líka um að gera eitthvað sem er óheiðarlegt en ákveðum svo að gera það ekki.

Þó hef ég komist að þeirri niðurstöðu að þeir sem vantreysta öðrum, gera það líklega vegna þess að þeim finnst þeir ekki traustsins verðir sjálfir. Með öðrum orðum, ef þú hegðar þér almennt heiðarlega, ættirðu aðeins að hafa varann á þegar þú mætir fólki sem treystir ekki öðrum og slær sífellt varnagla í samskiptum.

Ef þú lesandi góður ert í hópi þeirra sem treysta ekki öðrum og finnst jafnvel heimurinn fjandsamlegur, gæti verið ástæða til að staldra við. Ef til vill á vantraust þitt rætur í upplifunum á æskuárum nú eða reynslu þinni á fullorðinsárum. En hverjar sem ástæðurnar kunna að vera er ástæða til að íhuga orð Alberts Einstein: mikilvægasta ákvörðun þín snýr að því hvort þú upplifir umheiminn sem vinsamlegan eða fjandsamlegan.


Hvað ef þú ættir sex mánuði eftir ólifaða?

Mjög líklega hefur yfirskrift pistilsins annað hvort vakið forvitni þína eða hneykslað þig. Hvort heldur sem er, þá er tilganginum náð og tilgangurinn helgar meðalið í þessu tilfelli.

 

Nýtt samhengi

Ég man þegar ég heyrði þessa spurningu í fyrsta skipti þegar ég var í markþjálfunarnámi. Hvað ef þú ættir sex mánuði eftir ólifaða?

Kennarinn útskýrði að tilgangurinn með spurningunni, væri að fá fólk til að setja lífið í nýtt samhengi og forgangsraða útfrá gildunum sínum. Því sem skiptir það virkilega miklu máli, raunverulega og að vel hugsuðu máli.

Mér fannst þetta fáranleg spurning. Hvernig í ósköpunum átti ég að geta sett mig í þau spor að ímynda mér að ég ætti aðeins sex mánuði eftir ólifaða? Auk þess þótti mér frekja og ósvífni að spyrja fólk að þessu.

En sannleikurinn er sá að ofsafengin viðbrögð mín við spurningunni, fengu mig til að hugsa. Spurningin hafði þá tilætluð áhrif þegar allt kom til alls. Síðan eru liðin mörg ár og þeir sem hafa verið hjá mér í einkaþjálfun vita að ég nota þessa spurningu stundum. Hún er nefnilega mjög gagnleg því hún er svo sannarlega róttæk og svörin við henni eru því gjarnan eftir því. Líkleg til þess að hjálpa manni að breyta um kúrs eða minnsta kosti átta sig á að sumir hlutir skipta engu máli í stóra samhenginu. Aðrir hlutir skipta hins vegar mjög miklu máli og kúnstin er að átta sig á muninum á þessu tvennu.

 

Upp úr hjólförunum

Við getum líka spurt okkur þessarar spurningar þegar við viljum losa okkur við ávana eða temja okkur góðar venjur.

 

Hverju myndir þú breyta ef þú ættir aðeins sex mánuði eftir ólifaða?

 

  • Sleppa fram af þér beyslinu?
  • Temja þér meiri aga?
  • Fara á fætur klukkan sex á morgnana?
  • Nota tímann betur?
  • Segja skilið við starfið sem þú fékkst nóg af fyrir löngu?
  • Segja fólkinu í kringum þig að þú elskir það?
  • Stofna fyrirtækið sem þig hefur dreymt um?
  • Gera upp gamlar sakir, þó ekki væri nema til að létta á samviskunni?
  • Binda enda á sambönd sem valda þér vanlíðan og þú veist að eru þér óholl?
  • Segja fallega og uppbyggjandi hluti við sjálfa/n þig?
  • Synda í köldum sjó?
  • Lesa bækurnar sem þig hefur alltaf langað að lesa en aldrei komið í verk?
  • Upplifa það sem þig dreymir um að upplifa?
  • Bættu við því sem vantar á listann þinn...

 

Hvað ef þetta væri lífstíll?

Margir vita að fólk sem hefur horfst í augu við dauðann er líklegt til að breyta lífi sínu í kjölfarið. Þetta fólk lifir lífi sínu eins og tíminn sé af skornum skammti. Sannleikurinn er auðvitað sá að enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Þetta vitum við en kjósum oftast að líta framhjá því, nema við séum tilneydd að horfast í augu við það. Kannski er dagurinn í dag svoleiðis dagur. Dagur þar sem við horfumst í augu við breyskleika okkar og ákveðum að breyta því sem við getum breytt – á meðan tími gefst.  


Þetta reddast!

Ef hægt er að ganga svo langt að alhæfa um viðhorf Íslendinga til áskorana, mætti segja að fólk sé almennt frekar bjartsýnt á að hlutirnir reddist. Sjálf var ég svo þekkt fyrir að segja „þetta reddast“ að ég var kölluð Redda á tímabili, sem rýmar auðvitað vel við nafnið mitt - Edda.

 

Þetta reddast viðhorfið og fjármálin

En þrátt fyrir að jákvætt viðhorf og lausnamiðaður þankagangur komi fólki vissulega áfram, er reddingarhugsunarhátturinn hættulegur þegar kemur að fjármálunum.

Ef við nálgumst fjármálin sem átaksverkefni – eða vandamál sem þarf að leysa, er til dæmis ólíklegt að við náum að leggja fyrir eða setja okkur fjárhagsleg markmið. Þetta getur valdið bæði hugarangri og streitu þegar til lengri tíma er litið. Fjármálahegðun af þessu tagi getur einnig haft djúpstæð áhrif á samskipti í fjölskyldum og þá sér í lagi á sambönd hjóna og para. 

 

Algengar fjármálaáskoranir

Á þeim árum sem ég hef sinnt fjármálatengdri markþjálfun hef ég fengið það staðfest að áskoranir tengdar peningum eru mismunandi og birtingarmynd þeirra ólík. En við glímum öll við einhvers konar áskoranir tengdar peningum.

Þegar ég tala um áskoranir er ég ekki að vísa til þess að vera í verulegum fjárhagsvanda. Nei, ég er fremur að vísa til áskorana á borð við að þú náir ekki fjárhagslegum markmiðum þínum, eins og til dæmis að leggja fyrir. Margir kannast við að vera með há laun en ná ekki að spara. Þrátt fyrir að langa virkilega til þess að leggja fyrir og vita innst inni að þú ættir að geta það, þar sem þú ert með ágætis laun. En peningarnir hverfa jafnóðum og þú upplifir jafnvel að vera peningalaus í lok mánaðarins eða lifa á kreditkortinu, mánuð eftir mánuð.

En fjármálaáskoranir eru af ýmsum toga. Sumir eiga í ástar/haturs sambandi við peninga. Þeir eiga það til að þurfa að reiða sig á aðra peningalega og eru jafnvel óöruggir hvað varðar eigin hæfileika til að afla tekna. 

Aðrir laðast að skjótfengnum gróðatækifærum og eru tilbúnir til að taka fjárhagslega áhættu ef hún gæti haft mikinn fjárhagslegan ávinning í för með sér. Þetta getur komið illa við budduna og kemur oft í veg fyrir að fólk geti staðið við fjárhagsleg markmið.

Aðrir meta peninga sem tæki til að geta viðhaldið ákveðnum lífstíl og ímynd til að öðlast viðurkenningu annarra. Það er áskorun fyrir þá að safna peningum þó þeir geti gert það í ákveðnum tilgangi. Oft getur hvatvís peningaeyðsla sett strik í reikninginn hjá þessum hópi.

En sama hvort peningaáskoranirnar rýma við eitthvað af ofantöldu, eða eru af öðru tagi eru til lausnir við þeim.

 

Með von um fjárhagslegt frelsi

Sumir gera sér vonir um að upplifa fjárhagslegt frelsi á næstu mánuðum eða árum. Aðrir upplifa hugmyndina um fjárhagslegt frelsi fremur sem góða hugmynd en eitthvað sem gæti orðið að veruleika í þeirra lífi. Enn aðrir eru einhvers staðar þarna á milli. En hvernig sem persónuleg afstaða þín til fjárhagslegs frelsis kann að vera – þá er staðreyndin sú að allir sem hafa náð fjárhagslegu frelsi hafa haft áætlun og farið eftir henni.

En hvernig í ósköpunum á maður að gera slíka áætlun? Hvert er fyrsta skrefið?

 

Einfalt og skemmtilegt kerfi

Flest erum við önnum kafin og margir upplifa að þeir glími við tímaskort. Ég hafði þetta í huga þegar ég hannaði skapandi og skemmtilega lausn sem er auðvelt að innleiða í dagsins önn. Markmiðið er að það sé auðvelt að breyta sambandi sínu við peninga dag frá degi og uppskera varanlegan árangur.

Ýmsar rannsóknir benda til að það taki 21 dag að losna við óvana eða festa nýjan vana í sessi. Lausnin mín - Fjárhagslegt frelsi á 12 vikum er netnámskeið sem tekur mið af þessum rannsóknum. Þátttakendur eru leiddir áfram, skref fyrir skref á ferð um lendur fjármála sinna.

Sjónum er ýmist beint að því að skoða samband sitt við peninga eða að því að innleiða nýja siði þegar kemur að peninganotkun og peningaumsýslu.

Netnámskeiðið byggir á áralangri vinnu og margreyndum aðferðum sem hafa nýst fjöldamörgum til að umbreyta sambandi sínu við peninga. Það besta er að þessi vinna er bæði skapandi og skemmtileg!

Fjárhagslegt frelsi á 12 vikum hefst 11. apríl. Nánari upplýsingar og skráning hér.

 


Hugleiðingar um föstu

 „Upp, upp, mín sál og allt mitt geð, upp mitt hjarta og rómur með.“ Þessi orð þekkja flestir, enda marka þau upphaf Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Það er tilvalið að rifja þau upp nú á páskaföstunni og setja þau í samhengi við hið daglega líf í nútímanum. 

Fjölmargar rannsóknir á áhrifum föstu hafa sýnt fram á að áhrifin eru ekki aðeins líkamleg, heldur upplifa þeir sem fasta gjarnan andlega upplyftingu. En hvernig getum við heimfært hugmyndafræði föstunnar yfir á önnur svið lífsins?

 

Öðruvísi fasta

Sprengidagurinn markar upphaf páskaföstunnar. Hefðin var sú að þá gafst tækifæri til að neyta kjötmetis í síðasta skipti í 40 daga eða fram að páskamáltíðinni sem gjarnan var páskalamb. Þó sumir haldi þessar hefðir eflaust enn í dag, lögðust þær að miklu leyti af með siðbótinni.

Margir glíma við einhverja óvana eða ávana og þá er tilvalið að nýta sér umgjörð páskaföstunnar til að taka til í sínum ranni, ef svo má að orði komast.

Sumstaðar tíðkast enn að láta eitthvað á móti sér á páskaföstunni og í Bretlandi er það til dæmis sterk hefð enn þann dag í dag. Sumir neita sér um eitthvað matarkyns eins og til dæmis sætindi, kjöt eða jafnvel áfengi.

 

Mismunandi svið lífsins

Líf okkar samanstendur af nokkrum mismunandi einingum ef svo má segja. Einingunum hefur verið raðað upp á svokallað lífshjól, en því má einnig líkja við köku með átta jafnstórum sneiðum. Heilsa okkar er ein þeirra og í flestum tilfellum er heilsan grunnforsenda fyrir því að við getum starfað og verið virkir samfélagsþegnar. Sambönd okkar og samskipti eru aðrar einingar sem vert er að nefna.

Segja má að einingarnar tengist og hafi áhrif hver á aðra. Tökum dæmi um vinnu eða frama: Flest vinnum við úti og atvinna okkar tengist gjarnan afkomu okkar. Þannig hefur starfsval okkar og framgangur í starfi áhrif á launin eða þá peninga sem við höfum yfir að ráða, sem aftur hefur áhrif á möguleika okkar til að byggja upp fjárhagslega velferð*. Reyndar hefur peningahegðun okkar grundvallaráhrif í þessu samhengi, því það skiptir ekki alltaf meginmáli hversu háar tekjur við höfum, heldur hvernig við ráðstöfum þeim.

 

Áskoranir okkar endurspeglast í peningahegðuninni

Það getur verið tilvalið að skoða peningahegðun sína með það að markmiði að finna mynstur sem hægt væri að breyta. Áttu það til að eyða peningum þegar eitthvað veldur þér hugarangri? Í hvað eyðirðu þá helst? Gerirðu það vegna þess að þér finnst þú eiga það skilið? Eða kannski vegna þess að þér finnst þú þurfa að sanna það fyrir þér eða öðrum (gjarnan maka) að þú ráðir í hvað þínir peningar fara? Færðu gjarnan samviskubit í kjölfarið og iðrast þess að hafa eytt peningum með þessum hætti? Jafnvel þannig að þú nýtur þess ekki að eiga þar sem þú keyptir? 

Hefurðu efasemdir þegar kemur að fjárfestingum? Svo miklar að þér er skapi næst að læsa peningana inni í peningaskáp?

Fer peningahegðun annarra svo mikið fyrir brjóstið á þér að þér að það hefur truflandi áhrif á líf þitt?

Notarðu peningana þína til að kaupa fallega hluti eða til að laga útlit þitt? Ef svo er, gerirðu það til að öðlast viðurkenningu annarra?

Stýrist fjármálahegðun þín af fjármálaótta, þannig að þegar þú loks tekst á við fjármálin er það átaksverkefni og þegar málin eru leyst, bíðurðu þar næsti fjármála-stormur skellur á?

Ég gæti nefnt fjölmörg dæmi til viðbótar en niðurstaðan er sú en hegðun á borð við þessa sem er talin upp hér að framan er vel til þess fallin að takast á við hana á páskaföstunni. Hafðu samband ef þig vantar hjálp. 

 

  

* Það skal tekið fram að hér er gengið útfrá forsendum fjöldans, það er að segja afkoma flestra er háð innkomu. Þetta er þó ekki algilt.


Hver viltu vera?

Eitt sinni vann ég á vinnustað þar sem menningin einkenndist af útilokun og flokkadráttum. Sumt fólk á vinnustaðnum notaði gagngert særandi orð gegn þeim sem af einhverjum ástæðum þeir höfðu valið að níðast á. Þetta var þó gjarnan gert undir fjögur augu svo engin vitni voru að hegðuninni. Vandamálið var því bæði dulið og óáþreifanlegt. Þeir sem beittu þessarri tegund hegðunar, sem ég leyfi mér að kalla andlegt ofbeldi, höfðu unnið á vinnustaðnum um árabil.

 

Áhrif neikvæðrar menningar

Eftir að hafa unnið við markþjálfun í tæpan áratug, veit ég fyrir víst að sambærileg menning þrífst enn á mörgum vinnustöðum landsins. Þar að auki er þetta vandamál sem á sér hliðstæðu víða um heim. Margir upplifa útilokun og vanvirðingu sem hluta af daglegu lífi á vinnustaðnum.

Á sumum vinnustöðum er eins og tveir menningarheimar mætist. Þar eru þeir sem sýna af sér neikvæða hegðun og svo eru hinir sem ekki taka þátt í slíkri hegðun og halda þá gjarnan hópinn.

Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að það hefur gjarnan djúpstæð áhrif á fólk að búa við neikvæðni. Hvort sem við sem einstaklingar tökum þátt í þeirri hegðun sem einkennir slíka menningu eður ei, þá hefur neikvæðnin áhrif á okkur.

Þeir sem hafa unnið eða jafnvel vinna enn á vinnustöðum þar sem menningin einkennist af neikvæðni, eiga oft í átökum innra með sér. Við fyrstu sýn virðist það oft auðveldara að verða hluti af neikvæðri menningu heldur en að breyta henni til hins betra.

 

Hver vilt þú vera?

Við stöndum frammi fyrir vali á hverjum einasta degi. Hver viljum við vera? Viljum við taka þátt í að viðhalda menningu þar sem sumir eru útilokaðir – eða viljum við stöðva slíka hegðun? Þrátt fyrir að við upplifum valdaleysi gagnvart þeirri menningu sem við erum hluti af, er það í raun og veru á okkar valdi að taka þátt í að breyta henni til batnaðar.

Öll eigum við okkur fyrirmyndir og ef vel er að gáð geta þær verið bæði jákvæðar og neikvæðar. Stundum virka neikvæðu fyrirmyndirnar eins og víti til varnaðar, ef svo má segja. Með öðrum orðum, við viljum ekki líkjast þeim.

En jákvæðu fyrirmyndirnar eru oftast fleiri og áhrif þeirra djúpstæðari. Það er góð leið til aukinnar sjálfsþekkingar að vera sér meðvitaður um hverjar þessar góðu fyrirmyndir eru. Skrifa jafnvel niður hvað einkennir þetta fólk og hvers vegna við lítum upp til þess.

Rannsakendur sem safnað hafa upplýsingum um fyrirmyndir hafa komist að því að flest lítum við upp til fólks sem stendur okkur nærri. Það er gjarnan náinn ættingi eða fjölskylduvinur sem við höfum kynnst vel. Það merkilega er að þrátt fyrir að við setjum fyrirmyndir okkar á stall að einhverju leyti, þá gerum við okkur jafnframt grein fyrir að þetta er fólk sem bæði er gætt kostum og göllum.

Fyrirmyndir eru gjarnan fólk sem hefur fundið styrk til að sigrast á hindrunum og vaxið í kjölfar áfalla. Fólk sem tekur upp hanskann fyrir öðrum og berst fyrir því sem er rétt. Ekki vegna þess að það sé því sjálfu til framdráttar, heldur vegna þess að það hefur sterkan innri áttavita eða siðferðiskennd.

 

Við erum samfélagið

Það getur verið auðveldara að horfa í hina áttina þegar aðrir eru beittir misrétti og flest erum við sek um að hafa gert það. En staðreyndin er sú að við erum samfélagið.

Ef þú vinnur á vinnustað þar sem menningin er skaðleg, getur verið gott að muna að oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Þú getur verið sú eða sá sem stígur fyrsta skrefið í átt að breytingum. Það þarf nefnilega ekki nema einn til að brjóta munstrið.


Nýtt ár - ný tækifæri?

Áramót eru tilvalinn tími til að líta um öxl og gera upp árið sem er senn á enda. Ef til vill hefur þetta verið heillavænlegt ár og þú notið þín til fullnustu. Nú eða árið hefur fært þér áskoranir og jafnvel sorgir. Kannski hefur árið verið tíðindalítið og líf þitt leiðigjarnt.

 

Gerum upp árið

Hvað svo sem einkenndi árið í þínu lífi, er kominn tími til að gera það upp. Það er nauðsynlegt að staldra við áður en þú horfir fram á veginn og leggur drög að því sem koma skal á nýju ári.

Ég tók saman nokkrar spurningar til að hjálpa þér. Þú getur annað hvort svarað spurningunum með því að skrifa svörin niður eða búið þér til skjal í tölvunni og svarað spurningunum þar. Gættu þess bara að svara skriflega (en ekki bara í huganum meðan þú lest pistilinn) því þannig fæst bestur árangur.

 

 

  1. Skrifaðu niður með hvaða hætti þú hefur fjárfest tíma þínum, orku og peningum á árinu. Stundum reynist raunveruleikinn frábrugðinn því sem við ætluðum okkur.

 

a. Hvað tók mest pláss í dagatalinu?
b. Í hverju fjárfestirðu í ár?

 

  1. Berðu kennsl á og haltu upp á það sem þú hefur afrekað, jafnvel þó þér finnist það smávægilegt. Okkur hættir til að gera lítið úr framförum okkar.

 

a. Hverjir voru þínir stærstu sigrar á þessu ári?
b. Hvað geturðu þakkað fyrir?
c. Í hverju tókstu áhættu?
d. Hvaða verkefni eða atburðir hafa haft mesta þýðingu?
e. Hvaða verkefnum laukstu ekki á þessu ári?
f. Hvað er það sem þú gleðst yfir að hafa áorkað?

 

  1. Komdu auga á það sem þú getur lært af reynslunni og hvernig þú getur nýtt þér þann lærdóm á komandi ári. Reynslan er besti kennarinn ef við nýtum hana okkur til góðs.

 

a. Hvaða orð eða setning lýsir best reynslu þinni á þessu ári?
b. Hvað lærðirðu í tengslum við fyrirtækið þitt eða frama þinn á þessu ári?

 

Markmið fyrir 2018

Nú þegar þú hefur gert upp það sem er liðið, er kominn tími til að leggja drög að því sem þú ætlar þér á nýju ári.

Eins og flestir vita er munur á markmiðum og áramótaheitum. Munurinn er sá að markmiðum fylgir tímasett framkvæmdaáætlun. Napoleon Hill lýsti því ágætlega þegar hann sagði að markmið væru draumar með tímafresti. En það er einmitt tímafresturinn sem greinir á milli drauma og markmiða.

Áramótaheitum er hins vegar oft fleygt fram án þess að þeim fylgi sú alvara sem er nauðsynleg til að þeim verði framfylgt. Rannsóknir hafa sýnt að örfáir standa við áramótaheit en hins vegar eru 95% líkur á að þú náir markmiðum þínum ef þú setur þau fram á eftirfarandi hátt.

 

Markmiðasetning sem virkar

Vissir þú að aðeins um 5% fólks skrifar niður markmiðin sín og gerir áætlun um að fylgja eftir draumum sínum? Hver sem ástæða þess kann að vera, er þér ekkert til fyrirstöðu. Það er nefnilega gott að vera í þeim minnihlutahópi sem skrifar niður markmiðin sín og hrindir þeim í framkvæmd.

 

Svona seturðu þér markmið skref fyrir skref:

 

  1. Skilgreindu markmiðið? Hafðu nákvæmnina að leiðarljósi.
  2. Hvað er það fyrsta sem þú þarft að gera?
  3. Brjóttu markmiðið niður skref fyrir skref. Það reynist auðveldara að fylgja því eftir þannig.
  4. Gerðu markmiðið þitt mælanlegt (hversu mikið, hversu margir o.s.frv.)
  5. Hvernig muntu geta náð markmiðinu þínu? 
  6. Þarftu utanaðkomandi stuðning til að ná markmiðinu þínu?(eða verður auðveldara og skemmtilegra að ná því ef aðrir styðja þig?)
  7. Hvenær verður markmiðið orðið að veruleika? (dagsetning og ártal)

 

Eitt ráð að lokum. Þegar markmiðasetning er annars vegar er gott að hafa í huga að ferðalagið er jafn mikilvægt og áfangastaðurinn. Einnig er góð hvatning að fagna áfangasigrunum og deila gleðinni þegar vel gengur.

 

Ég þakka lesendum samfylgdina á árinu sem er að líða og óska gleði og farsældar á nýju ári.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Hvaða jólatýpa ert þú?

Í aðdraganda jólanna kemur kauphegðun okkar oft berlega í ljós. Á meðan skipulagsglaðir eru í essinu sínu, þurfa aðrir að beita sig hörðu til að standast væntingar. 

Það er áhugavert að staldra við og skoða eigin mörk í samhengi við peninga og þá sér í lagi á þessum árstíma, þegar peningabuddan tæmist hraðar en ella.

Frá sjónarhóli fræðanna um peningapersónugerðirnar, glímum við öll við einhvers konar peningaáskoranir auk þess sem gjafir hverrar og einnar týpu hafa ákveðið fram að færa um jólin. Kannastu við sjálfa/n þig og fólkið í kringum þig í einhverjum af eftirfarandi lýsingum?

Nærandinn – kærleiksboðberi jólanna

Jólin eru mjög sérstakur tími fyrir Nærandann. Þá gefst ástæða til að leyfa sér að dekra við fólkið sitt. Áskorunin er sú að Nærandinn á það til að fara yfir strikið. Eyða of miklu í gjafir og mat og hlaupa svo um til að hjálpa öðrum, jafnvel óumbeðinn. Þreyta og eftirsjá geta því einkennt síðustu daga ársins hjá Nærandanum.

Því er skynsamlegt að útbúa fjárhags- og tímaáætlun fyrir jólin og standa við hana. Nærandanum er einnig hollt að setja sér mörk og muna eftir að næra sig um jólin. Kaupa jafnvel eina vel valda gjöf handa sjálfum sér?

Safnarinn – færir okkur jólasjóðinn

Safnarinn hefur sennilega búið til fjárhagsáætlun fyrir jólin í september. Áskorunin fyrir Safnarann er að njóta þess að eyða peningunum sem þú hefur ákveðið að eyða í jólin. Jólin geta valdið Safnaranum kvíða, því þrátt fyrir að hann sé með fjárhagsáætlun, getur verið stressandi að stíga skrefið og eyða peningunum.

Í stað þess að upplifa streitu þegar upphæðin sem er ætluð til jóla fer minnkandi, geturðu beint sjónum að því í hvað peningarnir fara, nefnilega í að gleðja aðra. Beindu sjónum að gjöfunum sem þú verð peningum í að kaupa til að gleðja þá sem þú elskar.

Frumkvöðullinn – færir okkur jólastuðið

Frumkvöðlar elska að taka áhættu og á jólum get ég ímyndað mér að það þýði að kaupa gjafir á síðustu stundu og þá oft sérkennilegar gjafir. Þetta mynstur hefur í för með sér að þeir eiga það til að eyða allt of miklu í gjafir sem viðtakendur kunna jafnvel ekki að meta, þrátt fyrir að þær séu minnistæðar.

Frumkvöðullinn er innri uppreisnarseggurinn með málstað og jólin með öllum sínum hefðum geta virkað leiðinleg fyrir hinn nýjungagjarna Frumkvöðul. Þá er annað hvort að láta lítið fyrir sér fara eða að hrista duglega upp í hlutunum. Hvorugur valkosturinn er auðveldur fyrir fólkið sem þú elskar.

Hvers vegna ekki að setja þér mörk kæri Frumkvöðull og gefa þér einn dag til að finna skynsamlegar gjafir fyrir þá sem þú elskar. Ég skora á þig!

Rómantíkerinn – laðar fram fegurð jólanna

Rómantíkerinn elskar jólin því hún elskar að njóta lífsins. Fallegt heimili er hennar aðalsmerki og hún býr yfir þeirri trú að peningar séu endalaus uppspretta. Rómantíkerinn á það til að nota umtalsverðar fjárhæðir í jólahaldið og þar er hvergi til sparað!

Það er ágætis ráð fyrir Rómantíkerinn að skoða banka- eða kreditkortayfirlitið frá því í fyrra til að átta sig á kostnaði við jólahaldið. Í kjölfarið er gott að gera upp við sig hvort þetta sé sú upphæð sem þú vilt nota í ár eða hvort þú viljir draga saman seglin – nú eða bæta í ef svo ber undir. Svo geturðu notað einstaka hæfileika þína til að undirbúa dásamleg jól fyrir þig og þá sem þú elskar. Skoraðu á þig að finna stórkostlegar gjafir en haltu þig við fyrirframgefna upphæð.

Tengiliðurinn – sameinar fólk á jólunum

Tengiliðurinn er sú peningapersónugerð sem er minnst tengd peningum. Hann er í essinu sínu þegar fólkið hans er samankomið til að njóta augnabliksins.

Tengiliðurinn finnur sig ekki knúinn til að halda í við lífstíl annarra og er því ekkert að stressa sig í aðdraganda jólanna. Hann er því líklegur til að fara á stjá á síðustu stundu til að kaupa gjafir og annað til jólanna. Sú tilhneyging eykur líkurnar á því að það sem hann ætlaði sér að kaupa sé uppselt og hann finni sig knúinn til að eyða meira en hann ætlaði til að bjarga sér fyrir horn.

Tímastjórnun og fjárhagsáætlun gætu hjálpað Tengiliðnum að vera við stjórnvölinn. Þannig skapast einnig einstakt tækifæri til að bæta sambandið við peninga.

Dægurstjarnan – færir okkur jólafögnuðinn

Dægurstjarnan nýtur sín um jólin. Á jólum gefst tækifæri til raunverulegrar sviðsetningar. Tilkomumiklar skreytingar, stórkostlegar gjafir og glæsilegur fatnaður. Jólin bjóða svo sannarlega upp á að öllu sé tjaldað til.

Jafnvel öguðustu Dægurstjörnur eiga það til að eyða of miklu í aðdraganda jólanna. En besta leiðin til að koma í veg fyrir hvatvísa eyðslu er að setja sér tímamörk og ákveða upphæðina sem nota má fyrirfram. Eitt ráð er að sækja um fyrirframgreitt kreditkort eða leggja ákveðna upphæð inn á sérstakan jólareikning. Einnig getur verið gott að velja dag sem er síðasti dagurinn sem þú mátt kaupa fyrir jólin.

Stjórnandinn – kemur jólunum heim og saman

Stjórnandinn er líklega með bæði framkvæmda- og fjárhagsáætlun í aðdraganda jólanna og leggur hart að sér. Vandamálið er hins vegar að álagið sem hlýst af jólaundirbúningnum getur skyggt á sjálfa gleði jólanna.

Stjórnandinn er stórtækur en þegar hann er stressaður getur innri einræðisherrann skotið upp kollinum. En hvernig væri að sleppa tökunum á stjórnseminni og hugsa um jólin sem kvikmyndaframleiðslu þar sem allar persónur og leikendur fá að njóta sín og taka þátt? Líka þú Stjórnandi!

Alkemistinn – færir okkur anda jólanna

Alkemistar eiga oft í ástar/haturs sambandi við peninga. Þetta ástar/haturs samband getur yfirfærst á samband Alkemistans við jólin.

Kjarni jólanna getur svo auðveldlega tapast í verslunaræðinu og Alkemistinn tekur þetta nærri sér. Hættan er sú að Alkemistar sjái eftir peningunum sem þeir upplifa að þeir þurfi að eyða til að valda ekki ástvinum sínum vonbrigðum.

En kæri Alkemisti - hvernig væri að líta á peningana sem þú eyðir um jólin sem tækifæri til að glæða líf þeirra sem þú elskar töfrum?

Hvort sem þú finnur þig í einni eða fleiri þessarra persónugerða í aðdraganda jólanna, er um að gera að hafa húmor, setja sjálfum sér mörk og muna að njóta!

Ég vil nota tækifærið og óska lesendum Smartlandsins ánægjulegrar aðventu og gleðilegra jóla.


Kaupa, leigja eða deila bíl?

Margir eru þeirrar skoðunar að það sé hreinlega ekki hægt að búa á Íslandi án þess að eiga bíl. Í stormi og hríð er auðvelt að vera þessu sammála, sem endurspeglast hvað best í tölum frá Samgöngustofu en í lok ársins 2016 voru 277.360 ökutæki í umferð á Íslandi.

Þessvegna er tilefni til að taka bílamálin til umræðu í þessum pistli. Byrjum á að beina sjónum að fjárhagslega þættinum og veltum fyrir okkur hver sé hagkvæmasti kosturinn – að kaupa, leigja eða jafnvel deila bíl?

 

Hvað kostar bílalán?

Eins og flestir vita flokkast bílar almennt ekki sem góð fjárfesting. Þeir lækka í verði milli ára og því þarf að taka afföllin til greina. En á móti kemur að það kostar að jafnaði minna að reka nýlegri bíla þar sem þeir bila sjaldnar auk þess sem margar nýjar bílategundir eru sparneytnari og jafnvel umhverfisvænni en eldri bílar.

En nýjir bílar kosta meira og því bregða margir á það ráð að taka bílalán til að fjármagna kaupin. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðum fyrirtækja sem bjóða bílalán er unnt að fá bílalán upp að 90% af kaupverði nýrra bíla til allt að 7 ára. Ef ætlunin er að festa kaup á notuðum bíl er einnig hægt að fá 90% lán

allt að 5 árum ef um nýlegan bíl er að ræða.*

Eitt fyrirtæki býður til dæmis 8,15% óverðtryggða vexti í tilfellum þar sem fjármögnunarhlutfall er hærra en 80% af kaupverði bílsins. Svo leggst við mánaðarlegur kostnaður eins og til dæmis greiðslugjald auk þess sem lántökugjaldið er 3%.

Tökum dæmi um nýlegan eða nýjan bíl sem fæst fyrir 2 milljónir króna. Hyggist maður taka 90% lán til fimm ára, greiðir maður 200 þúsund krónur út. Lántökugjaldið er 54.000 krónur og lánsfjárhæðin því alls 1.856.000 krónur. Þinglýsingargjaldið er kr. 2000. Heildarlántökukostnaðurinn er 471.177 krónur auk þess sem fólk greiðir mánaðarlegt greiðslugjald. Mánaðargreiðslan miðað við lægsta mögulega greiðslugjald er þá 37.886 krónur. Svo bætist við kostnaður sem hlýst af bifreiðagjöldum, tryggingum, eldsneyti, hjólbörðum og viðhaldi annars konar.

 

Hvað kostar að leigja bíl?

Eftir því sem ég kemst næst eftir nokkra eftirgrennslan er kaupleiga, rekstrarleiga, langtímaleiga og vetrarleiga á bílum í boði fyrir þá sem það kjósa. Svo virðist sem kaup og kjör séu einstaklingsbundin og miðist að einhverju leyti við mat á greiðslugetu. Á síðu eins bílaumboðs sá ég þó að miðað er við að mánaðarlegt gjald í rekstrarleigu fyrir bíl sem metinn er á 2 milljónir króna að nývirði sé 50.000 krónur.

 

Bílar í deilihagkerfinu

Í mörgum borgum Evrópu og víðar um heim hefur deilihagkerfið rutt sér til rúms og ýmsir möguleikar kynntir til sögunnar þegar bílanotkun er annars vegar. Sem dæmi má nefna nágranna-bíla þar sem eigendur einkabíla geta skráð bíla sína til leigu með svipuðum hætti og tíðkast með íbúðahúsnæði. Eigendur geta því þénað á því að leigja út bílinn sem stæði ef til vill ónotaður annars, meðan fólk vinnur langan vinnudag til að mynda. Kostirnir fyrir notendur þjónustunnar eru helst þeir að geta leigt bíl í skamman tíma, jafnvel eina klukkustund, fyrir hagstætt verð.

Annars konar fyrirkomulag er einnig í boði víða eins og til dæmis nokkurs konar bílakaupfélög þar sem notendur kaupa hlutabréf í félagi sem á og rekur bílaflota sem gjarnan er lagt í bílastæði inni í íbúðarhverfum hvarvetna um borgina. Í flestum tilfellum er um að ræða fólksbíla af ýmsum stærðum auk þess sem sendibílar og jafnvel minni flutningabílar eru í boði þar að auki.

Sem hluthafi í bílakaupfélagi færðu sent kort á stærð við greiðslukort sem þú notar til að bera upp við nema á bílnum sem þú hefur pantað í gegnum vefsíðu bílakaupfélagsins. Lykillinn að bílnum er geymdur í hanskahólfinu ásamt þartilgerðri bók þar sem þú skrásetur fjölda ekinna kílómetra og tímann sem þú notar bílinn. Eldsneytiskort er einnig að finna í bílnum en eldsneyti er innifalið í gjaldinu sem þú greiðir fyrir hverja notkun. Mánaðarlega færðu sendan reikning fyrir notkun mánuðinn á undan. Vísir að sambærilegri þjónustu er nú í boði á Íslandi.

 

Þitt val hefur áhrif

Hvort sem þú hefur verið í hópi þeirra sem kaupir þér bíl, greiðir hann út í hönd og ekur honum þar til vélin bræðir úr sér eða þú kýst að aka um á nýjum bíl og velur því rekstrarfyrirkomulag sem kostar meira, þá er þess virði að setjast yfir málin með vasareikninn sér við hlið. Auk þess er vert að taka umhverfisþáttinn til greina þar sem við sem einstaklingar berum ábyrgð á þeirri mengun sem hlýst af lífstíl okkar.

Ef til vill er þess virði að skoða nýja möguleika. Hvers vegna ekki að hjóla í vinnuna yfir sumartímann og skoða þá valkosti sem sprottið hafa með nýstárlegri hugsun deilihagkerfisins? Það gæti komið þér skemmtilega á óvart svo ekki sé talað um áhrifin á peningabudduna.

  

* Ekki er um tæmandi úttekt að ræða og vera má að pistlahöfundi hafi yfirsést lánamöguleikar sem eru í boði og ekki eru tilgreindir í texta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband