Leita í fréttum mbl.is

Hvaða sparnaðartýpa ert þú? (gjöf fylgir)

Mikið er rætt um sparnað nú á tímum kórónaveirufaraldursins. Ýmsir hafa þurft að draga saman seglin og aðrir upplifa að á óvissutímum sé skynsamlegt að spara. En staðreyndin er sú að fólk á misauðvelt, eða kannski réttara sagt, miserfitt með að spara.

Undirrituð hefur unnið útfrá viðhorfum fólks til peninga og peningahegðun um árabil. Útfrá hugmyndafræðinni um mismunandi peningapersónugerðir, er aðeins ein af átta sem á alltaf varasjóð og það er Safnarinn. Þessarri peningapersónugerð líður jafnan illa ef það gengur á sjóðinn. En það getur verið áskorun fyrir Safnarann að fjárfesta því efasemdir láta gjarnan á sér kræla þegar fjárfestingar eru annars vegar. Því getur verið ráð fyrir Safnarann að skapa jafnvægi milli þess að safna og þess að fjárfesta á öruggan hátt.  

 

Þekkir þú þig í einhverri af eftirfarandi týpum? 

Rómantíkerinn er mikill fagurkeri og leggur mikinn metnað í að eiga fallegt heimili og vera fallega klædd. Þessi peningapersónugerð fjárfestir gjarnan í fallegri hönnun og jafnvel listaverkum eða einhverju sem gleður augað. Í sparnaðarskyni getur það reynst þessarri týpu vel að skrifa niður peninganotkun sína daglega og tileinka sér að hafa að minnsta kosti einn peningalausan dag í hverri viku. Þannig getur hún tileinkað sér betri meðvitund um peninganotkun sína. Einnig er gott að temja sér að hugsa sig vandlega um áður en kaup eru gerð. 

 

Sparnaður þarf að hafa tilgang

Dægurstjarnan á auðvelt með að eyða peningum í að viðhalda ímynd sinni og notar peninga til að kaupa vandaðan og dýran fatnað eða til að upplifa eitthvað stórkostlegt eins og að ferðast til staða sem fáir hafa heimsótt.

Óaðfinnanleg ímyndin er þó ekki alltaf í takt við innistæðuna á bankareikningi Dægurstjörnunnar. Með öðrum orðum, hún lítur oft út fyrir að eiga meiri peninga en hún á. Þessi persónugerð er meistari í samningatækni og fær gjarnan það sem hún kaupir á afslætti. Hún á einnig nokkuð auðvelt með að búa til aukapening og leggja fyrir ef tilgangurinn er skýr. Til dæmis ef hún ætlar að verja peningunum í stórfenglegt frí með vinum eða fjölskyldu eða annað sem samræmist gildum hennar. Í sparnaðarskyni virkar vel fyrir Dægurstjörnuna að vera með fjárhagsáætlun og ákveða upphæð sem hún má nota í upplifanir og ímyndarsköpun. Það virkar vel fyrir Dægurstjörnuna að leggja fyrir inn á mismunandi sjóði. Einnig getur það hjálpað henni að skapa jafnvægi að fjárfesta í öruggum fjárfestingum.

 

Góðar fyrirmyndir skipta máli

Sú fjórða, Tengiliðurinn, er lítið tengd peningum og á því hvorki auðvelt með að spara né leggja fyrir. Þessi peningapersónugerð trúir því gjarnan að allt muni fara vel og að séð verði um hana. Lykillinn að fjárhagslegri velgengni Tengiliðsins er að byggja upp og viðhalda tengslanetinu sínu því tenging hennar við fólk er lykillinn að tengingu hennar við peninga. Það er því mikið tækifæri í því fólgið fyrir þessa persónugerð að tileinka sér aðferðir sem vinir eða fjölskyldumeðlimir hafa notað til að spara og ná góðum árangri í fjármálum.

 

Góðar hugmyndir geta verið undirstaðan í varasjóði

Samband fimmtu persónugerðarinnar við peninga einkennist af blöndu á ást og hatri. Alkemistinn hugsar gjarnan meira um félagslegt réttlæti en fjármál og henni finnst auðnum misskipt í heiminum. Þessi týpa er jafnan mjög hugmyndarík og er oft lýst þannig að hún framleiði hugmyndir. Það er mikið tækifæri fólgið í því fyrir þessa týpu að nýta eitt af þessum tækifærum sem hún sér sem aðrir sjá ekki til þess að leggja grunn að fjárhagslegri framtíð sinni. Skapa eitthvað sem gefur vel í aðra hönd og búa sér til varasjóð. Þannig getur Alkemistinn látið gott af sér leiða í heiminum því peningar geta svo sannarlega verið til góðs.  

 

Skýrir mælikvarðar og sjálfvirkur sparnaður

Stjórnandinn er sjötta peningapersónugerðin en hún er metnaðargjörn og vill alltaf meira. Hún skapar gjarnan stórveldi en glímir við að finnast ekkert vera nóg. Þetta endurspeglast í sambandi hennar við peninga. Þessarri persónugerð finnst ekki auðvelt að spara enda finnst henni aldrei nóg af peningum, hvorki til afnota né til að leggja fyrir.  Það er hjálplegt fyrir þessa peningapersónugerð að setja sér skýra mælikvarða og setja upp sjálfvirkan sparnað.

 

Læstir reikningar virka vel  

Nærandinn elskar að næra aðra en á erfitt með að setja mörk þegar kemur að peningum. Það er gagnlegt fyrir þessa peningapersónugerð að byrja á því að leggja fyrir áður en reikningarnir eru greiddir. Þetta er góð æfing í að heiðra sjálfan sig og eigin sparnaðarmarkmið. Það getur einnig hentað Nærandanum mjög vel að taka peninga úr umferð með því að leggja þá inn á læsta reikninga.

 

Varasjóður getur vegið upp á móti áhættusækninni  

Frumkvöðullinn á auðvelt með samninga og höndlar flókin fjárhaldsmál með glæsibrag. Þessi peningapersónugerð hefur einnig auga fyrir fjárhagslegum smáatriðum og tölum. Áskorunin felst hins vegar í áhættusækninni, sem getur reyndar verið mjög útreiknuð þó hættan á tapi sé alltaf til staðar. Það er áskorun fyrir þessa peningapersónugerð að búa sér til fjárhagslegt öryggi en ávinningurinn af því getur verið mjög mikill. Gott sparnaðarráð fyrir Frumkvöðulinn er að fjárfesta í öruggum sjóðum og eiga ávallt varasjóð til að vega upp á móti áhættusækninni. Þetta á líka við í viðskipta- og rekstrarsamhengi.

 

Aðventugjöf fyrir lesendur Smartlands

Óháð því hvaða týpu þú samsamar þig við (þær geta verið fleiri en ein) þá er ljóst að allir geta sparað. Þó er ljóst af ofangreindu að leiðirnar að sama markmiði eru ólíkar. Undirrituð hefur útbúið Peningahjól sem er sérstök aðventugjöf fyrir lesendur Smartlands. Peningahjólið er að finna hér. Með notkun þess öðlastu yfirlit yfir í hvað peningarnir þínir fara. Það er fyrsta skrefið.

 

 

*Það skal tekið fram að umfjöllunin er ekki ætluð sem fjármálaráðgjöf, heldur byggir á niðurstöðum fjölda sjálfskannana og áralangri vinnu með fjölmörgum einstaklingum.

 


Temdu þér nýja nálgun í kóvinu

Ein þeirra bóka sem höfðu hvað mest áhrif á mig á unglingsárunum var Ástin á tímum kólerunnar, eftir kólumbíska nóbelshöfundinn Gabriel Garcia Marquez. Mér er sérstaklega minnistætt að hafa reynt að setja mig í spor sögupersónanna en hugsað með mér að það væri óraunsætt þar sem faraldur af þessu tagi myndi aldrei geysa að nýju. Eins og alkunna er, hafði ég rangt fyrir mér.

 

Tídægra

Önnur sögufræg bók hafði hliðstæð áhrif á mig en það er bókin Tídægra, eða Decamerone eins og hún heitir á frummálinu ítölsku, eftir Giovanni Boccaccio. Sú kom út um miðbik fjórtándu aldar og er merkileg fyrir margra hluta sakir.

Bókin hefur að geyma tvær víddir ef svo má segja. Annars vegar er rammi hennar sá að hópur ungmenna frá Flórens lokar sig af á sveitasetri í Toskanahéraði til að flýja pláguna miklu sem geysar allt um kring. Eins og flestir þekkja nú af eigin raun á tímum kórónaveirunnar, finna ungmennin, sem eru tíu talsins, sér ýmislegt til dægrastyttingar.

Hvert þeirra segir eina sögu á dag uns sögurnar verða hundrað talsins og tvær vikur eru liðnar (þau taka sér frí um helgar). Frásagnir þeirra fléttast inn í sögusviðið og sögurnar eru margskonar endurómun ólíkra menningarheima.

 

Algleymi í stað raunveruleikatengingar

Ástæðan fyrir því að ég nefni fyrrgreindar bækur er sú að mörg okkar þekkja það að vilja gjarnan hverfa á vit bókmenntanna, hámáhorfs eða samfélagsmiðlanotkunar hverskonar. Þessi tilhneiging hefur fengið byr undir báða vængi nú á tímum kóvsins og það er freistandi að upplifa algleymi frásagnarlistarinnar í stað þess að horfast í augu við óvissu samtímans.

Fyrir utan þær áskoranir sem hljótast af því að takast á við veikindi af völdum veirunnar eða því að reyna að koma í veg fyrir að smit, glímir fólk nú við ýmislegt sem það hefur ekki upplifað áður og bjóst aldrei við að þurfa að upplifa.

En hvað getum við lært á þessu öllu saman? Fyrir utan að verða meistari í sóttvörnum og víðlesinn í veirufræðum eins og mörg okkar eru nú þegar orðin, geta falist ýmis tækifæri í þeim breytingum sem við nú upplifum.

 

Temdu þér nýja nálgun í kóvinu

Undirrituð er í hópi þeirra sem hefur unnið heima eða á farandskrifstofu af einhverju tagi um árabil. Eins og gefur að skilja hefur þetta fyrirkomulag haft bæði kosti og galla í för með sér.

Meðal þess sem ég hef lært er að stjórna tíma mínum, skipuleggja mig og einbeita mér að þeim verkefnum sem liggja fyrir hverju sinni. Auk þess er ég orðin nokkuð slungin í að bera kennsl á tilhneigingu mína til að fara að gera eitthvað allt annað en að vinna þegar verkefnin verða flókin eða mér fer að leiðast.

Margir kannast við frestunaráráttu og innra viðnám af ýmsu tagi. Athuganir hafa leitt í ljós að heilinn leitar ýmissa leiða til að koma í veg fyrir að við náum árangri. En þegar við leyfum okkur að bera kennsl á viðnámið í stað þess að bregðast við því með því að fara að gera eitthvað annað, getum við sannarlega náð árangri.

Góð leið er að ljúka hverjum vinnudegi á því að skrifa niður skýr markmið fyrir daginn á eftir. Prófaðu svo að deila deginum upp í minni einingar og taktu þér frímínútur inn á milli. Ég mæli með að prófa hina svokölluðu pomodoro aðferð, að minnsta kosti hluta úr degi. Aðferðin gengur út á að vinna í 25 mínútur og taka sér svo fimm mínútna hlé á milli. Í hléinu er tilvalið að dansa við uppáhaldstónlistina þína eða fá þér bolla af góðu kaffi eða tei. Með þessarri aðferð geturðu komið ótrúlega miklu í verk á stuttum tíma auk þess sem vinnudagurinn verður skemmtilegri.  


Sjö ráð til að temja sér jákvæðni á tímum kórónaveirunnar

Yfirskrift pistilsins kann að orka tvímælis en eins og Eleanor H. Porter benti á í bókinni um Pollýönnu, getum við alltaf fundið eitthvað til að gleðjast yfir óháð aðstæðum. Tilvísunin í Pollýönnu á rétt á sér enda voru aðstæður Pollýönnu allt annað en ákjósanlegar og skilaboð bókarinnar eiga því vel við. Hér á eftir koma sjö ráð handa þeim sem vilja temja sér jákvæðni á þessum sérkennilegu tímum þar sem daglegt líf flestra er gjörbreytt.

 

  1. Farðu að hlæja

Nýlega heyrði ég viðtal við uppistandarann og leikkonuna Tiffany Haddish sem lýsti því yfir að hlátur væri nudd fyrir líffærin. Einnig hefur verið sýnt fram á að hlátur dregur úr streitu. Rannsóknir sýna jafnframt að þegar við lyftum munnvikunum, byrjar líkaminn að framleiða gleðihormón. Svo ef þér er ekki hlátur í huga geturðu byrjað á að þvinga fram bros og áður en langt um líður ferðu að öllum líkindum að hlæja.

Fyrsta ráðið er: Farðu að hlæja að minnsta kosti einu sinni á dag. Horfðu á fyndið myndskeið. Talaðu við skemmtilegan vin eða fjölskyldumeðlim. Lestu brandarabók eða hugsaðu um eitthvað sem þér þykir spaugilegt. Ef þú deilir heimili með öðrum, geturðu einnig deilt gleðinni með nærstöddum.

 

  1. Gerðu vinnudaginn skemmtilegri

Nú þegar margir vinna heima og félagsleg samskipti eru takmörkuð er ágætt að spyrja sig eftirfarandi spurninga: Hvernig getur vinnudagurinn orðið skemmtilegri? Hvað veitir okkur ánægju í dagsins önn? Hvernig getum við sett mörk þannig að við finnum þennan gullna meðalveg milli vinnu og einkalífs, svefns og vöku, virkni og hvíldar?

 

  1. Slakaðu á

Langvarandi streita getur leitt til kulnunar. Þrátt fyrir að þetta séu alls ekki nýjar fréttir er staðreyndin sú að fjöldi fólks er undir miklu álagi. Margir eru einnig háðir því að hafa „nóg að gera“, enda er það hin æðsta dyggð íslensks samfélags. (Ég byggi þessa skoðun mína á óvísindalegri þátttökukönnun sem felst í fjölda skipta sem ég er spurð og heyri aðra vera spurðir að því hvort ekki sé „alltaf nóg að gera“.)

Ráð númer þrjú er: Reyndu að slaka á inn á milli. Gerðu slökunaræfingar, hlustaðu á slökunartónlist eða leggðu þig í smá stund.

 

  1. Veldu orð þín vel

Orðaval okkar endurspeglar oft líðan okkar. Notum við orðalag eins og: „Ég þarf að...“ „Ég verð að fara að...“ „Ég ætti nú að...“ 

Mér finnst ágætis æfing að fylgjast með eigin orðræðu og veita orðum mínum athygli.

Hvað segi ég við sjálfa mig og jafnvel upphátt um sjálfa mig? Þetta getur verið mjög lærdómsríkt ferli auk þess sem þarna liggja oft tækifæri til breytinga.

Ráð númer fjögur er: Veldu orð þín af kostgæfni og reyndu að tileinka þér jákvætt orðfæri.

 

  1. Auðsýndu þakklæti

Á tímum sem þessum er auðvelt að gleyma því sem gott er. Nú er þó enn mikilvægara en ella að auðsýna þakklæti fyrir það góða í lífi okkar. Hvað getur þú þakkað fyrir?

Ráð númer fimm er: Skrifaðu þakklætislista og mundu eftir að þakka fólkinu í kringum þig. Þetta á við bæði um vinnufélaga, viðskiptavini, fjölskyldumeðlimi og vini.

 

  1. Sjáðu breytingar sem jákvæðar

Breytingar hafa afar slæmt orð á sér. Margir upplifa að breytingar séu erfiðar og að þær beri að forðast. En í rauninni er það svo að það eina sem er víst er að allt breytist.

Á tímum kórónaveirunnar hafa velflestir þurft að gera breytingar á daglegu lífi sínu. Ráð númer sex er því: Skoðaðu líf þitt og taktu eftir hvaða breytingar eru til hins betra. Hvaða breytingar eru tímabundnar og hverju viltu breyta til frambúðar?

 

  1. Vertu jákvæð fyrirmynd

Margir hugsa um fyrirmyndir sem ákveðinn hóp fólks, eins og til dæmis afreksíþróttafólk. Staðreyndin er þó sú að flest nefnum við fólk sem við þekkjum vel þegar við erum beðin að lýsa fyrirmyndum okkar. Þá koma okkur nánir ættingjar eða samstarfsfólk gjarnan til hugar.

Ráð númer sjö: Vertu jákvæð fyrirmynd fyrir fólkið í kringum þig. Áhrif þín eru meiri en þig grunar. Eða eins og Gandhi sagði: „Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum“.


Ertu nóg?

„Dýpsti ótti okkar er ekki fólginn í því að við séum ekki nóg. Dýpsti ótti okkar er sá að við búum yfir takmarkalausum styrk. Það er ljósið innra með okkur en ekki myrkrið sem hræðir okkur mest. Við spyrjum okkur: hver er ég að halda að ég sé ljómandi, glæsileg, hæfileikarík, stórkostleg manneskja?

Reyndar, hver ertu ef ekki allt þetta? Þú ert barn Guðs. Það þjónar ekki heiminum að þú spilir minni rullu en efni standa til. Það er ekkert uppljómað við það að þú takir minna pláss til að koma í veg fyrir að aðrir verði óöruggir í návist þinni. Okkur er öllum ætlað að skína, eins og börn gera.

Við erum fædd til að vera farvegur fyrir dýrð Guðs sem býr innra með okkur. Hún býr ekki bara í sumum okkar, heldur í öllum. Þegar við látum ljós okkar skína, veitum við ómeðvitað öðrum leyfi til að gera slíkt hið sama. Þegar við verðum frjáls frá eigin ótta, mun nærvera okkar sjálfkrafa veita öðrum frelsi.“

 

Hugsanir eða raunveruleiki?

Þetta prósaljóð eftir Marianne Willamson snerti mína dýpstu hjartans strengi þegar ég las það í fyrsta skipti. Ástæða þess er sú að ég, eins og svo margir aðrir, hef á stundum upplifað að ég sé ekki nóg. Hugsanir á borð við: Ég get ekki gert þetta því ég er ekki nógu klár/gömul/ung/menntuð/hæf osfrv. hafa haldið aftur af mér.

Fyrir þónokkru gerði ég þó merkilega uppgötvun og hún er sú að velflestir ef ekki allir, kljást við sambærilegar hugsanir, að minnsta kosti endrum og sinnum. Mörg okkar kljást við takmarkandi hugsanir en margir ná tökum á þeim og láta þær ekki stoppa sig. En hvað er til ráða í baráttunni gegn takmarkandi hugsunum?

 

Valdeflandi sjálfshugmyndir í stað takmarkandi hugmynda

Fyrsta skrefið stígum við þegar við áttum okkur á því að umræddar takmarkandi hugsanir eiga rætur að rekja í undirliggjandi hugmyndum eins og til dæmis „Ég er ekki nóg“.

Ég hef tileinkað mér aðferð til að losna við takmarkandi hugsanir og hugmyndir og skipta þeim út fyrir valdeflandi hugmyndir sem bera með sér valdeflandi hugsanir. Þetta er tiltölulega einföld aðferð sem hægt er að nýta bæði þegar hugmyndirnar snúa að sjálfinu og þegar um er að ræða takmarkandi peningahugmyndir sem skjóta einnig upp kollinum reglulega.  

 

Verum óhrædd

Af orðum Marianne Williamson má ráða að við sjálf erum það eina sem stendur í vegi fyrir okkur. Við þurfum að taka ákvörðun um að standa með okkur. Að trúa því að við megum taka pláss og breiða úr vængjum okkar.

Endilega hafðu samband ef þig vantar hjálp til þess að losna við undirliggjandi sjálfshugmyndir sem standa í vegi fyrir framgangi þínum. Það er léttara en þú heldur að losna við þær og tileinka þér nýjar sem geta veitt þér byr undir báða vængi.

 

 


Þorir þú?

Nýlega átti ég samtal við konu sem hefur afrekað ýmislegt um ævina. Hún tjáði mér að helsta ástæða þess að hún hefði komið miklu í verk væri sú að hún væri óhrædd og laus við kvíða. Sem sérleg áhugakona um leiðtogahæfni og ástæðurnar að baki því að fólk lætur hendur standa fram úr ermum, þótti mér þetta merkilegt.

 

Hvað stoppar fólk?

Ég hef varið talsverðum tíma í að reyna að skilja fyrirbærið kvíða. Sjálf hef ég upplifað kvíða en þó hann hafi sett strik í reikninginn í ýmsum aðstæðum og tafið mig, hefur hann ekki aftrað því að ég hafi látið markmið mín verða að veruleika. Hins vegar þekki ég fólk sem glímir við alvarlegri útgáfu af kvíða sem reynist því verulegur fjötur um fót í daglegu lífi. Slíkur kvíði er erfiðari viðureignar.

Undirliggjandi kvíði er þó ekki það eina sem stoppar fólk. Í sumum tilfellum geta undirliggjandi sjálfshugmyndir eða hugmyndir um lífið og tilveruna verið þannig vaxnar að fólk trúir því einfaldlega að aðstæður þess séu óumflýjanlegar eða óumbreytanlegar. Undirrituð hefur þó komist að raun um að engin óhamingja er svo mikil að ekki megi úr bæta.

Lífið er fullt af verkefnum og tækifærum til að læra. Við getum lært að stýra viðhorfum okkar og viðbrögðum þannig að við öðlumst smám saman færni í að takast á við verkefnin, sama hver birtingarmynd þeirra er.

 

Hugrekki, dugnaður eða jafnvel heppni?

En aftur að þeim sem hafa afrekað margt og hafa til að bera það sem oft er skilgreint sem leiðtogahæfni. Hverjar eru ástæður þess að þetta fólk sker sig úr?

Sumir þeirra sem hafa náð árangri eiga það sammerkt að hafa til að bera hugrekki og í sumum tilfellum mætti jafnvel segja fífldirfsku. Þeir segja gjarnan já við tækifærum og veigra sér ekki við að mæta áskorunum.

Þetta þarf þó ekki að þýða að þessir einstaklingar finni sig aldrei í aðstæðum sem þeir upplifa sem kvíðavænlegar. Smávegis kvíði er nefnilega eðlilegur hluti lífsins* en þessir einstaklingar velja að mæta óttanum og láta hann ekki stoppa sig.

Annar hópur leiðtoga trúir því að óbilandi dugnaður hafi komið þeim áfram. Ég átti einu sinni samtal við þekktan tónlistarmann sem sagði mér að lykill að velgengni hans væri sá að hann hefði verið duglegur einn dag í einu – í mörg ár. Þannig hefði hann náð árangri.

Enn annar hópur skilgreinir sig sem heppna. En hvað er heppni í raun og veru? Gæti hún verið merki um ákveðinn hugsunarhátt sem innifelur einnig þakklæti og auðmýkt? Fólk sem lítur jákvæðum augum á þau verkefni sem lífið færir því og er þakklátt fyrir hlutskipti sitt. Hvað sem öðru líður má með sanni segja að það er heppilegt viðhorf til lífsins.

 

Þorir þú?

Ef þú finnur þig í aðstæðum sem þér finnst þú ekki ráða við, hvort sem það er í vinnunni eða einkalífinu, prófaðu að skoða hlutina frá öðrum sjónarhóli. Fáðu lánaða dómgreind hjá einhverjum sem þú þekkir og treystir eða leitaðu til sérfræðings sem getur leiðbeint þér til að öðlast aðra sýn. Stundum er hugrekkið til að gefast upp fyrir aðstæðunum besta gjöfin.

 

 

 

*Hér er ekki átt við klínískan kvíða.


Fjármál á tímum kórónaveirunnar

Nú á tímum COVID-19, standa margir frammi fyrir afkomuótta. Sumir hafa fengið skilaboð um að tekjurnar muni lækka og eru jafnvel í hlutastarfi um óákveðinn tíma. Aðrir hafa þegar misst vinnuna eða lífsviðurværið, að minnsta kosti á meðan á ástandinu stendur. Enn aðrir lifa í óvissunni um hvað verður. Í þessum pistli bendi ég á nokkrar hagnýtar aðferðir sem koma að notum fyrir þá sem vilja taka stjórnina á fjármálunum á þessum sérkennilegu tímum.

 

Ef peningar væru manneskja

Sem sérfræðingur í fjármálahegðun, finnst mér alltaf gagnlegt að byrja á hugmyndum okkar um peninga. Taktu þér stutt hlé frá lestrinum og skrifaðu niður svörin við eftirfarandi spurningum:

Ef peningar væru manneskja – hvernig liti sú manneskja út? Þætti þér þetta skemmtileg manneskja? Eða þætti þér hún leiðinleg? Mundi þig langa til að umgangast peninga ef þeir væru manneskja?

Svörin við þessum spurningum gætu verið góð vísbending um grunninn að sambandi þínu við peninga. Það segir sig sjálft að ef persónugerð ímynd þín af peningum er manneskja sem þú gætir ekki hugsað þér að umgangast, á það sama við um peninga. Þú forðast samvistir við þá, sem birtist annað hvort í því að þú flýtir þér að eyða þeim eða þú átt eins lítið af þeim og þú mögulega getur komist af með.

Þetta kann að orka tvímælis. Sumir kunna að spyrja sig: „En hver vill ekki eiga peninga?“ Staðreyndin er þó sú að ef það er skortur á peningum í lífi þínu – er undirliggjandi ástæðu þess að finna í hugmyndum þínum um peninga og í sambandi þínu við peninga.

Lausnina er mögulega að finna í að skipta um skoðun á peningum. Þú gætir til dæmis skipt út neikvæðri ímynd þinni af peningum fyrir uppáhaldsmanneskjuna þína. Besta vin eða vinkonu eða ástvin. Prófaðu að hugsa um peninga sem manneskju sem þér þykir skemmtilegt og notalegt að umgangast. Þannig byggirðu grunninn að nýjum persónugerfingi peninga í lífi þínu.

 

Veistu hver staðan er?

En víkjum nú aftur að því ástandi sem við búum við núna. Aðstæður fólks eru mismunandi. Sumir hafa þurft að minnka við sig vinnu og launin því skert. Aðrir hafa misst vinnuna og enn aðrir búa við óvissu og afkomuótta. En óháð því hverjar aðstæður þínar eru, er staðreyndin sú að það er ekki alltaf upphæðin sem við búum til sem skiptir máli. Það er heildarmyndin.

Prófaðu nú að teikna tvo hringi aftan á blaðið sem þú notaðir til að skrifa niður svörin við spurningunum í upphafi pistilsins. Skrifaðu núverandi tekjur í annan hringinn og núverandi útgjöld í hinn hringinn. Það er samspilið milli þessa talna sem myndar samhengið utan um fjármálin þín.

Sumir gætu þurft að taka saman þessar tölur því það eru alls ekki allir sem eru með þær á takteinum. Tilgangurinn er sá að horfast í augu við hver staðan er, til að þú getir gert það sem gera þarf til að leysa málin.

 

Hvað er til ráða ef staðan er slæm akkúrat núna?

Byrjum á að beina sjónum að útgjöldunum. Sumt er algjörlega nauðsynlegt en annað má kannski missa sín um stundarsakir. Ef staðan er slæm, er gott að byrja á að forgangsraða. Skrifaðu niður svörin við þeim af eftirfarandi spurningum sem eiga við þig og þín fjármál:

 

Áttu bíl? Þarftu bíl? Þarftu bílinn sem þú átt? Gætirðu komist af með ódýrari bíl? Gætirðu lækkað rekstrarkostnað heimilisins með einhverjum hætti? Gætirðu lækkað tryggingakostnað? Ertu áskrifandi að líkamsræktarkorti sem þú ætlar alltaf að nota í næstu viku en notar afar sjaldan eða jafnvel aldrei? Með öðrum orðum, gætirðu sagt einhverju upp? Hvað með símaáskrift og net? Gætirðu fengið tilboð hjá öðrum fyrirtækjum og lækkað þannig kostnaðinn? Gætirðu lækkað hann matarkostnaðinn?

Gerðu áætlun fyrir næstu daga. Hringdu að minnsta kosti tvö símtöl á dag eða notaðu spjallrásir fyrirtækja sem bjóða slíka þjónustu. Markmiðið er að lækka kostnað eða semja til að koma í veg fyrir aukakostnað. Það er gott að hafa í huga að þú þarft aðeins að finna tímabundnar lausnir við tímabundnum vanda.

 

Hver er innkoman?

Taktu þér smá tíma til að skoða innkomuna. Gætirðu gert eitthvað til að hækka innkomuna? Eða auka stöðugleikann í fjárflæðinu?

Gætirðu ráðið þig í aukavinnu við eitthvað annað en þú gerir venjulega? Er kominn tími til að stofna fyrirtækið sem þig hefur dreymt um að stofna? Eða jafnvel til að ráða þig í fasta vinnu ef það er rólegt í þínum rekstri þessa dagana?

Hvað annað gætirðu gert til að auka tekjurnar? Áttu eitthvað sem þú notar ekki og gætir komið í verð? Vertu opin/n fyrir möguleikunum.

 

Peningalausi dagurinn

Eitt sem ég hef mælt með er að hafa einn peningalausan dag í viku? Peningalausi dagurinn er dagur þar sem þú notar enga peninga. Þú þarft að skipuleggja þig til að geta haldið peningalausa daginn. Passa þarf að það sé nóg eldsneyti á bílnum ef þú notar bíl, þú þarft að taka með þér nesti og svo framvegis. En sumir þeirra sem ég hef sagt frá peningalausa deginum, hafa einn slíkan í viku til frambúðar. Algjörlega óháð stöðunni í þjóðfélaginu eða í fjármálunum.

Æfing á borð við peningalausa daginn, er tækifæri til að bera kennsl á neyslumunstur sem gott er að setja spurningamerki við. Hversu oft kaupirðu tilbúinn mat? Kaupirðu gjarnan kaffidrykki í götumáli? Ég er ekki að mæla gegn því að kaupa tilbúinn mat eða kaffidrykki. Síður en svo. En þessi æfing snýst um að auka meðvitund um peninganotkun.

Það er okkur öllum hollt að reikna út í hvað peningarnir fara. Ég segi stundum við börnin mín að ég vil velja í hvað ég nota mína peninga. Ég get valið að neita mér um eitthvað í dag til að eiga meira til að nota í það sem mig langar virkilega að fjárfesta í.

Það er með sjálfskoðun sem við verðum meðvituð um neyslumunstrið og getum í framhaldinu tekið ákvarðanir um í hvað við viljum nota peningana. Tímabilið sem við lifum núna er tilvalið til að nota í endurskoðun af þessu tagi.

 


Er ár þakklætis framundan hjá þér?

Á þessum árstíma lít ég gjarnan yfir farinn veg og verð meyr þegar ég hugsa um allt það góða sem ég hef til að vera þakklát fyrir. Ég er þakklát fyrir lífið, góða heilsu og að hafa þak yfir höfuðið. Ég er þakklát fyrir allt yndislega fólkið í lífi mínu og fyrir að fá að vera til staðar fyrir aðra. Ég er þakklát fyrir verkefnin sem mér eru falin og fyrir að geta sinnt þeim af alúð.

 

En hvers er að minnast?

Valdimar Briem (1848-1930) orti Nú árið er liðið sem gjarnan er sungið við áramót. Í öðru erindinu varpar hann fram spurningunni: „En hvers er að minnast? Og hvað er það þá, sem helst skal í minningu geyma? Nú allt er á flúgandi ferð liðið hjá, það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá.“

Ég segi stundum að lífið sé allskonar. Sum ár eru þannig að maður vill helst gleyma þeim en önnur eru full af gleðilegum minningum. En skildi munurinn á þessu tvennu hafa eitthvað með viðhorf okkar sjálfra að gera? Ég er sannfærð um að þakklæti skiptir sköpum í lífinu. Það að auðsýna þakklæti getur breytt viðhorfi manns til hlutanna.

 

Segðu takk!

Fyrir nokkrum árum las ég bókina „What I Know For Sure“ eftir Opruh Winfrey. Þar talar hún meðal annars um mátt þakklætis og leyndardóminn sem er fólginn í því að þakka fyrirfram fyrir óorðna hluti.

Í bókinni segir Winfrey sögu af því þegar hún upplifði myrka tíma og hafði samband við vinkonu sína og lærimeistara, Mayu Angelou. Winfrey grét í símann og sagði Angelou að hún væri að niðurlotum komin. Í stað þess að auðsýna henni þá samúð sem Winfrey hafði búist við, sagði Angelou að bragði: „Segðu takk!“ Winfrey hváði, en Angelou hélt áfram: „Segðu takk! Þakkaðu fyrir að fá að upplifa þessa erfiðleika. Þú átt eftir að sjá hvaða þýðingu þeir hafa. Svo vertu þakklát.“ 

Winfrey skrifar að hún hafi með erfiðismunum stunið upp orðinu: „takk“. Svo lýsir hún því hvernig viðhorf hennar breyttist og hún sá erfiðleikana skyndilega í nýju ljósi.

 

Nokkur ráð um þakklæti

Ég hef haldið þakklætisdagbók með ýmsum hætti síðastliðinn áratug. Stundum hef ég skrifað þakklætisorð beint í dagbókina sem ég nota til að halda utan um dagskrá vikunnar. Einnig hef ég haldið sérstaka þakklætisdagbók og auk þess hef ég notað minnismiða sem ég skrifa á og hengi upp til að minna mig á það sem ég vil færa þakkir fyrir daglega.

Einn af viðskiptavinum mínum deildi með mér þeirri hugmynd að setjast niður reglulega, skrifa þakklætismiða og setja þá í krukku. Í lok ársins er svo hægt að hella miðunum úr krukkunni, lesa þá upp og rifja upp þakklæti ársins.

Þakklætið skilar sér líka í samskiptum okkar við aðra. Ég hef til dæmis tamið mér að hefja tölvupóstsamskipti á þakklætisorðum. Það lærði ég af samstarfsfólki í Bandaríkjunum, sem hefur kennt mér heilmikið um þakklæti.

 

Hjartans þakkir

Um leið og ég óska þér og þínum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, vil ég hvetja þig til að virkja þakklætið í lífi þínu. Prófaðu að skrifa niður hvað þú ert þakklát/ur fyrir. Prófaðu líka að skrifa lista yfir fólkið sem þú ert þakklát/ur fyrir og hvers vegna. Næst þegar þú talar við fólkið á listanum þínum, geturðu notað tækifærið og þakkað þeim fyrir það sem þú ert þakklát/ur fyrir.

Þess ber að geta að þessi aðferð nýtist einkar vel í erfiðum samskiptum. Þegar við byrjum erfitt samtal á þakklæti, snýst samtalið gjarnan í jákvæða átt.

Það er gefandi að vera þakklát/ur og algjörlega þess virði að láta á það reyna á nýju ári. Gleðilegt þakklætisár!


Settu þér fjármálamarkmið fyrir nýtt ár (leiðbeiningar fylgja)

Þeir sem setja sér markmið reglulega nýta gjarnan tímann í lok ársins til að gera upp árið og leggja drög að því sem koma skal á nýju ári. Sumt er þannig að við getum ekki stjórnað því en annað er þess eðlis að það verður ekki af því nema það sé ráðgert.

 

Fjármálamarkmið

Fjármálamarkmið eru einfaldlega markmið sem þú setur þér og tengjast fjármálunum með einhverjum hætti. Ef þú hefur ekki tamið þér að setja markmiðin þín í fjárhagslegt samhengi er tilvalið að nota tækifærið nú í aðdraganda nýs árs. Það fylgja leiðbeiningar hér að neðan sem ég hvet þig til að nýta þér.

 

Hvað hugsar þú um áður en þú sofnar og/eða um leið og þú vaknar?

Byrjum á að tala aðeins um muninn á draumum og markmiðum. Markmið verða til úr draumum. Við fáum hugmynd og byrjum að láta okkur dreyma um að eitthvað geti orðið að veruleika í lífi okkar.

Það er stundum sagt að ef við eigum draum sem heldur fyrir okkur vöku á kvöldin og við leiðum hugann að í svefnrofunum á morgnana, sé sá draumur þess virði að setja hann í forgang.

Draumar sem þessir geta verið af ýmsu tagi. Suma dreymir um að eignast húsnæði eða stækka við sig. Aðra dreymir um að byggja hús frá grunni. Aðrir vildu gjarnan skipta um starf og jafnvel stofna sitt eigið fyrirtæki. Aðra dreymir um að láta gott af sér leiða og jafnvel geta stutt við aðra fjárhagslega. Enn aðra dreymir um að verða skuldlausir og geta látið af störfum.

 

Að fjármagna drauminn

Hvort sem þíns draums er getið hér að ofan eður ei, eiga flestir draumar það sameiginlegt að þeir hafa eitthvað með peninga að gera. Með öðrum orðum, við þurfum fjármagn til að þeir geti orðið að veruleika.

En til þess að svo megi verða, þurfum við að ganga skrefinu lengra. Við þurfum að búa til áætlun um hvernig við ætlum að láta drauminn verða að veruleika.

 

Hvað er markmiðasetning?

Napoleon Hill orðaði það þannig að markmið væru draumar með dagsetningu.  Markmiðasetning er markviss aðferð til að taka stjórnina á því sem við getum stjórnað í lífi okkar. En hún er ekki síður leið til að læra að sleppa tökunum á því sem skiptir ekki máli eða við getum ekki breytt.

Markmiðasetning er forgangsröðun og hún er skuldbinding. Þú spyrð þig: Hvað skiptir mig svo miklu máli að ég er tilbúin/n að forgangsraða til þess að það geti orðið að veruleika? Svo býrðu til áætlun um hvernig þú ætlar að hrinda því í framkvæmd.

 

Fjármálatengd markmiðasetning

Þegar þú hefur skilgreint markmiðið, er gott að átta sig á verðmiðanum. Tökum dæmi um konu sem er í föstu starfi en hefur sett sér það markmið að stofna fyrirtæki. Áður en hún stígur skrefið og segir starfi sínu lausu, setur hún sér markmið að leggja fyrir svo hún eigi fyrir lifikostnaði í sex mánuði á meðan hún setur fyrirtækið á laggirnar.

Fyrst reiknar hún út hversu mikið hún þarf að leggja fyrir. Þvínæst brýtur hún markmiðið niður þannig að hún geti lagt ákveðna upphæð fyrir á mánuði og þannig náð settu marki á tilteknum tíma.

Hún fer auk þess yfir fjármálin sín og ákveður að lækka lifikostnað til frambúðar með því að endursemja og jafnvel skipta um þjónustuaðila. Konan ákveður í framhaldi af því einnig að einfalda lífstíl sinn, minnka við sig húsnæði og selur auk þess hluta af búslóðinni sinni.

Sömu aðferð má nota til að setja sér önnur fjármálamarkmið eins og til dæmis að lækka yfirdráttinn, safna fyrir útborgun, hætta að lifa á kreditkortinu, greiða niður skuldir eða byrja að leggja fyrir.

 

Leiðbeiningar við gerð fjármálamarkmiða

Það er sorgleg staðreynd að aðeins lítill hópur skrifar niður markmiðin sín eða um 5% fólks.

Rannsóknir hafa sýnt að það eru 95% líkur á að markmið sem eru skrifuð niður verði að veruleika. Með því að skrifa niður, byggirðu brú frá þeim stað sem þú ert á núna og inn í framtíðina.

Ég skora á þig að spreyta þig í gerð fjármálamarkmiða og byrja að leggja fyrir til að fjármagna drauminn þinn á nýju ári. Ef þú gerir þér ekki grein fyrir hvað það mun kosta þig að fjármagna drauminn, er um að gera að hefja rannsóknarvinnu.

Flestir bankar bjóða viðskiptavinum að stofna nýja sparnaðarreikninga í netbanka. Þar er einnig hægt að nefna reikningana sérstöku nafni, eins og til dæmis „Sumarbústaður“ ; „Ferðasjóður“; eða „Fyrirtækið mitt“. Allt eftir atvikum.

Athugaðu að þú gætir þurft að lækka kostnaðinn á öðrum sviðum til að mynda svigrúm til að geta lagt fyrir. Einnig er gott að hafa í huga að markmið þurfa að vera skilgreind, mælanleg, alvöru (það þarf að vera mögulegt að ná þeim), raunhæf og með tímaramma.

 

Nýtt ár – ný hugsun

Einn af helstu kostum þess að setja sér fjárhagsleg markmið fyrir nýtt ár, er að fjárhagsleg meðvitund eykst til mikilla muna. Markmiðasetningin gerir það að verkum að við förum ósjálfrátt að hugsa meira um fjármálin frá degi til dags. Það er því til mikils að vinna.

 

Ég óska þér gleðilegrar hátíðar og hagsældar á komandi ári um leið og ég þakka samveruna hér á Smartlandi á árinu sem er að líða.  

 

Gangi þér vel!


Sýnir þú þakklæti?

Eins og margir vita vinn ég sem leiðtogamarkþjálfi og hjálpa fólki að laga samband þess við peninga. Það er mjög þakklátt starf og hefur djúpstæð áhrif á líf þeirra sem hafa til þess hugrekki að horfast í augu við áskoranir sínar.

Það sem færri vita er að síðastliðin ár hef ég einnig verið þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna árlegt verkefni fyrir bandarískan háskóla. Gæfan hefur að mestu falist í þeim djúpu tengslum sem ég hef myndað við samstarfsfólk mitt og nemendur.

Eitt af því sem mér hefur lærst af þessu verkefni er að ástunda þakklæti. Tölvupóstar frá samstarfsfólki hefjast gjarnan á þakklæti. Stundum er það einfaldlega þakklæti fyrir tölvupóstinn sem verið er að svara. Þetta finnst mér góð venja enda lesast tölvupóstar sem hefjast á þakklæti gjarnan með opnum huga.

Síðastliðið vor áttaði ég mig á því að í kjölfar nokkurra daga samveru með samstarfsfólki mínu og nemendum, þakkaði ég miklu oftar fyrir mig. Litlu hlutirnir öðluðust meira vægi og samhengið breyttist. Þessar góðu fyrirmyndir mínar flétta nefnilega gjarnan þakklætisorðum inn í setningar þegar þau biðja um eitthvað, eins og til dæmis þegar pantað er á veitinga- og kaffihúsum. Þetta er einnig falleg venja sem gott er að tileinka sér.

 

Leyndardómar þakklætis

Ýmsir hafa skrifað um þakklæti og leyndardómana sem felast í því að vera þakklátur. Í Biblíunni stendur skrifað: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gerið í öllum hlutum óskir yðar kunnar með bæn, beiðni og þakkargjörð.“

Það er reynsla sumra þeirra sem hafa ástundað þakklæti að það leysi gjarnan úr læðingi atburðarás sem þá hefði jafnvel ekki órað fyrir. Sem dæmi má nefna það að auðsýna þakklæti þegar erfiðleikar steðja að. Þetta kann að hljóma einkennilega í eyrum sumra, en í þessu felst ákveðinn leyndardómur. Það er nefnilega þannig að þegar við berum kennsl á það góða, hafa hlutirnir tilhneigingu til að leysast á farsælan hátt.

Í bók sinni Það sem ég veit með vissu(e. What I know for sure), segir Oprah Winfrey frá því þegar hún stóð frammi fyrir erfiðum aðstæðum og mentor hennar Maya Angelou sagði henni að þakka fyrir það tækifæri sem lífið hefði fært henni til að takast á við erfiðleika og læra af þeim. Winfrey var forviða og sagði þakklæti vera það síðasta sem henni kæmi til hugar. En Angelou endurtók einfaldlega: „Segðu takk, segðu takk...“, þar til Winfrey gafst upp og sagði: „takk“. Í bókinni segir hún frá því að þetta andartak hafi breytt öllu því viðhorf hennar tók stakkaskiptum og henni auðnaðist að sleppa tökunum.

 

Þakklæti fyrirfram

Að þakka fyrir óorðna hluti, jafnvel samhliða því að biðja um þá, er mögnuð æfing. Margir hafa skrifað um þessa aðferð sem felst í því að segja hluti eins og til dæmis: „Ég er svo þakklát/ur og glöð/glaður nú þegar (hér má fylla inn í það sem þú vilt kalla fram í lífi þínu) hefur gerst.“ Þessi aðferð nýtist sérstaklega vel í markmiðasetningu og því er gott að tileinka sér hana á þessum tíma árs, nú þegar margir taka sér tíma til að setja sér markmið fyrir nýtt ár.

 

Þakklæti sem lífsstíll

Margir þeirra sem hafa tileinkað sér að vera þakklátir, eru sammála um að þakklætið hefur djúpstæð áhrif á viðhorfið til lífsins. Þakklátir eru líklegri til þess að leysa vandamálin á farsælan hátt og sjá gjarnan jákvæðar hliðar á málum.

Þakklátir skrifa gjarnan hjá sér fimm atriði daglega sem þeir geta verið þakklátir fyrir í þartilgerða þakklætisdagbók. Þá ratar ýmislegt á listann, bæði stórt og smátt. Þakklæti fyrir heilsu og daglegt brauð er gott dæmi. Undirrituð er auk þess afar þakklát fyrir hitaveituvatn og Danfoss ofnakerfi í íslenskum húsum. Þetta þótti henni sjálfsagt mál framan af ævinni en eftir margra ára dvöl í útlöndum, er henni þakklæti ofarlega í huga fyrir framantalið.

Ef þér lesandi góður hugnast að tileinka þér þakklæti er gott ráð að prófa sig áfram með þakklætisdagbókina. Hún getur verið skemmtileg lesning í lok árs þegar litið er yfir farinn veg. Ástundun þakklætis er því tilvalin lífsstílsbreyting á nýju ári.


Ertu skapandi og með fjármálaáskoranir?

„Það dregur ákaflega úr sköpunarkraftinum að hafa fjárhagsáhyggjur“, sagði ung myndlistarkona þegar ég spurði hana hvernig henni gengi að sjá sér farborða.  

Þónokkrir listamenn hafa tjáð mér að það sé nær ómögulegt að lifa á listinni á Íslandi. Sumir vinna við kennslu til að drýja tekjurnar og aðrir vinna önnur störf til að geta haldið áfram að sinna listinni.

 

Gildi skapandi greina

Árið 2012 kom út skýrsla á vegum stjórnvalda sem ber yfirskriftina: Skapandi greinar – sýn til framtíðar. Þar er meðal annars vísað til hagrænnar rannsóknar sem gerð var á framlegðaráhrifum skapandi greina. Þar kemur einnig skýrt fram að þó efnahagslegt vægi skapandi greina sé sannarlega mikilvægt, hafi þær þó fyrst og fremst listrænt og samfélagslegt gildi.

 

„Skapandi greinar snerta mörg svið atvinnulífs og samfélags. Má nefna að þær hafa í auknum mæli áhrif á aðrar atvinnugreinar t.d. ferðaþjónustu. Þar sem listrænar- og menningarlegar upplifanir skipta æ meira máli sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn.“ (Skapandi greinar – sýn til framtíðar, bls. 47)

 

Hróður íslenskrar listar og menningararfs hefur borist víða undanfarin ár, enda hefur fjöldi ferðamanna aukist til mikilla muna og hluta þeirrar aukningar má rekja til fjölskrúðugs listalífs á Íslandi.

Undirstaða skapandi greina er skapandi fólk. Skapandi hugsun nýtist í ýmsum greinum og mikilvægi hennar kemur til með að aukast á komandi árum eftir því sem fjórðu iðnbyltingunni fleytir fram. Öll getum við því verið sammála um mikilvægi þess að tryggja skapandi fólki grundvöll til að vaxa og dafna á íslenskri grundu.

Þó aðgengi að fjármagni hafi aukist og styrkjamöguleikar fjölmargir, krefst það bæði skipulags og lagni að sækja um styrki og mörgum finnst það flókið.

 

Hvernig er hægt að styrkja innviðina?

Mörg sitjum við uppi með peningahugmyndir sem standa í vegi fyrir framgangi okkar. Með því að bera kennsl á þær getum við breytt afstöðu okkar til peninga.

Mýtan um fátæka listamanninn er alls ekki sönn þó hún sé svo sannarlega lífseig.

Þess vegna býður undirrituð fólki úr skapandi greinum að skrá sig á vinnustofu sem haldin er í húsakynnum Sambands íslenskra myndlistarmanna, fimmtudaginn 29. nóvember.

Þessi vinnustofa er fyrir þig ef þú vilt læra hvernig þú getur beitt innsæinu til að ná árangri á fjármálasviðinu. Þú hefur áhuga á tileinka þér nýstárlegan hugsunarhátt tengt peningum, því þú hefur fengið nóg af innri togstreitu og ert tilbúin/n að breyta sambandi þínu við peninga.

Við förum einnig yfir styrkjamálin og lærum aðferðir sem hægt er að nýta sér til að sækja um styrki – og fá þá.  

 

Sjá nánar

 

 

 

„Listsköpun er rót skapandi greina. Það er forvitni og færni danshöfundarins, hugarflug og hæfni tónskáldsins, innsæi og ímyndunarafl hönnuðarins og myndlistarmannsins, næmni og miðlun tölvuleikjasmiðsins, skilningur og snerpa skáldsins sem knýr skapandi greinar áfram. Útkoman getur orðið verk sem hefur gildi vegna óáþreifanlegra þátta, hughrifa, upplifunar og sammannlegrar gleði en einnig fylgir henni efnahagslegt gildi og hagsæld. Virðiskeðja skapandi greina, hvort sem um er að ræða óáþreifanleg eða áþreifanleg verðmæti, verður aðeins öflug, ef allir hlekkir keðjunnar eru sterkir.“ (Skapandi greinar – sýn til framtíðar, bls. 8)

 

Skýrslan: Skapandi greinar - sýn til framtíðar  

 

 


Næsta síða »

Höfundur

Edda Jónsdóttir
Edda Jónsdóttir

Edda er leiðtogamarkþjálfi CPC sem sérhæfir sig í valdeflingu einstaklinga og teyma. Pistlar Eddu fjalla um fjárhagslega hæfni, leiðtogafærni og hugarfarsbreytingar.

Edda á og rekur EddaCoaching - www.eddacoaching.com. 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband